HM í bekkpressu

Heimsmeistaramótið í bekkpressu í opnum og aldurstengdum flokkum hefst á morgun í Sundsvall, heimabæ Fredrik Svensson og fleiri frægra bekkpressara, en áhuginn á þessari íþrótt er mikill í bænum og búast má við flottu og vel sóttu móti.
HEIMASÍÐA MÓTSINS 

Tveir íslenski keppendur eru í unglingaflokki. Fanney Hauksdóttir í -63 kg flokki kvenna og Viktor Ben Gestsson í +120 kg flokk karla.

Fanney, sem er á síðasta ári í unglingaflokki, hefur titil að verja, en í fyrra varð hún heimsmeistari unglinga í greininni og átti tilraun við nýtt heimsmet. Hver veit hvað hún gerir í ár, með heilt viðbótarár af æfingum að baki.

Þau keppa bæði á föstudaginn nk og hægt verður að fylgjast með hér:
http://goodlift.info/live.php

 

HM að hefjast

Heimsmeistaramótin í kraftlyftingum í opnum flokki karla og kvenna hefjast í Aurora í Bandaríkjunum á morgun, 3.nóvember. Þrir íslenskir keppendur taka þátt.
María Guðsteinsdóttir keppir í -72 kg flokki á fimmtudag, Auðunn Jónsson og Sigfús Fossdal keppa á laugardag. Auðunn  í -120 kg flokki og Sigfús í +120 kg flokki .
Klaus Jensen verður fulltrúi Íslands meðal dómara.

Í dag fer fram ársþing IPF. Grétar Hrafnsson situr þingið, en Sigurjón Pétursson, formaður KRAFT, er þingforseti og stýrir starfinu.
Öll mál sem verða lögð fyrir þingið má kynna sér hér:
http://powerlifting-ipf.com/fileadmin/data/Congress/AGENDA_GA_2014.pdf

Arnhildur hefur lokið keppni

Arnhildur Anna Árnadóttir átti ekki góðan dag á HM unglinga í dag þar sem hún keppti í -72 kg flokki. Hún náði ekki að klára mótið, fékk 3 gildar lyftur af 9 og féll úr í bekkpressu.
Arnhildur opnaði á 190 kg í hnébeygju og átti tvær góðar tilraunir við bætingu í 197,5 kg en það reyndist of þungt.
Í bekkpressu gekk ekkert upp, hún átti þrjár misheppnaðar tilraunir við 105 kg og féll með því úr keppni.
Hún hélt áfram og tók 165 – 172,5 í réttstöðu og sá smugu til að komast í verðlaunasæti í greininni með 187,5 kg. Hún reyndi við þyngdina, en það hafðist ekki.

Svíar gjörsigruðu flokkinn. Heimsmeistari varð Marie Tunroth með 552,5 kg á undan löndu sinni Elina Rønnquist.

Næstur á keppnispall fyrir Ísland er Einar Örn Guðnason. Hann keppir á morgun, föstudag, í -93 kg flokki unglinga og hefst keppnin 14.30 að staðartíma.

 

Camilla hefur lokið keppni

Camilla Thomsen keppti í dag á HM unglinga í Ungverjalandi.
Henni tókst ekki ætlunarverk sitt, að bæta heildarárangur sinn og var það helst bekkurinn sem eyðilagði fyrir henni.
Hún byrjaði á nýju Íslandsmeti unglinga í beygju og kláraði 150 kg i fyrstu tilraun. Tvær tilraunir við 157,5 voru of grunnar.
Á bekknum setti hún öryggið í fyrirrúmi og lyfti fyrst 55 kg, en þegar hún fór í slopp
og reyndi við 80 kg mistókst henni í báðum tilraunum.
Í réttstöðu lyfti hún 145 kg í fyrstu tilraun en mistókst tvisvar með tilraun til bætingu 157,5 kg. Camilla endaði því í 10.sæti með 350 kg og 3 gildar lyftur.
Miðað við markmið verður það að teljast ákveðin vonbrigði. Sárabótin er nýtt Íslandsmet
unglinga í hnébeygju og stórt innlegg í reynslubankann.
Sigurvegari í flokknum var Olga Adamovich frá Rússlandi sem lyfti 537,5 kg

Á morgun keppir Arnhildur Anna Árnadóttir í -72 kg flokki..

Aron á pall á HM

Aron Teitsson, Grótta, keppti í dag á HM í klassiskum kraftlyftingum og átti góðan dag. Hann er orðinn reyndur keppnismaður og sýndi það í yfirveguðum og vel útfærðum lyftum. Hann kemur heim með verðlaun, þrjú ný Islandsmet og góðar bætingar í farteskinu.
Hann viktaði 91,25 kg og var með léttari mönnum í -93 kg flokknum.

Aron fékk ógilt í fyrstu tilraun í hnébeygju, en lyfti síðan 230 og 242.5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í greininni.

Á bekknum opnaði Aron á nýju islandsmeti 180 kg og tók síðan 190 kg örugglega. Hann kláraði svo 195 með stæl í síðustu tilraun og vann með því til bronsverðlauna í greininni og bætti  Islandsmetið um 20 kg á einu bretti.

