Silfur og brons á NM

Í dag var keppt í klassískum kraftlyftingum í karlaflokkum á NM unglinga.

Í -74 kg flokki drengja vann Svavar Örn Sigurðsson til silfurverðlauna með seríuna 200 – 135 – 230 – 565 á sínu fyrsta alþjóðamoti.
Í -105 kg flokki unglinga vann Ingvi Örn Friðriksson til bronsverðlauna með seríuna 257 – 155 – 290 – 702,5 kg en í -120 kg flokki unglinga lenti Þorsteinn Ægir Óttarsson í fjórða sæti með 245 – 170 – 262,5 – 677,5.

Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og persónulegum bætingum í dag.

Á morgun, laugardag er keppti í bekkpressu og þríþraut í búnaði og mæta átta íslenskir keppendur til leiks. Við krossum fingur og óskum þeim góðs gengis.
Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu hér:
http://styrkeloft.no/live/?nordic2017_pl

Mótaskrá 2018

Stjórn KRAFT samþykkti á fundi sínum í gær tillögur mótanefndar um mótaskrá 2018.
Í henni eru ýmis nýmæli.
Í fyrsta sinn ríkir fullkomið jafnræði milli greina og hefur verið bætt á listann ÍM ungmenna og öldunga og bikarmót í bekkpressu bæði með og án búnaðar.

Þar sem mótum og keppendum hefur fjölgað án þess að árið hafi lengst er óhjákvæmilegt að gera framvegis ráð fyrir tveggja daga mótum.
Settar hafa verið upp 6 tveggja daga mótahelgar þar sem keppt er bæði í þríþraut og bekkpressu
febrúar: opinn flokkur með búnaði
mars: opinn flokkur án búnaðar
júni: aldurstengdir flokkar með búnaði
ágúst: aldurstengdir flokkar án búnaðar
oktober: Bikarmót án búnaðar
nóvember: Bikarmót með búnaði
Það er von stjórnar að þessi samþjöppun verði til bóta bæði fyrir keppendur og mótshaldara og verði íþróttinni til framdráttar.

Stjórnin lýsir hér með eftir mótshöldurum að þessum mótum og tekur formaður mótanefndar við beiðnum á [email protected]
Við bendum á þann augljósa valkost að félög geti sameinast um mótahald.

Það er yfirlýst markmið í afreksstefnu sambandsins að öll félög haldi einhverskonar mót á árinu.
Opin mót sem framkvæmd eru í samræmi við Reglugerð um kraftlyftingakeppni verða framvegis sett á mótaskrá ef þess er óskað.

Kraftlyftingafélag Akraness

Stöðug fjölgun kraftlyftingafélaga og -iðkenda hefur átt sér stað undanfarin misseri og stjórn hefur ákveðið að hefja kynningu á aðildarfélögum með reglulegum greinum hér á síðunni.
Við hefjum yfirferðina á spurningunni: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA AF SKAGANUM?

Á Akranesi starfar Kraftlyftingafélag Akraness sem er aðili að ÍA, Íþróttabandalagi Akraness. Félagið var eitt af stofnfélögum KRAFT en stofnfundurinn var haldinn 24.nóvember 2009 og var Hermann Hermannsson fyrsti formaður þess.
Hér má lesa um tilurð félagsins.
Núverandi formaður er Einar Örn Guðnason og með honum í stjórn eru Lára Finnbogadóttir gjaldkeri, Sigurgeir Guðmundsson ritari og Arnar Harðarson og Eva Ösp Sæmundsdóttir meðstjórnendur.

Skráður fjöldi iðkenda í september 2017 er 55 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.
Félagið hefur á að skipa fjóra dómara, þá Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur Gunnarsson, Arnar Harðarson og Arnar Helgason, en Kári og Sturlaugur hafa alþjóðadómararéttindi.

Sigursælasti og mest áberandi keppandi félagsins undanfarin misseri hefur verið formaðurinn sjálfur, Einar Örn, en hann er ríkjandi bikarmeistari KRAFT bæði með og án búnaðar og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum auk þess sem hann á flest öll íslandsmet í -105 kg flokki.
Af yngri keppendum má nefna Svavar Örn Sigurðsson, fæddur 1999, sem kom fram á sjónarsviðið með stæl á árinu og er nú á leiðinni til Noregs til að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, Norðurlandamóti drengja í klassískum kraftlyftingum.
Félagið hefur fleiri skemmtilegum og sterkum keppendum á að skipa  og afrekaði að vinna liðabikar karla á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum 2017.

Æfingaraðstaða og heimavöllur félagsins er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í kjallaranum þar ræður félagið ríkjum og hefur til umráða tvö herbergi og allan nauðsynlegan búnað. Aðstaðan er opin á opnunartíma hússins, en fastar æfingar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 16.00 til 22.00. Félagsmenn greiða árgjald 5000 kr fyrir.

