Skip to content

Hulda og Einar bikarmeistarar

Einar Örn Guðnason og Hulda B. Waage

Hulda B. Waage, úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar, og Einar Örn Guðnason, úr Kraftlyftingafélagi Akraness, urðu stigahæst keppenda á Bikarmótinu í kraftlyftingum, sem haldið var á Akureyri í dag.

Hulda B. Waage, sem keppti í 84 kg fl., setti í hnébeygju nýtt Íslandsmet þegar hún lyfti 212,5 kg. Í bekkpressu lyfti hún mest 132,5 kg, sem einnig er nýtt Íslandsmet. Hulda lyfti svo mest 177,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur hennar með 522,5 kg er nýtt Íslandsmet og dugði henni til sigurs í 84 kg fl. sem og stigabikar kvenna með 484,7 stig.

Einar Örn Guðnason keppti og sigraði í 105 kg fl. Í hnébeygju lyfti hann 345 kg í fyrstu tilraun en mistókst tvívegis að lyfta 357,5 kg, sem hefði verið nýtt Íslandsmet. Í bekkpressu lyfti Einar 245 kg í fyrstu tilraun og reyndi svo tvívegis við Íslandsmetið með 251 kg án árangurs. Hann lyfti svo mest 280 kg í réttstöðulyftu. Samanlagt lyfti Einar 870 kg og fékk 519,9 stig sem tryggðu honum stigabikar karla.

Auk Huldu settu tveir aðrir keppendur Íslandsmet í dag. Sóley Margrét Jónsdóttir bætti eigið Íslandsmet í réttstöðulyftu í +84 kg fl. með því að lyfta 210 kg. Sóley er í telpnaflokki og fær því metið skráð í opnum, unglinga- og telpnaflokki. Aron Ingi Gautason bætti einnig eigið Íslandsmet í 74 kg fl. (opnum og unglingaflokk). Hann tvíbætti hnébeygjumetið með því að lyfta 252,5 kg og svo 263,5 kg.

Lið Kraftlyftingafélags Akureyrar vann stigabikar í karla- og kvennaflokki.