ÍM í klassískri bekkpressu – Úrslit

Kraftlyftingafélag Reykjavíkur (KFR) hélt í dag íslandsmót í klassískri bekkpressu í World Class Kringlunni. Alls mættu 20 keppendur, 8 konur og 12 karlar. Mótið gekk vel fyrir sig og léku keppendur á alls oddi, íslandsmet féllu og persónuleg met auðvitað líka.

Í flokki karla vann Ingimundur Björgvinsson frá KFR með 120,6 wilks stig. Hann keppti í -105kg flokki og lauk mótinu á 201kg lyftu sem er íslandsmet í opnum flokki.

Í flokki kvenna vann Fanney Hauksdóttir frá KFR með 121,9 wilks stig. Hún keppti í -63kg flokki og lauk mótinu á 113kg lyftu sem er einnig íslandsmet í opnum flokki.

Kraftlyftingasambandið vill óska þeim innilega til hamingju með sigurinn! Þakkir fær KFR fyrir mótshald.

Full úrslit úr mótinu má nálgast hér:

Úrslit úr klassískri bekkpressu

Við bendum svo á Íslandsmót í klassískum kraftlyftingum sem verður haldið á sama stað í fyrramálið kl 10. Það er þríþrautarmót, keppt í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Við hvetjum alla sem hafa áhuga að koma, klappa og hvetja!

ÍM – tímaplan

ÍM Í KLASSÍSKRI BEKKPRESSU – laugardag 17.mars – WorldClass Kringlunni

Vigtun kl. 14.00 – keppni hefst kl. 16.00
HOLL 1 – allir
Dómarar: Ása Ólafsdóttir,Hulda Elsa Björgvinsdóttir, Aron Ingi Gautason

ÍM Í KLASSÍSKUM KRAFTLYFTINGUM – sunnudag 18.mars – WorldClass Kringlunni

Vigtun kl 8 – keppni hefst kl. 10.00
HOLL 1 – konur -57 – 84
HOLL 2 – konur +84 og karlar 74 – 93
HOLL 3 – karlar -105  – 120+

PALLUR 1 – holl 1 og 3
Dómarar: Ása Ólafsdóttir, Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur A Gunnarsson
PALLUR 2 – holl 2
Dómarar: Sólveig Sigurðardóttir, Róbert Kjaran, Hulda Elsa Björgvinsdóttir

Laufey með gull í bekkpressu á EM öldunga

Laufey Agnarsdóttir keppti í dag á EM öldunga í -84kg flokki master I og lét heldur betur til sín kveða og vann til gullverðlauna í bekkpressunni. Hún setti persónulegt met í hnébeygju þegar hún lyfti 137,5kg. Í bekkpressunni lyfti hún 92,5kg sem eins og áður sagði dugði henni til gullverðlauna og kláraði svo mótið á 152,5kg réttstöðulyftu.

Samanlagt gaf þetta henni 382,5kg sem skilaði henni 5. sæti í hennar þyngdarflokki.

Glæsilegur árangur, til hamingju Laufey!

Laufey efst á palli með gull um hálsinn!

Sigþrúður með gull á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum

Sigþrúður með vel verðskuldað bros á vör eftir afrek dagsins

Sigþrúður Erla Arnarsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði +84kg flokk Masters II á fyrsta EM öldunga í klassískum kraftlyftingum. Sigþrúður vann einnig gull í hnébeygju, gull í bekkpressu og brons í réttstöðulyftu.

Lyftur hennar voru 160kg í hnébeygju, 87,5kg í bekkpressu og 172,5kg í réttstöðulyftu. Samanlögð þyngd þá 420kg sem er nýtt evrópumet masters II. Allt eru þetta íslandsmet í masters II flokki. Einnig er þetta persónuleg bæting í öllum greinum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn, frábær í alla staði!

Dómarapróf

Próf til dómararéttinda fer fram í tengslum við Byrjendamótið 7.apríl nk. Skráning í tölvupósti til [email protected] með afrit á [email protected] sem fyrst. Takið fram nafn, kennitölu, félag og netfang. Prófgjald er 10.000 kr.

Hámarksfjöldi prófkandidata er 6
Ef fleiri sækjast eftir þátttöku verður valið úr með tilliti til þess að sem flest félög komi a.m.k. einum manni að.

Júlían með silfur á Arnold Sports Festival

Júlían JK Jóhannsson gerði sér lítið fyrir í gær og tók annað sætið á Bodybuilding.com

Júlían ásamt Hjalta Árnasyni með hriiiikalega ávísun.

Pro Deadlift í Columbus í OH, USA. Á mótinu var eingöngu keppt í réttstöðulyftu og kláraði Júlían með séríuna 350kg – 385kg – 390kg. Þar með tvíbætti hann íslandsmetið í réttstöðulyftu og fer því sáttur heim frá Bandaríkjunum.

Júlían keppir á sunnudaginn á réttstöðulyftumóti

Sunnudaginn næstkomandi keppir Júlían JK Jóhannsson á Bodybuilding.com Pro Deadlift í Columbus, OH USA.

Júlían með 382,5 kg í höndunum, fullur af anda.

Þetta er í annað skiptið sem Júlían keppir á mótinu en þetta er boðsmót og munu margir af bestu keppendum heimsins mæta. Júlían fór sigri hrósandi frá mótinu á síðasta ári og mun hann að sjálfsögðu gera sitt besta núna í ár. Vonandi fara 400 kílóin á loft en hann reyndi við þá þyngd á HM í Pilsen á síðasta ári.

Tveir fulltrúar frá Íslandi á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum

Evrópska kraftlyftingasambandið EPF í samstarfi við Sænska kraftlyftingasambandið munu nú á dögunum halda fyrsta Evrópumót öldunga í klassískum kraftlyftingum. Mótið verður haldið dagana 6. til 10. mars í Helsingjaborg, Svíþjóð. Búist er við 300 keppendum á mótið og því ljóst að baráttan verður hörð á mótinu.

Laufey á góðri stundu.

Fyrir hönd Íslands keppa þær Laufey Agnarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnarsdóttir. Laufey keppir í -84 kg flokki Masters 1 (40-49 ára) og Sigþrúður í +84 kg flokki Masters 2 (50-59 ára).

Óskum við þeim góðs gengis á mótinu!