ÍM í klassískum kraftlyftingum á morgun

im13Laugardaginn 11.maí er merkilegur dagur í sögu kraftlyftinga á Íslandi, en þá verður haldið fyrsta Íslandsmeistarmótið í klassískum kraftlyftingum í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi.
Mótið hefst kl. 10.00 með keppni í kvennaflokkum og stendur fram eftir degi, en 50 keppendur eru skráðir til leiks.
Mótshaldari er kraftlyftingadeild Gróttu, en þetta er jafnframt fyrsta mót sem deildin heldur og má búast við miklu fjöri og skemmtilegri keppni – við hvetjum alla áhugamenn um kraftlyftingar að mæta og styðja sína menn.

ÍM í klassískum kraftlyftingum – skráning hafin

Skráning er hafin á Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi laugardaginn 11.maí nk í umsjón Kraftlyftingadeildar Gróttu. Skráningarfrestur er til miðnættis 20.apríl.
Skráningareyðublað: imklassisk13

Félög þurfa hafa mótareglurnar í huga við skráningu keppenda, sérstaklega 3.grein um hlutgengi keppenda og 19.grein um fjölda starfsmanna á mótum.
Reglurgerð um mótahald.

Aron Teitsson íþróttamaður Seltjarnarness

Í gær fór fram kjör íþróttamanns ársins 2012 á Seltjarnarnesi og varð Aron Teitsson, kraftlyftingamaður úr Gróttu, fyrir valinu. Við sama tækifæri hlaut kraftlyftingadeild Gróttu afreksstyrk vegna sigursins í liðakeppni KRAFT og mörgum  góðum afrekum öðrum á árinu.

Við óskum Aroni og félögum hans innilega til hamingju með þennan heiður. Þau eru vel að þessum viðurkenningum komin.

 

Seltjarnarnesmótið – úrslit

Stórt og mikið bekkpressumót lauk í íþróttamiðstöðinni á Seltjarnarnesi fyrir stundu. Konur og karlar úr 6 félögum reyndu með sér í klassiskri bekkpressu, eða bekkpressu án útbúnaðar.
Veitt voru verðlaun í öllum þyngdarflokkum, en stigaverðlaun kvenna hlaut Anna Hulda Ólafsdóttir, Breiðablik, fyrir 70 kg í -63,0 kg flokki og í karlaflokki sigraði Aron Lee Du Teitsson, Gróttu, sem lyfti 170 kg i -83,0 kg flokki.
Hér má sjá HEILDARÚRSLIT.
Dómarar á mótinu voru Geir Þórólfsson, Guðrún Bjarnadóttir og Herbert Eyjólfsson. Þulur var Sigurjón Pétursson.

Kraftlyftingafélögin tvö á Nesinu, Zetórar og Kraftlyftingadeild Gróttu, stóðu saman að skipulag mótsins og var undirbúningurinn til fyrirmyndar. Þetta var frumraun þeirra í mótahaldi og margir að gera hlutina í fyrsta skipti. Nokkrir tæknilegir hnökrar í upphafi mótsins komu ekki í veg fyrir að mótið sem heild fór vel fram og áhorfendur skemmtu ser konunglega.
Við óskum bæði keppendum og mótshöldurum til hamingju með mótið.

Borghildur valin íþróttakona Seltjarnarness

Borghildur Erlingsdóttir, kraftlyftingakona úr Gróttu, var á dögunum valin íþróttakona Seltjarnarness.
Borghildur á stuttan en góðan feril í kraftlyftingum og er ríkjandi Íslandsmeistari í -57,0 kg flokki. Hún er auk þess formaður kraftlyftingadeildar Gróttu og ein helsti hvatamaður að stofnun hennar.

Fleiri kraftlyftingamenn hafa vakið eftirtekt á nesinu, en þau Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir og Aron Lee Du Teitsson voru líka í kjöri til íþróttamann ársins.

Við óskum Borghildi til hamingju með þennan heiður og kraftlyftingadeild Gróttu til hamingju með sína glæsilegu fulltrúa í kjörinu.
Þetta verður þeim eflaust hvatning til enn frekari afreka á næstu mótum.

Myndin er tekin af heimasíðu Gróttu þar sem má lesa nánar um málið.

Ný deild stofnuð

Í gær, mánudaginn 28.nóvember, var kraftlyftingadeild Gróttu formlega stofnuð á Seltjarnarnesi.
Deildin hefur þegar fengið aðild að KRAFT.
Formaður og varaformaður KRAFT voru viðstaddir stofnfundinum og var þessi mynd tekin við það tækifæri.
Formaður deildarinnar er Borghildur Erlingsdóttir
Við óskum Seltirningum og Íþróttafélaginu Gróttu til hamingju með nýju deildina.

Grótta stofnar kraftlyftingadeild

Aðalstjórn íþróttafélagsins Gróttu á Seltjarnarnesi samþykkti á fundi sínum 8.ágúst sl að hefja undirbúning að stofnun kraftlyftingadeildar. Það starf er í fullum gangi og verður tillaga um stofnun deildarinnar lögð fyrir aðalfund félagsins til formlegrar samþykktar í vor.

Félagið hefur þegar hafið skráningu kraftlyftingaiðkenda í Felix og óskað eftir því við KRAFT að þeir fái að keppa í nafni Gróttu. Kraftlyftingasambandið hefur samþykkt þessa beiðni og geta menn því átt von á að mæta Gróttukonum og -mönnum á næstu mótum.