EM öldunga

Á morgun hefst í Plzen í Tékklandi Evrópumót öldunga í kraftlyftingum. Þrír íslenskir keppendur taka þátt.

Í -120,0 kg flokki karla M1 keppir Fannar Dagbjartsson. Í flokki -83,0 kg karla M2 keppir Halldór Eyþórsson og í flokki -66,0 kg karla M3 keppir Sæmundur Guðmundsson.  Þeir eru allir félagar í Breiðablik.

Þeir eiga allir góða möguleika á verðlaunasætum, bæði í einstökum greinum og samanlögðu.
Fannar hefur æft mjög vel og ætlar sér stóra hluti á mótinu. Í fyrra vann hann til bronsverðlauna og fékk silfur og brons í greinunum – í ár er markmiðið að bæta gull í safnið.  Halldór er í góðu formi og hefur mikla reynslu sem ætti að nýtast honum í keppni sem gæti orðið mjög spennandi, en mjög jafnt virðist vera á með mönnum í hans flokki. Í fyrra vann hann til bronsverðlauna í beygju og réttstöðu en mistókst í bekk og féll úr keppni í samanlögðu. Hann ætlar að bæta úr því í ár. Sæmundur hefur létt sig niður um flokk og er óskrifað blað í -66,0 flokki. Hann býr og æfir í Noregi og að sögn hafa æfingar gefið tilefni til bjartsýnis.

Sæmundur keppir á morgun, þriðjudag, kl. 14.00 að staðartíma.
Halldór keppir á fimmtudag kl. 10.00 og Fannar á laugardag kl. 11.00.

Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/index.html
Keppendalisti: http://goodlift.info/onenomination.php?cid=232

Við óskum þeim góðs gengis á mótinu.

Blikar sigursælir á Bikarmótinu

Kraftlyftingadeild Breiðabliks gerði góða ferð til Akureyrar um helgina. Hulda Waage og Fannar Gauti Dagbjartsson, bæði úr Breiðablik, urðu bikarmeistarar KRAFT 2011 í kvenna- og karlaflokki og Breiðablik varð stigahæsta liðið. UMFN Massi tók forystu í stigakeppni félaga og verður að bíða fram yfir  ÍM í réttstöðulyftu næstu helgi til að fá endanleg úrslit í þeirri keppni.
Mörg Íslandsmet fellu á mótinu.

Míkil þátttaka var og hörð samkeppni í mörgum flokkum, ekki síst í -72,0 kg flokki kvenna þar sem metaskífunum var óspart beitt. Biðu menn spennt eftir viðureign Huldu og Guðrúnar Gróu Þórsteinsdóttur úr Gróttu og fengu góða skemmtun. Hulda sigraði í þetta sinn á nýju glæsilegu íslandsmeti (160,5 – 97,5 – 179,5 = 437,5 kg) sem gaf 427 stig, en árangur Gróu (430,0 kg) er íslandsmet í unglingaflokki. Báðar hafa þær tekið miklar framfarir frá Íslandsmótinu í vor – og eru ekki einar um það. Mjög gaman var að sjá marga keppendur uppskera góðar persónulegar bætingar og setja met. Jóhanna Þórarinsdóttir, Breiðablik, vann stigabikarinn í bekkpressu á nýju íslandsmeti, 105,5 kg.
Ljóst er að María Guðsteinsdóttir úr Ármanni sem hefur verið ósigrandi í kvennaflokki undanfarin ár má fara að vara sig, og fagnar hún því sjálf eflaust manna mest.

Í karlaflokki var hið sama uppá teningnum, t.d. í -83,0 kg flokki, en á endanum vann Fannar stigabikarinn nokkuð örugglega með 507,8 stig. Hann lyfti í -120,0 kg flokki samtals 875,0 kg sem er nýtt íslandsmet og náði langþráðum bætingum í öllum greinum.

Í drengja- og unglingaflokkum karla ringdi inn glæsilegum metum og bar míkið á heimamanninum Viktor Samúelsson sem sigraði í -105 kg flokki á 760,0 kg. Hann barðist þar m.a. við Einar Örn Guðnason, Akranesi, sem tók forustuna eftir nýju íslandsmeti, 215,0 kg á bekknum. Viktor átti samt lokaorðið þar sem hann togaði upp 300,0 kg í réttstöðu og setti þar með íslandsmet í opnum flokki, en Viktor er enn í drengjaflokki.

Of langt mál er að telja upp öll afrek mótsins, hér má finna heildarúrslit http://results.kraft.is/meet/bikarmot-i-kraftlyftingum-2011

Við óskum verðlaunahöfum til hamingju og öllum þeim til lukku sem hafa bætt árangur sinn og jafnvel sett glæsileg met í dag.
Þökkum Kraftlyftingafélag Akureyrar fyrir metnaðarfullt mót og góðar móttökur.

EM öldunga

Evrópumót öldunga í kraftlyftingum fer fram í Tékklandi dagana 5. – 9. júlí nk. Tveir keppendur frá Íslandi taka þátt, þeir Fannar Dagbjartsson og Halldór Eyþórsson, báðir úr Breiðablik. Fannar keppir í 120,0 kg flokki karla 40-49 ára og Halldór í 83,0 kg flokki karla 50 – 59 ára. Þeir eru báðir reyndir keppendur og geta vel unnið til verðlauna á góðum degi, en við munum segja fréttir af gengi þeirra hér.
Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/

Signý og Fannar bikarmeistarar.

Bikarmót Kraftlyftingasambands Íslands 2010 lauk í Mosfellsbæ fyrir stundu.

Langur og strangur dagur endaði þannig að Signý Harðardóttir, UMFN Massi, varð bikarmeistari kvenna.
Fannar Dagbjartsson, Ármanni, varð bikarmeistari karla.
Stigabikar liða hafnaði hjá UMFN Massa í Njarðvíkum.  

Gestur á mótinu var Dean Bowring, margfaldur meistari Breta, sem kom við á leiðinni heim frá HM og lyfti 1015 samanlagt í +125,0 kg flokki.

Við óskum sigurvegurum og öllum sem gerðu góða hluti til hamingju með árangurinn.

Nánara umfjöllun og myndir frá mótinu munu birtast fljótlega.

Heildarúrslit: bikarmot10

Stigaúrslit: bik10_stig


EM öldunga lokið

Fannar Dagbjartsson hafði því miður ekki erindi sem erfiði á EM öldunga sem lauk í Tékklandi í dag.
Hann féll úr í hnébeygju og fékk heldur ekki gilda lyftu á bekknum.  Reyndar var míkið mannfall í flokki hans, -110,0 kg M1, fjórir keppendur féllu úr keppni. Sigurvegari var svíinn Håkan Persson með 815,0 kg. HEILDARÚRSLIT
Menn geta séð upptökur af lyftunum hér: http://www.madness.cz/ex/livetv.php og reynt að ráða í hvað hafi farið úrskeiðis. 
Það er fátt leiðinlegra en að falla úr keppni á tækniatriðum, þá reynir á innra styrkinn. Ef Fannar hefur hann í sama mæli og vöðvastyrk, verða ófarirnar hvatning til að koma sterkur tilbaka næst.