EM í bekkpressu: Fanney keppir á morgun

Evrópumeistaramótið í bekkpressu stendur nú yfir í Murcia á Spáni. Þar á meðal keppenda er Fanney Hauksdóttir sem keppir í 63 kg flokki. Fanney er ríkjandi Evrópumeistari síðustu tveggja ára og er mætt til Spánar til að verja titilinn. Fanney er sigurstranglegust keppenda og á góðan möguleika á sigri ef allt fer að óskum.

Keppni í 63 kg flokki, og öðrum léttari flokkum, kvenna hefst kl. 12:00 á morgun, laugardaginn 14. október. Mótið er sent beint út á Goodlift-vefnum.

Skráning hafin á Bikarmótið í klassískum kraftlyftingum

Opnað hefur verið fyrir skráningar á Bikarmótið í klassískum kraftlyftingum. Mótið verður haldið þann 21. október í húsakynnum World Class í Kringlunni og er í umsjá Kraftlyftingafélags Reykjavíkur.

Skráningarfrestur er til miðnættis laugardaginn 30. september. Frestur til að gera breytingar á þyngdarflokkum og til að ganga frá greiðslu keppnisgjalda er til miðnættis laugardaginn 7. október.

Skráningareyðublað BMK2017

Ragnheiður og Elín með Íslandsmet á Arnold Classic Europe

Þrír Íslendingar kepptu í gær í klassískum kraftlyftingum á fjölgreinamótinu Arnold Classic Europe, sem stendur yfir í Barselóna á Spáni. Það eru þær Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (57 kg fl.), Elín Melgar Aðalheiðardóttir (63 kg fl.) og Arnhildur Anna Árnadóttir (72 kg fl.).

Ragnheiður setti nýtt Íslandsmet í hnébeygju með því að lyfta 125 kg. Í bekkpressu lyfti hún 80 kg og missti naumlega af 82,5 kg. Henni tókst svo að lyfta 145 kg í réttstöðulyftu og náði því 350 kg samanlagt og 411,25 Wilksstig.

Elín náði, rétt eins og Ragnheiður, að bæta Íslandsmet í hnébeygju í sínum flokki með því að lyfta 132,5 kg. Hún tók svo 90 kg í bekkpressu, en það var stigahæsta bekkpressa kvenna. Elín lyfti 135 kg í réttstöðulyfti og náði því 357,5 kg samanlagt og 390,68 Wilksstig.

Arnhildur Anna jafnaði sinn besta árangur í klassískri hnébeygju með því að taka 155 kg. Hún lyfti svo 77,5 kg í bekkpressu og fór létt með 170 kg í réttstöðulyftu. Samanlagt náði hún því 402,5 kg og 392,84 Wilksstig.

 

 

Íslendingar sigursælir á NM unglinga

Norðurlandameistaramóti unglinga í kraftlyftingum, klassískum kraftlyftingum, bekkpressu og klassískri bekkpressu lauk í dag. Í gær unnu tveir Íslenskir keppendur til verðlauna í klassískum kraftlyftingum. Árangur keppnishópsins í dag var engu síðri.

NM í bekkpressu og klassískri bekkpressu

Fjórir Íslendingar kepptu í bekkpressu og tveir í klassískri bekkpressu. Þeir kepptu einnig allir í þríþraut.

Kara Gautadóttir vann gullverðlaun í 57 kg fl. ungmenna í bekkpressu með 50 kg lyftu. Sóley Margrét Jónsdóttir vann gullverðlaun í +84 kg fl. telpna með 115 kg lyftu. Aron Ingi Gautason vann gullverðlaun í 74 kg fl. ungmenna með 100 kg lyftu og Karl Anton Löve vann gullverðlaun í 93 kg fl. ungmenna með 125 kg lyftu.

Í klassískri bekkpressu hafnaði Ingvi Örn Friðriksson í fjórða sæti í 105 kg fl. ungmenna með 120 kg lyftu og Þorsteinn Ægir Óttarsson vann silfurverðlaun í 120 kg fl. ungmenna með 160 kg lyftu.

NM í kraftlyftingum

Fjóri af þeim fimm Íslendingum sem kepptu í kraftlyftingum (með útbúnaði) tókst að komast á verðlaunapall.

Kara Gautadóttir náði silfri í 57 kg fl. ungmenna með 355 kg í samanlögðum árangri. Hún lyfti 135 kg í hnébeygju, 75 kg í bekkpressu og setti nýtt Íslandsmet ungmenna í réttstöðulyftu með 145 kg.