Lára Finnbogadóttir sem hefur lokið Þjálfara 1 námskeiði ÍSÍ og KRAFT, sinnir nýliðunum og mætti með þrjá keppendur á byrjendamótið 2017. Það er ekki síst gleðilegt að hægt hefur verið að mynda æfingahóp ungra kvenna og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Að sögn formannsins er samstarfið við íþróttayfirvöld í bænum mjög gott og fjölmiðlar á svæðinu hafa verið duglegir að segja frá árangri félagsmanna.
Aðspurður um helstu markmið og framtíðarsýn Skagamanna svarar hann af sinni alkunnu hógværð: að verða besta og myndarlegasta félagið á landinu.
Þar hafið þið það!
Hægt er að fylgjast með framgangi mála á facebooksíðu félagsins og instagram

Kraftlyftingamenn og -konur munu fjölmenna á Skagann helgina 9 – 10 september nk, en þá heldur Kraftlyftingafélag Akraness þrjú íslandsmót, þ.e. í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu og ætlar að taka vel á móti gestum og veita þeim harða samkeppni.

ÍM í kraftlyftingum – úrslit

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum í opnum og aldurstengdum flokkum lauk fyrir stundu í Smáranum í Kópavogi.
Mótið var fámennt að þessu sinni, en lið KFA frá Akureyri var fjölmennt og unnu til flestra verðlauna.
Stigameistarar i opnum flokki urðu Hulda B. Waage og Viktor Samúelsson, bæði frá KFA.
Stigameistarar í unglingaflokki urðu Þuríður Kvaran Guðmundsdóttir og Þorsteinn Ægir Óttarsson, bæði frá KFA
Stigameistari í öldungaflokki var Jóhan Tómas Sigurðsson, KFR.
Þó nokkur íslandsmet voru sett á mótinu.

HEILDARÚRSLIT:
ÍM í opnum flokki:
http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-i-kraftlyftingum-2017
IM unglinga og öldunga
http://results.kraft.is/meet/islandsmeistaramot-ungmenna-og-oldunga-i-kraftlyftingum-2017

Formannafundur

Stjórn KRAFT hefur boðað til fundar með formönnum aðildarfélaga föstudaginn 21.apríl nk kl.18.00 í húsi ÍSÍ í Laugardal.
Formaður eða staðgengill hans á rétt á fundarsetu smbr reglum um formannafundi.
Aðalefni fundarins eru afreksmálin, en stjórnin mun leggja fram nýja afreksstefnu 2017 – 2025.
Staðfestið gjarnan komu á netfangið [email protected]

Breyting á reglugerð

Á ársþingi KRAFT í febrúar sl var bókað eftirfarandi:
Ákveða þátttökugjöld á Íslands-og bikarmótum næsta keppnistímabils.
Lögð var fram tillaga stjórnar um óbreytt gjöld, 6500 ISK fyrir þríþrautarmót og 5000 ISK fyrir mót í stakri grein.
Sturla Ólafsson lagði fram breytingartillögu þar sem kveðið er á um að 1000 ISK af hverju gjaldi skuli renna til sambandsins og eyrnamerkjast landsliðsverkefni, sérstaklega til að styrkja ungum keppendum sem ekki njóta styrkja annarsstaðar frá.
Tillagan var borin upp og samþykkt gegnt einu atkvæði KFA.

Stjórn KRAFT hefur í kjölfarið breytt 21.grein reglugerðar um kraftlyftingakeppni og tekur breytingin þegar gildi. Hún hljóðar svo:
21. gr. Keppnisgjald
Aðildarfélögin greiða þátttökugjald fyrir sína keppendur og tekur skráning ekki gildi fyrr en gjaldið hefur verið greitt.
Keppnisgjald er ákveðið á kraftlyftingaþingi.
Núgildandi gjald: á mótum þar sem keppt er í öllum þremur greinum skal vera 6500 krónur, en 5000 krónur þegar keppt er í einni grein.
Stjórn KRAFT getur ákveðið önnur gjöld fyrir einstök mót.
Gjaldið rennur til mótshaldara, nema 1000 kr af hverju gjaldi sem rennur til KRA eyrnamerkt verkefnum fyrir efnileg ungmenni. Gjaldkeri KRA innheimtir gjaldið þegar lokaskráning liggur fyrir.

Ingvi Örn keppir á morgun

Fyrsti íslenski keppandinn stígur á svið á EM í klassískum kraftlyftingum á morgun miðvikudag. Það er Ingvi Örn Friðriksson sem keppir í -105 kg flokki unglinga.
Ingvi keppti á RIG í janúar en þar fyrir utan er þetta fyrsta alþjóðamótið hans.

Bein útsending frá mótinu er hér: http://goodlift.info/live.php
en keppnin i flokki Ingva hefst kl. 14.00 á íslenskum tíma.

Við óskum honum góðs gengis.

Nýtt félag

Nýtt kraftlyftingafélag var stofnað í Reykjavík í lok sl árs undir nafninu Kraftlyftingafélag Reykjavíkur. Formaður félagsins er Ari Kárason – [email protected]

Vitað er að verið er að undirbúa stofnun fleiri félaga víðs vegar á landinu og er það mjög ánægjulegt.

Stjórn KRA biður aðildarfélög að muna að senda inn upplýsingar um breytingar á stjórn o.a. að loknum aðalfundum sínum

Úrslit dagsins

Byrjenda- og lágmarksmót KRAFT var haldið hjá Massa í Njarðvíkum í dag og voru margar flugur slegnar í einu höggi á mótinu. Sex dómarar útskrifuðust, tveir keppendur náðu lágmörkum til þátttöku á EM unglinga í vor og margir nýliðar stigu sín fyrstu spor á kraftlyftingaferlinum.

Við óskum þeim öllum til hamingju með árangurinn og þökkum Massa fyrir mótahaldið.

ÚRSLIT