Kraftlyftingafélag Akraness

Stöðug fjölgun kraftlyftingafélaga og -iðkenda hefur átt sér stað undanfarin misseri og stjórn hefur ákveðið að hefja kynningu á aðildarfélögum með reglulegum greinum hér á síðunni.
Við hefjum yfirferðina á spurningunni: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA AF SKAGANUM?

Á Akranesi starfar Kraftlyftingafélag Akraness sem er aðili að ÍA, Íþróttabandalagi Akraness. Félagið var eitt af stofnfélögum KRAFT en stofnfundurinn var haldinn 24.nóvember 2009 og var Hermann Hermannsson fyrsti formaður þess.
Hér má lesa um tilurð félagsins.
Núverandi formaður er Einar Örn Guðnason og með honum í stjórn eru Lára Finnbogadóttir gjaldkeri, Sigurgeir Guðmundsson ritari og Arnar Harðarson og Eva Ösp Sæmundsdóttir meðstjórnendur.

Skráður fjöldi iðkenda í september 2017 er 55 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.
Félagið hefur á að skipa fjóra dómara, þá Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur Gunnarsson, Arnar Harðarson og Arnar Helgason, en Kári og Sturlaugur hafa alþjóðadómararéttindi.

Sigursælasti og mest áberandi keppandi félagsins undanfarin misseri hefur verið formaðurinn sjálfur, Einar Örn, en hann er ríkjandi bikarmeistari KRAFT bæði með og án búnaðar og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum auk þess sem hann á flest öll íslandsmet í -105 kg flokki.
Af yngri keppendum má nefna Svavar Örn Sigurðsson, fæddur 1999, sem kom fram á sjónarsviðið með stæl á árinu og er nú á leiðinni til Noregs til að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, Norðurlandamóti drengja í klassískum kraftlyftingum.
Félagið hefur fleiri skemmtilegum og sterkum keppendum á að skipa  og afrekaði að vinna liðabikar karla á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum 2017.

Æfingaraðstaða og heimavöllur félagsins er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í kjallaranum þar ræður félagið ríkjum og hefur til umráða tvö herbergi og allan nauðsynlegan búnað. Aðstaðan er opin á opnunartíma hússins, en fastar æfingar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 16.00 til 22.00. Félagsmenn greiða árgjald 5000 kr fyrir.

Lára Finnbogadóttir sem hefur lokið Þjálfara 1 námskeiði ÍSÍ og KRAFT, sinnir nýliðunum og mætti með þrjá keppendur á byrjendamótið 2017. Það er ekki síst gleðilegt að hægt hefur verið að mynda æfingahóp ungra kvenna og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Að sögn formannsins er samstarfið við íþróttayfirvöld í bænum mjög gott og fjölmiðlar á svæðinu hafa verið duglegir að segja frá árangri félagsmanna.
Aðspurður um helstu markmið og framtíðarsýn Skagamanna svarar hann af sinni alkunnu hógværð: að verða besta og myndarlegasta félagið á landinu.
Þar hafið þið það!
Hægt er að fylgjast með framgangi mála á facebooksíðu félagsins og instagram

Kraftlyftingamenn og -konur munu fjölmenna á Skagann helgina 9 – 10 september nk, en þá heldur Kraftlyftingafélag Akraness þrjú íslandsmót, þ.e. í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu og ætlar að taka vel á móti gestum og veita þeim harða samkeppni.

Ný félög

Á fundi sínum 30.janúar sl. samþykkti stjórn Kraftlyftingasambands Íslands aðild tveggja nýrra félaga.
Kraftlyftingadeild Kormáks á Hvammstanga hefur verið stofnuð, og kraftlyftingar nú komnar inn í enn eitt íþróttahérað, nefnilega í Ungmennasamband Vestur-Húnavatnssýslu.
Formaður deildarinnar er Aðalsteinn Guðmundsson.
Kraftlyftingafélag Kópavogs hefur verið stofnað, og var aðild samþykkt með fyrirvara um frágangi á nokkrum formsatriðum.
Formaður félagsins er Jens Fylkisson.

Við óskum nýjum félögum velkomin í hópinn og góðs gengis í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Tilkynning vegna skráningar á ÍM í klassískum kraftlyftingum

Frá stjórn KRAFT:
Á kraftlyftingaþingi í janúar var stjórninni falið að breyta mótaskrá 2013 á þann veg að breyta opnu móti Gróttu í Íslandsmót í klassískum kraftlyftingum. Stuttur fyrirvari var á þessu og því hafa margir óskað eftir lengri frest til að ganga í kraftlyftingafélag, en eingöngu þeir sem eru skráðir í aðildarfélag KRAFT 3 mánuðum fyrir íslandsmót eru hlutgengir. Mótið verður haldið 11. maí nk. Skráningarfrestur í félag var því til 11. febrúar.

Vegna fyrirspurna og vegna þess að ákveðinnar óvissu virðist hafa gætt með þessar óvenjulegu aðstæður hefur stjórn Kraft ákveðið að veita viku afslátt á skráningarfresti í Felix. Skráningarfrestur rennur því út 18. febrúar nk.

