Heimsleikarnir: Júlían keppir á morgun

Heimsleikarnir, sem haldnir eru fjórða hvert ár, standa nú yfir í Wrocław í Póllandi, en það lang stærsta svið alþjóðlegra kraftlyftinga. Þar munu í ár íslenskir kraftlyftingamenn í fyrsta sinn eiga sinn fulltrúa.

Það er Íþróttamaður Reykjavíkur, Júlían J. K. Jóhannsson, sem verður fyrstur Íslendinga til að keppa í kraftlyftingum á Heimsleikunum. Þar mætir Júlían þeim allra sterkustu í yfirþungavigt, þ.e. 120 kg og +120 kg fl., og ræðst sigurinn af Wilks-stigafjölda keppenda.

Keppni í yfirþungavigt karla fer fram á morgun, miðvikudaginn 26. júlí, og hefst keppni kl. 13 að íslenskum tíma.

Yfirþungavigt karla verður líklega ekki aðgengileg í beinni útsendingu (sjá útsendingardagskrá), en klippt upptaka verður sýnd kl. 22 á morgun á https://www.olympicchannel.com/en/tv/the-world-games-2017-wroclaw/. Það verður hins vegar hægt að fylgjast með stigatöflunni í beinni á Goodlift.info

Arnhildur og Birgit hafa lokið keppni á HM í klassík

Birgit Rós t.v. og Arnhildur Anna t.h.

Í dag kepptu þær Arnhildur Anna Árnadóttir og Birgit Rós Becker á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum. Báðar kepptu þær í 72 kg flokki þar sem Arnhildur hafnaði í 16. sæti í samanlögðum árangri, en Birgit tókst ekki að fá gilda réttstöðulyftu og féll því miður úr keppni.

Birgit byrjaði mótið vel og jafnaði sitt eigið Íslandsmet í hnébeygju í annarri tilraun með 165 kg, en 167,5 kg í þriðju tilraun reyndist of mikið í dag. Í bekkpressu bætti hún sinn besta árangur um 2,5 kg með því að lyfta 80 kg. Réttstaðan fór ekki jafnvel, þar reyndi Birgit þrívegis við 157,5 kg. Í fyrstu tilraun fékk hún ógilt vegna tæknivillu, í annarri var aflið ekki til staðar og í þeirri þriðju fékk hún svo aftur ógilt vegna tæknivillu. Henni tókst því ekki að fá skráðan samanlagðan árangur og féll úr í heildarkeppninni.

Arnhildur byrjaði líka vel. Hún lyfti 152,5 kg í annarri tilraun og reyndi að bæta sinn besta árangur í þeirri þriðju með 157,5 kg, sem reyndist aðeins of þungt í dag. Í bekkpressunni fór Arnhildur upp með 80 kg í fyrstu tilraun og mistókst svo tvívegis með 82,5 kg. Í réttstöðunni tókst henni að lyfta 165 kg en meiddist við framkvæmd lyftunnar og varð að hætta keppni. Þrátt fyrir meiðslin var hún aðeins 10 kg frá sínum besta árangri með 397,5 kg samanlagt. Hún hafnaði með þeim árangri í 16. sæti í flokknum.

Ragnheiður með nýtt Íslandsmet í beygju á HM í klassík

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir hefur lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem stendur yfir í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Hún keppti í nokkuð sterkum 57 kg fl. og hafnaði þar í 10. sæti í samanlögðum árangri.

Ragnheiður náði ekki alveg fram sínu besta vegna smávægilegra meiðsla við undirbúning. Það hrjáði henni þó ekki í hnébeygju þar sem hún lyfti 122,5 kg og bætti eigið Íslandsmet. Meiðslin hrjáðu henni í bekknum og þar náði hún aðeins einni lyftu með 77,5 kg gildri. Í réttstöðulyftu tókst henni mest að lyfta 152,5 kg í þriðju tilraun eftir að hafa klikkað á sömu þyngd í annarri tilraun. Samanlagt tók Ragnheiður 352,5 kg og hafnaði með þeim árangri í 10. sæti.

