Kraftlyftingafélag Akraness

Stöðug fjölgun kraftlyftingafélaga og -iðkenda hefur átt sér stað undanfarin misseri og stjórn hefur ákveðið að hefja kynningu á aðildarfélögum með reglulegum greinum hér á síðunni.
Við hefjum yfirferðina á spurningunni: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA AF SKAGANUM?

Á Akranesi starfar Kraftlyftingafélag Akraness sem er aðili að ÍA, Íþróttabandalagi Akraness. Félagið var eitt af stofnfélögum KRAFT en stofnfundurinn var haldinn 24.nóvember 2009 og var Hermann Hermannsson fyrsti formaður þess.
Hér má lesa um tilurð félagsins.
Núverandi formaður er Einar Örn Guðnason og með honum í stjórn eru Lára Finnbogadóttir gjaldkeri, Sigurgeir Guðmundsson ritari og Arnar Harðarson og Eva Ösp Sæmundsdóttir meðstjórnendur.

Skráður fjöldi iðkenda í september 2017 er 55 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.
Félagið hefur á að skipa fjóra dómara, þá Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur Gunnarsson, Arnar Harðarson og Arnar Helgason, en Kári og Sturlaugur hafa alþjóðadómararéttindi.

Sigursælasti og mest áberandi keppandi félagsins undanfarin misseri hefur verið formaðurinn sjálfur, Einar Örn, en hann er ríkjandi bikarmeistari KRAFT bæði með og án búnaðar og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum auk þess sem hann á flest öll íslandsmet í -105 kg flokki.
Af yngri keppendum má nefna Svavar Örn Sigurðsson, fæddur 1999, sem kom fram á sjónarsviðið með stæl á árinu og er nú á leiðinni til Noregs til að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, Norðurlandamóti drengja í klassískum kraftlyftingum.
Félagið hefur fleiri skemmtilegum og sterkum keppendum á að skipa  og afrekaði að vinna liðabikar karla á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum 2017.

Æfingaraðstaða og heimavöllur félagsins er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í kjallaranum þar ræður félagið ríkjum og hefur til umráða tvö herbergi og allan nauðsynlegan búnað. Aðstaðan er opin á opnunartíma hússins, en fastar æfingar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 16.00 til 22.00. Félagsmenn greiða árgjald 5000 kr fyrir.

Lára Finnbogadóttir sem hefur lokið Þjálfara 1 námskeiði ÍSÍ og KRAFT, sinnir nýliðunum og mætti með þrjá keppendur á byrjendamótið 2017. Það er ekki síst gleðilegt að hægt hefur verið að mynda æfingahóp ungra kvenna og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Að sögn formannsins er samstarfið við íþróttayfirvöld í bænum mjög gott og fjölmiðlar á svæðinu hafa verið duglegir að segja frá árangri félagsmanna.
Aðspurður um helstu markmið og framtíðarsýn Skagamanna svarar hann af sinni alkunnu hógværð: að verða besta og myndarlegasta félagið á landinu.
Þar hafið þið það!
Hægt er að fylgjast með framgangi mála á facebooksíðu félagsins og instagram

Kraftlyftingamenn og -konur munu fjölmenna á Skagann helgina 9 – 10 september nk, en þá heldur Kraftlyftingafélag Akraness þrjú íslandsmót, þ.e. í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu og ætlar að taka vel á móti gestum og veita þeim harða samkeppni.

Nýtt félag stofnað í Bolungarvík

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum 22.apríl sl umsókn Kraftlyftingadeildar UMFB að sambandinu. Deildin var stofnuð 3.febrúar sl og formaður er Inga Rós Georgsdóttir.
Stjórn KRAFT óskar Bolvíkingum og kraftlyftingaheiminum öllum til hamingju með nýja félagið og býður þessu 18.aðildarfélagi velkomið í hópinn.

Ný félög

Á fundi sínum 30.janúar sl. samþykkti stjórn Kraftlyftingasambands Íslands aðild tveggja nýrra félaga.
Kraftlyftingadeild Kormáks á Hvammstanga hefur verið stofnuð, og kraftlyftingar nú komnar inn í enn eitt íþróttahérað, nefnilega í Ungmennasamband Vestur-Húnavatnssýslu.
Formaður deildarinnar er Aðalsteinn Guðmundsson.
Kraftlyftingafélag Kópavogs hefur verið stofnað, og var aðild samþykkt með fyrirvara um frágangi á nokkrum formsatriðum.
Formaður félagsins er Jens Fylkisson.

Við óskum nýjum félögum velkomin í hópinn og góðs gengis í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Mikil fjölgun iðkenda

Aukinn áhugi á lyftingum og kraftlyftingum og fjölgun iðkenda í sportinu hefur verið mikil á árinu sem er að líða. Við sjáum stöðugt ný nöfn meðal keppenda á mótum – ekki síst meðal unglinga og í kvennaflokki – og er það mjög gleðilegt. .
Kraftlyftingafélögin í landinu hafa unnið gott starf á árinu og öll aðstaða, skipulag og utanumhald um æfingar og keppendur hefur tekið stórstígum framförum síðan 2010, þegar Kraftlyftingasambandið var stofnað.
Sífellt fleiri átta sig á mikilvægi styrktarþjálfunnar í almennri heilsurækt fyrir alla aldurshópa og skilja nauðsyn þess að stunda hana undir góðri leiðsögn.
Stjórn KRAFT og aðildarfélög sambandsins halda áfram á nýju ári að búa enn betur í haginn fyrir þá sem vilja bætast í hópinn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/27/idkendum_fjolgar_mest_i_lyftingum/

Bætt aðstaða

11014594115_fa2270edbf_oSex kraftlyftingafélög eignuðust nýjar keppnisgræjur á dögunum, ýmist lóðasett, stangir og rekka.
Með sameiginlegri pöntun og milligöngu sambandsins fengust hagstæðari kjör en annars hefði orðið.
Aðstaðan til að æfa og keppa í kraftlyftingum er stöðugt að batna og félögum að fjölga, en skráðir félagsmenn í KRAFT eru nú fleiri en 1000.

