Kraftlyftingadeild Ármanns

Við höldum áfram umfjöllun um kraftlyftingafélög landsins og nú er komið að Ármanni.

Glímufélagið Ármann var stofnað 1888 og er í hópi elstu félagasamtaka landsins. Innan félagsins var stofnuð kraftlyftingadeild 2009. Ármann var eitt af stofnfélögum KRAFT, heyrir undir ÍBR og var lengi vel eina kraftlyftingafélagið í höfuðborginni.

Ingimundur Björgvinsson var kjörinn formaður á stofnfundi en María Guðsteinsdóttir tók fljótlega við af honum. Í dag er Helgi Briem formaður. Með honum í stjórn eru María Guðsteinsdóttir, Júlían J. K. Jóhannsson, Bjarni Þór Einarsson, Ingimundur Ingimundarson, Eiríkur Jónsson og Þórunn Lilja Vilbergsdóttir.

Skráður fjöldi iðkenda er í dag 134. Helstu afreksmenn eru Júlían Jóhannsson, íþróttakarl Reykjavíkur 2016 og María Guðsteinsdóttir sem var helsta kraftlyftingakona Íslands í áratug, en fleiri Ármenningar hafa verið duglegir að æfa og keppa og hafa landað bæða íslandsmeistara- og bikarmeistaratitlum fyrir félagið.

Deildin æfði fyrst í íþróttamiðstöðinni Laugaból en fékk svo aðstöðu í Djúpinu, í kjallara Laugardalslaugar. Þar deilir hún plássið með lyftingadeild félagsins og fer ágætlega á með þeim. Deildin er vel búin tækjum og lóðum. Meðlimir borga æfingargjald sem er 20.000 kr fyrir 6 mánuði. Innifalið í því er æfingaaðstaða, keppnisgjöld á innanlandsmót, aðgangur að sundlaug og gufubaði.

Æfingaaðstaðan fylgir opnunartimum laugarinnar – opnar við fyrsta hanagal og er opin til kl. 22.00 sjö daga vikunnar.  Opnunartímar eru líka rúmir yfir hátíðardaga.  Fastir æfingartímar eru á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 16 – 18 en þess fyrir utan mæla menn sér gjarnan mót til að æfa saman. Kvennalið deildarinnar er á hraðri uppleið undir heitinu Ár-MAN og hefur skipulagt æfingar og ýmisleg annað sérstaklega ætlað konum í kraftlyftingum.
Helgi Briem hefur veitt byrjendum leiðsögn  en fleiri innan félagsins eru með þjálfararéttindi og mikla reynslu í að leiðbeina og aðstoða.  Sex dómarar frá félaginu eru skráðir á dómaralista KRAFT.

Samstarf við móðurfélagið og ÍBR hefur verið gott alla tíð. Þess má geta að það var Ármann sem hafði frumkvæðið að því að kraftlyftingaíþróttin var sett á dagskrá Reykjavíkurleikjanna á sínum tíma. Félagið hefur verið ólatt við að halda mót og fékk þann heiður að vera fyrsta félagið sem hélt alþjóðamót á Íslandi þegar það tók að sér að halda Norðurlandamót unglinga 2013. Næsta verkefni félagsins er að halda alþjóðlegt kraftlyftingamót í tengslum við RIG 2018.

Helstu framtíðarverkefni stjórnar er að finna leiðir til að fjölga iðkendum og keppendum og byggja upp öfluga liðsheild til keppnis innan- og utanlands.

Upplýsingar um starfið má finna á heimasíðu Ármanns og á facebooksíðu Kraftlyftingadeildar Ármanns.

Æfingarmót 7.september

Æfingarmót/byrjendamót í kraftlyftingum (þríþraut) verður haldið í Ármannsheimilinu sunnudagin 7.september nk. kl. 13.00 (vigtun kl. 11.00)
Hér gefst tækifæri fyrir byrjendur að reyna sig fyrir framan dómara á móti þar sem öllum reglum er fylgt. Reyndir keppendur geta líka haft gagn af slíku móti til að kanna stöðuna.
Skráning fer fram gegnum félögin og þurfa keppendur að hafa verið skráðir félagar í amk mánuð fyrir mótið.
Skráning má senda í tölvupósti til [email protected] með afrit á [email protected]
Í skráningu skal koma fram nafn keppanda, kennitala, símanúmer og netfang. Jafnframt nafn og kennitala aðstoðarmanns.
Skráningarfrestur er til 17.ágúst

Fanney og Sigfús stigameistarar á Íslandsmótinu í bekkpressu.

