Skip to content

Ingvi og Birgit hafa lokið keppni

  • by

Eins og eflaust allir vita þá er EM í klassískum kraftlyftingum í fullum gangi í Kaunas, Litháen. Síðustu tveir íslensku keppendurnir stigu á keppnispallinn í dag, Ingvi Örn og Birgit Rós.

Ingvi Örn Friðriksson

Ingvi Örn hefur síðastliðin ár verið með sterkustu lyfturum í klassískum kraftlyftingum og keppir hann í -105kg flokki karla. Ingvi opnaði í 257,5kg í hnébeygjunni sem fór léttilega upp og var hún dæmd gild. Í annarri tilraun fór hann í 267,5kg sem fór létt upp en var því miður dæmd af. Í þriðju tilraun tók hann 267,5kg aftur án vandræða og var þessi dæmd gild. Í bekkpressunni opnaði hann í 150kg sem flugu upp. Þá fór hann í 160kg en það gekk brösulega og endaði hann því með 150kg í bekkpressunni. Í réttstöðulyftunni opnaði hann í 285kg sem hann lyfti örugglega og bað því næst um 297,5kg á stöngina. Sú lyfta gekk mjög vel, þrjú hvít ljós. Þá bað hann um 307,5kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet. Því miður fór sú lyfta ekki upp í dag. Ingvi lokaði því mótinu með 715kg í samanlögðu og 14. sætið í flokknum.

Birgit Rós Becker

Birgit Rós keppir í -84kg flokki kvenna. Hún tók sér frí frá keppni 2018 og hefur núna komið aftur inn í íþróttina árið 2019 um borð í bætingarlestinni. Birgit opnaði í léttum og öruggum 162,5kg í hnébeygjunni. Í annarri lyftu fór hún í 172,5kg sem fór upp en lyftan var því miður dæmd af. Þá var lítið annað í stöðunni en að taka 172,5kg aftur í þriðju tilraun sem gekk svona þvílíkt vel og setti hún þar með íslandsmet sem er einnig þyngsta hnébeygja sem íslensk kona hefur tekið í klassískum kraftlyftingum. Í bekkpressunni átti Birgit góðan dag, hún opnaði í 80kg lyftu sem var góð og gild. Þá fór hún í 85kg sem var 2,5kg yfir hennar besta og lyfti hún henni auðveldlega. Í þriðju lyftu lyfti hún svo 87,5kg án vandræða og því með 5kg bætingu á bekkpressunni. Í réttstöðulyftunni opnaði hún í 160kg sem var dæmd gild. Í annarri lyftu fór hún í persónulega bætingu og lyfti þar 172,5kg. Í þriðju lyftunni fór hún svo í 177,5kg en það reyndist of þungt í dag. Hún kláraði því keppnina með 432,5kg í samanlögðu sem er nýtt íslandsmet og tók einnig 11. sætið í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Ingvi Örn og Arna Ösp í góðum anda!
Birgit Rós alsæl með mjög góðan keppnisdag!
Íslenski hópurinn á EM í hrikalegum anda. Frá vinstri: Grétar Hrafnsson, Birgit Rós, Arna Ösp, Ingvi Örn, Friðbjörn Bragi, Hannes Hólm, Halldór Jens og íþróttastjóri Kraft, Auðunn Jónsson

Þar með lýkur þátttöku Íslands á EM í klassískum kraftlyftingum. Kraft þakkar öllum sem fylgdust með!