María bætti íslandsmetið

María Guðsteinsdóttir keppti í dag í bekkpressu á HM öldunga í Japan. Hún  keppti í -57 kg M1 flokki og lyfti 82,5 kg sem er íslandsmet öldunga í flokknum.  

Alexandrea með bronsverðlaun

Alexandrea Rán Guðnýjardóttir keppti í dag á heimsmeistaramótinu í bekkpressu sem fer fram í Tókýó, Japan. Alexandrea keppir í klassískri bekkpressu í -57kg flokki unglinga. Hún tók 67,5kg í fyrstu lyftu. Í annari lyftu lyfti hún 72,5kg og bætti þar sinn besta árangur um 2,5kg og í leiðinni íslandsmetið um 2,5kg. Þá var lítið annað að gera en að biðja um 75kg á stöngina sem fóru upp og tryggðu henni bronsverðlaun og nýtt íslandsmet í leiðinni.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Alexandrea með bronspening um hálsinn (t.v.)

Þá hafa allir íslensku keppendurnir lokið keppni á HM í klassískri bekkpressu. María Guðsteinsdóttir mun svo keppa í búnaðarbekkpressu á miðvikudaginn.

Íslenski hópurinn á HM í bekkpressu. Frá vinstri: Arna Ösp Gunnarsdóttir, María Guðsteinsdóttir og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir

María hefur lokið keppni

María Guðsteinsdóttir keppti í dag á heimsmeistaramótinu í bekkpressu sem fer fram í Tókýó, Japan. María keppti í klassískri bekkpressu og er hún -57kg flokki kvenna masters 1 (40-49 ára). Í fyrstu lyftu lyfti hún María 65kg og í annarri lyftu lyfti hún 67,5kg. Hún reyndi svo við 70kg í síðustu lyftunni en það reyndist of þungt í dag. Hún lauk því mótinu í 8. sæti með 67,5kg lyftu og með 578,4 IPF stig.

María í einbeitt undir stönginni – skjáskot úr beinni útsendingu IPF

Íþróttastjóri tekur til starfa

Auðunn Jónsson hefur verið ráðinn íþróttastjóri Kraftlyftingasambands Íslands f.o.m. 15.maí. 

Íþróttastjóri hefur yfirumsjón með landsliðsmálum. Hann aðstoðar og fylgist með undirbúningi undir alþjóðamót, tekur út árangur og er landsliðsnefnd og stjórn til ráðgjafar. Auðunn verður líka ráðgjafi keppenda og tengiliður þeirra við landsliðsnefnd og heilbrigðisteymi. 

Við óskum honum velkominn til starfa og væntum að hans mikla reynsla og þekking muni nýtast vel í þessu hlutverki.

Landsliðsval – seinni hluta árs

Samkvæmt verklagsreglum við val í landslið er gert ráð fyrir að félög sendi inn tilnefningar á mót seinni hluta árs fyrir 1.júni. Sömuleiðis er nauðsynlegt að hugsanlegar breytingar frá áður samþykktri þátttöku komi fram. Senda skal tilnefningar og óskir um breytingar á [email protected] 
Í reglunum segir: Fyrir 1.júni skulu félögin vera búin að senda inn tillögur að breytingum fyrir seinni hluta árs. Skulu félög senda allar nauðsynlegar upplýsingar um keppendur, þar með talið hvernig þeir uppfylli þau skilyrði sem fram kom a í 3. gr. þessara reglna,

Verkefni sem þegar liggja fyrir undirritaðir samningar um eru klár og þarf ekki að fjalla frekar um. 

Breyting á reglugerð

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum 15.apríl sl breytingar á Reglugerð um kraftlyftingakeppni, stundum talað um sem “mótareglurnar”.
Hér er aðallega um uppfæringar og minni háttar breytingar að ræða en vakin er sérstaka athygli á 22.grein í kaflanum um framkvæmd móta. Þar er tekið fram að það er ábyrgð mótshaldara að manna mótið, jafnframt er lögð skylda á önnur félög að tilnefna dómara/starfsmenn og hvatt til að menn auðveldi öllum lífið og nýti möguleikann til að forskrá sig til dómgæslu á keppnistímabilinu.

REGLUGERÐIR

EM í Pilsen lokað á silfri

Síðasti keppnisdagur á evrópumótinu í kraftlyftingum var í dag og mættu þar tveir Íslendingar til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson.

Viktor Samúelsson var í fyrra hollinu en hann keppir í -120kg flokki karla. Viktor lyfti 365kg í hnébeygjunni. Í bekkpressunni lyfti hann 287,5kg af miklu öryggi. Í réttstöðulyftunni lyfti hann 315kg en í þriðju tilraun reyndi hann við 335kg sem flugu upp en lyftan var dæmd af vegna tæknigalla. Með þeirri lyfti hefði Viktor tryggt sér bronsverðlaun í samanlögðu. Hann lauk því mótinu í 4. sæti með 967,5kg í samanlögðu. Flottur árangur þar.

