Kraftlyftingafélag Akraness

Stöðug fjölgun kraftlyftingafélaga og -iðkenda hefur átt sér stað undanfarin misseri og stjórn hefur ákveðið að hefja kynningu á aðildarfélögum með reglulegum greinum hér á síðunni.
Við hefjum yfirferðina á spurningunni: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA AF SKAGANUM?

Á Akranesi starfar Kraftlyftingafélag Akraness sem er aðili að ÍA, Íþróttabandalagi Akraness. Félagið var eitt af stofnfélögum KRAFT en stofnfundurinn var haldinn 24.nóvember 2009 og var Hermann Hermannsson fyrsti formaður þess.
Hér má lesa um tilurð félagsins.
Núverandi formaður er Einar Örn Guðnason og með honum í stjórn eru Lára Finnbogadóttir gjaldkeri, Sigurgeir Guðmundsson ritari og Arnar Harðarson og Eva Ösp Sæmundsdóttir meðstjórnendur.

Skráður fjöldi iðkenda í september 2017 er 55 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.
Félagið hefur á að skipa fjóra dómara, þá Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur Gunnarsson, Arnar Harðarson og Arnar Helgason, en Kári og Sturlaugur hafa alþjóðadómararéttindi.

Sigursælasti og mest áberandi keppandi félagsins undanfarin misseri hefur verið formaðurinn sjálfur, Einar Örn, en hann er ríkjandi bikarmeistari KRAFT bæði með og án búnaðar og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum auk þess sem hann á flest öll íslandsmet í -105 kg flokki.
Af yngri keppendum má nefna Svavar Örn Sigurðsson, fæddur 1999, sem kom fram á sjónarsviðið með stæl á árinu og er nú á leiðinni til Noregs til að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, Norðurlandamóti drengja í klassískum kraftlyftingum.
Félagið hefur fleiri skemmtilegum og sterkum keppendum á að skipa  og afrekaði að vinna liðabikar karla á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum 2017.

Æfingaraðstaða og heimavöllur félagsins er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í kjallaranum þar ræður félagið ríkjum og hefur til umráða tvö herbergi og allan nauðsynlegan búnað. Aðstaðan er opin á opnunartíma hússins, en fastar æfingar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 16.00 til 22.00. Félagsmenn greiða árgjald 5000 kr fyrir.

Lára Finnbogadóttir sem hefur lokið Þjálfara 1 námskeiði ÍSÍ og KRAFT, sinnir nýliðunum og mætti með þrjá keppendur á byrjendamótið 2017. Það er ekki síst gleðilegt að hægt hefur verið að mynda æfingahóp ungra kvenna og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Að sögn formannsins er samstarfið við íþróttayfirvöld í bænum mjög gott og fjölmiðlar á svæðinu hafa verið duglegir að segja frá árangri félagsmanna.
Aðspurður um helstu markmið og framtíðarsýn Skagamanna svarar hann af sinni alkunnu hógværð: að verða besta og myndarlegasta félagið á landinu.
Þar hafið þið það!
Hægt er að fylgjast með framgangi mála á facebooksíðu félagsins og instagram

Kraftlyftingamenn og -konur munu fjölmenna á Skagann helgina 9 – 10 september nk, en þá heldur Kraftlyftingafélag Akraness þrjú íslandsmót, þ.e. í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu og ætlar að taka vel á móti gestum og veita þeim harða samkeppni.

Nýr alþjóðadómari

Ísland eignaðist nýjan alþjóðlegan kraftlyftingadómara í síðustu viku þegar Kári Rafn Karlsson stóðst dómaraprófi IPF á Evrópumóti  unglinga í Rússlandi.

Kári er formaður Kraftlyftingafélags Akraness, gjaldkeri Kraftlyftingasambands Íslands og formaður landsliðsnefndar. Það verður því að segjast að hann leggi sitt af mörkum til eflingar íþróttarinnar í landinu.

Við óskum Kára til hamingju með áfangann.

Einar Örn á pallinn á EM

Einar Örn Guðnason frá Kraftlyftingafélagi Akraness átti góðan dag á EM unglinga í dag. Hann vigtaði 92,45 kg í -93 kg flokki.
Einar lét ekki slaka stangarmenn slá sér út af laginu og opnaði létt á nýju Íslandsmeti unglinga í hnébeygju, 280 kg.Hann bætti síðan metið og persónulegan árangur sinn með 20 kg þegar hann lyfti 290 kg mjög örugglega í næstu tilraun. Einar átti svo mjög góða tilraun við 300 kg, en munaði hársbreidd og þriðja lyftan var dæmd ógild.
Bekkurinn er sérgrein Einars, en þar opnaði hann á 200 kg sem er jöfnun á Íslandsmeti í flokknum. Hann setti síðan nýtt unglingamet með 207,5 kg í annarri.
Í þriðju tilraun gerði hann sér lítið fyrir og lyfti 212,5 kg glæsilega, en það dugði honum til verðskuldaðra bronsverðlauna í greininni.
Í réttstöðu opnaði hann frekar klaufalega á að láta dæma 250 kg ógilt hjá sér en kláraði svo 255 kg í annari tilraun. Hann reyndi svo við 272,5 kg í síðustu en mistókst.
Einar endaði því í 6.sæti með 757,5 kg í samanlögðu. Það er nýtt Íslandsmet unglinga og persónuleg bæting um 37,5 kg og geri aðrir betur.
Sigurvegari í flokknum var Julian Lysvand frá Noregi með 825 kg

Við óskum Einari til hamingju með góða frammístöðu, ný íslandsmet og bronsverðlaun í bekkpressu.

