Skip to content

Kristrún með þrjú Íslandsmet á HM unglinga í klassískum kraftlyftingum.

Kristrún Ingunn Sveinsdóttir lauk í dag keppni á HM unglinga. Óhætt er að segja að hún hafi átt frábæran dag á keppnispallinum og náð öllum sínum markmiðum á mótinu. Kristrún fór í gegnum mótið af miklu öryggi og fékk allar sínar lyftur gildar og setti þar að auki þrjú Íslandsmet í -57 kg flokki unglinga. Byrjunin hjá henni lofaði strax góðu þegar hún lyfti mest 125.0 kg í hnébeygju sem var langþráð þyngd hjá henni og 2.0 kg bæting á hennar eigin Íslandsmeti. Ekki var bekkpressan síðri þar sem hún setti persónulegt met með 72.5 kg lyftu. Réttstöðulyftan var svo rúsínan í pylsuendanum, en þar kláraði hún 142.5 kg af mikilli hörku og bætti Íslandsmetið sitt um 7.5 kg. Hafnaði hún í 15. sæti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti með 340.0 kg í samanlögðum árangri sem er rétt tæplega 15.0 kg bæting á Íslandsmetinu.