Skip to content

Sóley Margrét Jónsdóttir og Alexander Örn Kárason kraftlyftingafólk ársins 2023.

Stjórn KRAFT hefur valið kraftlyftingafólk ársins 2023 á fundi sínum 20. desember skv. Reglugerð Kraftlyftingasambands Íslands um val á kraftlyftingamanni ársins.

Kraftlyftingakona 2023: Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley Margrét Jónsdóttir er kraftlyftingakona ársins í þriðja sinn en hún hlaut þennan titil einnig árin 2019 og 2020. Sóley sem keppir fyrir Kraftlyftingadeild Breiðabliks keppir í kraftlyftingum með búnaði í +84kg flokki. Hún er 22 ára gömul og er því enn í unglingaflokki þótt hún hafi á árinu keppt á mótum í fullorðinsflokki. Sóley náði þeim frábæra árangri að verða Evrópumeistari og vann til silfurverðlauna á HM í kraftlyftingum.

Helstu afrek ársins:
HM í Litháen í nóvember
Silfurverðlaun samanlagt – 657.5 kg
Gullverðlaun í hnébeygju – 277.5 kg
Silfurverðlaun í bekkpressu – 180 kg
Bronsverðlaun í réttstöðulyftu – 200 kg

EM í Danmörku í maí
Evrópumeistari í samanlögðum árangri – 660 kg
Gullverðlaun í hnébeygju – 270 kg
Gullverðlaun í bekkpressu – 182.5 kg
Silfurverðlaun í réttstöðulyftu – 207,5 kg

Stigaárangur
Besti stigaárangur íslenskra kvenna á árinu í kraftlyftingum með búnaði – 93.65 IPF GL stig

Kraftlyftingakarl 2023: Alexander Örn Kárason

Alexander Örn Kárason er kraftlyftingakarl ársins 2023 og hlýtur nafnbótina í fyrsta sinn. Hann er 25 ára gamall og keppir fyrir Kraftlyftingadeild Breiðabliks. Alexander sem keppir í klassískum kraftlyftingum í –93 kg flokki vann til bronsverðlauna á Vestur–Evrópumótinu. Þá varð hann Íslandsmeistari á árinu, setti fjölmörg Íslandsmet og náði hæsta stigaárangri íslenskra karla frá upphafi í klassískum kraftlyftingum.  

Helstu afrek ársins:
Vestur–Evrópumótið
á Íslandi í september
Þriðja sæti samanlagt – 777.5 kg – nýtt Íslandsmet
Bronsverðlaun í bekkpressu – 195 kg
Íslandsmet í réttstöðulyftu 307.5 kg

HM í klassískum kraftlyftingum á Möltu í júní
31. sæti – 720 kg

Íslandsmótið í mars
1. sæti í –93 kg flokki
Íslandsmet í réttstöðulyftu 305.5 kg

Reykjavíkurleikarnir í janúar
3. sæti í stigakeppni
Íslandsmet í réttstöðulyftu 302.5 kg

Stigaárangur
Hæsti stigaárangur íslenskra karla frá upphafi í klassískum kraftlyftingum – 101.90 IPF GL stig