Skip to content

Fjórir íslenskir keppendur á HM unglinga

Heimsmeistaramót unglinga í kraftlyftingum hófst í dag en mótið fer fram dagana
24. ágúst – 3. september og að þessu sinni er mótið haldið í Cluj Napoca í Rúmeníu.
Á mótinu er bæði keppt í kraftlyftingum með og án útbúnaðar, en fulltrúar Íslands munu allir keppa í klassískum kraftlyftingum.

Fyrir Íslands hönd keppa fjórir keppendur í unglingaflokki (18-23 ára). Keppendur eru eftirtaldir:

Kristrún Ingunn Sveinsdóttir keppir í -57 kg flokki og er að keppa á sínu fyrsta heimsmeistarmóti unglinga. Kristrún er Íslandsmethafi unglinga í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðum árangri og nældi sér í silfurverðlaun á NM unglinga í fyrra. Kristrún keppir þriðjudaginn 29. ágúst kl. 10:30 að íslenskum tíma.

Máni Freyr Helgason er að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, en hann keppir í -83 kg flokki. Máni á Íslandsmet unglinga í réttstöðulyftu og hefur örugglega sett stefnuna á bætingar. Máni keppir föstudaginn 1. september kl. 06:00.

Alvar Logi Helgason keppir í -105 kg flokki en hann keppti áður í -93 kg flokki og er því að fara upp um þyngdarflokk. Hann hefur áður keppt á NM og EM unglinga en þetta er fyrsta heimsmeistaramótið hans. Alvar keppir laugardaginn 2. september kl. 08:30.

Kolbrún Katla Jónsdóttir keppir í +84 kg flokki og er Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum 2023. Kolbrún keppti á NM unglinga á síðasta ári og náði þar þriðja sætinu í sínum flokki. Kolbrún keppir laugardaginn 2. september kl. 16:00.

Yfirþjálfari er Hinrik Pálsson en honum til aðstoðar verða María Guðsteinsdóttir og Laufey Agnarsdóttir, sem mun einnig dæma á mótinu.

Tímatöflu má sjá hér.

Bein útsending verður frá mótinu sjá hér.

Áfram Ísland!