Evrópumeistaramótið hefst á morgun

Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum í opnum flokki og ungmennaflokkum hefst á morgun og stendur yfir til 14. maí. Mótið er haldið í Málaga á Spáni.

Sjö Íslendingar munu keppa, og þar af fjórir í opnum aldursflokki. Keppendurnur eru:

Sóley Jónsdóttir, sem keppir í +84 kg flokki telpna. Sóley er sú fyrsta til að stíga á keppnispallinn, en keppni í öllum þyngdarflokkum telpna hefst kl. 8:00 á mánudag; Kara Gautadóttir, sem keppir í -57 kg unglinga. Keppni í hennar þyngdarflokki hefst kl. 09:00 á þriðjudaginn; Guðfinnur Snær Magnússon, sem keppir í +120 kg fl. unglinga. Hann hefur keppni kl. 12:30 á miðvikudaginn; Hulda B. Waage, sem keppir í -84 kg fl., og Árdís Ósk Steinarsdóttir, sem keppir í +84 kg fl, hefja keppni kl. 09:00 á laugardaginn; Viktor Samúelsson, sem keppir í -120 kg fl., og Júlían J. K. Jóhannsson, sem keppir í +120 kg fl. hefja keppni kl. 10:30 á sunnudaginn.

Nánari upplýsingar og bein útsending með úrslitum

Bein útsending:

ÍM í kraftlyftingum – úrslit

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum í opnum og aldurstengdum flokkum lauk fyrir stundu í Smáranum í Kópavogi.
Mótið var fámennt að þessu sinni, en lið KFA frá Akureyri var fjölmennt og unnu til flestra verðlauna.
Stigameistarar i opnum flokki urðu Hulda B. Waage og Viktor Samúelsson, bæði frá KFA.
Stigameistarar í unglingaflokki urðu Þuríður Kvaran Guðmundsdóttir og Þorsteinn Ægir Óttarsson, bæði frá KFA
Stigameistari í öldungaflokki var Jóhan Tómas Sigurðsson, KFR.
Þó nokkur íslandsmet voru sett á mótinu.

HEILDARÚRSLIT:
ÍM í opnum flokki:
http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-i-kraftlyftingum-2017
IM unglinga og öldunga
http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-ungmenna-og-oldunga-i-kraftlyftingum-2017

Matthildur með brons á HM í klassískri bekkpressu

Matthildur Óskarsdóttir (KFR) lauk fyrr í dag keppni á HM í klassískri bekkpressu. Þar keppti hún í 72 kg telpnaflokki og fór örugglega í gegn með allar þrjár lyftur. Hún lyfti 75 kg í fyrstu tilraun og setti svo nýtt Íslandsmet telpna með 77,5 kg í annarri tilraun. Matthildur bætti svo um betur í þriðju tilraun og lyfti 80 kg. Hún hafnaði í þriðja sæti í flokknum, en sigurvegarinn varð Kloie Doublin frá BNA með 102,5 kg.

Þessi glæsilegi árangur Matthildar lofar góðu fyrir næsta mót, sem er HM í klassískum kraftlyftingum í maí.

Við óskum Matthildi til hamingju með árangurinn!

HM í klassískri bekkpressu hófst í dag

Merki HM í klassískri bekkpressu 2017Heimsmeistaramótið í klassískri bekkpressu hófst í dag með keppni í öldungaflokkum. Mótið er haldið í bænum Killeen í Texas og stendur yfir dagana 17. til 22. apríl.

Í landsliðsvali Íslands fyrir mótið er að þessu sinni einn keppandi, Matthildur Óskarsdóttir. Hún keppir í 72 kg telpnaflokki (U18). Keppni í þeim flokki og öðrum þyngdarflokkum telpna fer fram fimmtudaginn nk. 20. apríl og hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Bein útsending, keppendalistar og tímatafla á Goodlift

Formannafundur

Stjórn KRAFT hefur boðað til fundar með formönnum aðildarfélaga föstudaginn 21.apríl nk kl.18.00 í húsi ÍSÍ í Laugardal.
Formaður eða staðgengill hans á rétt á fundarsetu smbr reglum um formannafundi.
Aðalefni fundarins eru afreksmálin, en stjórnin mun leggja fram nýja afreksstefnu 2017 – 2025.
Staðfestið gjarnan komu á netfangið [email protected]

ÍM í kraftlyftingum – Tímasetningar

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum og Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í kraftlyftingum fara fram í Smáranum, Kópavogi, 22. apríl og hefst keppni kl. 11:00.

