Sóley Margrét með gull á EM í Pilsen

Sóley Margrét Jónsdóttir vann gull í +84kg flokki í dag á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Hún mætti til keppni í góðum anda og það sást svo sannarlega á keppnispallinum. Hún kláraði beygjuna með 232,5kg beygju sem er nýtt evrópumet í stúlknaflokki. Í bekkpressu lyfti hún 115kg og svo lauk hún mótinu með 200kg réttstöðulyftu. Þetta gaf henni 547,5kg í samanlögðu sem er persónuleg bæting og gullið í hennar flokki. Sóley kom einnig heim með gullið í fyrra og það er frábær árangur að ná því tvö ár í röð.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með titilinn og metið!

Evrópska kraftlyftingasambandið deildi myndskeiði af evrópumetslyftunni hennar Sóleyjar og má sjá það hér: Tengill á myndband

Sóley með 232,5kg á bakinu.

Kara keppir á morgun

Kara Gautadóttir keppir á EM unglinga í fyrramálið. Hún keppir í -57 kg flokki 23 ára og yngri, en Kara er fædd 1996.
Kara á best 153-85-147,5-365 og stefnir á að bæta sig.
Hér má sjá lista yfir keppendur: https://goodlift.info/onenomination.php?cid=447

Keppnin hefst kl. 10.00 að staðartíma, en kl. 08.00 á íslenskum tíma og er hægt að fygljast með hér https://goodlift.info/live.php

Við óskum Köru alls góðs!

ÍM unglinga og öldunga – skráning hafin

Skráning er hafin á aldurstengdu Íslandsmeistaramótin í kraftlyftingum og bekkpressu í búnaði. Mótin fara fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi helgina 9. og 10. júni nk. í umsjón Kraftlyftingafélags Akraness.
Skráningarfrestur á kraftlyftingamótið er til 19.mai en á bekkpressumótið til 20.maí.

Skráning á kraftlyftingamótið: imungold18_skraning

Skráning á bekkpressumótið: imungoldbp18_skraning

Sóley keppir á morgun

Sóley Margrét Jónsdóttir er fyrsti íslenski keppandinn sem stígur á stokk á EM sem nú er að hefjast í Tékklandi. Hún keppir á morgun sunnudag í +84 kg flokk kvenna 18 ára og yngri, en Sóley er fædd 2001 og á best 235 – 117,5 – 210 – 545,5 kg.

Sóley varð Evrópumeistari í þessum flokki í fyrra og ætti að verja þann titil í ár, en tveir keppendur eru skráðir til leiks og hún lang öflugust.

Svo er aldrei að vita hvort Sóley reynir við alþjóðamet en á góðum degi gæti hún átt möguleika t.d. á evrópumetið í hnébeygju.
Við óskum henni góðs gengis, en hægt er að fygjast með keppninni sem hefst kl. 9.00 að staðartíma,(07.00 hjá okkur), hér http://goodlift.info/live.php 

Þing EPF

EPF, European Powerlifting Federation, heldur ársþing sitt í tengslum við EM í Pilsen. Fulltrúi KRA á þinginu er stjórnarmaðurinn Aron Friðrik Georgsson.
Dagskrá þingsins

Meðal þess sem þingið tekur fyrir er ósk Kraftlyftingasambands Íslands um að Western European Championships 2020 fari fram á Íslandi.

EM í kraftlyftingum að hefjast

Dagana 6.-12.maí fer fram Evrópumótið í Kraftlyftingum í búnaði í Pilsen í Tékklandi.
Að þessu sinni senda Íslendingar sjö keppendur á mótið og eru það; Sóley Margrét Jónsdóttir, Kara Gautadóttir, Karl Anton Löve, Guðfinnur Snær Magnússon, Hulda B. Waage, Viktor Samúelsson og Júlían J.K. Jóhannsson.
Sóley Margrét keppir í stúlknaflokki, Kara, Karl Anton og Guðfinnur í unglingaflokki, en Hulda, Júlían og Viktor í opnum flokki.
Sturlaugur Gunnarsson alþjóðadómari mun dæma á mótinu.

Að sjálfsögðu verður hægt að fylgjast með mótinu og verða beinar útsendingar á youtube rás EPF,
Hér má einnig nálgast tímatöfluna svo hægt sé að fylgjast með hvenær þátttakendur okkar hefja keppni.
Keppendur í karlaflokkum  –  Keppendur í kvennaflokkum
Við óskum þeim öllum góðs gengis og komum með fréttir af gengi okkar fólks á meðan á mótinu stendur.

Byrjendamót og dómarapróf – Úrslit

Byrjendamót og dómarapróf Kraft voru haldin í gær í Reykjanesbæ í húsnæði Massa Njarðvík. Þetta mót er haldið árlega og er góður staður fyrir einstaklinga til að kynnast því hvernig er að keppa í kraftlyftingum.

