Hulda og Einar bikarmeistarar

Einar Örn Guðnason og Hulda B. Waage

Hulda B. Waage, úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar, og Einar Örn Guðnason, úr Kraftlyftingafélagi Akraness, urðu stigahæst keppenda á Bikarmótinu í kraftlyftingum, sem haldið var á Akureyri í dag.

Hulda B. Waage, sem keppti í 84 kg fl., setti í hnébeygju nýtt Íslandsmet þegar hún lyfti 212,5 kg. Í bekkpressu lyfti hún mest 132,5 kg, sem einnig er nýtt Íslandsmet. Hulda lyfti svo mest 177,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur hennar með 522,5 kg er nýtt Íslandsmet og dugði henni til sigurs í 84 kg fl. sem og stigabikar kvenna með 484,7 stig.

Einar Örn Guðnason keppti og sigraði í 105 kg fl. Í hnébeygju lyfti hann 345 kg í fyrstu tilraun en mistókst tvívegis að lyfta 357,5 kg, sem hefði verið nýtt Íslandsmet. Í bekkpressu lyfti Einar 245 kg í fyrstu tilraun og reyndi svo tvívegis við Íslandsmetið með 251 kg án árangurs. Hann lyfti svo mest 280 kg í réttstöðulyftu. Samanlagt lyfti Einar 870 kg og fékk 519,9 stig sem tryggðu honum stigabikar karla.

Auk Huldu settu tveir aðrir keppendur Íslandsmet í dag. Sóley Margrét Jónsdóttir bætti eigið Íslandsmet í réttstöðulyftu í +84 kg fl. með því að lyfta 210 kg. Sóley er í telpnaflokki og fær því metið skráð í opnum, unglinga- og telpnaflokki. Aron Ingi Gautason bætti einnig eigið Íslandsmet í 74 kg fl. (opnum og unglingaflokk). Hann tvíbætti hnébeygjumetið með því að lyfta 252,5 kg og svo 263,5 kg.

Lið Kraftlyftingafélags Akureyrar vann stigabikar í karla- og kvennaflokki.

Fundi frestað

Vegna viðvaranna veðurstofunnar hefur verið ákveðið að fresta áður boðaðan fund stjórnar KRAFT með formönnum sem halda átti á Akureyri á morgun föstudag.

Bikarmót KRAFT – tímasetningar

Bikarmót KRAFT fer fram á Akureyri laugardaginn 25.nóvember í húsnæði KFA að Austursíðu 2.
KEPPENDUR
Keppt verður í tveimur hollum
HOLL 1: allar konur og karlar 66 – 83
HOLL 2: karlar 105 – 120+
Vigtun hefst kl. 14.00 en keppni kl. 16.00, en vegna slæmrar veðurspár hefur verið ákveðið að halda mótið seinni hluta dags.

Að loknu móti verður boðið til veislu á sama stað og er öllum keppendum boðið að vera með endurgjaldslaust.

Mótshaldara vantar

Búið er að raða niður mótum 2018 á mótshaldara og fara flest mót fram á vegum KFA og KFR.
Það er ánægjulegt að þau félög séu viljug til að halda mót, en um leið hvetjum við önnur félög til að fara að dæmi þeirra. Það er markmið hjá sambandinu að sem flest félög taki þátt í mótahaldi.
Ennþá vantar mótshaldari á ÍM unglinga og öldunga í kraftlyftingum í júni og á ÍM í réttstöðulyftu í júlí. Félög sem hafa áhuga á þeim geta sent póst til [email protected]

Júlían með gull í réttstöðu og brons í samanlögðu!

Júlían J. K. Jóhannsson vann í dag til gullverðlauna í réttstöðulyftu og bronsverðlauna í samanlögðum árangri í +120 kg flokki á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum, sem lauk í dag í Pilsen í Tékklandi.

