Kraftlyftingafélag Akraness

Stöðug fjölgun kraftlyftingafélaga og -iðkenda hefur átt sér stað undanfarin misseri og stjórn hefur ákveðið að hefja kynningu á aðildarfélögum með reglulegum greinum hér á síðunni.
Við hefjum yfirferðina á spurningunni: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA AF SKAGANUM?

Á Akranesi starfar Kraftlyftingafélag Akraness sem er aðili að ÍA, Íþróttabandalagi Akraness. Félagið var eitt af stofnfélögum KRAFT en stofnfundurinn var haldinn 24.nóvember 2009 og var Hermann Hermannsson fyrsti formaður þess.
Hér má lesa um tilurð félagsins.
Núverandi formaður er Einar Örn Guðnason og með honum í stjórn eru Lára Finnbogadóttir gjaldkeri, Sigurgeir Guðmundsson ritari og Arnar Harðarson og Eva Ösp Sæmundsdóttir meðstjórnendur.

Skráður fjöldi iðkenda í september 2017 er 55 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.
Félagið hefur á að skipa fjóra dómara, þá Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur Gunnarsson, Arnar Harðarson og Arnar Helgason, en Kári og Sturlaugur hafa alþjóðadómararéttindi.

Sigursælasti og mest áberandi keppandi félagsins undanfarin misseri hefur verið formaðurinn sjálfur, Einar Örn, en hann er ríkjandi bikarmeistari KRAFT bæði með og án búnaðar og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum auk þess sem hann á flest öll íslandsmet í -105 kg flokki.
Af yngri keppendum má nefna Svavar Örn Sigurðsson, fæddur 1999, sem kom fram á sjónarsviðið með stæl á árinu og er nú á leiðinni til Noregs til að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, Norðurlandamóti drengja í klassískum kraftlyftingum.
Félagið hefur fleiri skemmtilegum og sterkum keppendum á að skipa  og afrekaði að vinna liðabikar karla á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum 2017.

Æfingaraðstaða og heimavöllur félagsins er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í kjallaranum þar ræður félagið ríkjum og hefur til umráða tvö herbergi og allan nauðsynlegan búnað. Aðstaðan er opin á opnunartíma hússins, en fastar æfingar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 16.00 til 22.00. Félagsmenn greiða árgjald 5000 kr fyrir.

Lára Finnbogadóttir sem hefur lokið Þjálfara 1 námskeiði ÍSÍ og KRAFT, sinnir nýliðunum og mætti með þrjá keppendur á byrjendamótið 2017. Það er ekki síst gleðilegt að hægt hefur verið að mynda æfingahóp ungra kvenna og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Að sögn formannsins er samstarfið við íþróttayfirvöld í bænum mjög gott og fjölmiðlar á svæðinu hafa verið duglegir að segja frá árangri félagsmanna.
Aðspurður um helstu markmið og framtíðarsýn Skagamanna svarar hann af sinni alkunnu hógværð: að verða besta og myndarlegasta félagið á landinu.
Þar hafið þið það!
Hægt er að fylgjast með framgangi mála á facebooksíðu félagsins og instagram

Kraftlyftingamenn og -konur munu fjölmenna á Skagann helgina 9 – 10 september nk, en þá heldur Kraftlyftingafélag Akraness þrjú íslandsmót, þ.e. í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu og ætlar að taka vel á móti gestum og veita þeim harða samkeppni.

ÍM í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu – Keppendalistar

Skráningum er lokið Íslandsmeistaramótin í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu sem haldin verða á Akranesi helgina 9. – 10. september.

Félög hafa frest til 26. ágúst til að ganga frá keppnisgjöldum og gera breytingar á þyngdarflokkum.

Keppendur:

Íslandsmeistaramót í bekkpressu – 16 keppendur
Íslandsmeistaramót í klassískri bekkpressu – 39 keppendur
Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu – 32 keppendur

Landsliðsverkefni – seinni hluti 2017

Stjórn KRAFT samþykkti fyrr á þessu ári, tillögur landsliðsnefndar um verkefni fyrir árið 2017. Mörg alþjóðamót hafa nú þegar farið fram og árangur íslensku keppendanna verið góður. Nokkur mót eru þó eftir á árinu en hér má sjá lista yfir þá íslensku landsliðskeppendur sem munu keppa seinna á árinu.

LANDSLIÐSVERKEFNI 2017 – SEINNI HLUTI ÁRS

Norðurlandamót í kraftlyftingum/klassískum kraftlyftingum- 14.-16. sept.
Útbúnaður: Sóley Margrét Jónsdóttir +84 kg, Kara Gautadóttir -57 kg, Þuríður Kvaran -84 kg, Aron Ingi Gautason -74 kg og Karl Anton Löve -93 kg.
Klassískar kraftlyftingar: Svavar Örn Sigurðsson -74 kg, Ingvi Örn Friðriksson -105 kg og Þorsteinn Ægir Óttarsson -120 kg.

