Skip to content

Silfurverðlaun á EM og nýtt heimsmet.

  • by

Auðunn Jónsson, Breiðablik, keppti á EM í dag og vann þar silfurverðlaun í réttstöðulyftu eftir harðri atlögu að gullinu. Auðunn gerði seríuna 407,5 – 275 -357,5 = 1040,0 kg, og hafnaði í 5 sæti í flokknum. Auðunn vigtaði 137,4 kg og náði með þessu besta árangur sinn á stigum í mörg ár.
Auðunn vann silfurverðlaun í réttstöðulyftu og setti í leiðinni heimsmet í samanlögðu í flokki öldunga M1 með glæsilegu 1040,0 kg.
Beygjan og samanlagður árangur eru ný Íslandsmet.

Við fögnum þessu og óskum Auðun til hamingju með silfrið, metin og flottan árangur.

Í hnébeygju fengum við að sjá keppni aldarinnar þar sem meirihluti tilrauna voru 400+. Auðunn opnaði létt í 375,0 kg, fékk 395,0 ógilt en lét það ekki á sig fá og kláraði 407,5 kg af öryggi í þríðju umferð og setti um leið nýtt Íslandsmet.
Beygjukeppnin endaði svo með því að Carl Yngvar Christensen tók menn í kennslustund og setti nýtt heimsmet með 445,0 kg.

Á bekknum féllu margir úr keppni. Auðunn opnaði létt í 267,5 kg. Hann fékk síðan því miður ógilt 275,0 í annarri tilraun vegna tæknimistaka og endurtók þá þyngd í þriðju tilraun. Kenneth Sandvik, Finnlandi, sigraði ekki óvænt með 327,5 kg.

Í réttstöðu opnaði Auðunn létt með 332,5 kg og bað svo um 357,5 sem gaf lokatöluna 1040,0 og nýtt heimsmet í aldursflokknum.
Auðunn hafði forustu  í réttstöðulyftu fyrir síðustu umferð. Hann reyndi við 367,5 sem hefði dugað í gullið, en varð að játa sig sigraðan á síðustu centimetrunum.

Evrópumeistari í flokknum varð Carl Yngvar Christensen sem kom, lyfti og sigraði á sínu fyrsta fullorðinsmóti á nýju heimsmeti samanlagt 1135,0 kg.

Tags:

Leave a Reply