Júlían lenti í því, eins og margir aðrir í flokknum, að fá opnunarþyngdina í hnébeygju ógilda á dýpt. Honum tókst að fá sömu þyngd, 390 kg, gilda í annarri tilraun. Í þriðju tilraun fékk hann 405 kg ógilda á dýpt. Í bekkpressu lyfti Júlían 300 kg í fyrstu tilraun, en mistókst svo naumlega að lyfta 310 kg í annarri og þriðju tilraun. Júlían varð í fyrra heimsmeistari í réttstöðulyftu, og var staðráðinn í að verja þann titil í ár. Hann fór létt með opnunarþyngdina, 340 kg. Í annarri tilraun tryggði hann sér svo titilinn þegar hann lyfti 370 kg. Í þriðju tilraun gerði Júlían þá atlögu að nýju heimsmeti í réttstöðulyftu með 400 kg, en tókst því miður aðeins að koma stönginni upp að hnjám að þessu sinni!

Júlían hafnaði því í þriðja sæti með 1060 kg í samanlögðum árangri á eftir Úkraínumanninum Volodymyr Svistunov og Tékkanum og heimsmeistaranum David Lupač, en þeir lyftu báðir 1127,5 kg.

Viktor hefur lokið keppni á HM í kraftlyftingum

Viktor Samúelsson keppti í dag í 120 kg flokki á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem stendur yfir í Pilsen í Tékklandi. Viktori tókst ekki að fá gilda hnébeygju og féll því úr keppni í samanlögðu, en hann náði fjórða sæti í bekkpressu með 295 kg.

Í hnébeygju reyndi Viktor þrívegis við 375 kg. Í fyrstu náði hann ekki dýpt, í annarri missti hann jafnvægið og í þeirri þriðju náði hann heldur ekki dýpt. Viktor var þar með fallinn úr keppni í samanlögðu. Hann hélt þó áfram keppni í bekkpressu og réttstöðulyftu. Í bekkpressu lyfti hann 295 kg í fyrstu tilraun. Honum mistókst svo naumlega að lyfta 312,5 kg í annarri og þriðju tilraun, en sú þyngd hefði tryggt honum silfurverðlaun í bekkpressu. Í réttstöðu lyfti hann örugglega 305 kg í fyrstu tilraun, fékk 315 kg ógilda í annarri tilraun vegna tæknigalla en tókst svo að lyfta sömu þyngd í þriðju tilraun.

Á morgun keppir svo Júlían J. K. Jóhannsson í +120 kg flokki. Keppni hefst kl. 10 (flýtt um klst. frá upphaflegu tímaskipulagi) og verður í beinni útsendingu á Goodlift-vefnum.

HM í kraftlyftingum hafið: Viktor keppir á föstudag og Júlían á laugardag

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum, sem fram fer í Pilsen í Tékklandi, hófst í gær með keppni í léttustu flokkum karla og kvenna. Mótinu lýkur á laugardaginn með keppni í yfirþungavigt karla. Frá Íslandi eru mættir tveir keppendur, þeir Viktor Samúelsson (-120 kg fl.) og Júlían J. K. Jóhannsson (+120 kg fl.).

Viktor keppir í -120 kg fl. kl. 15:00 á föstudaginn. Það er útlit fyrir að baráttan um að komast á pall í -120 kg flokki verði hörð. Ef Viktori tekst að raða saman sínum bestu lyftum í hverri grein á hann góðan möguleika á að á pall. Þetta er í annað sinn sem Viktor keppir á HM í opnum flokki. Á síðasta ári hafnaði hann í sjötta sæti með 1000 kg í samanlögðum árangri.

Júlían keppir í +120 kg fl. kl. 11:00 10:00 á laugardaginn. Hann er í svipuðum sporum og Viktor, ef hann nær að kalla fram það besta á hann góða möguleika á verðlaunasæti í samanlögðu. Hann mun jafnframt gera tilraun til að verja gullið í réttstöðulyftu frá því í fyrra. Þá sigraði hann réttstöðuna á nýju heimsmeti unglinga þegar hann lyfti 380 kg. Í samanlögðum árangri hafnaði hann í fimmta sæti með 1070 kg.

Bein útsending

Bikarmót í kraftlyftingum: Keppendalisti

Skráningum á Bikarmótið í kraftlyftingum, sem fer fram þann 25. nóvember í húsakynnum Kraftlyftingafélags Akureyrar, er lokið. Á mótið eru skráðir 19 keppendur.

Frestur til að gera breytingar á þyngdarflokkum og til að ganga frá greiðslu keppnisgjalda er til miðnættis laugardaginn 11. nóvember.

