Skip to content

Júlían sigraði í réttstöðulyftu

  • by

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum lauk í gær í Stavanger með keppni í þyngstu flokkunum í þéttsetinni höllinni. Þrír íslenskir keppendur tóku þátt.

Fyrstur til leiks mætti Guðfinnur Snær Magnússon í +120 kg flokki.
Í fyrsta sinn var sjónvarpað beint af HM í kraftlyftingum á Eurosport, en það hefur lengi verið markmið IPF að sýna íþróttina á þeirri rás. Við beinar sjónvarpsútsendingar vega stundum þarfir sjónvarpsins þyngra en þarfir keppenda og má segja að Guðfinnur hafi orðið fórnarlamb þeirra aðstæðna þar sem hann þurfti að lyfta í þriggja manna holli um morguninn. Það eru ekki kjöraðstæður fyrir þunga menn, svo ekki sé meira sagt.
Guðfinnur lyfti 380 – 295 – 300 = 975 kg og lenti í 6.sæti og var nokkuð sáttur við þann árangur, enda má hann vera það á sinu fyrsta EM í opnum flokki.

Sóley Margrét Jónsdóttir keppti í +84 kg flokki. Sóley hefur átt við veikindi að stríða í haust. Uppkeyrslan fyrir mótið hefur verið erfið og tvísýnt var fram á mótsdag hvort hún gæti verið með. Þegar á hólminn var komið sagði harkan og keppnisskapið til sín og Sóley kláraði mótið örugglega með tölurnar 240 – 180 – 210 = 630 kg sem dugði henni í 5.sæti. Lokalyfturnar í hnébeygju og bekkpressu voru dæmdar ógildar vegna tæknigalla en ljóst að styrkurinn er til staðar. Það er augljóst að Sóley á heima í hópi þeirra allra sterkustu þegar hún nær 5.sæti á “stöngin út”-degi.

Síðastur á svið var Júlían J K Jóhannsson í +120 kg flokki. Undirbúningur hefur gengið vel hjá honum og væntingarnar voru miklar. Strax í fyrstu beygju kom þó í ljós að ekki var allt eins og átti að vera og svo fór að honum tókst ekki að fá gilda lyftu í beygju né bekk. Þrátt fyrir þessum miklu vonbrigðum mætti hann öflugur og brosandi í réttstöðulyfturnar og sýndi og sannaði að hann ber af öllum öðrum í þeirri grein, meira að segja á versta degi. Hann lyfti 380 kg og vann gullverðlaunin örugglega.

HEILDARÚRSLIT KVENNA
HEILDARÚRSLIT KARLA

Auðunn Jónsson, Lára Finnbogadóttir, Freyr Aðalsteinsson, Daníel Geir Einarsson og Ellen Ýr Jónsdóttir voru keppendum til aðstoðar og stóðu sig með miklum sóma.
Við óskum þeim öllum til hamingju með mótið og Júlíani innilega til hamingju með réttstöðuverðlaunin.