Skip to content

Góður árangur í drengjaflokki

  • by

Fjórir sterkir Massastrákar voru sérstakir gestakeppendur á opnu unglingamóti norska kraftlyftingasambandsins í Brumunddal í Noregi um helgina. Þeir hafa æft vel undir stjórn Sturlu Ólafssonar og náðu öllum sínum markmiðum á mótinu.
Þeir unnu til verðlauna, bættu sig allir glæsilega, settu mörg Íslandsmet í drengjaflokki og fengu vonandi hvatning og veganesti til áframhaldandi bætinga, en þeir eru augljóslega á réttri leið.

Daði Már Jónsson (-66,0 kg) lyfti 120-110-165=395 kg og lenti í öðru sæti í sínum flokki. Steinar Freyr Hafsteinsson (-74,0 kg) lyfti 150-110-200=460 kg og lenti líka í öðru sæti. Davíð Birgisson (-74,0 kg) lyfti 150-107,5-180=437,5 kg og varð þriðji. Ellert Björn Ómarsson (-83,0 kg) lyfti 125-80-170=375 kg og varð fimmti í sínum flokki. Daði, Davíð og Steinar bættu Íslandsmet í sínum flokkum og hér má sjá árangur þeirra nánar.
Hér eru heildarúrslit mótsins.

Þess má geta að tveir aðrir íslenskir strákar kepptu á mótinu, þeir Halldór og Guðsteinn Arnarsynir. Þeir kepptu fyrir Breiðablik á síðasta Íslandsmóti en mættu nú fyrir norska klúbbinn sinn Stavanger SK.

Í tengslum við mótið bauð Lars Samnöy, Þjálfari norska unglingalandsliðsins, upp á fræðslu og tækniþjálfun þar sem hann skoðaði stíl strákana og gaf góð ráð. Hann fékk landsliðsmennina Jörgen og Carl Yngvar með sér í liði til að sýna réttu hreyfingarnar.
Kraft þakkar norska sambandinu fyrir rausnarlegt heimboð og vonar að framhald verði á svona gagnlegu samstarfi.
Undirrituð var fararstjóri í ferðinni og get vottað að frammístaða og framkoma strákanna var þeim, félagi þeirra og íþróttinni til slíks sóma að eftir var tekið.


Jörgen, Carl Yngvar, Daði, Ellert, Davíð, Sturla, Lars og Steinar í æfingasal Brumunddal atletklubb.

Tags:

Leave a Reply