imbekk13Í gær fór fram Íslandsmótið í bekkpressu sem haldið var á Reykjavík International Games en mótið var líka alþjóðleg keppni á stigum, þar sem íslenskir keppendur öttu kappi við erlenda keppendur í heimsklassa. Tveir keppendur frá Noregi kepptu á mótinu, þau Hildeborg Hugdal heimsmethafi og heimsmeistari í bekkpressu og Alastair McColl silfurverðlaunahafi frá EM í bekkpressu. Úrslitin hjá konunum komu ekki á óvart en Hildeborg Hugdal varð stigahæst yfir alla kvennaflokka en hún lyfti 197,5 kg í +84 kg flokki. Einnig átti hún góða tilraun við 207,5 kg en það fór ekki upp í dag.  Fanney Hauksdóttir úr Gróttu varð önnur á stigum með 100 kg lyftu í 63 kg flokki sem var jafnframt besti árangur íslensku kvennanna. María Guðsteinsdóttir úr Ármanni varð svo í þriðja sæti í stigakeppninni. Í karlaflokkunum var keppnin mjög spennandi og lágu allmörg íslandsmet í valnum. Í 83 kg flokki tvíbætti Aron Du Lee Teitsson úr Gróttu sitt eigið íslandsmet en hann lyfti 215 kg. Menn skiptust svo á að taka íslandsmetin í 105 kg flokki en í lokin var það Ingimundur Björgvinsson úr Gróttu sem endaði með mestu þyngdina 240 kg, en hann varð jafnframt þriðji stigahæsti maður mótsins. Annar á stigum en bestur Íslendinganna varð hins vegar Sigfús Fossdal sem háði skemmtilegt einvígi við Norðmanninn Alastair McColl í +120 flokki. Fór það svo að Alastair hafði betur með 310 kg lyftu og varð stigahæstur allra karlkeppenda en Sigfús náði öðru sætinu á stigum á nýju íslandsmeti 305 kg. Í liðakeppninni sigraði svo lið Gróttu með fullt hús stiga. Nánari úrslit eru komin í gagnabanka KRAFT á síðunni.

 

 

ÍM í bekkpressu – keppendur

Skráningu er lokið á Íslandsmeistaramótið í bekkpressu sem fer fram í tengslum við Reykjavik International Games 19.janúar nk. Félögin hafa til 5.janúar að greiða keppnisgjöldin og gera breytingar á þyngdarflokkum.
20 konur og 31 karlar eru skráðir til leiks. Tveir gestakeppendur koma frá Noregi.
KEPPENDUR.

ÍM í bekkpressu – skráning hafin

Skráning er hafin á Íslandsmeistaramótið í bekkpressu 19.janúar nk. Skráningarfrestur er 29.desember. SKRÁNING_Ímbekkur13
Frestur til að breyta skráningu og greiða gjaldið er til 5.janúar og koma allar upplýsingar fram á skráningarblaðinu. Ætlast er til að hvert félag greiði eina greiðslu fyrir sína keppendur.
Mótið er liður í Reykjavík International Games.
Hildeborg Juvet Hugdal, heimsmethafi í bekkpressu í +84,0 kg flokki verður gestakeppandi á mótinu og unnið er að því að fá gestakeppanda líka í karlaflokki.
Við auglýsum mótið með góðum fyrirvara að þessu sinni svo skráningin gleymist ekki í jólaösinni!

 

Bikarmót KRAFT 2012

Bikarmót KRAFT fór fram á heimavelli Ármanns sl laugardag.
Bikarmeistarar urðu Hildur Sesselja Aðalsteinsdóttir og Aron Lee Du Teitsson, bæði úr Gróttu.

Hnébeygjubikarana unnu Hildur Sesselja og Halldór Eyþórsson, Breiðablik.
Bekkpressubikarana unnu Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta og Sigfús Fossdal, KFA.
Sterkust í réttstöðu voru Jónína Sveinbjarnardóttir, Breiðablik og Aron Lee.
Stigahæsta félagið var Breiðablik sem sigraði í 7 þyngdarflokkum karla og kvenna.
HEILDARÚRSLIT

Mörg Íslandsmet féllu á mótinu ekki síst í yngri flokkum. Massadrengirnir notuðu tækifærið til að skilja eftir sig drengjamet fyrir áramót og lagði Daði Már undir sig heila blaðsíðu í metaskránni. Gróttustelpurnar í léttara flokkunum halda áfram að bæta metin og er 140,0 kg hnébeygja Hildar í -52 kg flokki besta dæmið um það. Jónína Sveinbjarnadóttir, Breiðablik, átti glæsilega innkomu og bætti bæði beygju- og réttstöðumetið í -72,0 kg flokki á sínu fyrsta móti.
Sigfús Fossdal hóf endurkomu sína á keppnispallinn með því að setja íslandsmet í bekkpressu single lift með 300 kg. Hann lyfti fyrir KFA en er búinn að stofa Kraftlyftingafélag Ísafjarðar og bíður eftir afgreiðslu laganefndar ÍSÍ til að hljóta fulla löggildingu. Félagið hefur þegar tekið að sér að halda Íslandsmótið í réttstöðu 2013.