Næstar Íslendinga á pallinn eru þær Arnhildur Anna Árnadóttir og Birgit Rós Becker sem báðar keppa í 72 kg flokki. Þær hefja keppni kl. 11:00 á morgun.

Bein útsending

Matthildur með brons á HM í klassísk

Matthildur Óskarsdóttir átti frábæran dag í Minsk á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum. Hún náði bronsi í 72 kg flokki telpna (U18) á nýju Íslandsmeti telpna með 365 kg í samanlögðum árangri.

Matthildur fékk allar níu lyftur gildar. Jafnframt því að ná bronsi í samanlögðum árangri hreppti hún bronsið í öllum þremur greinum. Í hnébeygju setti Matthildur nýtt Íslandsmet telpna með 130 kg lyftu. Hún setti svo nýtt met í unglinga- og telpnaflokki (U23 og U18) með því að taka 87,5 kg. Í réttstöðulyftu fór hún upp með 147,5 kg, sem er einnig nýtt Íslandsmet unglinga- og telpna. Samanlagður árangur hennar með 365 kg tryggði bronsið og nýtt Íslandsmet í unglinga- og telpnaflokki!

 

Næstar Íslendinga á keppnispallinn eru keppendur okkar í opnum aldursflokki. Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir keppir í 57 kg flokki kl. 9:00 nk. fimmtudag. Í 72 kg flokki keppa svo þær Arnhildur Anna Árnadóttir og Birgit Rós Becker kl. 9:00 á föstudag.

Bein útsending

Ragna í sjöunda á HM í klassík

Ragna Guðbrandsdóttir hafnaði í dag í sjöunda sæti í 63 kg flokki telpna (U18) á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem stendur yfir í Minsk í Hvíta-Rússlandi.

Ragna náði 120 kg í hnébeygju og setti með því nýtt Íslandsmet í telpnaflokki. Í bekkpressu bætti hún einnig metið með því að lyfta 62,5 kg. Ragna náði ekki alveg sínu besta fram í réttstöðunni og sat eftir með byrjunarlyftuna, 120 kg. Hún hafnaði í sjöunda sæti í samanlögðu með 302,5 kg, sem er nýtt Íslandsmet telpna.

Þetta er fyrsta alþjóðamót Rögnu og lofar árangurinn góðu fyrir framtíðina!

Næst Íslendinga á keppnispallinn er Matthildur Óskarsdóttir, sem keppir á morgun kl. 7:00 í 72 kg flokki telpna.

Bein útsending

Laufey í fimmta og Rósa í fjórða á HM í klassík

Rósa Birgisdóttir t.v. og Laufey Agnarsdóttir t.h.

Laufey Agnarsdóttir og Rósa Birgisdóttir stóðu sig vel í dag á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem stendur yfir í Minsk, Hvíta-Rússlandi. Laufey hafnaði í fimmta sæti í 84 kg flokki öldunga 1 og Rósa í fjórða í +84 kg flokki öldunga 1.

Laufey keppti í 84 kg flokki öldunga 1 (M1). Í hnébeygju jafnaði hún sinn besta árangur með 135 kg. Í bekkpressu tók hún silfrið á nýju Íslandsmeti í M1 með 92,5 kg. Í réttstöðulyftu bætti Laufey einnig metið í M1 þegar hún lyfti 157,5 kg. Samanlagt lyfti hún því 385 kg, sem er 4 kg bæting á hennar eigin Íslandsmeti í M1. Sá árangur tryggði henni fimmta sætið í flokknum.

Rósa keppti í +84 kg flokki M1. Í hnébeygju tókst Rósu að bæta eigið Íslandsmet í M1 þegar hún lyfti 167,5 kg. Í bekkpressu náði hún 97,5 kg, sem er nýtt Íslandsmet í opnum aldursflokki. Hún náði svo bronsinu í réttstöðunni með 180 kg lyftu. Hún missti naumlega af bronsi í samanlögðum árangri og hafnaði í fjórða sæti með 445 kg.

