Skip to content

Helga og Sigfús bikarmeistarar KRAFT

  • by

Bikarmót Kraftlyftingasambands Íslands var haldið á Akureyri um helgina.
Úrslit: http://results.kraft.is/meet/bikarmot-i-kraftlyftingum-2014

Bikarmeistari kvenna varð Helga Guðmundsdóttir, Breiðablik, með glæsilega innkomu í íþróttina. Þetta er hennar fyrsta mót, en hun hefur æft vel undanfarið með aðstoð þjálfara og félaga sinna í Breiðablik.
Bikarmeistari karla annað árið í röð varð Sigfús Fossdal, KFV,  með 554,19 stig, sem eru hæstu wilksstig innan sambandsins á árinu 2014. Hann setti um leið nýtt íslandsmet í bekkpressu með 333 kg, skemmtileg tala. Sigfús er nýkominn heim frá HM i Denver þar sem hann lenti í 4.sæti í sínum þyngdarflokki.
Stigahæsta liðið varð KFA, sem jafnhliða því að keppa sáu um alla framkvæmd á frábætan hátt.
Mörg met féllu á mótinu og bættu margir árangur sinn og náðu lágmörkum fyrir Íslandsmótið 2015.

Hin efnilega Fríða Björk Einarsdóttir, KFA, seti íslandsmet í hnébeygju í opnum flokk -84 kg með 190 kg, en Fríða er fædd 1998 og keppir í stelpnaflokki.
Í drengjaflokki bar líka á tveimur sterkum keppendur, Guðfinni Magnússyni úr Breiðablik og Victor Teitsson úr Gróttu.

Júlían Jóhannsson, Ármanni, varð annar stigahæsti í karlaflokki og bætti sinn besta árangur. Hann stefnir á hina magiska heildartölu 1000 kg, og náði 982,5 kg á þessu móti. Skemmtileg barátta var um unglingametið í réttstöðulyftu í síðustu lyftum mótsins, milli Júlíans og hins sterka Akureyrings Þorgergs Guðmundssonar. Að lokum endaði metið hjá Júliani með 342,5 kg.

Jafnhliða Bikarmótinu var haldið 40. Akureyrarmótið, en KFA fagnar 40 ára afmæli sínu á næsta ári.
Gaman er að segja frá því að meðal keppenda var Freyr Aðalsteinsson í -93 kg flokki, en Freyr keppti á fyrsta Akureyrarmótinu fyrir 40 árum – og er ennþá að.