Skráðir keppendur voru 41 og mættu misvel undirbúnir undir keppni. Töluvert brottfall, eða 37,5%, varð í karlaflokkum þar sem mönnum mistókst að lyfta samkvæmt reglum og hafði það í för með sér óvænt úrslit, t.d. í -120 kg flokki þar sem hinn 15 ára gamli Guðfinnur Snær Magnússon stóð uppi sem sigurvegari með góðum og gildum lyftum. Konunum tókst betur til og hlutu allar náð fyrir augum dómaranna sem voru Helgi Hauksson, Hörður Magnússon, María Guðsteinsdóttir, Fannar Dagbjartsson, Guðjón Hafliðason og Sturlaugur Agnar Gunnarsson.
Míkið mæddi á þeim og öðrum starfsmönnum á mótinu. Ekki síst á stangarmönnum sem þurftu stundum að grípa inn og bjarga málum og stóðu sig með mikilli prýði.
Þulir á mótinu voru Sigurjón Pétursson og Júlían J.K. Jóhannsson.

Alvarlegt óhapp átti sér stað baksviðs og setti nokkuð mark sitt á mótið.
Fyrir hönd allra sendum við Erlu Kristínu góðar batakveðjur og Ármenningum kærar þakkir fyrir skemmtilegan dag og góðar vöfflur.
Í framhaldinu af mótinu var efnt til veislu og tókst hún vel.

Bikarmót KRAFT á laugardag

Bikarmót KRAFT verður haldið laugardaginn 24.nóvember í Ármannsheimilinu í Laugardal. Mótshaldari er Kraftlyftingadeild Ármanns.
Mótið hefst kl. 10.00 með keppni kvenna.
Keppni í karlaflokkum hefst kl. 14.15.
Aðgangseyrir er 500 krónur, frítt fyrir eldri borgara og 18 ára og yngri.
KEPPENDUR
41 keppendur frá sjö félögum eru skráðir á mótið og ljóst að spennandi keppni getur orðið í mörgum flokkum. Bikarmeistarar í fyrra voru Fannar Dagbjartsson og Hulda B. Waage. Hulda mætir til að verja titilinn en öruggt er að við fáum nýjan bikarmeistara karla þar sem Fannar er ekki meðal keppenda.
Á laugardag verður skorið úr um hvaða félag vinnur stigabikarinn 2012. Grótta hefur 12 stiga forystu á Breiðablik, en Blikar hafa ekki játað sig sigraða og senda 18 keppendur á mótið. Fjögur félög hafa þegar fengið yfir 100 stig, en það er ánægjuleg þróun og gæti verið markmið fyrir öll félög að bæta stigatöluna milli ára.

Fyrir keppendur:
Skipting í holl:
1. holl = allar konur
Vigtun 08.00  –  Keppni hefst 10.00

2. holl = karlar -66, -74, -83, -93
3. holl = karlar -105, -120, +120
Vigtun 12.15  –  Keppni hefst 14.15

Bikarmót – skráningu lýkur á laugardag

Skráning stendur yfir á Bikarmótið í kraftlyftingum 2012.

Mótið fer fram í Ármannsheimilinu, Laugardal, laugardaginn 24.nóvember nk i umsjón Kraftlyftingadeildar Ármanns.
Mótið er síðasta stóra mót ársins og mun þar ráðast ekki bara hverjir verða bikarmeistarar karla og kvenna, heldur líka hvaða lið vinnur liðabikarinn 2012. Mótið er auk þess síðasta tækifæri ungra keppenda til að sanna að þeir eiga erindi á Norðurlandamót unglinga í febrúar.
Skráning fer eingöngu fram gegnum félögin og eru þau beðin um að senda inn eina skráningu og eina greiðslu ef þess er nokkur kostur.  EYÐUBLAÐ – BIKARMÓT12
Reglunum um aðstoðarmenn keppenda og starfsmenn á mótið verður fylgt fast eftir og eru félögin þess vegna beðin um að skrá þá líka með síma/netfangi.
Skráning skal senda til [email protected] með afrit á [email protected].
Keppnisgjaldið er 4000 krónur og skal greitt á reikning 0111-26-60040, Kennitala: 600409-0340                                          
Fyrri skráningarfrestur er til miðnættis 3.nóvember. Svo hafa menn viku til að greiða keppnisgjald og breyta um þyngdarflokk, eða til miðnættis 10.nóvember. Smkv gildandi mótareglum eru þeir hlutgengir á mótið sem hafa verið skráðir í Felix í amk þrjá mánuði fyrir mótið.
Veglegt lokahóf verður haldið að loknu móti og fer það líka fram í Ármannsheimilinu. Þar fer fram verðlaunaafhending og útnefning lið ársins 2012.
Félög eru beðin um að panta miða á lokahófið um leið og skráning fer fram til að tryggja sér sæti, en miðar verða til sölu áfram á meðan pláss leyfir. Verðið verður stillt í hóf.

María lyftir á morgun

María Guðsteinsdóttir, Ármanni, keppir á HM í kraftlyftingum á morgun miðvikudag. Hún keppir í -63,0 kg flokki og hefst keppnin kl. 11.00 á staðartíma, eða kl. 15.00 á íslenskum tíma.
María stefnir á bætingu, og miðað við ganginn í undirbúningnum er það mjög raunhæft markmið. Við óskum henni góðs gengis!
Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni vefútsendingu