Stjarnan stofnar deild um kraftlyftingar

stjarnanHið rótgróna íþróttafélag í Garðabæ, UMF Stjarnan, hefur nú gengið skrefinu lengra og stofnað deild um kraftlyftingar.
Þar er um að ræða að Kraftlyftingafélag Garðabæjar, Heiðrún, fyrsta fyrirmyndarfélag KRAFT er orðið hluti af Stjörnunni og fyrrum KFGH félagar keppa undir merkjum Stjörnunnar á ÍM á laugardag.
Við óskum Stjörnunni til hamingju með nýja deild og nýja kröftuga félaga.

Bekkpressumót – úrslit

Kraftlyftingadeild Breiðabliks og Heiðrún, kraftlyftingafélag Garðabæjar héldu sameiginlegt bekkpressumót í Garðabæ í dag.

15 keppendur luku keppni, þar af 5 konur. Tveir keppendur í -93,0 flokki karla lyftu í búnaði.

Veitt voru verðlaun í öllum flokkum og stigabikar karla og kvenna. Sterkasta konan var Hafdís Huld Sigurðardóttir, Grótta, sem lyfti 55 kg í -52,0 kg flokki, rúmlega eigin líkamsþyngd “á kjötinu”.  Stigabikar karla í búnaði fékk Kristján S. Níelsson, Breiðablik, með vel útfærð 172,5 kg í -93,0 kg flokki. Stigabikar karla án búnaðar hlaut heimamaðurinn Erling Gauti Jónsson, sem lyfti 130 kg í -83,0 kg flokki.

Heildarúrslit: ÁN BÚNAÐAR –  MEÐ BÚNAÐI

Dómarar voru Auðunn Jónsson, Fannar Dagbjartsson og Alexander Ingi Olsen. Mótsstjóri var Halldór Eyþórsson. Ritarar Hulda Waage og Ingimundur Ingimundarson.

Þetta var fyrsta kraftlyftingamót sumra, bæði keppenda, starfsmanna og áhorfenda og bar mótið þess eðlilega nokkur merki, en allir kláruðu sín verkefni og áhorfendur skemmtu sér vel.

Fyrsta mót er alltaf til að læra af. Keppendur fara heim með ný verkefni, en margir þeirra eiga mörg kíló inni með bættri tækni og láta vonandi ekki hér staðar numið heldur halda áfram að bæta sig.

Mótshaldarar komu vel frá sínu og geta önnur minni félög tekið Heiðrúnarmenn til fyrirmyndar í því að sníða sér stakk eftir vexti, byrja á að setja upp lítið og einfalt mót, læra af því og bæta í næst. Blikar og Heiðrún sýna hér og sanna að tvö félög geta vel unnið saman, en það er líka áhugaverður möguleiki fyrir félög sem hafa ekki mannskap til að sjá um alla framkvæmd sjálf.

Bekkpressumót á laugardag

Laugardaginn 23.júni nk verður haldið bekkpressumót í íþróttamiðstöðinni Ásgarði í Garðabæ. Mótið hefst kl. 12.00 og er aðgangur ókeypis.

Keppt verður bæði með og án búnaðar og hér má sjá keppendalista: án búnaðarí búnaði.
Alls eru skráðir 20 keppendur frá 8 félögum, bæði byrjendur og afreksmenn. Meðal þeirra er Jóhanna Þórarinsdóttir sem keppir í -72,0 flokki kvenna. Hún keppir næst á EM í bekkpressu í ágúst og verður þetta mót mikilvægt tækifæri fyrir hana til að taka stöðuna í sínum undirbúningi fyrir það.
Tveir keppendur eru skráðir frá hinni nýstofnuðu kraftlyftingadeild UMF Snæfells í Stykkishólmi, en það er ánægjulegt að sjá að sífellt fleiri bætast í hópinn.

Mótshaldarar eru kraftlyftingadeild Breiðabliks og Heiðrún, kraftlyftingafélag Garðabæjar. Þeir hafa sameinað krafta sína, en þetta er í fyrsta sinn sem Heiðrúnarmenn bjóða til leiks í nýju aðstöðunni sinni í Garðabæ.

Við hvetjum alla áhugamenn um bekkpressu að leggja leið sína þangað á laugardaginn kl. 12.00 á stutt og skemmtilegt Jónsmessumót.

