Skip to content

Silfur á lokadegi EM!

  • by

Kristín Þórhallsdóttir vann silfurverðlaun í -84kg flokki á EM í Póllandi. Hún lyfti seríuna 217,5 – 120 – 237,5 = 575 kg.
Það færði henni gull í beygju, brons í bekkpressu, silfur og ný íslandsmet í réttstöðu og silfur samanlagt. Þrátt fyrir þessa frábæru uppskeru átti Kristín ekki toppdag, sérstaklega átti hún i vandræðum við hnébeygju sem venjulega er hennar sterkasta grein og missti hún þar af dýrmætum kílóum í baráttunni við Agata Sitko sem á endanum stóð uppi sem sigurvegari. Kristín lagði allt undir í síðustu réttstöðulyftu og gerði tilraun við nýtt Evrópumet, en náði ekki að klára.
Hún átti ekki nægilega góðan dag til að ná að verja titilinn, en á “hálfslæmum” degi er silfur meira en ásættanlegt.
Við óskum Kristínu til hamingju með verðlaunin.

Aron Friðrik Georgsson keppti í -120 kg flokki og lenti þar í 17.sæti með tölurnar 300 – 192,5 – 275 = 767,5 kg.

Viktor Samúelsson keppti í -105 kg flokki á laugardag og náði 12.sætinu með 280 – 200 – 300 = 780 kg sem er svolítið frá hans besta. Viktor átti góða tilraun við 205kg í bekk sem hefði fært honum silfur í greininni og nýtt íslandsmet, en tókst ekki.

Með þessu lýkur keppnistímabilinu 2022, en landslið Íslands bæði í opnum og aldurstengdum flokkum hafa náð undraverðum árangri á árinu. Vinna er í fullu gangi við að skipuleggja verkefni næsta árs, bæði í stjórn og nefndum sambandsins og í æfingarsölum félaganna. Eins og sjá má á þessari mynd er andinn góður. Við stefnum hærra!

Tags: