Skip to content

Sóley Margrét er Evrópumeistari í kraftlyftingum.

Sóley Margrét Jónsdóttir átti gríðarlega góðan dag á Evrópumótinu í kraftlyftingum í búnaði þegar hún tryggði sér Evrópumeistaratitilinn annað árið í röð í +84 kg flokki.

Sóley byrjaði mótið af miklu öryggi og fékk allar sínar lyftur gildar í hnébeygju þar sem hún endaði með 280 kg og hlaut silfurverðlaun í greininni. Í bekkpressu vann hún svo til gullverðlauna á nýju Íslandsmeti þegar hún náði að lyfta 192.5 kg.

Þegar komið var að réttstöðulyftunni magnaðist spennan því Valentyna Zahoruik frá Úkraníu hafði einnig augastað á titlinum, þótt Sóley hefði 30 kg forskot á hana eftir tvær greinar. Í lokaumferð réttstöðunnar lyfti Sóley 205 kg og fékk silfur fyrir greinina en Valentyna reyndi við 230 kg sem hefðu dugað henni til sigurs. Ekki hafðist það hjá henni og ljóst að okkar kona var orðin Evrópumeistari í opnum flokki rétt tæplega 23 ára að aldri. Samanlagt lyfti Sóley 677.5 kg sem er jafnframt bæting um 2.5 kg á hennar eigin Íslandsmeti.

Til hamingju með stórglæsilegan árangur og verðskuldaðan titil!