Kraftlyftingamenn ársins heiðraðir

Íþrótta- og olympíusamband Íslands og samtök íþróttafréttamanna héldu glæsilegt hóf til heiðurs bestu íþróttmönnum þjóðarinnar í beinni sjónvarpsútsendingu í gærkvöldi. Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu voru kraftlyftingamenn ársins 2012,  María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik.
Auðunn var auk þess valinn í hóp 10 helstu afreksmanna ársins, en úr þeim hópi var íþróttamaður ársins, Aron Pálmarson, Kiel, valinn. Auðunn varð sjötti í valinu og óskum við honum til hamingju með þessa mikla viðurkenningu.
Bæði María og Auðunn eru miklir íþróttamenn, en hafa auk þess gert mikið til að efla íþróttina hér á landi. Þau hafa lagt tíma sinn og reynslu í vinnu fyrir sín félög og fyrir sambandið og vill stjórn KRAFT nota þetta tækifæri til að þakka þeim sérstaklega fyrir það.María Guðsteinsdóttir og Auðúnn Jónsson. Kraftlyftingamenn ársins 2012
María Guðsteinsdóttir og Auðúnn Jónsson. Kraftlyftingamenn ársins 2012Auðunn þakkar fyrir sig
Auðunn þakkar fyrir sig

 

Kraftlyftingamenn ársins 2012

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands ákvað á fundi sínum  12.desember sl. að tilnefna Auðunn Jónsson, Breiðablik og Maríu Guðsteinsdóttur, Ármanni, kraftlyftingamenn ársins 2012 í karla- og kvennaflokki.

Ráðherra heiðrar kraftlyftingamenn

Ráðherra mennta- og menningarmála, Katrín Jakobsdóttir, bauð stjórn og afreksmönnum KRAFT til móttöku í ráðherrabústaðnum í fyrradag. Tilefnið var velgengni Auðuns og Júlíans á árinu og meðal annara gesta voru Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, Líney R. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og aðrir fulltrúar íþróttahreyfingarinnar.
Ráðherra óskaði Auðunni og Júlían til hamingju með þeirra afrek. “Við erum fámenn þjóð og þess vegna ekki sjálfgefið að meðal okkar skulu vera íþróttamenn í fremstu röð á heimsvísu eins og Auðunn og Júlían og því er það þeim mun ánægjulegra þegar menn ná slíkum árangri og af því getum við verið ákaflega stolt. Afreksfólk verður ekki til á einum degi þó svo að lyfturnar góðu á þessu heimsmeistaramóti hafi tekið einn dag; margra ára vinna liggur að baki svona árangri og vil ég óska ykkur innilega til hamingju“, sagði hún.  
Sigurjón Péturson, formaður KRAFT, tók til máls og þakkaði fyrir. Hann sagði það hafa verið forgangsverkefni stjórnar KRAFT að hefja íþróttina til þeirrar virðingar sem hún á skilið, og móttaka ráðherra sýna að það hafi tekist.
Án þess að gera upp á milli manna verður að segja það sérstaklega ánægjulegt að Auðunn Jónsson og fjölskylda hans skuli hafa fengið tækifæri til að gleðjast yfir afrekum hans við svo hátíðlegt tækifæri.

http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7258

Auðunn lyftir á morgun

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum lýkur á morgun, sunnudag með keppni í flokki +120,0 kg karla. Meðal keppenda er Auðunn Jónsson, Breiðablik.
Keppnin hefst kl. 10.00 að staðartíma, eða kl. 14.00 á íslenskum tíma.
Hægt verður að fylgjast með á vefnum: http://goodlift.info/live.php 

Búast má við ógúrlegum þyngdum og mjög harðri baráttu um verðlaunin í þessum flokki.  Við vonum að reynsla Auðuns og góðar æfingar í haust skili sér í topp árangur og nýjar bætingar. Ef hann nær sínu besta getur hann blandað sér í verðlaunabaráttu, sérstaklega í réttstöðu – við krossum fingur!
Keppendalisti

Silfurverðlaun á EM og nýtt heimsmet.

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppti á EM í dag og vann þar silfurverðlaun í réttstöðulyftu eftir harðri atlögu að gullinu. Auðunn gerði seríuna 407,5 – 275 -357,5 = 1040,0 kg, og hafnaði í 5 sæti í flokknum. Auðunn vigtaði 137,4 kg og náði með þessu besta árangur sinn á stigum í mörg ár.
Auðunn vann silfurverðlaun í réttstöðulyftu og setti í leiðinni heimsmet í samanlögðu í flokki öldunga M1 með glæsilegu 1040,0 kg.
Beygjan og samanlagður árangur eru ný Íslandsmet.

Við fögnum þessu og óskum Auðun til hamingju með silfrið, metin og flottan árangur.

Í hnébeygju fengum við að sjá keppni aldarinnar þar sem meirihluti tilrauna voru 400+. Auðunn opnaði létt í 375,0 kg, fékk 395,0 ógilt en lét það ekki á sig fá og kláraði 407,5 kg af öryggi í þríðju umferð og setti um leið nýtt Íslandsmet.
Beygjukeppnin endaði svo með því að Carl Yngvar Christensen tók menn í kennslustund og setti nýtt heimsmet með 445,0 kg.

Á bekknum féllu margir úr keppni. Auðunn opnaði létt í 267,5 kg. Hann fékk síðan því miður ógilt 275,0 í annarri tilraun vegna tæknimistaka og endurtók þá þyngd í þriðju tilraun. Kenneth Sandvik, Finnlandi, sigraði ekki óvænt með 327,5 kg.

