Æfingarmót – skráning hafin

Skráning er hafin á æfingarmót KRAFT sem er haldið í Njarðvíkum 22.febrúar nk.
Skráning skal senda á [email protected] með afrit á [email protected] fyrir miðnætti 1.febrúar.

Félög þurfa að gefa upp nafn, kennitölu og þyngdarflokk keppenda og netfang og síma ábyrgðarmanns skráningar.
Keppnisgjaldið er 7000 kr og þarf að hafa borist fyrir miðnætti 8.febrúar til að skráning taki gildi . Reikningsnúmer er : 0121-26-003613 . kennitala : 711204-3770

RIG 2020

Stærsta íþróttamót ársins, Reykjavik International Games, hefst á morgunn og stendur yfir til 2.febrúar. Þetta er í 13.sinn sem leikarnir fara fram og í ár eru 23 keppnisgreinar á dagskrá og von á yfir 1000 erlendum keppendum til landsins. DAGSKRÁ

Keppnisár IPF og KRAFT hefst á klassísku boðsmóti sem fer fram í Laugardalshöllinni sunnudaginn 26.janúar og hefst kl. 10.00 Tíu konum og tíu körlum hafa verið boðin þátttaka og má kynnast þeim betur á facebooksíðu mótsins. Meðal keppenda er ríkjandi heimsmeistari kvenna í -72 kg flokki og Evrópumeistari karla í +120 kg flokki. Streymt verður frá keppninni. Kraftlyftingadeild Ármanns hefur veg og vanda af framkvæmd mótsins.

Aðgangseyrir er 1000 kr fyrir 12 ára og eldri og er hægt að kaupa miða á alla viðburði RIG hér:
Í anddyri hallarinnar verða margar íþróttagreinar með kynningar og tækifæri fyrir gesti til að spreyta sig á þeim.
Við hvetjum alla íþrótta- og kraftlyftingaáhugamenn til að nota tækifærið og njóta þessarar íþróttaveislu á staðnum eða í sjónvarpi, en mikil dagsskrá verður á RÚV frá leikjunum.

Nýárskveðja

Kraftlyftingasamband Íslands óskar félags-, stuðnings- og íþróttaáhugamönnum öllum velgengni og bætingum á nýju ári.
Þakkir fyrir samstarf og stuðning á árinu sem er að líða.

Kveðjum 2019 með myndum sem fylla okkur gleði, stolti og hvatningu til áframhaldandi daða. Koma svo!
Myndirnar eru úr myndasafni ÍSÍ

Kraftlyftingafólk ársins 2019 Photo – www.pix.is
Íþróttamaður ársins 2019 í góðum félagsskap Photo – www.pix.is

Júlían JK Jóhannsson er íþróttamaður ársins 2019

Samtök íþróttafréttamanna útnefndu í kvöld Júlían JK Jóhannsson sem íþróttamann ársins 2019. Þetta er í fjórða sinn sem kraftlyftingamaður vinnur verðlaunin en það hefur ekki gerst síðan 1981. Jón Páll Sigmarsson vann verðlaunin 1981 og Skúli Óskarsson 1978 og 1980.

Júlían hefur verið lengi í íþróttinni miðað við aldur en hann er fæddur árið 1993. Hann keppti fyrst árið 2009, fyrir 10 árum síðan. Óhætt að segja að síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann klárar þetta keppnisár með sitt annað heimsmet í réttstöðulyftunni. Vann í annað skiptið bronsverðlaun í samanlögðu á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum og það var ljóst að hann yrði sterkur valkostur í kvöld.

