Skip to content

ÍM unglinga og öldunga – úrslit

  • by

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum í flokkum unglinga og öldunga lauk fyrir stundu í húsakynnum Lyftingafélags Hafnarfjarðar. Á mótinu var keppt i fjölmörgum aldurs- og þyngdarflokkum karla og kvenna og nóg að gera á ritaraborðinu við að skrá árangur og met í rétta flokka. Á mótinu voru skráðir 23 keppendur og luku 21 keppni í 19 ólíkum flokkum. Það var þess vegna ekki mikill samkeppni í flokkunum, en það dróg ekki úr keppnisanda, enda voru flestir að keppa við að ná sínum eigin persónulegum markmiðum; að bæta persónulegan árangur sinn, að ná lágmörkum inn á önnur mót eða setja Íslandsmet eða jafnvel Norðurlandamet. Margir gerðu góða hluti, en mesti athygli vakti árangur Fríðu Bjarkar Einarsdóttur, KFA. Hún tók seríuna 200-115,5-187,5-503 kg. Þetta er allt met í opnum flokki kvenna -84 kg, en Fríða er eingöngu 17 ára gömul.

ÚRSLIT
MYNDIR

Stigahæst í telpnaflokki var Fríða Björk Einarsdóttir, KFA með 450 stig, í unglingaflokki kvenna var Elín Melgar, Grótta, stigahæst með 368,7 stig
og stigahæsta kona í öldungaflokki var Helga Guðmundsdóttir, Breiðablik, með 469 stig.
Stigahæstur í drengjaflokki var Jóhann Axel Vignisson, Breiðablik, með 296 stig, í unglingaflokki karla Þorbergur Guðmundsson, Patreksfirði með 493 stig og stigahæsti öldungur karla var Bjarki Sigurðsson, Akranesi með 425 stig.
Dómarar á mótinu voru Helgi Hauksson, Sturlaugur Gunnarsson, Ásmundur Ólafsson og Aron Teitsson.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2008 að haldið er sérstakt aldursskipt íslandsmeistaramót og er það gert til að fjölga mótum á mótaskrá og opna möguleika fyrir fleiri keppendur til að keppa til verðlauna. Í dag voru sumir að stíga sín fyrstu skref á ferlinum á meðan aðrir hafa verið að í áratugi. Vonandi stækkar hópurinn og verður ennþá stærri og öflugri á næsta ári.

Við óskum nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju með árangurinn og þökkum Lyftingafélagi Hafnarfjarðar fyrir vel skipulagt mót.