Skip to content

Blikar sigursælir á Bikarmótinu

  • by

Kraftlyftingadeild Breiðabliks gerði góða ferð til Akureyrar um helgina. Hulda Waage og Fannar Gauti Dagbjartsson, bæði úr Breiðablik, urðu bikarmeistarar KRAFT 2011 í kvenna- og karlaflokki og Breiðablik varð stigahæsta liðið. UMFN Massi tók forystu í stigakeppni félaga og verður að bíða fram yfir  ÍM í réttstöðulyftu næstu helgi til að fá endanleg úrslit í þeirri keppni.
Mörg Íslandsmet fellu á mótinu.

Míkil þátttaka var og hörð samkeppni í mörgum flokkum, ekki síst í -72,0 kg flokki kvenna þar sem metaskífunum var óspart beitt. Biðu menn spennt eftir viðureign Huldu og Guðrúnar Gróu Þórsteinsdóttur úr Gróttu og fengu góða skemmtun. Hulda sigraði í þetta sinn á nýju glæsilegu íslandsmeti (160,5 – 97,5 – 179,5 = 437,5 kg) sem gaf 427 stig, en árangur Gróu (430,0 kg) er íslandsmet í unglingaflokki. Báðar hafa þær tekið miklar framfarir frá Íslandsmótinu í vor – og eru ekki einar um það. Mjög gaman var að sjá marga keppendur uppskera góðar persónulegar bætingar og setja met. Jóhanna Þórarinsdóttir, Breiðablik, vann stigabikarinn í bekkpressu á nýju íslandsmeti, 105,5 kg.
Ljóst er að María Guðsteinsdóttir úr Ármanni sem hefur verið ósigrandi í kvennaflokki undanfarin ár má fara að vara sig, og fagnar hún því sjálf eflaust manna mest.

Í karlaflokki var hið sama uppá teningnum, t.d. í -83,0 kg flokki, en á endanum vann Fannar stigabikarinn nokkuð örugglega með 507,8 stig. Hann lyfti í -120,0 kg flokki samtals 875,0 kg sem er nýtt íslandsmet og náði langþráðum bætingum í öllum greinum.

Í drengja- og unglingaflokkum karla ringdi inn glæsilegum metum og bar míkið á heimamanninum Viktor Samúelsson sem sigraði í -105 kg flokki á 760,0 kg. Hann barðist þar m.a. við Einar Örn Guðnason, Akranesi, sem tók forustuna eftir nýju íslandsmeti, 215,0 kg á bekknum. Viktor átti samt lokaorðið þar sem hann togaði upp 300,0 kg í réttstöðu og setti þar með íslandsmet í opnum flokki, en Viktor er enn í drengjaflokki.

Of langt mál er að telja upp öll afrek mótsins, hér má finna heildarúrslit http://results.kraft.is/meet/bikarmot-i-kraftlyftingum-2011

Við óskum verðlaunahöfum til hamingju og öllum þeim til lukku sem hafa bætt árangur sinn og jafnvel sett glæsileg met í dag.
Þökkum Kraftlyftingafélag Akureyrar fyrir metnaðarfullt mót og góðar móttökur.

Tags:

Leave a Reply