Þeir sem þekkja Júlían bera honum góða söguna. Kraflyftingamaður í húð og hár. Hann er hress í fasi, kíminn og hvetur fólk í kringum sig til dáða. Það er ljóst þegar litið er yfir feril hans að dropinn holar steininn. Hann hefur markvisst bætt sig ár eftir ár og sýnir okkur hinum að þar sé lykillinn að árangri.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Íþróttamaður ársins 2019 með 405,5kg í höndunum – Mynd frá Þóru Hrönn

Félagsskipti

Nýtt keppnistímabil hefst eftir nokkra daga og nota menn gjarnan þennan tímapunkt til að skrá félagsskipti.
Við viljum benda á að um félagsskipti gilda ákveðnar reglur og hvetja menn til að kynna sér og fara eftir þeim svo allt gangi fljótt og vel fyrir sig.
http://kraft.is/um-kraft/reglur/

Landsliðsval 2020

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur samþykkt tillögu landsliðsnefndar að verkefnum fyrir árið 2020. Nokkrir keppendur hafa ennþá tækifæri til að ná lágmörkum og bætast vonandi í hópinn. Endanlegt val fyrir Vestur-Evrópukeppnina í september fer fram að loknum íslandsmeistaramótunum í mars og apríl.
Í júni verður valið fyrir seinni hluta ársins endurskoðað og endanlega ákveðið.
Fundur með landsliðsmönnum verður haldinn 7.janúar nk. .

Mars – EM öldunga í klassískum kraftlyftingum
Sigþrúður Erla Arnardóttir
María Guðsteinsdóttir
Apríl – HM öldunga í kraftlyftingum/klassískum kraftlyftingum
María Guðsteinsdóttir
Halldór Eyþórsson
Sigþrúður Erla Arnardóttir
Maí – EM i kraftlyftingum
Sóley M Jónsdóttir
Hulda B Waage
Viktor Samúelsson
Júlían J K Jóhannsson
Alex Cambray Orrason
Þorbergur Guðmundsson
Mai – EM unglinga í kraftlyftingum
Guðfinnur Snær Magnússon
Karl Anton Löve
Maí – HM í bekkpressu
Hulda B Waage
Maí – HM unglinga í klassískri bekkpressu
Marcin Ostrowski
Matthildur Óskarsdóttir
Alexandrea Rán Guðnýjardóttir
Maí – HM öldunga í klassískri bekkpressu
Laufey Agnarsdóttir
Júlí – EM öldunga í kraftlyftingum
María Guðsteinsdóttir
Halldór Eyþórsson
Ágúst – EM unglinga í klassískri bekkpressu
Eggert Gunnarsson
Marcin Ostrowski
Alexander Örn Kárason
Matthildur Óskarsdóttir
Alexandrea Rán Guðnýjardóttir
Ágúst – EM öldunga í klassískri bekkpressu
Laufey Agnarsdóttir
Ágúst – HM unglinga í kraftlyftingum
Sóley M Jónsdóttir
Karl Anton Löve
September – Vesturevrópumótið í kraftlyftingum/klassískum kraftlyftingum
Verður endanlega valið eftir íslandsmeistaramótin í mars/apríl
Oktober – Norðurlandamót unglinga
Verður endanlega valið í júni
Oktober – HM öldunga í kraftlyftingum
María Guðsteinsdóttir
Oktober – EM í bekkpressu
Viktor Samúelsson
Hulda B Waage
Oktober – EM öldunga í bekkpressu
María Guðsteinsdóttir
Nóvember – HM í kraftlyftingum
Sóley M Jónsdóttir
Viktor Samúelsson
Hulda B Waage
Júlían J K Jóhansson
Nóvember – EM í klassískum kraftlyftingum
Ingvi Örn Friðriksson
Nóvember – EM unglinga í klassískum kraftlyftingum
Börkur Kristinsson

Kraftlyftingafólk ársins 2019

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið kraftlyftingakonu og kraftlyftingakarl ársins 2019 og urðu fyrir valinu þau Sóley Margrét Jónsdóttir, KFA og Júlían J. K. Jóhannsson, Ármanni.