Þuríður Kvaran Guðmundsdóttir vann til gullverðlauna í 84 kg fl. ungmenna með 382,5 kg í samanlögðum árangri. Hún lyfti 167,5 kg í hnébeygju, 57,5 kg í bekkpressu og 157,5 kg í réttstöðulyftu.

Aron Ingi Gautason átti í erfiðleikum í hnébeygjunni og tókst ekki að fá gilda lyftu og datt því úr keppni. Hann hélt þó áfram og lyfti 142,5 kg í bekkpressu og 215 kg í réttstöðulyftu.

Karl Anton Löve náði gulli í 93 kg fl. ungmenna með 767,5 kg í samanlögðum árangri, en það er nýtt Íslandsmet ungmenna. Í hnébeygju tók hann 300 kg, sem er bæting á Íslandsmeti ungmenna. Hann lyfti 195 kg í bekkpressu og 272,5 kg í réttstöðulyftu.

Sóley Margrét Jónsdóttir gerði sér lítið fyrir og setti nýtt Norðurlandamet telpna í samanlögðum árangri, hnébeygju og réttstöðulyftu þegar hún vann gullverðlaun í +84 kg fl. telpna. Hún tók 222,5 kg í hnébeygju, sem er bæting á hennar eigin Norðurlandameti og jafnframt Íslandsmet í telpna- og ungmennaflokki. Í bekkpressu lyfti hún 117,5 kg sem er nýtt Íslandsmet telpa- og ungmenna. Í réttstöðulyftu setti hún Norðurlandamet telpna með 205,5 kg, en það er einnig Íslandsmet í opnum aldursflokki. Samanlagt tók hún 545,5 kg, en það er bæting á Norðurlandamet telpna og Íslandsmeti í opnum aldursflokki. Sóley var einnig stigahæst í telpnaflokki.

Við óskum þeim til hamingju með frábæran árangur!

Silfur og brons á NM

Í dag var keppt í klassískum kraftlyftingum í karlaflokkum á NM unglinga.

Í -74 kg flokki drengja vann Svavar Örn Sigurðsson til silfurverðlauna með seríuna 200 – 135 – 230 – 565 á sínu fyrsta alþjóðamoti.
Í -105 kg flokki unglinga vann Ingvi Örn Friðriksson til bronsverðlauna með seríuna 257 – 155 – 290 – 702,5 kg en í -120 kg flokki unglinga lenti Þorsteinn Ægir Óttarsson í fjórða sæti með 245 – 170 – 262,5 – 677,5.

Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og persónulegum bætingum í dag.

Á morgun, laugardag er keppti í bekkpressu og þríþraut í búnaði og mæta átta íslenskir keppendur til leiks. Við krossum fingur og óskum þeim góðs gengis.
Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu hér:
http://styrkeloft.no/live/?nordic2017_pl

Úrslit Íslandsmeistaramótsins í réttstöðulyftu

Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu fór fram á Akranesi fyrr í dag. Stigahæst urðu þau Sóley Margrét Jónsdóttir frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar (KFA) í kvennaflokki og Júlían J. K. Jóhannsson frá Ármanni (ÁRM) í karlaflokki.

Sóley Margrét Jónsdóttir sigraði í +84 kg flokki með áreynslulausri 200 kg lyftu í þriðju tilraun. Hún hlaut fyrir það 167,9 Wilksstig og sigraði þannig naumlega Örnu Ösp Gunnarsdóttir frá Kraftlyftingafélagi Mosfellsbæjar í keppni um stigabikar kvenna.

Júlían J. K. Jóhannsson keppti, líkt og Sóley, í yfirþungavigt og vann þar öruggan sigur með 370 kg lyftu. Júlían vann stigabikar karla með rúmum 20 stigum fleiri en Þorbergur Guðmundsson frá KFA, eða 201,5 Wilksstigum.

Sundurliðuð úrslit

Úrslit ÍM í klassískri bekkpressu og bekkpressu (með útbúnaði)

Íslandsmeistaramótin í klassískri bekkpressu og bekkpressu (með útbúnaði) fóru fram á Akranesi í dag. Í klassískri bekkpressu urðu stigahæst þau Ingimundur Björgvinsson og Fanney Hauksdóttir, bæði úr Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur. Í bekkpressu (með útbúnaði) bar heimamaðurinn Einar Örn Guðnason sigur úr býtum í karlaflokki og Sóley Margrét Jónsdóttir frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar í kvennaflokki.