Facebook-viðburður fyrir mótin.

Tímasetningar og skipting í holl:

Holl 1: Allir þyngdar- og aldursflokkar kvenna
Holl 2: Allir þyngdar- og aldursflokkar karla

Vigtun holl 1 og 2: 09:00
Keppni holl 1 og 2: 11:00

Dómarar

Helgi Hauksson
Kári Rafn Karlsson
María Guðsteinsdóttir
Solveig H. Sigurðardóttir

Keppendur

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum
Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í kraftlyftingum

ÍM í kraftlyftingum – Keppendalistar

Skráningum er lokið á Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum og Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga, sem haldin verða í Smáranum, Kópavogi, laugardaginn 22. apríl. Félög hafa nú frest til 8. apríl til að gera þyngdarflokkabreytingar og ganga frá greiðslu keppnisgjalda.

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum – Keppendalisti

Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í kraftlyftingum – Keppendalisti

Breyting á reglugerð

Á ársþingi KRAFT í febrúar sl var bókað eftirfarandi:
Ákveða þátttökugjöld á Íslands-og bikarmótum næsta keppnistímabils.
Lögð var fram tillaga stjórnar um óbreytt gjöld, 6500 ISK fyrir þríþrautarmót og 5000 ISK fyrir mót í stakri grein.
Sturla Ólafsson lagði fram breytingartillögu þar sem kveðið er á um að 1000 ISK af hverju gjaldi skuli renna til sambandsins og eyrnamerkjast landsliðsverkefni, sérstaklega til að styrkja ungum keppendum sem ekki njóta styrkja annarsstaðar frá.
Tillagan var borin upp og samþykkt gegnt einu atkvæði KFA.

Stjórn KRAFT hefur í kjölfarið breytt 21.grein reglugerðar um kraftlyftingakeppni og tekur breytingin þegar gildi. Hún hljóðar svo:
21. gr. Keppnisgjald
Aðildarfélögin greiða þátttökugjald fyrir sína keppendur og tekur skráning ekki gildi fyrr en gjaldið hefur verið greitt.
Keppnisgjald er ákveðið á kraftlyftingaþingi.
Núgildandi gjald: á mótum þar sem keppt er í öllum þremur greinum skal vera 6500 krónur, en 5000 krónur þegar keppt er í einni grein.
Stjórn KRAFT getur ákveðið önnur gjöld fyrir einstök mót.
Gjaldið rennur til mótshaldara, nema 1000 kr af hverju gjaldi sem rennur til KRA eyrnamerkt verkefnum fyrir efnileg ungmenni. Gjaldkeri KRA innheimtir gjaldið þegar lokaskráning liggur fyrir.

Úrslit ÍM ungmenna og öldunga í klassískum kraftlyftingum

Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í klassískum kraftlyftingum fór fram í gær, samhliða ÍM í klassískum kraftlyftingum í opnum flokki, í Word Class Kringlunni.

Keppendur voru 24 talsins, þeir yngstu fæddir 2000 og þeir elstu 1952. Fjölmörg Íslandsmet voru slegin í hinum ýmsu aldurs- og þyngdarflokkum. Þar að auki setti Svavar Örn Sigurðsson (AKR), sem keppir í 74 kg flokki drengja (U18), met í opnum aldursflokki í hnébeygju og réttstöðulyftu.

Stigahæst keppanda í telpnaflokki (U18) varð Ragna Kristín Guðbrandsdóttir (KFR) með 325,8 Wilksstig, sem jafnframt varð Íslandsmeistari í 63 kg flokki með 297,5 kg í samanlögðum árangri. Hún setti Íslandsmet í bekkpressu með 60 kg, í réttstöðulyftu með 127,5 kg og í samanlögðum árangri.

Stigahæstur keppenda í drengjaflokki (U18) varð Svavar Örn Sigurðsson (AKR) með 422,0 Wilksstig, en hann varð jafnframt Íslandsmeistari í 74 kg flokki með 577,5 kg. Hann setti drengjamet í öllum greinum, sem og samanlögðum árangri. Honum tókst einnig að slá Íslandsmetin í unglinga og í opnum flokki í hnébeygju með 207,5 kg og í réttstöðulyftu með 235 kg.

Stigahæst keppenda í unglingaflokki kvenna (U23) varð Andrea Agla Ögludóttir (KFR) með 301,4 Wilksstig, en hún varð einnig Íslandsmeistari í 84 kg flokki með 327,5 kg.