Viktor með örugga 315kg réttstöðulyftu

Júlían JK Jóhannsson var svo í +120kg flokki karla sem lyftu á móti -120kg hollinu. Júlían náði ekki gildri í lyftu í 2 fyrstu hnébeygjunum og var því þriðja lyftan æsispennandi þar sem þurfti að ná henni til að halda sér inn í keppninni. Júlían lyfti þá örugglega 385kg og fékk fyrir lyftuna 3 hvít ljós. Í bekkpressunni átti hann góðan dag og lyfti hann þar 315kg sem er 5kg bæting á íslandsmetinu og dugði til bronsverðlauna í bekkpressu. Í réttstöðulyftunni opnaði hann “létt” í 355kg. Hann fór þá í 385kg sem flaug upp en hann missti því miður takið efst í lyftunni. Þá var lítið annað að gera en að taka hana aftur og gulltryggja þar með gullverðlaunin í réttstöðulyftunni. Þetta gaf honum 2. sætið í samanlögðu með 1085kg og því silfurverðlaun í hús. Óskar kraftlyftingasamband Íslands honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían með verðlaunapeninga á stærð við lóðaplötur framan á sér!

Þar með lýkur EM í kraftlyftingum í Pilsen. Íslenskir keppendur stóðu sig mjög vel og koma þeir heim með 5 gullverðlaun, 4 silfurverðlaun og 4 bronsverðlaun af mótinu. Ekki slæmur árangur þar!

Hér fyrir neðan má svo sjá mynd af næstum því öllum íslenska hópnum sem var úti.

Hrikalega hrikaleg!

EM í Pilsen heldur áfram

EM í kraftlyftingum er haldið þessa dagana í Pilsen og er enginn skortur af íslenskum keppendum á pallinn. Í dag kepptu þau Hulda B. Waage, Karl Anton Löve og Alex Cambray Orrason.

Hulda B. Waage var fyrst á pallinn í morgun og keppir hún í -84kg flokki kvenna. Hulda lyfti 230kg í hnébeygju sem var jafn þungt og bronslyftan en sú sem tók þriðja sætið var aðeins léttari og því var hennar lyfta í 4. sæti. Bekkurinn reyndist erfiður í dag og tókst Huldu því miður ekki að ná gildri lyftu í bekknum. Þriðja lyftan var mjög sannfærandi en var hún dæmd af vegna tæknigalla. Hún lét það þó ekki á sig fá og hélt áfram í réttstöðulyftuna og lyfti þar 180kg.

Hulda í skýjunum með 230kg hnébeygju

Eftir hádegi mætti svo Karl Anton Löve á pallinn. Hann keppir í -93kg flokki karla. Karl lyfti 335kg í hnébeygjunni með 3 gildar lyftur og nýtt íslandsment í hnébeygjunni. Í bekkpressu lyfti hann 220kg sem hann náði í æsispennandi þriðju lyftu sem skar úr hvort hann næði gildum bekk. Í réttstöðulyftunni lyfti hann svo 275kg. Þetta gaf honum 830kg í samanlögðu sem er 10kg bæting á hans best árangri í -93kg flokknum og endaði Karl í 12. sæti. Óskar Kraftlyftingasamband Íslands honum til hamingju með íslandsmetið.

Karl Anton stendur öruggur eftir 335kg hnébeygju

Samfara -93kg flokknum kepptu -105kg keppendur. Þar keppti enn einn Íslendingurinn. Alex Cambray Orrason keppti þar á sínu fyrsta evrópumóti. Í hnébeygjunni lyfti Alex öruggt 342,5kg með 3 gildar lyftur og 2,5kg bætingu. Hann ákvað að gera mótið jafn æsispennandi og Karl og náði hann loksins gildri lyftu í þriðju lyftu í bekkpressunni með 240kg. Í réttstöðulyftunni lyfti hann svo 282,5kg. Þetta gaf honum 865kg í samanlögðu og 8. sæti í flokknum.

282,5kg voru létt í höndum Alex í dag

Á morgun er svo lokadagur EM. Þar mæta til leiks Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson. Þeir hefja báðir keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma.

Eins og alltaf þá má fylgjast með áGoodlift

Guðfinnur með silfurverðlaun

Guðfinnur Snær Magnússon keppti í dag á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Guðfinnur keppir í +120kg unglinga og hefur þrátt fyrir ungan aldur keppt lengi í greininni.

Hann lauk mótinu með 375kg hnébeygju, 390kg fóru upp en lyftan var því miður dæmd ógild. Í bekkpressunni lyfti hann 275kg og svo kláraði hann mótið 302,5kg réttstöðulyftu. Þetta gaf honum silfurverðlaun í hnébeygju, silfurverðlaun í bekkpressu, bronsverðlaun í réttstöðulyftu og svo silfurverðlaun í samanlögðu með 952,5kg. Það er 5kg bæting á hans besta árangri.

Guðfinnur fer því heim klyfjaður með 3 silfurpeninga og 1 bronspening um hálsinn. Flottur árangur hjá honum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Guðfinnur í góðra vini hópi. Auðunn Jónsson (t.v.), verðlaunapeningarnir (m) og Helgi Hauksson (t.h.)

EM heldur áfram í Pilsen en næstu íslensku keppendur sem stíga á pallinn verða þau Hulda Waage og Karl Anton Löve. Þau keppa bæði á föstudaginn en Hulda hefur keppni kl. 8 að íslenskum tíma og Karl kl. 13:30 að íslenskum tíma.

Eins og alltaf þá er hægt að fylgjast með á Goodlift