Skip to content

Guðrún komst á verðlaunapall í bekkpressu

  • by

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir  keppti í dag á Evrópumóti unglinga í Herning í Danmörku.
Hún vigtaði 70,6 kg og hafnaði í 5.sæti í -72,0 kg flokki. María Gulidova frá Rússlandi sigraði í flokknum með 532,5 kg.

Í hnébeygju opnaði Guðrún örugglega á 155,0 kg en fór of grunnt með 162,5 kg í annari tilraun og fékk hana ógilda. Þriðja tilraunin, líka við 162,5 kg mistókst algerlega. Hún missti spennu og komst aldrei upp með þyngdina.

Guðrún bætti fyrir þessum vonbrigðum með frábærri frammístöðu í bekkpressu. Hún fékk þrjár góðar og gildar lyftur 105 – 110 – 112,5 kg. Þetta er nýtt Íslandsmet bæði í opnum flokki og flokki unglinga og færði Guðrúnu annað sætið og silfurverðlaun í bekkpressu í flokknum.

Í réttstöðu lyfti Guðrún örugglega 160,0 kg og 165,0 kg. Í þriðju tilraun bað hún um 172,5 kg sem hefði fært henni Íslandsmetið í samanlögðu í opnum flokki, en lækkaði sig í 167,5. Það hefði dugað henni í þriðja sætið í greininni en þrátt fyrir mikla baráttu reyndist það aðeins of þungt í þetta skiptið, Guðrún endaði í 165,0 kg í réttstöðu og 432,5 kg samanlagt, en það er nýtt Íslandsmet unglinga í flokknum.

Við óskum Guðrúnu til hamingju með fyrsta verðlaunasætið á alþjóðavelli, glæsileg Íslandsmet og persónulegar bætingar.

Klaus Jensen, alþjóðadómari Kraft, var þulur og stóð sig mjög vel í því hlutverki.

 

 

Tags:

Leave a Reply