Skip to content

Góður árangur unglingalandsliðsins á Norðurlandamóti í kraftlyftingum

  • by

Island eignaðist í gær þrjá Norðurlandameistara í kraftlyftingum í unglingaflokkum.

Fanney Hauksdóttir frá Gróttu sigraði í -57 kg flokki kvenna með 310 kg. Fanney er sérstaklega sterk í bekkpressu. Hún lyfti 107,5 kg í gær og átti tilraun við nýtt íslandsmet 112,5 kg. Það er stutt frá Norðurlandametinu í greininni og vakti bekkpressur hennar athygli hinna Norðurlandaþjóðanna sem sáu þar konu sem þau þurfa að reikna með á næstu árum.

Arnhildur Anna Árnadóttir, líka úr Gróttu, náði bronsverðlaun í -72,0 kg flokki kvenna með 410 kg og uppskar laun erfiðisins undanfarið með frábærum bætingum. Hún var fjórða stigahæsta konan á mótinu.

Alexandra Guðlaugsdóttir, KFA, vann silfurverðlaun í -84 kg flokki með 407,5 kg og bætingum í öllu greinum.

Saman unnu stelpurnar til bronsverðlauna í liðakeppni kvenna, en það mun vera í fyrsta sinn í manna minnum að íslenskt kvennalið stígur á verðlaunapall á alþjóðamóti í kraftlyftingum.

Sindri Freyr Árnason úr Massa varð Norðurlandameistari í -66,0 kg unglingaflokki karla með 490 kg og Guðfinnur Snær Magnússon, hinn efnilegi drengur úr Breiðablik vann titilinn í -120 kg flokki drengja með 537 kg. Þeir voru báðir að keppa í fyrsta sinn á móti af þessari stærðargráðu og stóðu sig með miklum sóma.

Í -74 kg flokki unglinga vann Dagfinnur Ari Normann frá Kraftlyftingafélagi Garðabæjar  til bronsverðlauna með 592,5 kg sem er persónuleg bæting. Daði Már Jónsson, Massi, lenti í fjórða sæti með 535 kg. Daði hefur átt betri daga, en miklar og góðar æfingar undanfarið eiga eftir að skila sér þó síðar verði.

Tveir efnilegir Massa-strákar í viðbót kepptu fyrir Íslands hönd. Ólafur Hrafn Ólafsson bætti sig í öllum greinum og endaði í fjórða sæti í -93 kg flokki með 715,0 kg. Til samanburðar má geta að Ólafur tók þátt í Norðurlandamóti í fyrra og hafnaði þá í 6.sæti með 647,5 kg. Félagi hans Þórvarður Ólafsson keppti í -120 kg flokki og vann þar til bronsverðlauna með 755 kg eftir harðri atlögu að silfrinu.

Daníel Geir Einarsson, Breiðablik, átti sitt besta mót nokkru sinni og lyfti 737,5 kg í -120 kg flokki. Daníel hefur átt það til að detta úr keppni vegna tæknimistaka í ýmsum greinum, en í þetta sinn mætti hann vel undirbúinn og kláraði mótið með öruggum glæsibrag.

Einar Örn Guðnason, Akranesi og Viktor Samúelsson, KFA hafa báðir keppt á alþjóðamótum áður. Viktor jafnaði besta árangur sinn og lyfti 795 kg í -105 kg flokki. Með 295 kg í síðustu réttstöðulyftu náði hann silfrinu úr greipum norðmanna.  Einar Örn lyfti 752,5 kg sem er persónuleg bæting og það dugði í  4.sæti í þessum flokki.

Helsta von heimamanna í Ármannsheimilinu brást þegar Júlíani J.K. Jóhannssyni varð á að detta úr í hnébeygju í +120,0 kg flokki. Júlían er á leið á Evrópumót unglinga í maí og fékk þarna verkefni til að vinna úr. Hann kláraði samt lyftum í hinum greinunum, lyfti 247,5 kg á bekknum og kom svo öllum, ekki síst sjálfum sér á óvart með því að fá tvö hvít ljós á 350 kg í réttstöðulyftu og setja með því eftirminnilegan endapunkt á mótinu.

Grétar Hrafnsson, landsliðsþjálfari, var mjög ánægður með daginn og sagði hann hafa farið fram úr hans björtustu vonum. Flestir keppendur bættu sig og allir öðluðust dýrmæta reynslu sem mun flýta fyrir frekari framförum.

Það er sérstaklega ánægjuleg staðreynd að sjö íslensk kraftlyftingafélög áttu keppendur á þessu móti. Það sýnir betur en nokkuð annað að efniviðurinn finnst víða og markviss uppbygging og æfingar skila sér svo um munar.
Meðal aðstoðarmanna á mótinu voru 6 einstaklingar sem með þessu voru að ljúka þjálfara 1 námi Kraftlyftingasambandsins. Þeirra þekking og reynsla mun verða styrkur í þeirri uppbyggingu.

Við óskum öllum sem þátt tóku til hamingju með mótið.
Stjórn KRAFT getur ekki fullþakkað öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við framkvæmd mótsins.