Viktor og Júlían með gull á EM

Síðasti keppnisdagurinn á EM í kraftlyftingum í Pilsen, Tékklandi var í dag. Tveir íslendingar mættu til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson sem mættu í góðum anda og í hrikalegu keppnisskapi.

Viktor var fyrstur á pallinn í hnébeygjunni og lyfti hann þar 380kg þar sem er hans þyngsta hnébeygja á alþjóðamóti. Næst var það bekkpressan og var ljóst þar að hann yrði ofarlega enda hefur hann verið með hæstu wilks stig í bekk í síðastliðin ár. Hann gerði sér því lítið fyrir og lyfti 307,5kg sem dugði honum til gullverðlauna í bekkpressu. Frábær árangur. Réttstaðan gekk einnig mjög vel og lyfti hann þar 322,5kg sem er hans besta lyfta alþjóðlega. Samanlagt endaði hann mótið í 4 sæti í heildina með 1010kg í samanlögðu sem er besti árangur sem hann hefur náð á alþjóðlegu móti.

Innilega til hamingju með árangurinn Viktor!

Viktor að toga hrikalega! /Mynd frá IPF

Þegar -120kg flokkurinn kláraði hnébeygjurnar var komið að seinna hollinu sem var +120kg flokkurinn. Júlían opnaði í 400kg hnéybeygju en því miður tókst honum ekki að fá gilda hnébeygju. Hann reyndi þrisvar við 400kg sem því miður gekk ekki og datt hann þar með út úr keppninni í samanlögðu. En hann lét það ekki á sig fá og mætti tvíefldur í bekkinn. Hann lyfti í bekkpressunni 312,5kg sem er persónulegt met. Svo var komið að réttstöðulyftunni en hann er núverandi heimsmeistari í réttstöðulyftu í +120kg og var því ljóst að hann var líklegur til stórræða þar. Júlían lokaði þar keppninni á 400kg réttstöðulyftu. Hans besta lyfta þar og einnig óopinbert heimsmet! En því miður þar sem hann náði ekki gildri lyftu í hnébeygjunni er það óopinbert. Þetta gaf honum þó gullið í réttstöðu og því fengu íslendingar í dag 2 gullverðlaun.

Innilega til hamingju með árangurinn Júlían!

Júlían með 400kg í höndunum!

Myndband af lyftunni má sjá inn á facebook síðu evrópska kraftlyftingasambandsins:

MYNDBAND AF 400KG LYFTU JÚLÍANS

 

Íslenski hópurinn á EM. F.v. Daníel Geir Einarsson, Guðfinnur Snær Magnússon, Júlían JK Jóhannsson, Viktor Samúelsson, Hulda B Waage, Grétar Skúli Gunnarsson og Auðunn Jónsson

Hulda með bætingar!

Hulda B. Waage keppti í dag á EM í Pilsen, Tékklandi. Hún lauk keppni í 8. sæti í sterkum -84kg flokki kvenna. Í hnébeygju lyfti hún 220kg, í bekkpressu lyfti hún 135kg og svo lyfti hún 170kg í réttstöðulyftu. Þetta gaf henni 525kg í samanlögðu sem er hennar besti árangur.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Hulda með 220kg á bakinu. Hennar besta beygja á móti!

 

Á morgun keppa svo Viktor Samúelsson í -120kg flokknum og Júlían JK Jóhannsson í +120kg flokknum. Þeir hefja báðir keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma og má horfa á það á vef evrópska kraftlyftingasambandsins. Þeir segjast vera báðir í alveg hrikalegum anda og því verður gaman að fylgjast með!

BEIN ÚTSENDING HÉR

Hulda keppir á morgun

Hulda B. Waage keppir á morgun á EM í kraftlyftingum sem er haldið í Pilsen, Tékklandi. Hún keppir í -84kg flokki og byrjar keppnin kl 08:00 á íslenskum tíma. Hulda er alltaf í hrikalegum anda og verður gaman að fylgjast með henni á morgun. Gangi þér vel Hulda!

Bein útsending verður á vef evrópska kraftlyftingasambandsins

TENGILL Á BEINA ÚTSENDINGU

Guðfinnur með silfur í bekkpressu og Karl með brons í bekkpressu

EM í Pilsen, Tékklandi heldur áfram og í dag kepptu tveir íslendingar. Það voru þeir Karl Anton Löve í -93kg flokki unglinga og Guðfinnur Snær Magnússon í +120kg flokki unglinga. Hvorugum tókst að ná gildri lyftu í hnébeygjunni og þar með fellu þeir því miður úr keppni í samanlögðu. Þeir létu það þó ekki á sig fá og kláruðu bekkpressuna báðir á verðlaunapalli.

