Skip to content

Ragnheiður og Einar Örn Íslandsmeistarar í klassískum kraftlyftingum

  • by

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (KFR) og Einar Örn Guðnason (AKR) urðu stigahæst á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem fram fór í World Class Kringlunni í gær.

Ragnheiður keppti í 57 kg flokki, þar sem hún bætti Íslandsmet í öllum þremur greinum sem og í samanlögðum árangri. Hún tvíbætti Íslandsmetið í klassískri hnébeygju með 118 kg í annarri tilraun og 120 kg í þeirri þriðju. Í annarri tilraun í bekkpressu setti hún nýtt Íslandsmet með 80,5 kg. Í réttstöðulyftu tvíbætti hún Íslandsmetið með 152,5 kg í annarri tilraun og 157,5 kg í þriðju tilraun. Samanlagður árangur hennar með 358 kg er einnig nýtt Íslandsmet. Ragnheiður hlaut 416,6 Wilksstig, rúmum 16 stigum meira en Arnhildur Anna (KFR) og er því nýr Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum kvenna á stigum.

Einar Örn keppti í 105 kg flokki, þar sem hann bætti Íslandsmetin í klassískri hnébeygju, bekkpressu og samanlögðum árangri. Með allar níu lyftur gildar lyfti hann mest 278 kg í hnébeygju, 186 kg í bekkpressu og 277,5 kg í réttstöðulyftu. Það gerir 741,5 kg í samanlögðum árangri. Hann fékk 444,5 Wilksstig, tæpum 30 stigum meira en Aron Friðrik (STJ), og er því nýr Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum karla á stigum.

Kraftlyftingafélag Reykjavíkur (KFR) sigraði í stigakeppni kvennaliða með 54 stig og Stjarnan (STJ) sigraði í stigakeppni karlaliða með 44 stig.

Í gagnabanka KRAFT má finna sundurliðuð úrslit, Íslandsmeistara í þyngdarflokkum og metaskrá mótsins.