Í réttstöðu lyfti Aron fyrst 270 auðveldlega, tók svo 285 jafn örugglega. Hann reyndi við 295 í þriðju, en það var of þungt í þetta sinn.

Aron endaði þar með á nýju Íslandsmeti samanlagt 722,5 kg, 30 kg persónuleg bæting, en það gaf honum 9 sætið í  flokknum.
Baráttan um gullið var hörð og vannst á líkamsþyngd, en sigurvegari var Krzysztof Wierzbicki frá Póllandi með 847,5 kg.

Við óskum Aroni til hamingju með glæsilegan árangur.

Dagfinnur setti þrjú ný Íslandsmet

Dagfinnur Ari Normann, Stjarnan, keppti í dag á HM unglinga í klassískum kraftlyftingum í Suður-Afríku. Hann keppti í -74 kg flokki.
Dagfinnur byrjaði mjög örugglega á nýju íslandsmeti unglinga í hnébeygju, 195 kg og bætti um betur með 202,5 kg í annarri tilraun. Hann reyndi svo við 207,5 kg í þriðju en það tókst ekki i þetta sinn.
Á bekknum byrjaði Dagfinnur með 135 kg sem einnig er nýtt unglingamet.Hann átti svo tvær ógildar tilraunir við 142,5 kg.
Í réttstöðu tók hann 210 –  220 – 225 kg
Þar með endaði hann í  562,5 kg sem er persónuleg bæting og bæting á íslandsmeti unglinga um 15 kg.
Það dugði í 6. sæti. Við óskum Dagfinni til hamingju með bætingarnar.

Sigurvegarinn í flokknum var kanadamaðurinn Josh Hancott með nýtt heimsmet unglinga 681,5 kg

Á morgun lyftir Elín Melgar. Keppnin hefst kl. 7.00 að íslenskum tíma.

HM í klassískum kraftlyftingum hafið

Heimsmeistaramótin í klassískum kraftlyftingum karla og kvenna í opnum og aldurstengdum flokkum eru hafin í Potchefstroom í Suður-Afríku og standa til 8.júni.

Þrír keppendur frá Íslandi taka þátt.
Aron Teitsson, Grótta, keppir á laugardag í opnum flokki karla – 93 kg. Keppnin hefst kl. 11.00 að íslenskum tíma.
Dagfinnur Ari Normann, Stjarnan, keppir á miðvikudag Í unglingaflokki karla -74 kg.
Elín Melgar, Grótta, keppir á fimmtudag í unglingaflokki kvenna -63 kg.
Keppni hjá þeim hefst kl. 7.00 að íslenskum tíma.

Bein útsending og upplýsingar: http://www.powerlifting-ipf.com/  

Við óskum þeim góðs gengis!

Auðunn lyftir á morgun

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppir í  +120 kg flokki  á HM í kraftlyftingum á morgun, laugardaginn 9. nóv, klukkan 13.30 að íslenskum tíma.
Auðunn lyfti eftirminnilega 412,2 – 275 – 362,5 = 1050 kg á HM í fyrra og vann þá gullið í réttstöðu. Hann ætlar sér bætingar á morgun. Við óskum honum alls góðs.

Keppendalisti: http://goodlift.info/onenomination.php?cid=276
Live streaming: http://wcstavanger2013.com/live-streaming-2/

María setti nýtt íslandsmet í samanlögðum árangri.

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppti í dag á HM í kraftlyftingum í Stavanger í Noregi. Hún keppti í -72,0 kg flokki og lenti þar í 10.sæti á nýju íslandsmeti 472,5 kg.

Hún byrjaði á 170 örugglega í beygju, fór svo of grunnt með 180 kg í annarri en kláraði þeirri þyngd í þriðju tilraun. Það er 2,5 kg frá hennar besta árangri. Á bekknum tók hún fyrst 107,5 kg mjög létt, fór svo upp með 112,5 í annarri en fékk ógilt. Hún tók þessa þyngd svo mjög laglega í þriðju tilraun og virtist eiga inni.

Í réttstöðu lyfti hún 172,5 og 180, en 185 reyndist of þungt. Samanlagt endaði hún í 472,5 kg sem er 7,5 kg bæting á hennar eigin íslandsmeti.

Við óskum henni til hamingju með árangurinn og enn eitt metið!

 

Góður árangur unglingalandsliðsins

hopurHM unglinga er nú lokið. Íslenska unglingalandsliðið gerði góða hluti á þessu móti undir stjórn þjálfara síns. Grétars Hrafnssonar.
Allir kláruðu mótið með góðum persónulegum bætingum. Arnhildur, Viktor og Júlían lentu öll í 6.sæti í sínum flokkum. Viktor Ben vann brons í sínum.
Uppskeran er bronsverðlaun samanlagt, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun í einstökum greinum, 1 drengjamet, 7 unglingamet og 2 Islandsmet í opnum flokki.
Þetta er mjög góð niðurstaða þó að allir ítrustu draumar hafi ekki ræst.
Við óskum Arnhildi, Viktori Ben, Viktori Samúelssyni, Júlíani, Grétari og liðsstjóranum Borghildi Erlingsdóttur til hamingju og góða ferð heim.