Skip to content

BIKARMÓTIÐ – ATVIK VARÐANDI METASKÍFUR

Vegna atviks er kom upp á bikarmótinu varðandi metaskífur hefur stjórn KRAFT fjallað um málið og meðfylgjandi er bókun stjórnarfundar sem haldinn var í gærkvöldi:

Í 1. holli á bikarmóti KRAFT sl. sunnudag 22. október kom upp atvik þar sem í ljós kom að metaskífur með 0,25 kg þyngd voru ekki til staðar þegar hlaða átti stöng eftir að einn keppenda hafði beðið um þyngd sem var tilraun til Íslandsmets. Í kjölfar mótsins sendu þeir dómarar sem dæmdu hollið skriflega tilkynningu til stjórnar um málið í samræmi við 24. gr. reglugerðar KRAFT um kraftlyftingakeppni (mótareglur). Í tilkynningunni segir:

Á bikarmótinu 22. október sl. kom upp sú staða þegar keppandi í 1. holli (kvennaflokki) bað um þyngd í síðustu tilraun sinni í réttstöðulyftu sem var tilraun til íslandsmets að metaskífur að þyngd 0,25 kg voru ekki til staðar. Aðrar metaskífur voru til staðar og var keppanda boðið að breyta þyngd af þessum sökum. Keppandi kaus að halda sig við tilkynnta þyngd og gerði þá mótshaldari þær ráðstafanir að sóttar voru 0,25 kg metaskífur eins fljótt og auðið var. Átti umræddur keppandi sem gerði tilraun til íslandsmets og einn keppandi í viðbót í því holli eftir að taka sínar lyftur.

Eftir nokkurt hlé gat keppandinn sem átti að eiga síðustu lyftu í hollinu tekið sína lyftu en sá keppandi keppti í klassískum kraftlyftingum en hinn fyrri í kraftlyftingum með búnaði. Eftir að 0,25 kg metaskífur voru fengnar var keppni haldið áfram og lauk þá keppandinn sem gerði tilraun við íslandsmet sinni lyftu. Af þessum sökum tafðist keppni í hollinu í u.þ.b. 50 mínútur. Næsta holl á eftir tafðist af þessum sökum um 30 mínútur og var það tilkynnt í hátalarakerfi um leið og fyrir lá hversu löng töfin yrði. Dómarar á staðnum útskýrðu stöðuna fyrir keppendum og voru keppendur og þjálfarar beðnir afsökunar á þeim mistökum sem þarna áttu sér stað.

Við nánari skoðun kom í ljós að mótshaldari hafði fyrir mótið útvegað metaskífur en fyrir mistök voru tvö sett af 0,5 kg metaskífum en engar 0,25 kg metaskífur í stað þess að til staðar væru eitt sett af hvorri þyngd. Í upphafi keppni höfðu dómarar gengið úr skugga um að metaskífur væru til staðar en ekki gætt nægilega að því að kanna til hlítar þyngd einstakra skífa. 

Erindi barst KRAFT frá félagi þess keppanda sem bað um viðkomandi þyngd á stöngina í umrætt sinn þar sem gerðar eru athugasemdir vegna málsins.

Málið var tekið fyrir á fundi stjórnar 25. október 2023. Þar sem svo háttaði að dómarar í umrætt sinn, Laufey, María og Þórunn eru einnig stjórnarmenn í KRAFT tóku þær ekki þátt í umræðum eða afgreiðslu málsins. Laufey og María véku af fundi en Þórunn var ekki á fundinum.

Að mati stjórnar liggja málsatvik nægilega skýr fyrir til að hægt sé að taka afstöðu til málsins. Það er niðurstaða stjórnar að mótshaldara hafi orðið á þau mistök að gæta ekki nægilega vel að því að allar viðeigandi metaskífur væru til staðar sbr. 22 gr. mótareglna sem segir að mótshaldari skuli leggja til og setja upp keppnisaðstöðu. Dómarar virðast svo hafa staðfest í upphafi móts að metaskífur væru til staðar en ekki gætt nægilega vel að því að tryggja að allar viðeigandi skífur væru þar á meðal sbr. 24 gr. mótareglna. Er það mat stjórnar að um mannleg mistök sé að ræða bæði af hálfu mótshaldara og dómara eins og að framan er lýst. Um leið og mistökin uppgötvuðust er það mat stjórnar að gripið hafi verið til eðlilegra ráðstafana af hálfu mótshaldara og dómara til að bæta úr þannig að hægt væri að halda mótinu áfram.

Stjórn KRAFT harmar atvikið og mun brýna fyrir mótshöldurum og dómurum að gæta vel að þessum atriðum í framtíðinni til að komið verði í veg fyrir atvik sem þetta endurtaki sig. Málinu telst þar með lokið af hálfu stjórnar KRAFT.  Fyrir hönd KRAFT, mótshaldara og dómara, biður stjórn KRAFT þá keppendur afsökunar sem urðu fyrir áhrifum af þessu atviki. 

Verður tilkynning um málið og lyktir þess birt á heimasíðu KRAFT og svar sama efnis sent því félagi sem sendi erindi vegna atviksins.

Stjórn samþykkti að skrifstofa KRAFT kaupi tvö sett af metaskífum og hafi eitt sett í tölvupakkanum sem fer á milli móta (Róbert Kjaran ábyrgur fyrir tölvupakkanum) en aukasett til vara verður geymt á skrifstofu KRAFT.