Skip to content

Júlían tók réttstöðugullið eftir æsispennandi keppni!

  • by

Júlían J.K. Jóhannsson keppti í dag á EM unglinga.  Júlían vigtaði 142,8 kg í flokki 120,0 +. Hann keppir nú í fyrsta sinn í aldursflokknum 19 – 23 ára og var yngstur í hópnum.
Júlían lyfti seríuna 320-235- 327,5 = 882,5 kg   og endaði í  4.  sæti. Sigurvegari í flokknum var rússinn Igor Filipov með 965 kg

Hnébeygjan gekk ekki  sem skyldi hjá Júlían í þetta skiptið. Hann kláraði opnunarþyngdinni 320,0 kg létt en mistókst tvisvar með tilraun við nýtt íslandsmet 335,0 kg. Það var auðsætt alla leið frá Danmörku að styrkurinn var til staðar, en tæknileg útfærsla var ekki nægilega góð að mati dómara. Júlían hefur mikið að sækja í bættri beygjutækni.

Á bekknum byrjaði Júlían örugglega á 220 kg. Hann setti nýtt íslandsmet í annari tilraun með 230 kg, skítlétt eins og þjálfarinn kallaði til hans, og bætti um betur í þeirri þriðju með 235,0 kg. Nýtt íslandsmet unglinga og persónuleg bæting um 7,5 kg var í höfn og nokkuð óvænt 4.sætið í bekkpressu.

Réttstaðan hefur lengst af verið besta grein Júlíans, en hann varð heimsmeistari drengja í greininni í fyrra og  sýndi í dag að það var engin tilviljun. Hann opnaði létt á 290 kg og hristi svo upp í keppinautum sínum með 315,0 kg í annarri. Míkið taugastríð upphófst nú í réttstöðukeppninni með taktískar meldingar á víxl. Íslenska liðið hélt haus og Júlían stóð uppi sem sigurvegari á nýju glæsilegu íslandsmeti unglinga 327,5 kg.

Samanlagður árangur hans er 882,5 kg sem er 20 kg persónuleg bæting og nýtt met unglinga.

Við fögnum þessum frábæra árangri Júlíans og óskum honum til hamingju með góðar bætingar og enn eitt réttstöðugullið.

Íslensku unglingarnir hafa gert góða hluti á þessu móti undir stjórn þjálfara síns, Grétars Hrafnssonar. Við óskum liðinu og aðstoðarmönnum þeirra til hamingju með árangurinn, verðskuldað frí í kvöld og góða ferð heim.

 

Tags:

Leave a Reply