Norðurlandamót í bekkpressu/klassískri bekkpressu – 14.-16. sept.
Útbúnaður: Sóley Margrét Jónsdóttir +84 kg, Kara Gautadóttir -57 kg, Aron Ingi Gautason -74 kg og Karl Anton Löve -93 kg.
Klassísk bekkpressa: Ingvi Örn Friðriksson -105 kg og Þorsteinn Ægir Óttarsson -120 kg.

Arnold Classic í klassískum kraftlyftingum – 22.-24. sept.
Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir -57 kg, Elín Melgar Aðalheiðardóttir -63 kg, og Arnhildur Anna Árnadóttir -72 kg.

Evrópumeistaramótið í bekkpressu – 11.-15. okt.
Fanney Hauksdóttir -63 kg og Viktor Ben Gestsson +120/jr

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum – 13.-18. nóv.
Viktor Samúelsson -120 kg og Júlían J. K. Jóhannsson +120 kg

Evrópubikarinn í klassískum kraftlyftingum – 1.-3. des.
Ingvi Örn Friðriksson -120 kg

Fanney með silfur á EM í klassískri bekkpressu

Fanney Hauksdóttir keppti í dag á Evrópumeistaramótinu í klassískri bekkpressu. Þar vann hún til silfurverðlauna í 63 kg flokki kvenna á nýju Íslandsmeti.

Fanney fór auðveldlega upp með 110 kg í fyrstu tilraun. Í annarri tilraun lyfti hún 112,5 kg og bætti þar með eigið Íslandsmet. Hún freistaðist svo til þess að ná gullinu af Ungverjanum Zsanett Palagyi, sem hafði einnig lyft 112,5 kg á minni líkamsþyngd, og reyndi við 115 kg. Það reyndist of þungt fyrir Fanneyju í dag og hafnaði hún í öðru sæti á eftir Palagyi, sem einnig reyndi án árangurs við 115 kg.

Við óskum Fanneyju til hamingju með glæsilegan árangur!

EM í klassískri bekkpressu: Fanney keppir næsta laugardag

Evrópumeistaramótið í klassískri bekkpressu hófst í dag. Mótið er haldið í Ylitornio í Finnlandi. Á meðal keppenda er Fanney Hauksdóttir.

Fanney er skráð til keppni í 63 kg flokki, fjölmennasta flokki kvenna á þessu móti. Líkur eru á að baráttan um verðlaunasætin verði hörð á milli sterkustu keppendanna og ef Fanney nær góðu móti er líklegt að hún nái verðlaunasæti.

Keppni í léttari flokkum kvenna, 47 kg til 63 kg flokkum, fer fram laugardaginn 12. ágúst og hefst kl. 13:30 að íslenskum tíma. Sent er beint út frá mótinu á http://goodlift.info/live1/onlineside.html

Skráning hafin á ÍM í réttstöðulyftu, bekkpressu og klassískri bekkpressu

Skráning er hafin á Íslandsmeistaramótin í réttstöðulyftu, bekkpressu og klassískri bekkpressu. Mótin fara fram helgina 9. – 10. september á Akranesi í Íþróttahúsinu á Vesturgötu í umsjá Kraftlyftingafélags Akraness. Ábyrgðarmaður er Lára Bogey Finnbogadóttir ([email protected]).

Laugardaginn 9. september verður fyrst keppt í klassískri bekkpressu og síðan í bekkpressu (með búnaði). Keppni í réttstöðulyftu fer fram 10. september. Nánari tímasetningar verða birtar þegar fjöldi og dreifing keppenda liggur fyrir.

Þetta eru þrjú mót og þarf að skrá keppendur sérstaklega á hvert þeirra á rétt eyðublað. Skráningafrestur er til 19. ágúst og frestur til þyngdarflokkabreytinga og greiðslu keppnisgjalda er til  26. ágúst.

Skráning á ÍM í bekkpressu (með útbúnaði)

Júlían hefur lokið keppni

Júlían J. K. Jóhannsson keppti í gær á Heimsleikunum (The World Games), fyrstur íslenskra kraftlyftingamanna. Þar keppti hann við þá sterkustu í yfirþungavigt (-120 kg og +120 kg fl.) á Wilks-stigum.