ÍM í klassískri bekkpressu

Stigahæst kvenna varð Fanney Hauksdóttir (KFR) sem sigraði í 63 kg flokki kvenna með 107,5 kg lyftu og 115,9 Wilksstig. Stigahæstur karla varð Ingimundur Björgvinsson (KFR) sem sigraði í 105 kg flokki karla á nýju Íslandsmeti með 200 kg og 120,7 Wilksstig.

Fleiri met féllu í klassískri bekkpressu á Akranesi. Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (KFR) setti nýtt með í klassískri bekkpressu þegar hún lyfti 81 kg í 57 kg fl. Viktor Ben Gestsson (KFR) tók metið í +120 kg fl. (opnum aldursflokki og U23) með 205 kg. Sóley Margrét Jónsdóttir (KFA) setti nýtt met í +84 kg flokki U18 og U23 með 82,5 kg.

ÍM í bekkpressu (með útbúnaði)

Stigahæst kvennar varð Sóley Margrét Jónsdóttir (KFA) sem sigraði +84 kg flokk kvenna á nýju Íslandsmeti í U18 og U23. Hún lyfti mest 120 kg og hlaut 100,7 Wilksstig. Stigahæstur karla varð Einar Örn Guðnason (AKR), sem sigraði í 105 kg flokki karla með 245 kg og 146,6 Wilksstig.

Sundurliðuð úrslit

[Uppfært 12.09: Einar Örn lyfti 245 kg í bekkpressu en ekki 225 kg eins og upphaflega var haldið fram]

Mótaskrá 2018

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum í gær tillögur mótanefndar um mótaskrá 2018.
Í henni eru ýmis nýmæli.
Í fyrsta sinn ríkir fullkomið jafnræði milli greina og hefur verið bætt á listann ÍM ungmenna og öldunga og bikarmót í bekkpressu bæði með og án búnaðar.

Þar sem mótum og keppendum hefur fjölgað án þess að árið hafi lengst er óhjákvæmilegt að gera framvegis ráð fyrir tveggja daga mótum.
Settar hafa verið upp 6 tveggja daga mótahelgar þar sem keppt er bæði í þríþraut og bekkpressu
febrúar: opinn flokkur með búnaði
mars: opinn flokkur án búnaðar
júni: aldurstengdir flokkar með búnaði
ágúst: aldurstengdir flokkar án búnaðar
oktober: Bikarmót án búnaðar
nóvember: Bikarmót með búnaði
Það er von stjórnar að þessi samþjöppun verði til bóta bæði fyrir keppendur og mótshaldara og verði íþróttinni til framdráttar.

Stjórnin lýsir hér með eftir mótshöldurum að þessum mótum og tekur formaður mótanefndar við beiðnum á [email protected]
Við bendum á þann augljósa valkost að félög geti sameinast um mótahald.

Það er yfirlýst markmið í afreksstefnu sambandsins að öll félög haldi einhverskonar mót á árinu.
Opin mót sem framkvæmd eru í samræmi við Reglugerð um kraftlyftingakeppni verða framvegis sett á mótaskrá ef þess er óskað.

ÍM í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu – Tímasetningar

Íslandsmeistaramótin í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu verða haldin næstu helgi, 9. og 10. september, í Íþróttahúsinu á Vesturgötu á Akranesi.

Tímasetningar

9. september Klassísk bekkpressa Holl 1: Allir kvennaflokkar
Holl 2: Allir karlaflokkar
Vigtun fyrir bæði holl kl. 8:00
Mót hefst kl. 10:00
Bekkpressa (með útbúnaði) Holl 1: Allir
Vigtun kl. 13:00
Mót hefst kl. 15:00
10. september Réttstöðulyfta Holl 1: Allir kvennaflokkar
Holl 2: Allir karlaflokkar
Vigtun kl. 10:00
Mót hefst kl. 12:00

Keppendur

Íslandsmeistaramót í bekkpressu
Íslandsmeistaramót í klassískri bekkpressu
Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu

Dómarar

9. september Klassísk bekkpressa Bjarni Þór Einarsson (ÁRM)
María Björk Óskarsdóttir (KFR)
Ása Ólafsdóttir (KFR)
Bekkpressa (með útbúnaði) Ingimundur Björgvinsson (KFR)
Bjarni Þór Einarsson (ÁRM)
Ása Ólafsdóttir (KFR)
10. september Réttstöðulyfta Arnar Harðarson (AKR)
Alex Cambray (KFA)
Róbert Kjaran (BRE)