Skip to content

Silfurverðlaun og tvö ný evrópumet!

  • by

Kristín Þórhallsdóttir stóð fyllilega undir væntingum á HM í dag. Hún vann silfur í -84kg flokki og kemur heim hlaðin verðlaunapeningum og nýjum metum.
Í hnébeygju tók hún 212,5-222,5-230 mjög örugglega, tvíbætti eigið evrópumet og tók silfur í greininni.
Á bekknum tók hún sömuleiðis silfur með 120kg sem er persónuleg bæting um 5kg.
Í réttstöðu tók hún 215 og 230 sem gaf henni brons í greininni og er nýtt tvöfalt íslandsmet. Í þriðju tilraun barðist hún hetjulega við 240kg en mistókst naumlega.
Samanlagt lyfti Kristín því 580kg sem tryggði henni örugglega silfurverðlaunum á eftir Amanda Lawrence. Hún tvíbætti í leiðinni evrópumetið samanlagt.
Þrenn silfurverðlaun, ein bronsverðlaun, evrópumet slegin fjórum sinnum, og fjögur ný íslandsmet er uppskera dagsins.
Við óskum Kristínu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Á leið í evrópumet. Ljósmynd: White lights media