Í karlaflokki var stigahæstur Björn Margeirsson frá Ármanni með 407 wilks stig en Björn keppir í -74kg flokki og var með 562,5kg í samanlögðu.

Í kvennaflokki var stigahæst María Petra Björnsdóttir frá Kraflyftingafélagi Ólafsfjarðar. Hún lauk mótinu með 302 wilks stig en María keppir í -63kg flokki og var með 275kg í samanlögðu.

Kraft óskar öllum keppendum til hamingju með árangur sinn. Margir að stíga sín fyrstu skref og sjáum við þau vonandi á fleiri mótum í komandi framtíð.

Heildarúrslit mótsins

Einnig lauk Arthur Bogason dómaraprófi á mótinu. Kraft óskar honum til hamingju með prófið. Það er ómögulegt að halda mót án dómara og því alltaf ánægjulegt þegar það fjölgar í hópi þeirra.

Nýr íþróttastjóri KRAFT

Kraftlyftingasamband Íslands réð á dögunum Viðar Bjarnason í starf íþróttastjóra. Viðar er 39 ára gamall reykvíkingur og er með bakkalárgráðu í Íþróttastjórnun (Sports Management). Hann lærði við KNORTH í Kaupmannahöfn og snerist námið m.a. um stjórnun og rekstur íþróttafélaga. Viðar var nemi hjá danska blaksambandinu og í gegnum það kom hann að skipulagningu EM í blaki sem Danmörk og Pólland sáu um að halda.

Viðar Bjarnason, íþróttastjóri KRAFT

Viðar flutti aftur heim til Íslands 2012 og hóf þá störf hjá  Knattspyrnufélaginu Val sem íþróttafulltrúi. Hann sinnti því starfi til ársins 2015 og fór þá að vinna á öðrum sviðum. Hann segir þó að hugurinn hafi ávallt leitað til íþróttanna, enda hafi hann mikinn áhuga á líkamsrækt, íþróttum og almenni hreyfingu.

Með því að Kraftlyftingasambands Íslands var skilgreint sem afrekssamband innan ÍSÍ þá hefur sambandið unnið markvisst að því að bæta starfið og umgjörðina. Ráðning Viðars í starf íþróttastjóra er næsta stig í áframhaldandi starfi sambandsins. Verkefnum hefur fjölgað með fjölgun keppenda og því er mikilvægt að fá inn aðila til að halda utan um þau og sjá um samskipti við þau alþjóðasamböndin sem KRAFT er hluti af. Ber þar að nefna Kraftlyftingasamband Norðurlandana (NPF), Kraftlyftingasamband Evrópu (EPF) og Alþjóðlega Kraflyftingasambandið (IPF). Auðvitað líka ÍSÍ.

Kraftlyftingasamband Íslands býður Viðar hjartanlega velkominn til starfa.

 

ÍM í klassískum kraftlyftingum – Úrslit

Íslandsmót í klassíkum kraftlyftingum var haldið í dag af Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur. 32 keppendur mættu til leiks, 20 karlar og 12 konur. Nokkur íslandsmet féllu og var andinn góður í húsinu.

Í kvennaflokki sigraði Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur með 417,7 wilks stig sem er hennar besti árangur. Hún tók 126kg í hnébeygju, 81,5 í bekkpressu og 152,5 réttstöðulyftu sem gaf henni 360kg í samanlögðu en hún keppir í -57kg flokki. Hún átti einnig bestu bekkpressu og réttstöðulyftu á mótinu. Gengur hún frá mótinu með íslandsmet í öllum greinum.

Ellen Ýr Jónsdóttir úr Breiðablik átti svo þyngstu hnébeygjuna og hún lyfti þar 167,5kg en hún keppir í -84kg flokki.

Í karlaflokki sigraði Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Ármanni með 473,2 wilks stig. Hann tók 315kg í hnébeygju, 200kg í bekkpressu og 355kg í réttstöðulyftu sem gaf honum 870kg í samanlögðu en hann keppir í +120kg flokki. Hann átti einnig bestu hnébeygjuna og réttstöðulyftuna.

Einar „Loftpressan“ Guðnason frá Akranesi átti svo þyngstu bekkpressuna en hann kláraði mótið með 186,5kg bekkpressu sem er nýtt íslandsmet í -105kg flokki.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn! Kraflyftingafélag Reykjavíkur fær þakkir fyrir mótshald.

Full úrslit má nálgast hér:

Full úrslit

Stigahæsta liðið í flokki kvenna var Kraftlyftingafélag Reykjavíkur

Stigahæsta liðið í flokki karla var Stjarnan