Landsliðsval 2020 og Vestur-Evrópukeppnin

Stjórn KRAFT hefur samþykkt tillögu landsliðsnefndar að verkefnum fyrri hluta árs 2020 og verður það birt á næstu dögum. Haft verður samband við landsliðsmenn í framhaldinu, en upplýsingafundur með undirritun samninga verður haldinn 7.janúar nk.

Vestur- Evrópu keppnin mun fara fram á Íslandi í september 2020 og hefur stjórn tekið undir tillögu landsliðsnefndar um að fjölmenna á það mót og manna full lið.
C- lágmörk gilda venjulega á mótin og allir sem hafa náð þeim og að öðru leyti uppfylla skilyrði hafa keppnisrétt á mótið.
Landsliðsnefnd mun leggja lágmörkin til hliðar og bjóða fleirum þáttöku og verður þá tekið mið af árangri manna á ÍM í mars og ÍM í klassískum í apríl. Þeir sem hafa áhuga á að vera með í september ættu þess vegna að setja markið fyrst á Íslandsmeistaramótin í vor, en endanlegt val fer fram að þeim loknum.
Stefnan er að gera góða hluti á WEC 2020!

Afreksbúðir ÍSÍ

Afreksbúðir ÍSÍ fóru fram laugardaginn 23. nóvember sl. í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, en rúmlega þrjátíu ungmenni frá 9 sérsamböndum tóku þátt. Meðal þeirra voru fjórir ungir kraftlyftingaiðkendur, þau Fannar, Börkur, María og Ronja. Með þeim var Lára Bogey Finnbogadóttir, nýútskrifaður kraftlyftingaþjálfari IPF level 2.
Þau tóku virkan þátt í starfinu, miðluðu af sinni reynslu og lærðu af öðrum.
Hér má lesa meira.

Júlían og Sóley hafa lokið keppni – Gull í hús

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum kláraðist í dag. Keppnin var haldin þetta árið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Sóley Margrét Jónsdóttir og Júlían JK Jóhannsson mættu á keppnispallinn í dag og sýndu hvað í sér bjó.

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley Margrét mætti í fínum anda í keppnina en hún keppir í +84kg flokki. Hún opnaði í 260kg lyftu í hnébeygjunni sem er aðeins 5,5kg undir heimsmetinu hennar. Hún reyndi svo við 272,5kg og 275kg en því miður voru báðar lyfturnar dæmdar ógildar. Í bekkpressunni opnaði hún í 145kg og tók þar þrjár gildar lyftur með seríuna 145-150-155. Þá var bara að réttstöðulyftan eftir og kláraði hún þar með 197,5kg. Þetta gaf henni 612,5kg í samanlögðu og 7. sætið í flokknum. Glæsilegur árangur þar og augljóst að Sóley á eftir að láta fyrir sér finna á komandi árum en hún er rétt að klára stúlknaflokkinn!

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson

Júlían Jóhann Karl mætti svo á keppnispallinn í síðasta holl keppninnar, +120kg flokkinn. Andinn var góður og var okkar maður í bætingarhug. Júlían opnaði í beygjunni í 392,5kg og var hún góð og gild. Þá fóru 412,5kg á stöngina og lyfti hann því af miklu öryggi. Persónuleg bæting hjá honum og jöfnun á íslandsmeti. Hann sleppti þá þriðju tilraun, líklega til að spara orku í bekkpressuna og réttstöðuna. Hann opnaði bekkpressuna í 307,5kg og kláraði með þrjár gildar lyftur þar. 307,5kg – 320kg – 330kg sem er 15kg bæting á íslandsmetinu. Þá var komið að réttstöðulyftunni sem hefur verið sérgrein hans. Hann opnaði í “léttum” 370kg þar, góð og gild. Þá var lítið annað í stöðunni en að bæta heimsmetið sitt með 405,5kg sem hann gerði af miklu öryggi, nýtt heimsmet og gullið gulltryggt í réttstöðulyftunni. Í síðustu lyftu mótsins bað hann um 420,5kg á stöngina og virtist hún ætla upp en því miður fór hún ekki alla leið. Þetta gaf honum 1148kg í samanlögðu og bronsverðlaunin í flokknum annað árið í röð! Þess má geta að íslandsmetið í samanlögðu var 1115kg og er þetta því umtalsverð bæting á því.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían (í miðjunni) með gullpening um hálsinn fyrir heimsmetalyftuna.
Júlían (til hægri) með bronsið um hálsinn. Gullið fór til Blaine Sumner og silfrið til Andrei Konovalov
Íslenski hópurinn ásamt fulltrúa frá SAF. Frá vinstri: Sigurjón Pétursson, Auðunn Jónsson, Júlían JK Jóhannsson, óþekkti fulltrúinn, Guðfinnur Snær Magnússon, Sóley Margrét Jónsdóttir, Hulda B. Waage, Grétar Skúli Gunnarsson og Viktor Samúelsson
Júlían ásamt Auðuni Jónssyni íþróttastjóra Kraft

