Skip to content

Júlían og Sóley hafa lokið keppni – Gull í hús

  • by

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum kláraðist í dag. Keppnin var haldin þetta árið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Sóley Margrét Jónsdóttir og Júlían JK Jóhannsson mættu á keppnispallinn í dag og sýndu hvað í sér bjó.

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley Margrét mætti í fínum anda í keppnina en hún keppir í +84kg flokki. Hún opnaði í 260kg lyftu í hnébeygjunni sem er aðeins 5,5kg undir heimsmetinu hennar. Hún reyndi svo við 272,5kg og 275kg en því miður voru báðar lyfturnar dæmdar ógildar. Í bekkpressunni opnaði hún í 145kg og tók þar þrjár gildar lyftur með seríuna 145-150-155. Þá var bara að réttstöðulyftan eftir og kláraði hún þar með 197,5kg. Þetta gaf henni 612,5kg í samanlögðu og 7. sætið í flokknum. Glæsilegur árangur þar og augljóst að Sóley á eftir að láta fyrir sér finna á komandi árum en hún er rétt að klára stúlknaflokkinn!

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson

Júlían Jóhann Karl mætti svo á keppnispallinn í síðasta holl keppninnar, +120kg flokkinn. Andinn var góður og var okkar maður í bætingarhug. Júlían opnaði í beygjunni í 392,5kg og var hún góð og gild. Þá fóru 412,5kg á stöngina og lyfti hann því af miklu öryggi. Persónuleg bæting hjá honum og jöfnun á íslandsmeti. Hann sleppti þá þriðju tilraun, líklega til að spara orku í bekkpressuna og réttstöðuna. Hann opnaði bekkpressuna í 307,5kg og kláraði með þrjár gildar lyftur þar. 307,5kg – 320kg – 330kg sem er 15kg bæting á íslandsmetinu. Þá var komið að réttstöðulyftunni sem hefur verið sérgrein hans. Hann opnaði í “léttum” 370kg þar, góð og gild. Þá var lítið annað í stöðunni en að bæta heimsmetið sitt með 405,5kg sem hann gerði af miklu öryggi, nýtt heimsmet og gullið gulltryggt í réttstöðulyftunni. Í síðustu lyftu mótsins bað hann um 420,5kg á stöngina og virtist hún ætla upp en því miður fór hún ekki alla leið. Þetta gaf honum 1148kg í samanlögðu og bronsverðlaunin í flokknum annað árið í röð! Þess má geta að íslandsmetið í samanlögðu var 1115kg og er þetta því umtalsverð bæting á því.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían (í miðjunni) með gullpening um hálsinn fyrir heimsmetalyftuna.
Júlían (til hægri) með bronsið um hálsinn. Gullið fór til Blaine Sumner og silfrið til Andrei Konovalov
Íslenski hópurinn ásamt fulltrúa frá SAF. Frá vinstri: Sigurjón Pétursson, Auðunn Jónsson, Júlían JK Jóhannsson, óþekkti fulltrúinn, Guðfinnur Snær Magnússon, Sóley Margrét Jónsdóttir, Hulda B. Waage, Grétar Skúli Gunnarsson og Viktor Samúelsson
Júlían ásamt Auðuni Jónssyni íþróttastjóra Kraft