Skip to content

Saga

HEIÐURSVIÐURKENNINGARKRAFTLYFTINGAFÓLK ÁRSINSIÐORÐ

Kraftaíþróttir hverskonar hafa löngum verið vinsælar á Íslandi og áhugi manna áþeim mikill.
Allt frá söguöld hefur líkamsstyrkur verið talinn til mannkosta og menn hafa reynt með sér í lyftingum. Ef ekkert annað var að hafa lyftu menn steinum, eins og nöfnin „Fullsterkur“, „Hálfsterkur“ og „Amlóði“ bera vitni um. Í mörgum fornsögum hittum við fyrir menn með viðurnefnið „sterki“ og var það virðingarheiti.

Eftir því sem næst verður komist var fyrst keppt íkraftlyftingum á Íslandi árið 1965. Þá var haldin liðakeppni milli Ármenninga og KR og skal því haldið til haga að KR-ingar sigruðu í það sinnið. Í fyrstu var íþróttin stunduð sem liður í þjálfun annarra íþróttagreina, sérstaklega af frjálsíþróttamönnum, en smátt og smátt byggðist upp aðstaða og félagsskapur þeirra sem lögðu þessa íþrótt fyrir sig sérstaklega.
ÍSÍ stofnaði lyftinganefnd árið 1969 og fullgilt sérsamband, Lyftingasamband Íslands, var stofnað 1973 og hafði það umsjón bæði með ólympískum lyftingum og kraftlyftingum. Fyrsta Íslandsmótið í kraftlyftingum var haldið 1971 og komu margir sterkir keppendur fram á næstu árum og kepptu bæði innanlands og utan.
Helst er að nefna Skúla Óskarsson sem var kjörinn íþróttamaður ársins í tvígang, þ.e. árin 1978 og 1980 og Jón Pál Sigmarsson sem hlaut þessa nafnbót 1981.
Báðir urðu þeir þjóðkunnir menn og vinsælir, bæði fyrir íþróttaafrek sín og persónuleika.
Kraftlyftingar voru stundaðar á vegum ÍSÍ fram til ársins 1985 þegar kraftlyftingamenn sögðu skilið við Lyftingasamband Íslands og stofnuðu eigin félagsskap
undir nafninu Kraftlyftingasamband Íslands (KRAFT), en utan ÍSÍ. Það samband var síðan lagt niður árið 2008 og í kjölfarið setti ÍSÍ sérnefnd fyrir kraftlyftingar á fót.
Með stofnun Kraftlyftingasambands Íslands innan ÍSÍ, þann 15. apríl 2010 öðluðust kraftlyftingar á nýjan leik sæti meðal viðurkenndra íþróttagreina í landinu

KRAFTLYFTINGASAMBAND ÍSLANDS / KRAFT er æðsti aðili kraftlyftinga á Íslandi og er hlutverk þess í meginatriðum

a. að hafa yfirumsjón og yfirstjórn allra íslenskra kraftlyftingamála,
b. að vinna að eflingu kraftlyftinga í landinu, þar með talið afreksíþrótta, hæfileikamótun
yngri íþróttamanna og almenningsíþrótta,
c. að vera í forsvari fyrir kraftlyftingar innan vébanda ÍSÍ
d. að setja íslenskum kraftlyftingum nauðsynleg lög og reglur og sjá til þess að þeim sé fylgt.
e. að löggilda dómara, þjálfa menn til dómarastarfa og veita þeim réttindi
f. að standa fyrir og úthluta kraftlyftingamótum hvort heldur um er að ræða innlend mót eða
erlend, skrá og staðfesta met sem sett eru í samræmi við reglur sambandsins og varðveita
úrslit móta,
g. að standa vörð um uppeldislegt gildi kraftlyftinga á Íslandi og vinna að framgangi
heiðarlegrar keppni í kraftlyftingum,
h. að velja einstaklinga í landslið og að tefla fram landsliði og keppendum í alþjóðlegri
keppni,
i. að koma fram erlendis fyrir hönd kraftlyftinga á Íslandi og sjá um að reglur varðandi
kraftlyftingar séu í samræmi við alþjóðareglur,
j. að starfa í samræmi við siðareglur, berjast gegn misnotkun lyfja, hagræðingu úrslita í
íþróttum og stuðla að því að ekki viðgangist ógnandi hegðun innan vébanda
kraftlyftingaíþróttarinnar.
k. að vinna að öðrum þeim málum sem varða kraftlyftingar og framþróun þeirra á Íslandi

KRAFT starfar sjálfstætt og er hlutlaust hvað varðar stjórnmál og trúarbrögð. KRAFT skal
gæta jafnréttis og jafnræðis, og skulu allir vera jafnir fyrir lögum, reglugerðum og
ákvörðunum KRAFT og nefnda á vegum sambandsins. Aðilar skulu njóta fullra réttinda án
tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

KRAFT er sérsamband innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.
KRAFT á aðild að NPF (Kraftlyftingasamband Norðurlanda), EPF (Kraftlyftingasamband Evrópu) og IPF (Alþjóða Kraftlyftingasambandið)