Formannafundur í nóvember.

Stjórn KRAFT boðar til fundar með formönnum allra kraftlyftingafélaga og -deilda, föstudaginn 24. nóv. Formannafund sækir formaður félags,varaformaður eða einn fulltrúi frá hverju félagi.
Sjá nánar: http://kraft.is/wp-content/uploads/2010/10/formannafund.pdf

Fundurinnn fer fram í tengslum við Bikarmót KRAFT og verður í húsnæði ÍBA að Glerárgötu 26 og hefst kl. 18.30. Dagskrá fundarins verður birt síðar.

Landsliðsverkefni – seinni hluti 2017

Stjórn KRAFT samþykkti fyrr á þessu ári, tillögur landsliðsnefndar um verkefni fyrir árið 2017. Mörg alþjóðamót hafa nú þegar farið fram og árangur íslensku keppendanna verið góður. Nokkur mót eru þó eftir á árinu en hér má sjá lista yfir þá íslensku landsliðskeppendur sem munu keppa seinna á árinu.

LANDSLIÐSVERKEFNI 2017 – SEINNI HLUTI ÁRS

Norðurlandamót í kraftlyftingum/klassískum kraftlyftingum- 14.-16. sept.
Útbúnaður: Sóley Margrét Jónsdóttir +84 kg, Kara Gautadóttir -57 kg, Þuríður Kvaran -84 kg, Aron Ingi Gautason -74 kg og Karl Anton Löve -93 kg.
Klassískar kraftlyftingar: Svavar Örn Sigurðsson -74 kg, Ingvi Örn Friðriksson -105 kg og Þorsteinn Ægir Óttarsson -120 kg.

Norðurlandamót í bekkpressu/klassískri bekkpressu – 14.-16. sept.
Útbúnaður: Sóley Margrét Jónsdóttir +84 kg, Kara Gautadóttir -57 kg, Aron Ingi Gautason -74 kg og Karl Anton Löve -93 kg.
Klassísk bekkpressa: Ingvi Örn Friðriksson -105 kg og Þorsteinn Ægir Óttarsson -120 kg.

Arnold Classic í klassískum kraftlyftingum – 22.-24. sept.
Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir -57 kg, Elín Melgar Aðalheiðardóttir -63 kg, og Arnhildur Anna Árnadóttir -72 kg.

Evrópumeistaramótið í bekkpressu – 11.-15. okt.
Fanney Hauksdóttir -63 kg og Viktor Ben Gestsson +120/jr

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum – 13.-18. nóv.
Viktor Samúelsson -120 kg og Júlían J. K. Jóhannsson +120 kg

Evrópubikarinn í klassískum kraftlyftingum – 1.-3. des.
Ingvi Örn Friðriksson -120 kg

Formannafundur KRAFT.

Stjórn KRAFT boðar til fundar með formönnum allra kraftlyftingafélaga og -deilda, föstudaginn 21. apríl kl. 19:00. Fundurinn mun fara fram í húsi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Engjavegi 6. Dagskrá verður birt síðar.

Seinkun á kraftlyftingaþingi.

Vegna veðurs verður mjög líklega einhver seinkun á ársþinginu sem átti að byrja kl. 13 í dag. Við stefnum samt á að halda það dag, eins og áformað var, en gera má ráð fyrir ca. 2 tíma seinkun. Sumir eru t.d. að koma á þingið með flugi og þar er smá seinkun. Þá er enn ófært víða, þannig að við munum bíða aðeins eftir að stofnbrautir verða ruddar. Endilega fylgist með á facebook síðu KRAFT þar sem við setjum inn upplýsingar. Einnig má hringja í Maríu til að fá nánari upplýsingar
s: 862 4720.

Kraftlyftingaþing 2017

7. þing Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið sunnudaginn 26. febrúar 2017. Þingið fer fram í húsi ÍSÍ Engjavegi 6 og hefst kl. 13.00.

Málefni sem aðildarfélög eða sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn KRAFT eigi síðar en 21 dögum fyrir þingið, skv. 10.gr. laga KRAFT.
Rétt til þingsetu hafa fulltrúar aðildarfélaga miðað við fjölda iðkenda og fulltrúar sambandsaðila skv. 9. gr. laga KRAFT.
Rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétt hafa auk þess stjórn KRAFT, endurskoðendur reikninga KRAFT, framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri ÍSÍ, nefndarmenn fastanefnda KRAFT og fulltrúi menntamálaráðuneytisins. Nánari dagskrá verður birt í síðar.

