Muggur Ólafsson hefur lokið keppni

Muggur Ólafsson keppti í dag fyrir hönd Íslands á Arnold Classic mótinu sem fór fram í Barcelona á Spáni. Muggur keppti í klassískum kraftlyftingum. Mótið er svokallað Wilks mót og var því farið eftir Wilks-stigum óháð þyngdarflokkum.

Muggur vigtaðist 72,66kg og lyfti hann 185kg í hnébeygjunni, 127,5kg í bekkpressuni og svo 220kg í réttstöðulyftu. Þetta skilaði honum 8. sæti af 12 keppendum. Engar bætingar að sinni en þetta er hans fyrsta mót á erlendri grundu og því ólíkar aðstæður en hann hefur keppt við hingað til.

Muggur ásamt Mohamed Alim samkeppanda hans frá Egyptalandi.

Landsliðslágmörk unglinga

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum í gær ný landsliðslágmörk í unglingaflokkum.
Þau eru töluvert frábrugðin núgildandi tölum  og taka gildi 1.janúar nk, s.s. við val í landslið 2019. Önnur skilyrði við valið, s.s. fjöldi móta, eru óbreytt.

Reiknað er meðaltal af 15 efstu keppendum á heimsmeistaramótum undanfarinna þriggja ára í hverjum flokki fyrir sig og er sú tala lögð til grunn.
90% af grunntölu gefur þátttökurétt á HM, 85% á EM og 80% á svokölluð C-mót.
Grunntalan verður uppreiknuð aftur eftir tvö ár.
Finna má lágmörkin hér: http://kraft.is/afreksmal/

Tvö heimsmet féllu á Akureyri

Norðurlandamót unglinga fór fram í íþróttahöllinni á Akureyri um helgina í umsjón Kraftlyftingafélags Akureyrar. Mótið fór vel fram og var umgjörð öll hin glæsilegasti.
116 keppendur frá Finlandi, Svíþjóð, Danmörk, Noregi og Íslandi tóku þátt, en íslensku keppendurnir voru 17 talsins.
Keppt var í kraftlyftingum og bekkpressu með og án búnaðar.

Tvö heimsmet féllu á mótinu, sjö Evrópumet auk fjölda Norðurlanda- og landsmet.
Heildarúrslit mótsins

Í tengslum við mótið var haldinn aðalfundur Kraftlyftingasambands Norðurlanda NPF og einn dómari var útskrifaður með alþjóðadómararéttindi.

Norðurlandamót Unglinga

Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum verður haldið á Akureyri dagana 21.-22.september næstkomandi. Þar mun efnilegt kraftlyftingafólk etja kappi og verða keppendur frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Mótið er haldið í íþróttahöllinni á Akureyri og eigum við von á glæsilegu móti með flottri umgjörð.

Nú er hægt að sjá tímatöflu mótsins hér.
https://npfpower.files.wordpress.com/2018/09/timetable.pdf

Keppni lokið á V.EM

Keppni er lokið á Vestur Evrópumótinu í Kraftlyftingum.

Alex Cambray Orrason og Þorbergur Guðmundsson stigu síðastir á svið fyrir Íslands hönd. Þetta reyndist frekar erfiður dagur og voru dómarnir ekki strákunum í hag. Báðir gáfu allt í þetta og engin spurning að þeir koma báðir sterkari til baka og reynslunni ríkari. Alex var með þrjár ógildar lyftur í bekknum eftir að hafa rifið upp 315kg í hnébeygjunni og dómarnir féllu ekki með Þorbergi í beygjunni.

Íslendingarnir stóðu sig heilt yfir mjög vel og féllu nokkur Íslandsmet ásamt því að Viktor og Ragnheiður fara heim með verðlaunapening.

Þriðji keppnisdagur á V.EM

Hulda B. Waage hóf keppni fyrir hönd Íslands á þriðja keppnisdegi á Vestur Evrópumótinu í Kraftlyftingum. Hulda keppti í -84kg flokki með búnaði og átti flottan dag.

Hulda hóf daginn á 217.5kg hnéygju fyrir nýju Íslandsmeti og bætti svo um betur með 222.5kg beygju. Í bekknum bætti Hulda svo við öðru Íslandsmeti með 140kg lyftu og lauk svo deginum með 170kg lyftu í réttstöðu og gerði góða tilraun við 177.5kg sem vildu ekki upp í þetta sinn.

Í heildina lyfti Hulda 532.5kg sem gaf henni fjórða sæti í samanlögðu, bætti Íslandsmet í hnébeygju, bekkpressu og samanlagt. Svo sannarlega flottur árangur og hvatning fyrir strákana sem hefja keppni klukkan 14:30.

Alex Orrason keppir í -105kg flokki og Þorbergur í 120+kg. Hægt er að fylgjast með framgöngu strákanna hér,
http://goodlift.info/live.php

 

-105 kg flokkur karla í klassískum á V.EM

Ingvi Örn Friðriksson hefur lokið keppni í -105kg flokki á Vestur Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum.

Ingvi byrjaði daginn á 260kg lyftu í hnébeygju og fylgdi því eftir með 157.5kg í bekknum og að lokum fóru 297.5kg upp í réttstöðulyftu. Ingvi sýndi flottann anda þegar hann reif upp 297.5 í þriðju tilraun og virkilega gaman að sjá báráttuviljann skila honum lyftunni.

Ingvi á meira inni og ekki spurning að þetta mót fer í reynslubankann.

Viktor með brons í -120kg í klassískum

Viktor Samúelsson náði mjög góðum árangri í -120kg flokki í klassískum lyftingum sem var að ljúka á Vestur Evrópumótinu.

Viktor náði bronsi í samanlögðu með 805kg samanlagt. Viktor var með 292.5 kg. í hnébeygju sem er jafnframt nýtt Íslandsmet og náði hann silfri í beygju. Í bekknum fóru 207.5kg upp sem einnig var silfur og í réttstöðu fóru 305kg. af gólfinu sem skilaði bronsi.

Frábær árangur hjá Viktori og verður spennandi að fylgjast með honum á komandi mótum.