Rífandi gangur á Akureyri

kfaMikil uppbygging hefur átt sér stað hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar undanfarið og nú hefur félagið flutt í nýja og glæsilega æfingaraðstöðu að Sunnuhlíð 12 eins og sjá má á facebooksíðu félagsins.
Skipulögð æfingartafla hefur tekið gildi og er lögð sérstök áhersla á að taka vel á móti ungum byrjendum sem fá þjálfun og aðstoð við hæfi af reyndum meðlimum félagsins.
Með þessu stendur félagið heldur betur undir nafnbótinni Fyrirmyndarfélag.

Við óskum norðanmönnum til hamingju með þetta góða starf. Verið er að kynna íþróttina okkar fyrir nýja kynslóð og er það framtak til eftirbreytni. Sterkir kraftlyftingafmenn hafa löngum komið frá Akureyri og hér stefnir allt í að svo verði áfram.

Nú er mál fyrir KFA-menn að mæta á staðinn og taka á því. Og fyrir meðlimi annara félaga að leggja leið sína norður í sumar og taka æfingu við fyrsta flokks aðstæður.

 

Lyfjamál – ábyrgð iðkenda

Kraftlyftingasamband Íslands er aðili að ÍSÍ og IPF og fylgir í öllu þeim reglum sem þar gilda um lyfjamál.
Allir iðkendur, stuðningsmenn, stuðningsaðilar og yfirvöld eiga að geta treyst því að innan okkar raða er notkun stera og annara ólöglegra efna stranglega bönnuð og unnið gegn slíku með öllum tiltækum ráðum í nánu samstarfi við lyfjaeftirlitið. Í þessari vinnu þurfa allir að leggja sitt af mörkum, hver á sínum stað.
Kraftlyftingafélögin eiga að marka sér skýra stefnu í lyfjamálum og upplýsa sína félagsmenn um hvaða reglur þeir eiga að fara eftir. Hver einstakur iðkandi þarf að vera meðvitaður um sína persónulega ábyrgð, en sem félagsmaður innan KRAFT getur hann þurft að mæta í lyfjapróf hvar og hvenær sem er, og vanþekking er ekki gild afsökun.

Formannafundur haldinn 10.maí hvetur öll félög til að láta iðkendur sína skrifa undir þennan texta til að tryggja að þeir átti sig á ábyrgð sinni – og til að setja þennan eða svipaðan texta upp á áberandi stað á æfingarstöðinni. 

Stjarnan stofnar deild um kraftlyftingar

stjarnanHið rótgróna íþróttafélag í Garðabæ, UMF Stjarnan, hefur nú gengið skrefinu lengra og stofnað deild um kraftlyftingar.
Þar er um að ræða að Kraftlyftingafélag Garðabæjar, Heiðrún, fyrsta fyrirmyndarfélag KRAFT er orðið hluti af Stjörnunni og fyrrum KFGH félagar keppa undir merkjum Stjörnunnar á ÍM á laugardag.
Við óskum Stjörnunni til hamingju með nýja deild og nýja kröftuga félaga.

Um starfsmenn á mót – breyting á reglugerð

Í nýsamþykktum mótareglum KRAFT er mikilvæg breyting í orðalagi 19.greinar.  Breytingin varðar skyldu allra félaga að senda starfsmenn á mót.
Nauðsynlegt er að skrá starfsmenn um leið og keppendur eru skráðir – annars tekur skráning ekki gildi.

Ástæðurnar fyrir þessum reglubreytingum eru ljósar öllum þeim sem hafa staðið í mótahaldi.
Helstu ástæðurnar eru:

–  að auka og tryggja gæði móta.
–  að auðvelda smærri félögum að halda mót
–  að fjölga dómerum og reyndum starfsmönnum í öllum félögum
–  að gefa öllum hlutverk, líka þeim sem eru ekki keppendur í það skiptið
–  að stuðla þannig að eflingu liðsanda

Reglan hljóðar:
19. gr. Starfsmenn á mótum

Það er sameiginleg skylda mótshaldara og þeirra félaga sem senda keppendur á mót að sjá til þess að nægilegur fjöldi dómara og starfsmanna sé á mótinu. Hvert félag fyrir sig ber ábyrgð á sínum dómurum og starfsmönnum. Allir dómarar og starfsmenn á móti skulu vera meðlimir í félögum innan KRAFT og skráðir sem slíkir í Felix. Starfsmenn skulu vera auðkenndir með fatnaði eða merkjum.
Félag sem sendir allt að tvo keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti einn dómara eða starfsmann.
Hvert félag sem sendir 3-4 keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti einn starfsmann og einn dómara.
Hvert félag sem sendir 5-6 keppendur á mót skal leggja til tvo dómara og tvo starfsmenn.
Hvert félag sem sendir 7-10 keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti tvo dómara og þrjá starfsmenn.
Hvert félag sem sendir 11 keppendur eða fleiri skal leggja til að minnsta kosti tvo dómara og 4 starfsmenn.

Beiðni um skráningu keppenda öðlast þá fyrst gildi þegar ofangreindum ákvæði er fullnægt.
Forfallist skráður starfsmaður er það á ábyrgð þess félags sem hann er fulltrúi fyrir að finna og tilkynna staðgengil. Mótshaldari metur hversu marga starfsmenn hann þarf á að halda og lætur félögin vita eins fljótt og hægt er.