Það þýðir að félög sem ætla að senda keppendur á Íslandsmótið í klassískum kraftlyftingum verða að tryggja að þeir séu skráðir kraftlyftingaiðkendur í Felix í síðasta lagi 18.febrúar.

Skráning á sjálft mótið hefst svo í apríl.

Kraftlyftingafélag stofnað á Ísafirði

Stofnað hefur verið kraftlyftingafélagið Víkingur á Ísafirði, en það er 13.aðildarfélag KRAFT.
Aðalmaðurinn bak við hið nýja félag er Sigfús Fossdal og er hann formaður þess og eini keppandi enn sem komið er.
Önnur félög í landinu  geta farið að búa sig undir harðnandi samkeppni að vestan og vestfirðingar vita nú hvert þeir geta snúið sér til að komast í hóp kraftlyftingamanna.
Við óskum Ísfirðingum til hamingju með nýja félagið og góðs gengis í uppbyggingu íþróttarinnar á staðnum.

KFA hlýtur viðurkenningu

Fulltrúi ÍSÍ afhenti formanni Kraftlyftingafélags Akureyrar viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á bikarmóti KRAFT um helginga.
KFA verður þar með annað aðildarfélag KRAFT sem nær því markmiði. Áður hafði Heiðrún, Kraftlyftingafélag Garðabæjar, fengið þessa viðurkenningu.
Við óskum Akureyringum til hamingju með þessa nafnbót og hvetjum önnur félög til að huga að þessu líka.

Aðalfundur Zetora

Aðalfundur Kraftlyftingafélags Seltjarnarness – Zetora var haldinn 26. apríl síðastliðinn. Fundurinn fór fram í salarkynnum ÍSÍ í Laugardal.
Á fundinum var lögð fram skýrsla formanns og gjaldkera frá ársbyrjun þar sem félagið var stofnað í janúar.
Stjórn félagsins var endurkjörin til 1 árs og er hún þannig skipuð:
Magnús Örn Guðmundsson, formaður
Grétar Dór Sigurðsson, varaformaður
Sigurður Örn Jónsson, gjaldkerfi
Hannes Páll Guðmundsson, meðstjórnandi
Finnur Hilmarsson, meðstjórnandi
Enn fremur var merki félagsins formlega vígt. Merkið hefur skírskotun í traktorsdekk auk þess sem brúnn litur skjaldamerkis Seltjarnarness er notaður. Mæting var fín og var mikill hugur í mönnum fyrir komandi hrikaleg átök.

Aðalfundur Kraftlyftingadeildar Breiðabliks

Aðalfundur Kraftlyftingadeildar Breiðabliks verður haldinn fimmtudaginn 10. marz 2011 – kl. 20.00, í Smáranum, Dalsmára 5, 201, Kópavogi.

DAGSKRÁ aðalfundar er venjuleg aðalfundarstörf – en einkum eftirfarandi:

I. Ársskýrsla formanns stjórnar Kraftlyftingadeildar fyrir liðið starfsár

II. Ársreikningur 2010 lagður fram

III.      Umræður og afgreiðsla á ársskýrslu og ársreikning

IV.      Umræður um málefni deildarinnar

V.      Kosning stjórnar:

A)      Formaður
D)      Aðrir stjórnarmenn
C)      Varamenn

VI.          Umræður um núverandi stöðu og framtíðarverkefni

VII.      Önnur mál

Stjórn Kraftlyftingadeildar Breiðabliks hvetur félagsmenn deilarinnar til að fjölmenna á aðalfund.

Kaffiveitingar á boðstólum.


Aðalfundur Ármenninga

Aðalfundur kraftlyftingadeildar Ármanns fer fram þriðjudaginn 15.febrúar kl. 20.00 í Laugabóli.
Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, kosning stjórnar, stofnun foreldrafélags og önnur mál.
Allir Ármenningar mæta og taka þátt í aðalfundarstörfum.

Þorramót og -blót

“Þorramót” í kraftlyftingum fer fram í lyftingarsal KFA laugardaginn 12. febrúar og hefst kl. 13.00. Ellefu  keppendur frá þremur félögum eru skráðir til leiks, þar af fjórar konur. Allar upplýsingar má finna á heimasíðu KFA, kfa.is.

Að loknu móti fer fram aðalfundur KFA og síðan er slegin upp veisla og haldið þorrablót.

Nýtt kraftlyftingafélag í Garðabæ

Enn fjölgar kraftlyftingafélögum í landinu, en sunnudaginn 30.janúar sl. var haldinn stofnfundur Kraftlyftingafélags Garðabæjar – Heiðrún. 12 stofnfélagar sátu fundinn og formaður og varaformaður KRAFT voru viðstaddir. Á fundinum voru lög samþykkt og stjórn kosin, en formaður hins nýja félags er Alexander Ingi Olsen.

Nú er verið að ganga frá aðild félagsins í UMSK og Kraftlyftingasamband Íslands, þar sem þetta verður 10. aðildarfélagið. Við óskum Garðbæingum til hamingju með nýja íþróttafélagið í bænum og bjóðum þeim velkomin í hópinn.