Keppendur kynni sér vel reglur um klæðnað og búnað. Vigtun er kl. 10.00.

Bekkpressumót – skráning hafin

23.júni nk verður haldið mikið bekkpressumót í Ásgarði í Garðabæ.

Mótanefnd hefur samþykkt breytingu á mótaskrá og ætla Kraftlyftingafélag Garðabæjar og Kraflyftingadeild Breiðabliks að sameina krafta sína og halda sameiginlegt mót þar sem keppendur geta valið um að keppa annars vegar með útbúnaði eða án.  Hið áður auglýsta mót Heiðrúnar 16.júni fellur niður.

Skráning er hafin og lýkur 2.júni. Keppnisgjald er 2500 krónur og verður að taka skýrt fram hvort viðkomandi ætlar að keppa með eða án útbúnaðar.
Félögin skrá keppendur sína á þessu eyðublaði: SKRÁNINGAREYÐUBLAÐ fyrir 2.júni.
ATH: Öll skráning fer fram gegnum félögin. Hlutgengir á mótinu eru þeir sem voru skráðir iðkendur í Felix í síðasta lagi 23.maí sl.

Nánari upplýsingar hjá formönnum félaganna, Halldóri (8601191) og Alexander ([email protected])

Jól í Garðabæ

Strákarnir í Kraftlyftingafélagi Garðabæjar, Heiðrúnu, eru þessa dagana að  leggja lokahöndina á  nýjan æfingasal.

Með góðum stuðningi frá bæjarfélaginu hafa þeir útbúið nýjan kraftlyftingasal í Ásgarði. Salurinn er aðalæfingaaðstaða KFGH og  verður einnig nýttur undir styrktarþjálfun afreksíþróttamanna í Garðabæ. Salurinn er vel búinn búnaði og öllu því sem þarft til að æfa kraftlyftingar af viti.

Fyrirmyndarfélagið býður sem sagt upp á fyrirmyndar aðstöðu sem gerir félaginu auðveldara að fjölga meðlimum og bæta árangur sinn.

Við óskum Heiðrúnarmönnum til hamingju með aðstöðuna.
Keppinautar þeirra fá að kynnast aðstöðunni fljótlega, en nú styttist í að félagið haldi sitt fyrsta mót og verður það væntanlega haldið í Ásgarði.

Fyrirmyndarfélag

Kraftlyftingafélag Garðabæjar, Heiðrún, hlaut í dag nafnbótina “Fyrirmyndarfélag ÍSÍ” fyrst allra kraftlyftingafélaga.
Fulltrúi ÍSÍ afhenti formanni félagsins, Alexander Inga Olsen, viðurkenninguna í tengslum við Bikarmót KRAFT á Akureyri og var myndin tekin við það tækifæri .
Við óskum Garðbæingum til hamingju með þennan áfanga og hvetjum önnur kraftlyftingafélög til að fylgja þeim fast á eftir.

Aðalfundur í Garðabæ

Kraftlyftingafélag Garðabæjar, Heiðrún, hélt aðalfund sinn sunnudaginn 18.september.
Þar fóru fram venjuleg aðalfundarstörf, skýrslur lagðar fram og reikningar samþykktir.
Nýkjörin stjórn skipa :
Formaður:  Alexander Ingi Olsen
Gjaldkeri/Varaformaður:  Jón Sævar Brynjólfsson 
Ritari: Tómas Dan Jónsson

Nýtt kraftlyftingafélag í Garðabæ

Enn fjölgar kraftlyftingafélögum í landinu, en sunnudaginn 30.janúar sl. var haldinn stofnfundur Kraftlyftingafélags Garðabæjar – Heiðrún. 12 stofnfélagar sátu fundinn og formaður og varaformaður KRAFT voru viðstaddir. Á fundinum voru lög samþykkt og stjórn kosin, en formaður hins nýja félags er Alexander Ingi Olsen.

Nú er verið að ganga frá aðild félagsins í UMSK og Kraftlyftingasamband Íslands, þar sem þetta verður 10. aðildarfélagið. Við óskum Garðbæingum til hamingju með nýja íþróttafélagið í bænum og bjóðum þeim velkomin í hópinn.