Þorramót og -blót

“Þorramót” í kraftlyftingum fer fram í lyftingarsal KFA laugardaginn 12. febrúar og hefst kl. 13.00. Ellefu  keppendur frá þremur félögum eru skráðir til leiks, þar af fjórar konur. Allar upplýsingar má finna á heimasíðu KFA, kfa.is.

Að loknu móti fer fram aðalfundur KFA og síðan er slegin upp veisla og haldið þorrablót.

Nýtt kraftlyftingafélag í Garðabæ

Enn fjölgar kraftlyftingafélögum í landinu, en sunnudaginn 30.janúar sl. var haldinn stofnfundur Kraftlyftingafélags Garðabæjar – Heiðrún. 12 stofnfélagar sátu fundinn og formaður og varaformaður KRAFT voru viðstaddir. Á fundinum voru lög samþykkt og stjórn kosin, en formaður hins nýja félags er Alexander Ingi Olsen.

Nú er verið að ganga frá aðild félagsins í UMSK og Kraftlyftingasamband Íslands, þar sem þetta verður 10. aðildarfélagið. Við óskum Garðbæingum til hamingju með nýja íþróttafélagið í bænum og bjóðum þeim velkomin í hópinn.


 

Kraftlyftingadeild Breiðabliks

Kraftlyftingadeild Breiðabliks hefur tekið í notkun nýja og rúmgóða æfingaraðstöðu í Smáranum.
Þetta verður vonandi mikil lyftistöng fyrir starfið og félagsandann. Æfingartímar eru auglýstar á heimasíðu deildarinnar og hér á kraft.is undir FÉLÖG, en þar geta öll félög fengið að koma á framfæri helstu upplýsingar.
Úthlutað hefur verið úr Íþróttasjóði ríkisins kr. 200,000 til deildarinnar til frekari uppbyggingar á æfingaraðstöðu.

Við óskum Blikum til hamingju með styrkinn og aðstöðuna og vitum að þau muni nýta hvoru tveggja vel.Laugardagsæfing í Smáranum

Nk laugardag flytur kraftlyftingadeild Breiðabliks loksins í sína framtíðar æfingaraðstöðu. Þó nokkur tonn af lóðum og tækjum þurfa að færa sig um set. Allir sem vettlingi/vinnuhönskum valda og telja sig eiga Auðuni/Breiðabliki greiða að gjalda ættu að nota tækifærið og gefa laugardagsæfinguna í sjálfboðavinnu við flutningarnar.
Mæting í Smáranum kl. 11.00 nk laugardag (22.janúar). Hafa má samband við Auðunn 897 8017 og láta vita af sér.

Nýtt kraftlyftingafélag

Seltirningar eignuðust kraftlyftingafélag á dögunum þegar stofnað var Kraftlyftingafélag Seltjarnarness – Zetorar. Stofnfélagar voru 13 og formaður félagsins er Magnus Örn Guðmundsson.
Félagið hefur þegar fengið inngöngu í KRAFT og er 9.aðildarfélag Kraftlyftingasambands Íslands og 3.kraftlyftingafélagið innan UMSK.

Við óskum þeim velkomin í hópinn.

Flestir stofnfélagar auk formanns og varaformanns KRAFT:

 


Ferðastyrkir 2011

Frestur til að sækja um styrk í Ferðasjóð íþróttafélaga vegna keppnisferða á árinu 2010 rennur út mánudaginn 10. janúar 2011.  Eftir þá dagsetningu verður ekki tekið umsóknum í sjóðinn.  Til úthlutunar að þessu sinni eru 57 m.kr.
Öll félög innan vébanda ÍSÍ geta sótt um styrk í sjóðinn vegna þátttöku í mótum innanlands. Yfirlit yfir styrkhæf mót má finna á umsóknarsíðu sjóðsins.
Nánari upplýsingar gefur Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri ÍSÍ í síma 514 4000 eða netfang [email protected]

Jólamót KFA og UFA

Laugardaginn 11. desember sl. fór fram Jólamót KFA og  UFA á Akureyri. Mótið var liður í lyftingarlotu UFA og UMSE – inga sem hafa verið að æfa hjá KFA í vetur. 17 efnilegir unglingar, 10 stúlkur og 7 drengir, kepptu  í páverklíni, bekkpressu og réttstöðulyftu.
Úrslit í kvennaflokki: 
Guðrún Ósk Gestsdóttir, 16 ára stúlka frá Siglufirði vann kvennaflokkinn á stigum, en hún tók 57.5 kg í páverklíni, 50 kg í bekkpressu og 102.5 kg í réttstöðulyftu sem tryggði henni rúmlega 1 stigs forskot á Freydísi Önnu Jónsdóttir sem hafnaði í öðru sæti.

Úrslit í karlaflokki:
Ormar Agnarsson vann öruggan sigur með 115 kg í páverklíni, 107.5 kg í bekkpressu og 225 kg í réttstöðulyftu. Á eftir honum kom Örn Dúi Kristjánsson.

Mótshald var hefðbundið, en KFA varð fyrsta félagið til að nota nýju þyngdarflokkana sem taka gildi á næsta ári. Nánari úrslit: jolamotKFA

Tilkynning frá Breiðablik

Kraftlyftingadeild Breiðabliks hefur tilkynnt að ekki verður hægt að halda Breiðabliksmót í kraftlyftingum í nýrri æfingaraðstöðu félagsins eins og að var stefnd. Það hefur dregist að koma húsnæðinu í lag.
Breiðabliksmótið í kraftlyftingum 31.desember nk fellur þess vegna út af mótaskrá.

Reglur um mótahald

Nú er keppnistímabilinu svo gott sem lokið og þá gefst tóm til annars en bara að æfa, eins og t.d. að kynna sér vel nýju reglugerðinni um mótahald sem er komin upp á vefinn. http://kraftis.azurewebsites.net/um-kraft-2/reglur/

Þar eru ýmis ákvæði sem koma ðllum við. Við viljum benda sérstaklega á ákvæðið um gjaldgengi manna í keppni. Í reglunum segir skýrt að eingöngu þeir sem eru löglega skráðir meðlimir mega taka þátt í mótum KRAFT. Að vera löglega skráður þýðir að vera skráður í skráningarkerfi ÍSÍ, Felix. Sá aðlögunartími sem félögin hafa fengið að þessu ákvæði er nú liðinn, og á nýju ári verða skráningarlistar bornir saman við skráningu Felix og þeir eingöngu samþykktir sem eru á þeim lista. Það er ábyrgð hvers félags að skrá sína keppendur eins og á að gera.

Í reglunum er líka ákvæði um að menn þurfa að hafa verið skráðir í félag í amk mánuð áður en þeir fá að keppa fyrir hönd félagsins.
Þetta þýðir m.a. að þeira sem ætla sér að taka þátt í Íslandsmeistaramótið í bekkpressu í lok janúar þurfa að hafa gengið frá réttri skráningu fyrir áramót.