Stigahæstur keppenda í unglingaflokki karla (U23) varð Arnar Harðarson (AKR) með 385,9 Wilksstig, en hann varð einnig Íslandsmeistari í 93 kg flokki. Arnar bætti metin í hnébeygju með 225 kg og samanlögðum árangri með 612,5 kg.

Stigahæst kvenöldunga 1 (40-49) varð Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir (KFR) með 320 Wilksstig, en hún varð jafnframt Íslandsmeistari í 63 kg flokki kvenna með 292,5 kg í samanlögðum árangri.

Stigahæstur karlöldunga 1 (40-49) varð Bjarki Þór Sigurðsson (AKR) með 379,6 Wilksstig, en hann varð jafnframt Íslandsmeistari í 120 kg flokki karla með 657,5 kg í samanlögðum árangri. Bjarki bætti Íslandsmetið í réttstöðulyftu karla með 280 kg.

Stigahæst kvenöldunga 2 (50-59) varð Sigþrúður Erla Arnarsdóttir (KFR) með 318,2 Wilksstig. Sigþrúður varð jafnframt Íslandsmeistari í 84+ kg flokki með 395 kg í samanlögðum árangri. Hún bætti Íslandsmetin í í öllum greinum, sem og í samanlögðum árangri.

Stigahæstur karlöldunga 2 (50-59) varð Helgi Briem (ÁRM) með 327,3 Wilksstig, sem jafnframt varð Íslandsmeistari í 93 kg flokki með 520 kg í samanlögðum árangri. Helgi bætti, líkt og Sigþrúður, metin í öllum greinum og auðvitað í samanlögðum árangri.

Stigahæst kvenöldunga 3 (60-69) varð Sigríður Dagmar Agnarsdóttir (KFR) með 290,3 Wilksstig. Hún varð Íslandsmeistari í 57 kg flokki. Hún bætti Íslandsmetin í öllum greinum og í samanlögðum árangri. Öll metin skrást einnig sem met í öldungaflokki 2 og þar að auki skráist metið í réttstöðulyftu sem met í öldungaflokki 1.

Stigahæstur karlöldunga 3 (60-69) varð Sæmundur Guðmundsson (BRE) með 280,5 Wilksstig. Sæmundur varð Íslandsmeistari í 74 kg flokki með 390 kg í samanlögðum árangri. Hann setti Íslandsmet í öllum greinum (í öllum gildum lyftum) sem og í samanlögðum árangri.

Í gagnabanka KRAFT má finna sundurliðuð úrslit og Íslandsmeistara í einstökum þyngdarflokkum.

Ragnheiður og Einar Örn Íslandsmeistarar í klassískum kraftlyftingum

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (KFR) og Einar Örn Guðnason (AKR) urðu stigahæst á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem fram fór í World Class Kringlunni í gær.

Ragnheiður keppti í 57 kg flokki, þar sem hún bætti Íslandsmet í öllum þremur greinum sem og í samanlögðum árangri. Hún tvíbætti Íslandsmetið í klassískri hnébeygju með 118 kg í annarri tilraun og 120 kg í þeirri þriðju. Í annarri tilraun í bekkpressu setti hún nýtt Íslandsmet með 80,5 kg. Í réttstöðulyftu tvíbætti hún Íslandsmetið með 152,5 kg í annarri tilraun og 157,5 kg í þriðju tilraun. Samanlagður árangur hennar með 358 kg er einnig nýtt Íslandsmet. Ragnheiður hlaut 416,6 Wilksstig, rúmum 16 stigum meira en Arnhildur Anna (KFR) og er því nýr Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum kvenna á stigum.

Einar Örn keppti í 105 kg flokki, þar sem hann bætti Íslandsmetin í klassískri hnébeygju, bekkpressu og samanlögðum árangri. Með allar níu lyftur gildar lyfti hann mest 278 kg í hnébeygju, 186 kg í bekkpressu og 277,5 kg í réttstöðulyftu. Það gerir 741,5 kg í samanlögðum árangri. Hann fékk 444,5 Wilksstig, tæpum 30 stigum meira en Aron Friðrik (STJ), og er því nýr Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum karla á stigum.

Kraftlyftingafélag Reykjavíkur (KFR) sigraði í stigakeppni kvennaliða með 54 stig og Stjarnan (STJ) sigraði í stigakeppni karlaliða með 44 stig.

Í gagnabanka KRAFT má finna sundurliðuð úrslit, Íslandsmeistara í þyngdarflokkum og metaskrá mótsins.