Nýtt félag

Kraftlyftingadeild hefur verið stofnuð innan UMF Austra á Raufarhöfn. Deildin er aðili að HSÞ og KRAFT. Formaður er Ævar Guðmundsson,
Stjórn KRAFT fagnar tilkomu nýs félags í þessum landshluta og óskar þeim góðs gengis í uppbyggingu starfsins.

Vegna umfjöllunar í Íslandi í dag á Stöð 2 þann 1. nóvember

Vegna umfjöllunar í Íslandi í dag á Stöð 2 þann 1. nóvember sl. um keppanda í kraftlyftingum sem er á leið á heimsmeistaramót í kraftlyftingum sem fram fer í Las Vegas um helgina vill Kraftlyftingasamband Íslands (KRAFT) koma því á framfæri að það mót heyrir ekki undir KRAFT og er ekki viðurkennt mót innan Alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF). IPF er æðsti aðili kraftlyftinga í heiminum og er einn bær til þess að halda heimsmeistaramót í kraftlyftingum. Ekki er um að ræða landsliðsmann á vegum KRAFT og hefur hann ekki unnið sér inn þátttökurétt í gegnum viðurkennd mót á vegum KRAFT og ÍSÍ.

KRAFT er æðsti aðili kraftlyftinga á Íslandi og er hlutverk þess m.a. að vinna að eflingu kraftlyftinga í landinu, að standa vörð um uppeldislegt gildi kraftlyftinga á Íslandi og tefla fram landsliðum og keppendum í alþjóðlegum og viðurkenndum keppnum. Kraftlyftingasamband Íslands er sérsamband innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og á jafnframt aðild að Kraftlyftingasambandi Norðurlanda (NPF), Kraftlyftingasambandi Evrópu (EPF) og Alþjóða Kraftlyftingasambandinu.

Kraftlyftingar voru stundaðar á Íslandi á vegum ÍSÍ fram til ársins 1985 þegar kraftlyftingamenn sögðu skilið við Lyftingasamband Íslands og stofnuðu eigin félagsskap undir nafninu Kraftlyftingasamband Íslands, en utan ÍSÍ. Það samband var síðan lagt niður árið 2008 og í kjölfarið setti ÍSÍ á fót sérnefnd fyrir kraftlyftingar. Með stofnun Kraftlyftingasambands Íslands (KRAFT) innan ÍSÍ árið 2010 öðluðust kraftlyftingar á nýjan leik sæti meðal viðurkenndra íþróttagreina í landinu. Eru kraftlyftingar sú íþróttagrein sem hefur vaxið hvað mest innan ÍSÍ á undanförnum árum og er sambandið nú, þrátt fyrir ungan aldur flokkað sem afrekssamband innan ÍSÍ, skv. nýlegri flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ.

Til þess að geta talist aðilar að KRAFT og þar með öðlast keppnisrétt fyrir hönd sambandsins þurfa félög að vera viðurkennd aðildarfélög innan ÍSÍ. Strangar reglur gilda um kraftlyftingakeppnir og keppendur, þ.e. lög og reglugerðir KRAFT, ÍSÍ og IPF. Þannig er t.d. engum félagsmanni í aðildarfélagi að KRAFT heimilt, án sérstaks leyfis KRAFT að keppa, dæma, starfa eða aðstoða keppendur á kraftlyftingamótum, innanlands eða erlendis sem haldin eru á vegum aðila sem ekki eru innan KRAFT eða undir lögsögu IPF. Þá er stefna KRAFT í lyfjamálum skýr og áberandi í öllu starfi innan sambandsins. Strangar reglur gilda um þau mál og sér Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ um framkvæmd lyfjaeftirlits meðal íþróttafólks sambandsins. Starfar nefndin samkvæmt reglum Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA.

Kraftlyftingasamband Íslands er afar stolt af keppendum sínum og þeim frábæra árangri sem náðst hefur á alþjóðlegum vettvangi á undaförnum árum. Slíkur árangur næst hins vegar ekki nema með markvissri vinnu, stuðningi við íþróttafólkið og eftirfylgni og hefur sambandið mótað metnaðarfulla áætlun til næstu ára með það að markmiði að efla starfið enn frekar og festa kraftlyftingar í sessi sem eina af helstu afreksíþróttum landsins.

Tilkynning