María sæmd gullmerki KRAFT

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands veitti á þinginu 29.febrúar sl Maríu E Guðsteinsdóttur gullmerki KRAFT. Áður hafa Skúli Óskarsson og Helgi Hauksson fengið það.

María Elísabet Guðsteinsdóttir á að baki meira en 20 ára sigursælan feril í kraftlyftingum.
Hún er með reyndustu íþróttamönnum landsins, hefur keppt á ótal meistaramótum innanlands og utan, m.a. á tíu heimsmeistaramótum í opnum flokki og náði þar best 7.sæti 2014. Hún var Norðurlandameistari fyrst íslenskra kraftlyftingakvenna og fyrsta konan á pall á EM með brons í HB 2008. Hún er margfaldur Íslandsmeistari og hefur sett 350 íslandsmet á ferlinum og er hvergi nærri hætt.
María er fædd 1970 og verður fimmtug á þessu ári. Hún æfir áfram sem afrekskona og keppir í öldungaflokkum af sömu hörku og varð heimsmeistari öldunga 2018. María hefur þrisvar sinnum verið valin kraftlyftingakona ársins.
Að auki á María að baki ómetanlegt og ómælanlegt starf í stjórnum og nefndum bæði Kraftlyftingasambandsins og Ármanns. Hún hefur sinnt dómgæslu, mótahaldi, kennslu og þjálfun – í stuttu máli komið að kraftlyftingaíþróttinni frá öllum hliðum og á stóran þátt í framgangi hennar og hefur opnað leið inn í þetta sport fyrir marga, ekki síst konur.
María hefur sinnt öllu þessu starfi af heilindum og eldmóði og hefur verið okkur öllum frábær fyrirmynd og hvatning. Hún hefur verið sjálfri sér, íþróttinni og Íslandi til sóma í öllum þessu verkum og nýtur mikillar virðingar í kraftlyftingaheiminum bæði hér heima og erlendis. Fyrir hennar ómetanlega framlag í þágu kraftlyftingaíþróttarinnar á Íslandi viljum við veita henni þessa viðurkenningu.

María Guðsteinsdóttir fær gullmerki Kraftlyftingasambands Íslands

Sigurjón kjörinn heiðursformaður

Sigurjón Pétursson var kjörinn fyrsti heiðursformaður Kraftlyftingasambands Íslands á kraftlyftingaþingi 29.febrúar sl.
Sigurjón var mikilvægur í vinnu við stofnun sambandsins fyrir tíu árum og stýrði starfinu með öruggri hendi fyrstu árin. Hann þekkir íþróttina og umhverfi hennar bæði innanlands og á alþjóðavelli mjög vel.
Við sama tækifæri var Sigurjón sæmdur Heiðurskross ÍSÍ, en það er æðsti viðurkenning sem Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands veitir.
Við óskum honum innilega til hamingju með þennan heiður.

ÍM – keppendur

Skráningu er lokið á Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum sem fer fram í Kópavogi 21.mars nk

KEPPENDUR

Þátttökugjaldið er 7500 kr og skal greitt inn á rkn 0130-26-090909 / kt 530309-0100 fyrir miðnætti 7.mars til að skráning taki gildi.

Kraftlyftingaþing 2020

10.ársþing Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið í Reykjavík á laugardaginn 29.febrúar og hefst kl. 14.00
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Byrjendamót – úrslit

Fjölmennt og skemmtilegt byrjendamót var haldið í dag í Njarðvíkum og luku sautján keppendur keppni, tólf konur og fimm karlar.
Keppendur voru á öllum aldri, vel undirbúnir og vel studdir af sínum félögum.
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu hjá þessu efnilegu fólki.
ÚRSLIT

Dómaraprófið sem átti að fara fram í tengslum við mótið þurfti því miður að fella niður vegna ónógrar þátttöku.

Kátir keppendur að loknu móti. Með á myndinni er Ellert Björn Ómarsson, formaður Massa.

ÍM í kraftlyftingum, allir aldursflokkar – skráning hafin

Skráning er hafin á Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum sem haldið verður í Smáranum í Kópavogi 21.mars nk.
Um er að ræða ÍM í búnaði bæði í opnum og aldurstengdum flokkum unglinga og öldunga.
Um þetta mót gildir sú regla að keppendur þurfa að hafa verið skráðir iðkendur í amk þrjá mánuði fyrir mótsdag.

Skráningarfrestur er til miðnættis 29.febrúar. Frestur til að breyta skráningu og greiða gjaldið er til 7.mars.

Félög skulu senda skráningu á [email protected] með afrit á [email protected]
Í skráningu skal koma fram nafn og kennitala keppenda, þyngdarflokkur og aldursflokkur sem viðkomandi ætlar að keppa í. Sami keppandi getur ekki keppt bæði í opnum og aldurstengdum flokki. .
Nafn félags og ábyrgðarmanns skráningar þarf líka að koma fram.

Þátttökugjaldið er 7000 kr og skal greitt inn á rkn 0130-26-090909 / kt 530309-0100 fyrir miðnætti 7.mars til að skráning taki gildi.

Til keppenda á byrjendamótinu

Einn keppenda á byrjendamótinu í Njarðvíkum er haldinn hættulegu bráðaofnæmi við kjúklingakjöti.
Það eru vinsamleg tilmæli til annara keppenda að velja eitthvað annað en kjúkling í nesti þennan dag.
Óskum öllum góðs gengis!

Dómari óskast

Dómara vantar á byjendamótið í Njarðvíkum 22.febrúar nk
Vigtun er kl. 12.00 og mótið hefst kl 14.00
Ef þú getur aðstoðað hafðu samband sem fyrst við Ellert í [email protected] eða 662 6936.

Kraftlyftingaþjálfari 1 – skráning

Tekið er við skráningum á námskeiðið Kraftlyftingaþjálfara 1 – félagsþjálfara.
Til að taka þátt þurfa menn að vera skráðir í kraftlyftingafélagi, hafa meðmæli síns félags og hafa lokið Þjálfara 1 – almennur hluti á vegum ÍSÍ.

NÁMSKRÁ OG UPPLÝSINGAR

Námskeiðið er 60 kennslustundir kenndar á þremur helgum í mars – maí, byrjum 7-8 mars.
Pláss er fyrir átta nemendur á námskeiðið sem kostar 30 000 kr, innifalið eru öll námsgögn og léttar máltíðir. .
Skráningafrestur er til 2.mars
Félög sendi skráningu til [email protected] merkt tjalfari1
Í skráningu þarf að koma fram fullt nafn og kennitala, símanúmer og netfang viðkomandi. Fylgja þarf ljósrit af skírteini eða önnur staðfesting á að viðkomandi hafi lokið Þjálfari 1 – almennur hluti frá ÍSÍ. .
Spurningum svarar Gry – [email protected] – 8939739

Æfingarmót og dómarapróf

Skráningu er lokið á æfingarmótið sem fram fer að Norðurstíg 2, Njarðvíkum 22.febrúar nk
KEPPENDUR
Vigtun verður klukkan 12.00. Mótið hefst kl. 14.00

Þrjú eru skráð í dómaraprófið sem fer fram á sama stað.
Skriflegt krossapróf kl. 10.00 – 11.00
Kandidatar sjá svo um vigtun og dómgæslu á mótinu.
Upplýsingar um prófið, lesefni o.a. veitir Helgi Hauksson [email protected]