Sóley Margrét er fædd 2001 og er nú í fyrsta sinn valin kraftlyftingakona ársins. Frá því hún byrjaði að keppa í kraftlyftingum hefur verið greinilegt að hún er gífurlega efnilegur keppandi og á framtíðina fyrir sér.
Sóley lýkur sínu síðasta keppnistímibili í stúlknaflokki 18 ára og yngri í ár, en í þeim aldurshópi hefur hún haft mikla yfirburði og er rikjandi Heims- og Evrópumeistari í +84 kg flokki. Hún setti á árinu heimsmet stúlkna í hnébeygju með 265,5 kg. Hún varð Íslandsmeistari og bikarmeistari í opnum flokki á árinu 2019 en hún keppir í +84 kg. flokki og á öll Íslandsmet í kraftlyftingum í flokknum.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sóley náð afrekslágmörkum í opnum flokki og keppti á HM í Dúbai í nóvember 2019 þar sem hún hafnaði í 7.sæti í sínum flokki. Árangur hennar hefur tryggt henni 7. sæti á heimslista Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +84kg. flokki.

Júlían J K Jóhannsson er fæddur 1993 og er nú í fimmta sinn valinn kraftlyftingamann ársins, en hann hefur haslað sér völl sem einn af sterkustu keppendum heims í +120 kg flokki.
Júlían vann bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur á heimsmeistaramóti í Dubai í nóvember sl. en þar bætti hann jafnframt sitt eigið heimsmet í réttstöðulyftu með 405,5 kg. og tryggði sér gullverðlaun í greininni. Heildarþyngdin sem Júlían lyfti á heimsmeistaramótinu voru 1148 kg. en það er mesta þyngd sem íslenskur kraftlyftingamaður hefur lyft. Í maí sl. hlaut Júlían silfurverðlaun á Evrópumeistarmóti fyrir samanlagðan árangur en hlaut þar einnig gull í réttstöðu. Hann lýkur í ár sínu þriðja keppnistímabili í opnum flokki og er í þriðja sæti á heimslista Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +120kg. flokki.

.

Ingvi og Birgit hafa lokið keppni

Eins og eflaust allir vita þá er EM í klassískum kraftlyftingum í fullum gangi í Kaunas, Litháen. Síðustu tveir íslensku keppendurnir stigu á keppnispallinn í dag, Ingvi Örn og Birgit Rós.

Ingvi Örn Friðriksson

Ingvi Örn hefur síðastliðin ár verið með sterkustu lyfturum í klassískum kraftlyftingum og keppir hann í -105kg flokki karla. Ingvi opnaði í 257,5kg í hnébeygjunni sem fór léttilega upp og var hún dæmd gild. Í annarri tilraun fór hann í 267,5kg sem fór létt upp en var því miður dæmd af. Í þriðju tilraun tók hann 267,5kg aftur án vandræða og var þessi dæmd gild. Í bekkpressunni opnaði hann í 150kg sem flugu upp. Þá fór hann í 160kg en það gekk brösulega og endaði hann því með 150kg í bekkpressunni. Í réttstöðulyftunni opnaði hann í 285kg sem hann lyfti örugglega og bað því næst um 297,5kg á stöngina. Sú lyfta gekk mjög vel, þrjú hvít ljós. Þá bað hann um 307,5kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet. Því miður fór sú lyfta ekki upp í dag. Ingvi lokaði því mótinu með 715kg í samanlögðu og 14. sætið í flokknum.

Birgit Rós Becker

Birgit Rós keppir í -84kg flokki kvenna. Hún tók sér frí frá keppni 2018 og hefur núna komið aftur inn í íþróttina árið 2019 um borð í bætingarlestinni. Birgit opnaði í léttum og öruggum 162,5kg í hnébeygjunni. Í annarri lyftu fór hún í 172,5kg sem fór upp en lyftan var því miður dæmd af. Þá var lítið annað í stöðunni en að taka 172,5kg aftur í þriðju tilraun sem gekk svona þvílíkt vel og setti hún þar með íslandsmet sem er einnig þyngsta hnébeygja sem íslensk kona hefur tekið í klassískum kraftlyftingum. Í bekkpressunni átti Birgit góðan dag, hún opnaði í 80kg lyftu sem var góð og gild. Þá fór hún í 85kg sem var 2,5kg yfir hennar besta og lyfti hún henni auðveldlega. Í þriðju lyftu lyfti hún svo 87,5kg án vandræða og því með 5kg bætingu á bekkpressunni. Í réttstöðulyftunni opnaði hún í 160kg sem var dæmd gild. Í annarri lyftu fór hún í persónulega bætingu og lyfti þar 172,5kg. Í þriðju lyftunni fór hún svo í 177,5kg en það reyndist of þungt í dag. Hún kláraði því keppnina með 432,5kg í samanlögðu sem er nýtt íslandsmet og tók einnig 11. sætið í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Ingvi Örn og Arna Ösp í góðum anda!
Birgit Rós alsæl með mjög góðan keppnisdag!
Íslenski hópurinn á EM í hrikalegum anda. Frá vinstri: Grétar Hrafnsson, Birgit Rós, Arna Ösp, Ingvi Örn, Friðbjörn Bragi, Hannes Hólm, Halldór Jens og íþróttastjóri Kraft, Auðunn Jónsson

