Hulda og Árdís hafa lokið keppni á EM

Í dag kepptu þær Hulda B. Waage og Árdís Ósk Steinarsdóttir á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum, sem stendur yfir í Málaga á Spáni. Hulda hafnaði í sjötta sæti í -84 kg flokki á nýju Íslandsmeti í samanlögðu með 515 kg. Í +84 kg flokki hafnaði Árdís í fjórða sæti og bætti nýslegið met Sóleyjar Jónsdóttur í samanlögðu með 545 kg.

Hulda lyfti mest 210 kg í hnébeygju, sem er 5 kg bæting á hennar eigin Íslandsmeti. Í bekkpressu tókst henni einnig að bæta eigið Íslandsmet um 5 kg þegar hún lyfti 125 kg í annarri tilraun. Í réttstöðulyftu lyfti Hulda svo mest 180 kg í þriðju tilraun. Samanlagt lyfti hún því 515 kg, sem er 12 kg bæting á tveggja ára gömlu meti Fríðu Bjarkar Einarsdóttur. Þessi árangur kom henni í sjötta sætið í -84 kg flokki. Flokkinn vann Rússinn Nadezhda Sindikas á 602,5 kg.

Árdís var að keppa í fyrsta sinn frá því að hún lenti í slæmu slysi á EM í bekkpressu á síðasta ári. Hún virðist hafa náð góðum bata og átti gott mót. Hún bætti Íslandsmetið í hnébeygju um 7,5 kg þegar hún lyfti 222,5 kg í þriðju tilraun. Í bekkpressu lyfti hún mest 150 kg í annarri tilraun. Í réttstöðulyftu lyfti Árdís mest 172,5 kg, sem er 12,5 kg persónuleg bæting. Samanlagt lyfti hún 545 kg og hafnaði í fjórða sæti í +84 kg flokki. Það er 17,5 kg bæting á metinu sem Sóley Jónsdóttir setti fyrr í vikunni. Flokkinn vann Agnes Szabo frá Ungverjalandi á 655 kg.

Við óskum Huldu og Árdísi til hamingju með árangurinn!

Næstir Íslendinga á keppnispallinn í Málaga eru þeir Viktor Samúelsson og Júlían J. K. Jóhannsson. Þeir hefja keppni kl. 10:30; Viktor í -120 kg flokki og Júlían í +120 kg flokki. Beina útsendingu má nálgast á goodlift.info/live.php.

Guðfinnur með brons á EM

Guðfinnur Snær Magnússon vann í dag til bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum. Hann hafnaði í þriðja sæti í +120 kg flokki unglinga (U23) með 870 kg í samanlögðum árangri.

Guðfinnur lyfti mest 350 kg í hnébeygju í þriðju tilraun, og tókst með því að vinna silfrið í greininni.  Í bekkkpressu tók hann bronsið með því að lyfta 260 kg. Réttstöðulyftan fór gekk ekki alveg samkvæmt áætlun. Náði Guðfinnur aðeins opnunarþyngdinni með 260 kg eftir að hafa mistekist naumlega tvívegis að lyfta 290 kg, en sú þyngd hefði tryggt honum silfrið í samanlögðu. Rússanum Vladislav Nemov tókst að jafna árangur Guðfinns, 870 kg, og hrifsa af honum silfrið á minni líkamsþyngd.

Til hamingju með bronsið Guðfinnur!

Næstar Íslendinga lyfta þær Hulda B. Waage í -84 kg fl. og Árdís Ósk Steinarsdóttir í +84 kg fl., báðar í opnum aldursflokki. Þær hefja keppni kl. 09:00 á laugardaginn.

Kara með brons á EM

Kara Gautadóttir átti góðu gengi að fagna á Evrópumeistaramótinu í dag. Þar vann hún til bronsverðlauna í samanlögðu með 362,5 kg í -57 kg flokki unglinga.

Í hnébeygju lyfti Kara mest 145 kg í þriðju tilraun og vann brons í greininni. Í bekkpressu náði hún aðeins einni gildri lyftu, en það kom ekki að sök því með 80 kg lyftu vann hún til silfurverðlauna.  Kara lyfti svo mest 137,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagt lyfti hún 362,5 kg, sem landaði henni bronsinu. Hún missti naumlega af silfrinu í samanlögðu því Anastasiia Nakonechna frá Úkraínu tók einnig 362,5 kg, en var aðeins aðeins léttari.

Til hamingju Kara!

Næstur Íslendinga á keppnispallinn er Guðfinnur Snær Magnússon, sem keppir í +120 kg fl. unglinga. Hann hefur keppni kl. 12:30 á morgun.

Sóley með gull á EM

Sóley Jónsdóttir átti góðan dag á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum, sem haldið er í Málaga á Spáni. Hún stóð uppi sem sem Evrópumeistari telpna í +84 kg flokki. Það gerði hún með nýju Íslandsmeti í samanlögðum árangri í opnum flokki, 527,5 kg.

Í hnébeygju tók Sóley gullið með 215 kg í annarri tilraun, 15 kg meira en Slóvakinn Michaela Botkova. Sóley fékk svo allar lyftur gildar í bekkpressu og lyfti mest 112,5 kg, en það er nýtt Íslandsmet telpna og í unglingaflokki (U23) og skilaði henni bronsi í greininni. Í réttstöðunni hreppti Sóley gullið með því að lyfta 200 kg í annarri tilraun. Samanlagt gerir það því 527,5 kg sem landar henni gullinu og nýju Íslandsmeti í opnum flokki!