Á morgun, sunnudag, keppir Júlían Jóhannsson og hefst keppnin kl. 8.00 á íslenskum tíma.

einarorn

Íslandsmeistaramót í bekkpressu – úrslit

Vöðvamassastuðullinn á Akranesi hækkaði svo um munaði í dag þegar kraftlyftingamenn og -konur af öllu landinu komu þar saman til að þinga og keppa um íslandsmeistaratitlana í bekkpressu.
Hið fámenna kraftlyftingafélag Akraness var gestgjafi og var framkvæmd mótsins og umgjörð þeim til míkils sóma.
Stigaverðlaunin unnu þau María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðablik og við óskum þeim til hamingju. Það er ekki í fyrsta sinn sem þau hampa þessum bikurum, en í þetta skiptið  þurftu þau bæði að hafa fyrir sigurinn og landaði honum í síðustu tilraunum sínum.
HÉR MÁ SJÁ HEILDARÚRSLIT – við óskum öllum nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju með árangurinn.

Mjög jafn var á mununum í nokkrum flokkum, en hvergi þó eins jafn og í slagnum um þriðja sætið í -74,0 kg flokki karla. Tveir keppendur Dýri og Finnur Freyr lyftu 132,5 kg og báðir vigtuðu 71,85 kg. Nákvæmlega. Þess vegna þurfti að beita e-lið í fyrsta grein keppnisreglna og vann Finnur Freyr þriðja sætið þar sem hann hafði lægra rásnúmer. (Forritið okkar gerir ekki ráð fyrir svona tilfellum, svo röðin er ekki rétt eins og hún er nú á listanum. Það verður lagfært.)

Hin nýstofnaða kraftlyftingadeild Gróttu vann liðabikarinn og gátu farið með hann á þorrablót Gróttu í kvöld, sigri hrósandi.
Nokkur íslandsmet féllu á mótinu, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum.

Míkil þátttaka var að þessu sinni og mættu bæði þaulreyndir og lítt reyndir keppendur. Margir bættu sig verulega, aðrir ætluðu sér um of eða mistókst af öðrum ástæðum.
Í -105 kg flokki karla var hörkukeppni um sæti og íslandsmet, en heimamaðurinn Einar Örn Guðnason stóð á endanum uppi með pálmann í höndunum og nýtt Íslandsmet í vasanum.

Ástæða er til að nefna sérstaklega unga konu úr Gróttu, Fanney Hauksdóttur, sem keppti í -57,0 kg flokki kvenna. Fanney er í unglingaflokki ennþá, en hún lyfti 95,0 kg og átti tilraun við 98,0 kg. Fanney hefur áður keppt í fimleikum, en við sjáum sífellt oftar að kraftlyftingafélögin fá til sín iðkendur úr öðrum íþróttagreinum.

Í tengslum við mótið voru afhent nokkrar viðurkenningar fyrir árangur á síðasta keppnistímabili. Kraftlyftingamenn ársins, María Guðsteinsdóttur og Fannar Dagbjartsson, fengu heiðursskjöld frá Kraft og Kraftlyftingafélag ársins 2011, Massi, fékk loksins í hendurnar bikarinn góða sem þeir unnu til  í fyrra og fékk kraftlyftingaheimurinn þar tækifæri til að hylla þessu fyrirmyndarfólki með öflugu lófataki.

Við óskum enn og aftur öllum sigurvegurum og nýjum methöfum til hamingju.
Kraftlyftingafélag Akraness er þakkað fyrir öll handtökin við framkvæmd þessa Íslandsmót.

Íslandsmeistaramótið í bekkpressu – heildarúrslit

Íslandsmeistaramótið í bekkpressu fór fram á Akranesi í dag að viðstöddu fjölmenni.

Íslandsmeistari kvenna varð María Guðsteinsdóttir, Ármanni, en í karlaflokki sigarði Fannar Dagbjartsson, líka Ármanni.María lyfti 95,0 kg í -72,0 kg flokki og  Fannar lyfti 250,0 kg í -120,0 kg flokki. Ármenningar léti ekki þar staðar numið, heldur tóku þeir líka heim liðabikarinn sem besta bekkpressuliðið.
Heildarúrslit og Íslandsmet: IMbekk2011.

Að loku móti afhenti Sigurjón Pétursson kraftlyftingafélaginu Massa úr Njarðvíkum verðlaunin fyrir sigurinn í liðakeppninni 2010.
Mótið endaði á því að Hörður Magnússon, kraftlyftingadómari, tók við heiðursskjali úr hendi Sigurjóns fyrir sitt mikla starf í þágu íþróttarinnar og honum til heiðurs fimmtugum.

Kraftlyftingafélag Akraness á heiður skilið fyrir vel framkvæmt mót þar sem búið var að vanda til verka í smáatriðum. Margar vinnufúsar hendur létu hlutina ganga hratt og vel fyrir sig.