Í réttstöðu opnaði Auðunn létt með 332,5 kg og bað svo um 357,5 sem gaf lokatöluna 1040,0 og nýtt heimsmet í aldursflokknum.
Auðunn hafði forustu  í réttstöðulyftu fyrir síðustu umferð. Hann reyndi við 367,5 sem hefði dugað í gullið, en varð að játa sig sigraðan á síðustu centimetrunum.

Evrópumeistari í flokknum varð Carl Yngvar Christensen sem kom, lyfti og sigraði á sínu fyrsta fullorðinsmóti á nýju heimsmeti samanlagt 1135,0 kg.

Auðunn keppir á morgun

Auðunn Jónsson, Breiðablik, lyftir á EM á morgun. Hann keppir í +120,0 kg flokki á móti ekki lakari mönnum en t.d. Volodymyr Svistunov og Carl Yngvar Christensen. Auðunn er í góðu formi og reynslumeiri en flestir keppinautar sínir.
Auðunn lyfti 1008,0 kg í Íslandsmótinu í mars, þar með talið 360,5 kg í réttstöðu,  án sérstakrar uppkeyrslu. Hann mætir til leiks á morgun til að keppa um verðlaunasæti og bæta árangur sinn.

Keppnin hefst kl. 8.30 á laugardagsmorgun á íslenskum tíma. Búið er að auglýsa beina vefútsendingu hér: http://goodlift.info/live/onlineside.html og vonandi verður staðið við það í þetta skipti.

Við óskum Auðunni góðs gengis. Eins og sjá má á þessari mynd gengur undirbúningurinn vel 🙂

Landsliðið á leið til Úkraínu

Á morgun leggur íslenska liðið af stað áleiðis til Mariupol Úkraínu þar sem opna Evrópumótið í kraftlyftingum fer fram dagana 8 – 12 maí.

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppir á miðvikudaginn í -63,0 flokki kvenna.
Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppir á laugardaginn í +120,0 kg flokki karla.
Þeim til aðstoðar er Grétar Hrafnsson, landsliðsþjálfari.

Helgi Hauksson, alþjóðadómari úr Breiðablik dæmir á mótinu. Sigurjón Pétursson, formaður KRAFT, situr þing EPF sem er haldið í tengslum við mótið.

Allar upplýsingar um mótið og keppendur má finna á heimasíðu EPF.
Sýnt verður beint frá keppninni á vefnum.

 

Íslandsmeistaramót í bekkpressu – úrslit

Vöðvamassastuðullinn á Akranesi hækkaði svo um munaði í dag þegar kraftlyftingamenn og -konur af öllu landinu komu þar saman til að þinga og keppa um íslandsmeistaratitlana í bekkpressu.
Hið fámenna kraftlyftingafélag Akraness var gestgjafi og var framkvæmd mótsins og umgjörð þeim til míkils sóma.
Stigaverðlaunin unnu þau María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik og við óskum þeim til hamingju. Það er ekki í fyrsta sinn sem þau hampa þessum bikurum, en í þetta skiptið  þurftu þau bæði að hafa fyrir sigurinn og landaði honum í síðustu tilraunum sínum.
HÉR MÁ SJÁ HEILDARÚRSLIT – við óskum öllum nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju með árangurinn.

Mjög jafn var á mununum í nokkrum flokkum, en hvergi þó eins jafn og í slagnum um þriðja sætið í -74,0 kg flokki karla. Tveir keppendur Dýri og Finnur Freyr lyftu 132,5 kg og báðir vigtuðu 71,85 kg. Nákvæmlega. Þess vegna þurfti að beita e-lið í fyrsta grein keppnisreglna og vann Finnur Freyr þriðja sætið þar sem hann hafði lægra rásnúmer. (Forritið okkar gerir ekki ráð fyrir svona tilfellum, svo röðin er ekki rétt eins og hún er nú á listanum. Það verður lagfært.)

Hin nýstofnaða kraftlyftingadeild Gróttu vann liðabikarinn og gátu farið með hann á þorrablót Gróttu í kvöld, sigri hrósandi.
Nokkur íslandsmet féllu á mótinu, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum.

Míkil þátttaka var að þessu sinni og mættu bæði þaulreyndir og lítt reyndir keppendur. Margir bættu sig verulega, aðrir ætluðu sér um of eða mistókst af öðrum ástæðum.
Í -105 kg flokki karla var hörkukeppni um sæti og íslandsmet, en heimamaðurinn Einar Örn Guðnason stóð á endanum uppi með pálmann í höndunum og nýtt Íslandsmet í vasanum.

Ástæða er til að nefna sérstaklega unga konu úr Gróttu, Fanney Hauksdóttur, sem keppti í -57,0 kg flokki kvenna. Fanney er í unglingaflokki ennþá, en hún lyfti 95,0 kg og átti tilraun við 98,0 kg. Fanney hefur áður keppt í fimleikum, en við sjáum sífellt oftar að kraftlyftingafélögin fá til sín iðkendur úr öðrum íþróttagreinum.

Í tengslum við mótið voru afhent nokkrar viðurkenningar fyrir árangur á síðasta keppnistímabili. Kraftlyftingamenn ársins, María Guðsteinsdóttur og Fannar Dagbjartsson, fengu heiðursskjöld frá Kraft og Kraftlyftingafélag ársins 2011, Massi, fékk loksins í hendurnar bikarinn góða sem þeir unnu til  í fyrra og fékk kraftlyftingaheimurinn þar tækifæri til að hylla þessu fyrirmyndarfólki með öflugu lófataki.

Við óskum enn og aftur öllum sigurvegurum og nýjum methöfum til hamingju.
Kraftlyftingafélag Akraness er þakkað fyrir öll handtökin við framkvæmd þessa Íslandsmót.