Skip to content

Elsa Pálsdóttir er Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum

Óhætt er að segja að fyrsti dagurinn á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum hafi byrjað vel hjá íslensku keppendunum. Elsa Pálsdóttir gerði sér lítið fyrir og vann Evrópumeistaratitilinn fjórða árið í röð og setti um leið heimsmet í hnébeygju. Elsa sem keppir í -76 kg flokki 60-69 ára lyfti 145 kg í hnébeygju, 65 kg í bekkpressu og 165 kg í réttstöðulyftu. Þessi árangur skilaði henni gullverðlaunum í hnébeygju og silfri í bekkpressu og réttstöðu. Samanlagður árangur hennar var 375 kg sem gera 74.59 IPF stig og var hún þar með þriðja stigahæst kvenna yfir alla þyngdarflokka í sínum aldurflokki.

Sæmundur Guðmundsson keppti í -74 kg flokki 70-79 ára og tryggði sér bronsverðlaun í flokknum fyrir samanlagðan árangur. Sæmundur lyfti seríunni 120 – 85 – 167.5 = 372.5 kg og fyrir þennan árangur hlaut hann brons í hnébeygju en silfur í bekkpressu og réttstöðu.  

Þá keppti Páll Bragason í -83 kg flokki 70-79 ára en hann var að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti. Hann kemur heldur ekki tómhentur heim því hann tryggði sér bronsverðlaun í hnébeygju þegar hann lyfti 87.5 kg. Hann bætti svo um betur og setti Íslandsmet í bekkpressu með 65 kg og í réttstöðulyftu með 115 kg lyftu. Samanlagður árangur hans var 267.5 kg sem er einnig nýtt Íslandsmet í hans aldursflokki.

Sannarlega glæsilegur árangur á fyrsta mótsdegi. Til hamingju öllsömul!

Á morgun er svo komið að Herði Birkissyni og Helga Briem en þeir hefja keppni kl. 8:00 að íslenskum tíma.