Júlían lenti, eins og nokkrir aðrir keppendur, í erfiðleikum í hnébeygjunni. Honum tókst ekki á ná löglegri dýpt í neinni tilraun, fékk því enga gilda hnébeygju og féll úr keppni. Júlían hélt þó áfram og lyfti 295 kg í bekkpressu og 350 kg í réttstöðulyftu.

Yfirþungavigtina sigraði Úkraínumaðurinn Oleksiy Rokochiy með 632,5 Wilks-stig.

Heimsleikarnir: Júlían keppir á morgun

Heimsleikarnir, sem haldnir eru fjórða hvert ár, standa nú yfir í Wrocław í Póllandi, en það lang stærsta svið alþjóðlegra kraftlyftinga. Þar munu í ár íslenskir kraftlyftingamenn í fyrsta sinn eiga sinn fulltrúa.

Það er Íþróttamaður Reykjavíkur, Júlían J. K. Jóhannsson, sem verður fyrstur Íslendinga til að keppa í kraftlyftingum á Heimsleikunum. Þar mætir Júlían þeim allra sterkustu í yfirþungavigt, þ.e. 120 kg og +120 kg fl., og ræðst sigurinn af Wilks-stigafjölda keppenda.

Keppni í yfirþungavigt karla fer fram á morgun, miðvikudaginn 26. júlí, og hefst keppni kl. 13 að íslenskum tíma.

Yfirþungavigt karla verður líklega ekki aðgengileg í beinni útsendingu (sjá útsendingardagskrá), en klippt upptaka verður sýnd kl. 22 á morgun á https://www.olympicchannel.com/en/tv/the-world-games-2017-wroclaw/. Það verður hins vegar hægt að fylgjast með stigatöflunni í beinni á Goodlift.info

Arnhildur og Birgit hafa lokið keppni á HM í klassík

Birgit Rós t.v. og Arnhildur Anna t.h.

Í dag kepptu þær Arnhildur Anna Árnadóttir og Birgit Rós Becker á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum. Báðar kepptu þær í 72 kg flokki þar sem Arnhildur hafnaði í 16. sæti í samanlögðum árangri, en Birgit tókst ekki að fá gilda réttstöðulyftu og féll því miður úr keppni.

Birgit byrjaði mótið vel og jafnaði sitt eigið Íslandsmet í hnébeygju í annarri tilraun með 165 kg, en 167,5 kg í þriðju tilraun reyndist of mikið í dag. Í bekkpressu bætti hún sinn besta árangur um 2,5 kg með því að lyfta 80 kg. Réttstaðan fór ekki jafnvel, þar reyndi Birgit þrívegis við 157,5 kg. Í fyrstu tilraun fékk hún ógilt vegna tæknivillu, í annarri var aflið ekki til staðar og í þeirri þriðju fékk hún svo aftur ógilt vegna tæknivillu. Henni tókst því ekki að fá skráðan samanlagðan árangur og féll úr í heildarkeppninni.

Arnhildur byrjaði líka vel. Hún lyfti 152,5 kg í annarri tilraun og reyndi að bæta sinn besta árangur í þeirri þriðju með 157,5 kg, sem reyndist aðeins of þungt í dag. Í bekkpressunni fór Arnhildur upp með 80 kg í fyrstu tilraun og mistókst svo tvívegis með 82,5 kg. Í réttstöðunni tókst henni að lyfta 165 kg en meiddist við framkvæmd lyftunnar og varð að hætta keppni. Þrátt fyrir meiðslin var hún aðeins 10 kg frá sínum besta árangri með 397,5 kg samanlagt. Hún hafnaði með þeim árangri í 16. sæti í flokknum.

Ragnheiður með nýtt Íslandsmet í beygju á HM í klassík

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir hefur lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem stendur yfir í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Hún keppti í nokkuð sterkum 57 kg fl. og hafnaði þar í 10. sæti í samanlögðum árangri.

Ragnheiður náði ekki alveg fram sínu besta vegna smávægilegra meiðsla við undirbúning. Það hrjáði henni þó ekki í hnébeygju þar sem hún lyfti 122,5 kg og bætti eigið Íslandsmet. Meiðslin hrjáðu henni í bekknum og þar náði hún aðeins einni lyftu með 77,5 kg gildri. Í réttstöðulyftu tókst henni mest að lyfta 152,5 kg í þriðju tilraun eftir að hafa klikkað á sömu þyngd í annarri tilraun. Samanlagt tók Ragnheiður 352,5 kg og hafnaði með þeim árangri í 10. sæti.

Næstar Íslendinga á pallinn eru þær Arnhildur Anna Árnadóttir og Birgit Rós Becker sem báðar keppa í 72 kg flokki. Þær hefja keppni kl. 11:00 á morgun.

Bein útsending