Þar með lýkur þátttöku Íslands á EM í klassískum kraftlyftingum. Kraft þakkar öllum sem fylgdust með!

Arna og Friðbjörn hafa lokið keppni

EM í klassískum kraftlyftingum er í fullum gangi í Kaunas, Litháen. Tveir Íslendingar kepptu í dag, þau Arna Ösp Gunnarsdóttir og Friðbjörn Bragi Hlynsson.

Arna Ösp Gunnarsdóttir

Arna Ösp keppti í -63kg flokki kvenna. Það var hörð samkeppni og voru 22 keppendur skráðir í flokkinn. Arna fékk ógilda fyrstu hnébeygjuna 132,5kg þannig að hún tók aftur sömu þyngd og lyfti því af miklu öryggi. Þá fór hún í 140kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet og sigldi hún því örugglega í höfn. Þá var komið að bekkpressunni og opnaði hún þar í 77,5kg, gott og gilt. Í annarri lyftu bað hún um 82,5kg á stöngina sem hún lyfti og var það persónuleg bæting. Í þriðju tilraun reyndi hún við 85kg sem því miður tókst ekki í dag. Í réttstöðulyftunni er Arna á heimavelli og opnaði hún þar í 165kg sem fóru upp með hvítum ljósum. Þá bað hún um 177,5kg á stöngina og freistaði þar með að setja nýtt íslandsmet í réttstöðulyftu. Lyftan fór upp góð og gild. Í síðustu tilraun ákvað hún að reyna við 182,5kg en það tókst því miður ekki. Þetta gaf henni 400kg í samanlögðu sem er einnig nýtt íslandsmet, 3. íslandsmet í höfn og 13. sætið í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Friðbjörn Bragi Hlynsson

Friðbjörn Bragi hefur komið sterkur inn í íþróttina á þessu ári og tók hann í dag þátt á sínu fyrsta EM. Hann keppti í -83kg flokki karla. Hann opnaði í 225kg í hnébeygjunni sem var ógild og tók hann því lyftuna aftur í annarri tilraun og fékk hann hana gilda þar. Þá var beðið um 240kg á stöngina og farið í tilraun við íslandsmet sem hann lyfti af miklu öryggi og var lyftan dæmd gild, nýtt íslandsmet í hús. Í bekkpressunni opnaði Friðbjörn í 150kg örugglega. Í annarri var það eins og lyfti hann 155kg þar. Í þriðju tilraun lyfti hann svo 160kg og kláraði því með þrjár gildar af þrem í bekknum. Í réttstöðulyftunni opnaði hann í 265kg sem var gild. Þá reyndi hann tvisvar við 277,5kg sem hefði verið nýtt íslandsmet en því miður missti hann stöngina í annarri tilraun og í þeirri þriðju þótti hún ekki vera nógu vel læst. Þetta gaf honum þó 665kg í samanlögðu sem er jöfnun á íslandsmetinu hans og kláraði hann í 16. sæti.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum til hamingju með árangurinn!

Friðbjörn Bragi (t.v.), Hannes Hólm og Arna Ösp í góðum gír fyrir mót.

Kraftlyftingasambandið hvetur svo alla til að fylgjast með Ingva og Birgit keppa á morgun. Tímasetningar og hlekki á beina útsendingu má sjá í fréttinni sem var birt í fyrradag.