Hulda og Viktor hafa lokið keppni

HM í kraftlyftingum er enn í fullum gangi í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Í dag stigu á keppnispallinn tveir Íslendingar, þau Hulda B. Waage og Viktor Samúelsson.

Hulda B. Waage

Hulda B. Waage var í fyrra hollinu í dag og keppti hún í -84kg flokki. Í beygjunni opnaði hún í 210kg en lyftan fór því miður ekki upp. Hún reyndi þá aftur við 210kg og stóð sannfærandi upp með lyftuna en hún var því miður dæmd af vegna tæknigalla. Í þriðju þyngdi hún um 5kg og reyndi við 215kg en lyftan gekk því miður ekki. Hún datt því miður út úr keppni í samanlögðu. Hún hélt þó áfram og lyfti 137,5kg í bekkpressunni. Hulda mætti svo fílefld í réttstöðulyftuna og kláraði þar með 172,5kg lyftu.

Viktor Samúelsson

Eftir hádegi var komið að -120kg karla og þar mætti Viktor Samúelsson til leiks. Hann opnaði í 360kg í hnébeygjunni sem fór upp en var því miður dæmd ógild. Hann fór þá í 365kg og kláraði þá lyftu gilda og góða. Í bekknum reyndi hann við 290kg þrisvar sinnum og lyfti hann því alla leið tvisvar en því miður var engin af þeim dæmd gild. Þar með datt hann út úr keppninni í samanlögðu. Viktor lét það ekki á sig frá og mætti í deddið fullur af anda. Þar lyfti hann 320kg og stóð svo upp með tilraun við nýtt íslandsmet 340kg en því miður var hún dæmd ógild.

Svona er þetta stundum. Það var langt ferðalag til Dubai og búnaðarlyftingar eru alltaf óútreiknanlegar sem er hluti af fjörinu. Hulda og Viktor koma án efa tvíefld til baka.

Við hvetjum alla að fylgjast með Sóley og Júlíani á morgun. Sóley lyftir kl. 07:00 á íslenskum tíma og Júlían kl. 09:00. Bein útsending verður HÉR. Þau sem ætla að horfa í tölvu verða að slökkva á öllum “Ad blocker” forritum svo að Olympic Channel útsendingin virki rétt.

Heimsmeistaramótið er hafið

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum hófst á mánudaginn og er það haldið þetta árið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Ísland sendir að þessu sinni fjóra keppendur á heimsmeistaramótið.