Við óskum Sóleyju til hamingju með þennan frábæra árangur!

 

Evrópumeistaramótið hefst á morgun

Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum í opnum flokki og ungmennaflokkum hefst á morgun og stendur yfir til 14. maí. Mótið er haldið í Málaga á Spáni.

Sjö Íslendingar munu keppa, og þar af fjórir í opnum aldursflokki. Keppendurnur eru:

Sóley Jónsdóttir, sem keppir í +84 kg flokki telpna. Sóley er sú fyrsta til að stíga á keppnispallinn, en keppni í öllum þyngdarflokkum telpna hefst kl. 8:00 á mánudag; Kara Gautadóttir, sem keppir í -57 kg unglinga. Keppni í hennar þyngdarflokki hefst kl. 09:00 á þriðjudaginn; Guðfinnur Snær Magnússon, sem keppir í +120 kg fl. unglinga. Hann hefur keppni kl. 12:30 á miðvikudaginn; Hulda B. Waage, sem keppir í -84 kg fl., og Árdís Ósk Steinarsdóttir, sem keppir í +84 kg fl, hefja keppni kl. 09:00 á laugardaginn; Viktor Samúelsson, sem keppir í -120 kg fl., og Júlían J. K. Jóhannsson, sem keppir í +120 kg fl. hefja keppni kl. 10:30 á sunnudaginn.

Nánari upplýsingar og bein útsending með úrslitum

Bein útsending:

ÍM í kraftlyftingum – úrslit

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum í opnum og aldurstengdum flokkum lauk fyrir stundu í Smáranum í Kópavogi.
Mótið var fámennt að þessu sinni, en lið KFA frá Akureyri var fjölmennt og unnu til flestra verðlauna.
Stigameistarar i opnum flokki urðu Hulda B. Waage og Viktor Samúelsson, bæði frá KFA.
Stigameistarar í unglingaflokki urðu Þuríður Kvaran Guðmundsdóttir og Þorsteinn Ægir Óttarsson, bæði frá KFA
Stigameistari í öldungaflokki var Jóhan Tómas Sigurðsson, KFR.
Þó nokkur íslandsmet voru sett á mótinu.

HEILDARÚRSLIT:
ÍM í opnum flokki:
http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-i-kraftlyftingum-2017
IM unglinga og öldunga
http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-ungmenna-og-oldunga-i-kraftlyftingum-2017

Matthildur með brons á HM í klassískri bekkpressu

Matthildur Óskarsdóttir (KFR) lauk fyrr í dag keppni á HM í klassískri bekkpressu. Þar keppti hún í 72 kg telpnaflokki og fór örugglega í gegn með allar þrjár lyftur. Hún lyfti 75 kg í fyrstu tilraun og setti svo nýtt Íslandsmet telpna með 77,5 kg í annarri tilraun. Matthildur bætti svo um betur í þriðju tilraun og lyfti 80 kg. Hún hafnaði í þriðja sæti í flokknum, en sigurvegarinn varð Kloie Doublin frá BNA með 102,5 kg.

Þessi glæsilegi árangur Matthildar lofar góðu fyrir næsta mót, sem er HM í klassískum kraftlyftingum í maí.

Við óskum Matthildi til hamingju með árangurinn!

HM í klassískri bekkpressu hófst í dag

Merki HM í klassískri bekkpressu 2017Heimsmeistaramótið í klassískri bekkpressu hófst í dag með keppni í öldungaflokkum. Mótið er haldið í bænum Killeen í Texas og stendur yfir dagana 17. til 22. apríl.

Í landsliðsvali Íslands fyrir mótið er að þessu sinni einn keppandi, Matthildur Óskarsdóttir. Hún keppir í 72 kg telpnaflokki (U18). Keppni í þeim flokki og öðrum þyngdarflokkum telpna fer fram fimmtudaginn nk. 20. apríl og hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Bein útsending, keppendalistar og tímatafla á Goodlift

Formannafundur

Stjórn KRAFT hefur boðað til fundar með formönnum aðildarfélaga föstudaginn 21.apríl nk kl.18.00 í húsi ÍSÍ í Laugardal.
Formaður eða staðgengill hans á rétt á fundarsetu smbr reglum um formannafundi.
Aðalefni fundarins eru afreksmálin, en stjórnin mun leggja fram nýja afreksstefnu 2017 – 2025.
Staðfestið gjarnan komu á netfangið [email protected]

ÍM í kraftlyftingum – Tímasetningar

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum og Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í kraftlyftingum fara fram í Smáranum, Kópavogi, 22. apríl og hefst keppni kl. 11:00.

Facebook-viðburður fyrir mótin.

Tímasetningar og skipting í holl:

Holl 1: Allir þyngdar- og aldursflokkar kvenna
Holl 2: Allir þyngdar- og aldursflokkar karla

Vigtun holl 1 og 2: 09:00
Keppni holl 1 og 2: 11:00

Dómarar

Helgi Hauksson
Kári Rafn Karlsson
María Guðsteinsdóttir
Solveig H. Sigurðardóttir

Keppendur

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum
Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í kraftlyftingum