Aron Teitsson íþróttamaður Seltjarnarness

Í gær fór fram kjör íþróttamanns ársins 2012 á Seltjarnarnesi og varð Aron Teitsson, kraftlyftingamaður úr Gróttu, fyrir valinu. Við sama tækifæri hlaut kraftlyftingadeild Gróttu afreksstyrk vegna sigursins í liðakeppni KRAFT og mörgum  góðum afrekum öðrum á árinu.

Við óskum Aroni og félögum hans innilega til hamingju með þennan heiður. Þau eru vel að þessum viðurkenningum komin.

 

Skýrsluskil

Nú er tími aðalfunda og ársþinga. Við minnum á að öll félög eiga að skila ársskýrslum til sinna héraðssambanda fyrir 15.apríl nk.

Mikilvægt er að nota tækifæri kringum aðalfund til að fara yfir skráningum í Felix og uppfæra ef þess er þörf. Athugið líka að réttar upplýsingar séu skráðar um stjórnarmenn.

Kraftlyftingafélag stofnað á Ísafirði

Stofnað hefur verið kraftlyftingafélagið Víkingur á Ísafirði, en það er 13.aðildarfélag KRAFT.
Aðalmaðurinn bak við hið nýja félag er Sigfús Fossdal og er hann formaður þess og eini keppandi enn sem komið er.
Önnur félög í landinu  geta farið að búa sig undir harðnandi samkeppni að vestan og vestfirðingar vita nú hvert þeir geta snúið sér til að komast í hóp kraftlyftingamanna.
Við óskum Ísfirðingum til hamingju með nýja félagið og góðs gengis í uppbyggingu íþróttarinnar á staðnum.

Kraftlyftingaþing 2013

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands boðar til kraftlyftingaþings laugardaginn 19.janúar 2013.
Þingið verður haldið í fundarsal í íþróttamiðstöðinni Laugardal og hefst kl. 10.30.
Málefni sem aðildarfélög eða sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn KRA eigi síðar en 21 dögum fyrir þingið, smkv 10.gr. laga KRA. Þar má lesa allt um framkvæmd þingsins og rétt til þingsetu.
Kjörbréf munu berast sambandsaðilum í upphafi nýs árs.

KFA hlýtur viðurkenningu

Fulltrúi ÍSÍ afhenti formanni Kraftlyftingafélags Akureyrar viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á bikarmóti KRAFT um helginga.
KFA verður þar með annað aðildarfélag KRAFT sem nær því markmiði. Áður hafði Heiðrún, Kraftlyftingafélag Garðabæjar, fengið þessa viðurkenningu.
Við óskum Akureyringum til hamingju með þessa nafnbót og hvetjum önnur félög til að huga að þessu líka.

Formannafundur KRAFT

Stjórn KRAFT fundar með formönnum kraftlyftingafélaga á föstudaginn nk.
Á dagskrá eru umræður um afreksstefnu sambandsins, mótamál o.fl.
Fundurinn er líka liður í undirbúningi undir Kraftlyftingaþingið sem verður haldið í janúar 2013.

Mótaskrá 2013

Félög sem hafa áhuga á að halda kraftlyftingamót á mótaskrá 2013 skulu hafa samband við mótanefnd sem fyrst. Frestur til að senda inn óskir er til 1.september.
Hafið samband við Birgi Viðarsson, [email protected], 897 4517.

Staðan í liðakeppninni

Nú eru tvö mót eftir á keppnistímabilinu sem gefa stig í liðakeppninni, Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu í september og Bikarmótið í nóvember.
Staðan í keppninni er sú að þrjú lið hafa nokkuð afgerandi forustu; Grótta, Breiðablik og Massi, en þau eru hnífjöfn. Sjá hér: http://results.kraft.is/admin/TeamCompetition
Kraftlyftingafélag Garðabæjar kemur næst, nokkuð á undan hinum.
Það er útlit fyrir að keppnin geti orðið spennandi á lokasprettinum. Kannski ráðast úrslit ekki fyrr en í +120,0 á bikarmótinu ..

Bikarmótið í uppnámi

Bikarmótið 2012 er á mótaskrá 24.nóvember.
Kraftlyftingadeildin á Selfossi getur ekki haldið mótið eins og til stóð og þess vegna leitar nú mótanefndin að öðrum mótshaldara svo ekki komi til þess að fella þurfi mótið niður. Kraftlyftingafélög sem vilja taka verkefnið að sér, ein eða í samstarfi við aðra eru beðin að hafa samband við mótanefnd sem fyrst – í síðasta lagi 24.ágúst nk.
Birgir Viðarsson, [email protected]

Mótaskrá 2013

Tímabært er fyrir kraftlyftingafélög að fara að huga að mótahald næsta keppnistímabils.
Óskir um að fá mót skráð á mótaskrá 2013 þurfa að berast mótanefnd fyrir 1.september.

Á þessu ári urðu þau nýmæli að tvö félög tóku sig saman og héldu sameiginlegt mót og er það möguleiki sem vert gæti verið að skoða fyrir fleiri.

Ljóst er að Kraftlyftingadeild Ármanns mun ekki halda réttstöðumót í tengslum við Reykjavik International Games á næsta ári.
Þetta hafa verið skemmtileg mót sem hafa vakið athygli á íþróttina og KRAFT vill sérstaklega benda á tækifærið til að taka við af Ármenningum og halda mót á Reykjavíkurleikunum 2013.