Nú hafa öldungarnir okkar lokið keppni og næst er komið að unglingunum. Ragna Kr. Guðbrandsdóttir keppir í 63 kg flokki sub-junior á mánudaginn kl. 7:00 og Matthildur Óskarsdóttir keppir í 72 kg flokki sub-junior á þriðjudaginn kl. 7:00. Bein útsending er á Goodlift

HM í klassík: Sigþrúður og Dagmar hafa lokið keppni

Sigríður Dagmar t.v. og Sigþrúður Erla t.h.

Heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum hófst í dag í Minsk, Hvíta-Rússlandi, með keppni í eldri öldungaflokkum.

Fyrir hönd Íslands kepptu þær Sigríður Dagmar Agnarsdóttir í 57 kg flokki öldunga 3 (M3) og Sigþrúður Erla Arnardóttir í +84 kg flokki öldunga 2 (M2).

Dagmar vann til silfurverðlauna í hnébeygju með því að lyfta 90 kg. Í bekkpressu náði hún mest 45 kg og í réttstöðulyftu tók hún mest 120 kg.  Það gerir 255 kg í samanlögðum árangri, sem skilaði henni silfurverðlaunum í flokknum. Dagmar bætti M2 og M3 Íslandsmetin í öllum greinum og samanlögðu. Auk þess bætti hún M1 metið í réttstöðulyftu.

Sigþrúður keppti í +84 kg flokki M2. Hún náði bronsi í hnébeygju með á nýju Íslandsmeti í M2 með 157,5 kg. Í bekkpressu lyfti hún mest 85 kg og bætti með því Íslandsmetið í M2. Í réttstöðulyftu lyfti hún 165 kg. Samalagður árangur hennar með 407,5 kg skilaði henni fjórða sætinu í flokknum og nýju Íslandsmeti í M2.

Næstar Íslendinga á keppnispallinn eru keppendur okkar í öldungaflokki 1, þær Laufey Agnarsdóttir í 84 kg fl. og Rósa Birgisdóttir í +84 kg fl. Þær keppa á laugardaginn og hefst keppni kl. 6:00 að íslenskum tíma.

Bein útsending

Fanney með silfur á nýju Norðurlandameti á HM í bekkpressu

Fanney ásamt Ingimundi Björgvinssyni þjálfara t.v. og Hauki föður sínum t.h.

Fanney Hauksdóttir keppti í dag á Heimsmeistaramótinu í bekkpressu, sem stendur yfir í Kaunas í Litháen. Þar átti hún frábæru gengi að fagna og tókst að vinna til silfurverðlauna á nýju Íslands- og Norðurlandameti í 63 kg fl.

Fanney opnaði á 152,5 kg en fékk það ógilt vegna tæknimistaka, svo hún endurtók þá lyftu nokkuð örugglega í annarri tilraun. Í þriðju tilraun fór hún í bætingu á sínu eigin Íslands- og Norðulandameti með 157,5 kg og kláraði þá lyftu án nokkurra hnökra. Fanney hafnaði í öðru sæti á eftir ríkjandi heimsmeistaranum og heimsmethafanum Gundulu von Bachhaus, sem lyfti 167,5 kg.

Við óskum Fanneyju innilega til hamingju með silfrið og metin!

HM í bekkpressu hafið – Fanney keppir á föstudaginn

Heimsmeistaramótið í bekkpressu er hafið og stendur yfir dagana 22. – 27. maí í Kaunas, Litháen. Keppt er í öllum aldursflokkum og hefst keppni í opnum flokki föstudaginn 26. maí.

Á meðal keppenda er Fanney Hauksdóttir. Hún keppir í -63 kg fl. og á þar góðan möguleika á verðlaunasæti. Keppni í -63 kg fl. og öðrum léttari flokkum kvenna hefst kl. 12:00 á föstudaginn og verður í beinni útsendingu á http://goodlift.info/live.php