Viktor og Júlían með gull á EM

Síðasti keppnisdagurinn á EM í kraftlyftingum í Pilsen, Tékklandi var í dag. Tveir íslendingar mættu til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson sem mættu í góðum anda og í hrikalegu keppnisskapi.

Viktor var fyrstur á pallinn í hnébeygjunni og lyfti hann þar 380kg þar sem er hans þyngsta hnébeygja á alþjóðamóti. Næst var það bekkpressan og var ljóst þar að hann yrði ofarlega enda hefur hann verið með hæstu wilks stig í bekk í síðastliðin ár. Hann gerði sér því lítið fyrir og lyfti 307,5kg sem dugði honum til gullverðlauna í bekkpressu. Frábær árangur. Réttstaðan gekk einnig mjög vel og lyfti hann þar 322,5kg sem er hans besta lyfta alþjóðlega. Samanlagt endaði hann mótið í 4 sæti í heildina með 1010kg í samanlögðu sem er besti árangur sem hann hefur náð á alþjóðlegu móti.

Innilega til hamingju með árangurinn Viktor!

Viktor að toga hrikalega! /Mynd frá IPF

Þegar -120kg flokkurinn kláraði hnébeygjurnar var komið að seinna hollinu sem var +120kg flokkurinn. Júlían opnaði í 400kg hnéybeygju en því miður tókst honum ekki að fá gilda hnébeygju. Hann reyndi þrisvar við 400kg sem því miður gekk ekki og datt hann þar með út úr keppninni í samanlögðu. En hann lét það ekki á sig fá og mætti tvíefldur í bekkinn. Hann lyfti í bekkpressunni 312,5kg sem er persónulegt met. Svo var komið að réttstöðulyftunni en hann er núverandi heimsmeistari í réttstöðulyftu í +120kg og var því ljóst að hann var líklegur til stórræða þar. Júlían lokaði þar keppninni á 400kg réttstöðulyftu. Hans besta lyfta þar og einnig óopinbert heimsmet! En því miður þar sem hann náði ekki gildri lyftu í hnébeygjunni er það óopinbert. Þetta gaf honum þó gullið í réttstöðu og því fengu íslendingar í dag 2 gullverðlaun.

Innilega til hamingju með árangurinn Júlían!

Júlían með 400kg í höndunum!

Myndband af lyftunni má sjá inn á facebook síðu evrópska kraftlyftingasambandsins:

MYNDBAND AF 400KG LYFTU JÚLÍANS

 

Íslenski hópurinn á EM. F.v. Daníel Geir Einarsson, Guðfinnur Snær Magnússon, Júlían JK Jóhannsson, Viktor Samúelsson, Hulda B Waage, Grétar Skúli Gunnarsson og Auðunn Jónsson

Hulda með bætingar!

Hulda B. Waage keppti í dag á EM í Pilsen, Tékklandi. Hún lauk keppni í 8. sæti í sterkum -84kg flokki kvenna. Í hnébeygju lyfti hún 220kg, í bekkpressu lyfti hún 135kg og svo lyfti hún 170kg í réttstöðulyftu. Þetta gaf henni 525kg í samanlögðu sem er hennar besti árangur.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Hulda með 220kg á bakinu. Hennar besta beygja á móti!

 

Á morgun keppa svo Viktor Samúelsson í -120kg flokknum og Júlían JK Jóhannsson í +120kg flokknum. Þeir hefja báðir keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma og má horfa á það á vef evrópska kraftlyftingasambandsins. Þeir segjast vera báðir í alveg hrikalegum anda og því verður gaman að fylgjast með!

BEIN ÚTSENDING HÉR

Hulda keppir á morgun

Hulda B. Waage keppir á morgun á EM í kraftlyftingum sem er haldið í Pilsen, Tékklandi. Hún keppir í -84kg flokki og byrjar keppnin kl 08:00 á íslenskum tíma. Hulda er alltaf í hrikalegum anda og verður gaman að fylgjast með henni á morgun. Gangi þér vel Hulda!

Bein útsending verður á vef evrópska kraftlyftingasambandsins

TENGILL Á BEINA ÚTSENDINGU

Guðfinnur með silfur í bekkpressu og Karl með brons í bekkpressu

EM í Pilsen, Tékklandi heldur áfram og í dag kepptu tveir íslendingar. Það voru þeir Karl Anton Löve í -93kg flokki unglinga og Guðfinnur Snær Magnússon í +120kg flokki unglinga. Hvorugum tókst að ná gildri lyftu í hnébeygjunni og þar með fellu þeir því miður úr keppni í samanlögðu. Þeir létu það þó ekki á sig fá og kláruðu bekkpressuna báðir á verðlaunapalli.