Dagfinnur Ari Normann – Íþróttakarl Garðabæjar 2016.

dagfinnurDagfinnur Ari Normann hefur verið valinn íþróttakarl Garðabæjar en hann veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn í Ásgarði. Dagfinnur sem var að keppa á sínu síðasta ári sem unglingur, átti gott kraftlyftingaár. Hann hreppti á árinu þriðja sætið á Norðurlandamóti unglinga í klassískum kraftlyftingum og varð í öðru sæti í unglingaflokki á Evrópumótinu í bekkpressu. Á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum náði hann jafnframt góðum árangri, sér í lagi í bekkpressunni. Á innanlandsvettvangi varð Dagfinnur bikarmeistari í kraftlyftingum og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum, ásamt því að setja fjölmörg íslandsmet, bæði í unglinga- og opnum flokki.

Innilega til hamingju, Dagfinnur!

Helga með íslandsmet í bekkpressu á HM í kraftlyftingum.

helga-hnebeygja185kgHelga Guðmundsdóttir hefur lokið keppni á HM í kraftlyftingum, en þetta var hennar annað heimsmeistaramót á ferlinum. Helga sem hefur fært sig upp um þyngdarflokk, keppti nú í 72 kg flokki og mætti öllum sterkustu konunum í þessum flokki. Mótið byrjaði erfiðlega hjá henni því hún fékk ekki gildar tvær fyrstu lyfturnar í hnébeygju, þar sem hún reyndi við 185 kg. Í þriðju tilraun gekk þó allt upp og hún náði að lyfta þyngdinni. Helga mætti svo tvíefld til leiks í bekkpressuna sem gekk mjög vel hjá henni. Náði hún að tvíbæta eigið íslandsmet en samtals bætti hún það um um 5 kg. Lyfti hún 132,5 kg í annarri tilraun og gerði svo gott betur í síðustu lyftunni og náði að pressa 135 kg. Í réttstöðulyftu náði hún svo að lyfta 182,5 kg sem var jöfnun á hennar besta árangri. Samanlagður árangur hennar var því 502,5 kg sem var persónuleg bæting og gaf henni 12. sætið í flokknum. Sigurvegari var Ana Rosa Castellain frá Brasilíu með 638 kg í samanlögðum árangri. Við óskum Helgu til hamingju með árangurinn og glæsilegt íslandsmet.
Nánari úrslit

Hulda og Einar Örn stigahæst á Bikarmótinu í kraftlyftingum.

Bikarmótið í kraftlyftingum fór fram í dag en mótið var í umsjá Lyftingafélags Hafnarfjarðar. Tuttugu og tveir keppendur mættu til leiks frá sjö félögum, sem komu víðs vegar af landinu. Fjölmörg íslandsmet voru slegin, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum. Hulda B. Waage úr KFA setti nýtt íslandsmet í hnébeygju í -84 kg flokki með 205 kg lyftu og Sóley Jónsdóttir +84 kg, einnig úr KFA, raðaði niður fjölmörgum íslandsmetum í flokki unglinga, bæði í14-18 og 18-23 ára. Strákarnir voru líka iðnir við að bæta íslandsmetin. Einar Örn Guðnason úr Kraftlyftingafélagi Akraness setti íslandsmet í hnébeygju, bekkpressu og samanlögðum árangri í -105 kg flokki og Stjörnumaðurinn Dagfinnur Ari Normann bætti unglingametin í hnébeygju og bekkpressu í -83 kg flokki en bekkpressan var jafnframt met í opnum flokki. Þá setti Aron Ingi Gautason KFA íslandsmet í hnébeygju -74 kg flokki þegar hann lyfti 232,5 kg.

Stigahæsta konan var Hulda B. Waage úr KFA en samanlagður árangur hennar var 500 kg sem gaf henni 468,5 Wilksstig. Stigahæstur í karlaflokki var Einar Örn Guðnason á nýju íslandsmeti með 875,5 kg í samnlögðum árangri, en fyrir það fékk hann 524,6 Wilksstig. Í liðakeppninni var það svo Kraftlyftingafélag Akureyrar sem átti stigahæstu liðin, bæði í karla- og kvennaflokki.
Nánari úrslit