Skip to content

EM í klassískum kraftlyftingum – Viktor Samúelsson í 11. sæti og Arna Ösp Gunnarsdóttir með tvö Íslandsmet.

Arna Ösp Gunnarsdóttir hefur lokið keppni á EM í klassískum kraftlyftingum og átti góðan og öruggan keppnisdag með átta gildum lyftum. Arna sem keppti í -69 kg flokki byrjaði mótið með því að tvíbæta eigið Íslandsmet í hnébeygju þegar hún lyfti 152.5 kg í annarri tilraun og svo 155 kg í þriðju lyftu. Bekkpressan gekk líka mjög vel hjá henni þar sem hún bætti sinn persónulega árangur um 2.5 kg og náði loks að lyfta 90 kg sem var langþráð þyngd hjá henni. Í réttstöðu endaði hún svo með 172.5 kg en átti góða tilraun við 177.5 kg sem fóru því miður ekki upp í dag. Samanlagt lyfti hún 417.5 kg sem gaf henni 18. sætið. Sigurvegari í flokknum varð hin norska Marte Kjenner með 540 kg í samanlögðum árangri.

Til hamingju Arna með Íslandsmetin og árangurinn!

Viktor Samúelsson steig á keppnispall á eftir Örnu en hann keppti í -105 kg flokki. Viktor lyfti mest 285 kg í hnébeygju en reyndi við Íslandsmet í þriðju tilraun með 292.5 kg. Þyngd sem fór ekki upp hjá honum í dag en verður verkefni fyrir hann á komandi mótum. Í bekkpressu lyfti hann 192.5 kg og náði 9. sætinu í greininni af 21 keppendum sem er góður árangur þótt hann hafi verið örfáum kílóum frá sínu besta í greininni. Í réttstöðu lyfti hann svo mest 312.5 kg og samanlagður árangur hans endaði því í 790 kg. Með þennan árangur hafnaði Viktor í 11. sæti en sigurvegari varð Emil Norling frá Svíþjóð með 887.5 kg í samanlögðum árangri.

Til hamingju Viktor með árangurinn!

Á morgun keppir Aron Friðrik Georgsson í -120 kg flokki og byrjar keppni kl 10:00.