Karl Anton lyfti 207,5kg í bekkpressunni sem færði honum bronsverðlaunin og svo lyfti hann 260kg í réttstöðulyftunni.

Karl Anton með brons í höfn

Guðfinnur lyfti 275kg í bekkpressunni sem færði honum silfurverðlaunin og svo lyfti hann 270kg í réttstöðulyftunni.

Guðfinnur með silfrið um hálsinn ásamt Auðunni Jónssyni

Kara með brons í réttstöðulyftu á EM í Pilsen

Kara Gautadóttir keppti í dag í -57kg flokki unglinga á EM í Pilsen, Tékklandi. Hún lauk keppni í 6. sæti í mjög sterkum flokki en kláraði þó mótið á hennar besta árangri hingað til. Hún lyfti 145kg í hnébeygju en ber þó að geta að hún fékk 155kg gilt sem hefði verið íslandsmet en kviðdómur mótsins dæmdi lyftuna því miður af. Svo tók hún 82,5kg í bekkpressu og tók bronsið í réttstöðulyftunni með 152,5 kg lyftu. Frábær árangur hjá henni!

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Kara með flott bronsverðlaun um hálsinn

Við viljum svo benda á að Karl Anton Löve keppir á morgun í -93kg flokki unglinga og Guðfinnur Snær Magnússon keppir líka í +120kg unglinga. Þeir hefja keppni klukkan 12 á íslenskum tíma og má sjá keppnina í beinni HÉR

Sóley Margrét með gull á EM í Pilsen

Sóley Margrét Jónsdóttir vann gull í +84kg flokki í dag á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Hún mætti til keppni í góðum anda og það sást svo sannarlega á keppnispallinum. Hún kláraði beygjuna með 232,5kg beygju sem er nýtt evrópumet í stúlknaflokki. Í bekkpressu lyfti hún 115kg og svo lauk hún mótinu með 200kg réttstöðulyftu. Þetta gaf henni 547,5kg í samanlögðu sem er persónuleg bæting og gullið í hennar flokki. Sóley kom einnig heim með gullið í fyrra og það er frábær árangur að ná því tvö ár í röð.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með titilinn og metið!

Evrópska kraftlyftingasambandið deildi myndskeiði af evrópumetslyftunni hennar Sóleyjar og má sjá það hér: Tengill á myndband

Sóley með 232,5kg á bakinu.

Kara keppir á morgun

Kara Gautadóttir keppir á EM unglinga í fyrramálið. Hún keppir í -57 kg flokki 23 ára og yngri, en Kara er fædd 1996.
Kara á best 153-85-147,5-365 og stefnir á að bæta sig.
Hér má sjá lista yfir keppendur: https://goodlift.info/onenomination.php?cid=447

Keppnin hefst kl. 10.00 að staðartíma, en kl. 08.00 á íslenskum tíma og er hægt að fygljast með hér https://goodlift.info/live.php

Við óskum Köru alls góðs!

ÍM unglinga og öldunga – skráning hafin

Skráning er hafin á aldurstengdu Íslandsmeistaramótin í kraftlyftingum og bekkpressu í búnaði. Mótin fara fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi helgina 9. og 10. júni nk. í umsjón Kraftlyftingafélags Akraness.
Skráningarfrestur á kraftlyftingamótið er til 19.mai en á bekkpressumótið til 20.maí.

Skráning á kraftlyftingamótið: imungold18_skraning

Skráning á bekkpressumótið: imungoldbp18_skraning

Sóley keppir á morgun

Sóley Margrét Jónsdóttir er fyrsti íslenski keppandinn sem stígur á stokk á EM sem nú er að hefjast í Tékklandi. Hún keppir á morgun sunnudag í +84 kg flokk kvenna 18 ára og yngri, en Sóley er fædd 2001 og á best 235 – 117,5 – 210 – 545,5 kg.

Sóley varð Evrópumeistari í þessum flokki í fyrra og ætti að verja þann titil í ár, en tveir keppendur eru skráðir til leiks og hún lang öflugust.

Svo er aldrei að vita hvort Sóley reynir við alþjóðamet en á góðum degi gæti hún átt möguleika t.d. á evrópumetið í hnébeygju.
Við óskum henni góðs gengis, en hægt er að fygjast með keppninni sem hefst kl. 9.00 að staðartíma,(07.00 hjá okkur), hér http://goodlift.info/live.php 

Þing EPF

EPF, European Powerlifting Federation, heldur ársþing sitt í tengslum við EM í Pilsen. Fulltrúi KRA á þinginu er stjórnarmaðurinn Aron Friðrik Georgsson.
Dagskrá þingsins

Meðal þess sem þingið tekur fyrir er ósk Kraftlyftingasambands Íslands um að Western European Championships 2020 fari fram á Íslandi.