Hulda B. Waage

Hulda B. Waage keppir núna í fyrsta sinn á HM. Hún er þaulreyndur keppandi og er hún með nokkur evrópumeistaramót undir beltinu. Það verður gaman að sjá hvernig mun ganga. Hulda hefur keppni í -84kg flokki klukkan 06:00 á föstudaginn. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR

Viktor Samúelsson

Viktor Samúelsson tekur þátt á HM í fjórða sinn á HM og keppir hann í -120kg flokki. Viktor hefur einnig undir beltinu nokkur ervrópumeistaramót og heimsmeistaramót unglinga. Mikil reynsla mun vafalaust skila sér á keppnispallinn og mun hann hefja keppni kl. 13:00 á föstudaginn. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley er að mæta á sitt annað heimsmeistaramót í opnum flokki sem er ótrúlegur árangur miðað við hún er í enn stúlknaflokki. Sóley er núverandi heimsmeistari stúlkna í +84kg flokki og evrópumeistari einnig. Sóley er því til alls líkleg. Hægt verður að fylgjast með henni í beinni kl. 7:00 á laugardaginn HÉR

Júlían JK Jóhannsson

Júlían er að mæta á HM í fjórða sinn og mun hann keppa í +120kg flokki. Júlían er núverandi heimsmethafi í réttstöðulyftunni og hefur hann tekið gullið í greininni oftar en einu sinni. Hann er í góðum anda og verður spennandi að sjá hann keppa. Hann mun stíga á keppnispallinn klukkan 09:00 á laugardaginn og verður hægt að fylgjast með HÉR

Kraftlyftingasamband Íslands óskar öllum keppendum góðs gengis á HM og vonar auðvitað að medalíur muni berast heim með keppendum!

ATH: Breyting var gerð á keppnisáætlun og mun Hulda því keppa kl. 6:00 ekki 7 eins og var áætlað.

ÍM ungmenna og öldunga – ÚRSLIT

ÍM ungmenna og öldunga í kraftlyftingum og klassískum kraftlyftingum fóru fram um helgina. Mótin voru haldin af Kraflyftingafélagi Akureyrar og fóru fram í húsnæði þeirra. 21 keppandi mætti um helgina og settu sumir íslandsmet og aðrir persónuleg met. Full úrslit má sjá hér fyrir neðan.

ÚRSLIT

ÚRSLIT ÍM UNGMENNA OG ÖLDUNGA Í KLASSÍSKUM KRAFTLYFTINGUM

ÚRSLIT ÍM UNGMENNA OG ÖLDUNGA Í KRAFTLYFTINGUM

RIG 2020 – keppendur

Reykjavíkurleikarnir, Reykjavik International Games, verða haldnir í 13.sinn dagana 23.janúar – 2 febrúar 2020. Kraftlyftingamótið verður á sínum stað sunnudaginn 26.janúar í Laugardalshöllinni. Mótið er haldið af kraftlyftingadeild Ármanns og Kraftlyftingasambandi Íslands og í samstarfi við Lyftingasamband Íslands.
Keppt verður á IPF-stigum og tíu karlar og tíu konur mæta til leiks.
Konur
Kimberly Walford
Danielle Todman
Arna Ösp Gunnarsdóttir
Ragheiður Kr Sigurðardóttir
Birgit Rós Becker
Kristín Þórhallsdóttir
Sigþrúður Erla Arnardóttir
Hildur Hörn Orradóttir
Þórunn Brynja Jónasdóttir
María Guðsteinsdóttir
1.varamaður: Íris Rut Jónsdóttir

Karlar
Slim Rast
Júlían JK Jóhannsson
Ingvi Örn Friðriksson
Friðbjörn Bragi Hlynsson
Viktor Samúelsson
Alexander Örn Kárason
Aron Friðrik Georgsson
Muggur Ólafsson
Þorsteinn Ægir Óttarsson
Sindri Freyr Arnarson
1.varamaður: Einar Örn Guðnason

Dómarar á mótinu verða Helgi Hauksson, Per-Øyvind Fjeld, Sabine Zangerle, Richard Parker, Lars-Göran Emmanuelsson, Ása Ólafsdóttir og Sturlaugur Gunnarsson.

ÍM – tímaplan

Íslandsmeistaramót unglinga og öldunga í kraftlyftingum og klassískum kraftlyftingum fara fram á Akureyri 16.nóvember nk.að Austursíðu 2.
Skipt verður í tvö holl – konur og karlar.

Vigtun hefst kl. 9.30 en keppni kl 11.30.