Karl Anton lyfti 207,5kg í bekkpressunni sem færði honum bronsverðlaunin og svo lyfti hann 260kg í réttstöðulyftunni.

Karl Anton með brons í höfn

Guðfinnur lyfti 275kg í bekkpressunni sem færði honum silfurverðlaunin og svo lyfti hann 270kg í réttstöðulyftunni.

Guðfinnur með silfrið um hálsinn ásamt Auðunni Jónssyni

Kara með brons í réttstöðulyftu á EM í Pilsen

Kara Gautadóttir keppti í dag í -57kg flokki unglinga á EM í Pilsen, Tékklandi. Hún lauk keppni í 6. sæti í mjög sterkum flokki en kláraði þó mótið á hennar besta árangri hingað til. Hún lyfti 145kg í hnébeygju en ber þó að geta að hún fékk 155kg gilt sem hefði verið íslandsmet en kviðdómur mótsins dæmdi lyftuna því miður af. Svo tók hún 82,5kg í bekkpressu og tók bronsið í réttstöðulyftunni með 152,5 kg lyftu. Frábær árangur hjá henni!

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Kara með flott bronsverðlaun um hálsinn

Við viljum svo benda á að Karl Anton Löve keppir á morgun í -93kg flokki unglinga og Guðfinnur Snær Magnússon keppir líka í +120kg unglinga. Þeir hefja keppni klukkan 12 á íslenskum tíma og má sjá keppnina í beinni HÉR

Sóley Margrét með gull á EM í Pilsen

Sóley Margrét Jónsdóttir vann gull í +84kg flokki í dag á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Hún mætti til keppni í góðum anda og það sást svo sannarlega á keppnispallinum. Hún kláraði beygjuna með 232,5kg beygju sem er nýtt evrópumet í stúlknaflokki. Í bekkpressu lyfti hún 115kg og svo lauk hún mótinu með 200kg réttstöðulyftu. Þetta gaf henni 547,5kg í samanlögðu sem er persónuleg bæting og gullið í hennar flokki. Sóley kom einnig heim með gullið í fyrra og það er frábær árangur að ná því tvö ár í röð.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með titilinn og metið!

Evrópska kraftlyftingasambandið deildi myndskeiði af evrópumetslyftunni hennar Sóleyjar og má sjá það hér: Tengill á myndband

Sóley með 232,5kg á bakinu.

Byrjendamót og dómarapróf – Úrslit

Byrjendamót og dómarapróf Kraft voru haldin í gær í Reykjanesbæ í húsnæði Massa Njarðvík. Þetta mót er haldið árlega og er góður staður fyrir einstaklinga til að kynnast því hvernig er að keppa í kraftlyftingum.

Í karlaflokki var stigahæstur Björn Margeirsson frá Ármanni með 407 wilks stig en Björn keppir í -74kg flokki og var með 562,5kg í samanlögðu.

Í kvennaflokki var stigahæst María Petra Björnsdóttir frá Kraflyftingafélagi Ólafsfjarðar. Hún lauk mótinu með 302 wilks stig en María keppir í -63kg flokki og var með 275kg í samanlögðu.

Kraft óskar öllum keppendum til hamingju með árangur sinn. Margir að stíga sín fyrstu skref og sjáum við þau vonandi á fleiri mótum í komandi framtíð.

Heildarúrslit mótsins

Einnig lauk Arthur Bogason dómaraprófi á mótinu. Kraft óskar honum til hamingju með prófið. Það er ómögulegt að halda mót án dómara og því alltaf ánægjulegt þegar það fjölgar í hópi þeirra.

Nýr íþróttastjóri KRAFT

Kraftlyftingasamband Íslands réð á dögunum Viðar Bjarnason í starf íþróttastjóra. Viðar er 39 ára gamall reykvíkingur og er með bakkalárgráðu í Íþróttastjórnun (Sports Management). Hann lærði við KNORTH í Kaupmannahöfn og snerist námið m.a. um stjórnun og rekstur íþróttafélaga. Viðar var nemi hjá danska blaksambandinu og í gegnum það kom hann að skipulagningu EM í blaki sem Danmörk og Pólland sáu um að halda.

Viðar Bjarnason, íþróttastjóri KRAFT

Viðar flutti aftur heim til Íslands 2012 og hóf þá störf hjá  Knattspyrnufélaginu Val sem íþróttafulltrúi. Hann sinnti því starfi til ársins 2015 og fór þá að vinna á öðrum sviðum. Hann segir þó að hugurinn hafi ávallt leitað til íþróttanna, enda hafi hann mikinn áhuga á líkamsrækt, íþróttum og almenni hreyfingu.

Með því að Kraftlyftingasambands Íslands var skilgreint sem afrekssamband innan ÍSÍ þá hefur sambandið unnið markvisst að því að bæta starfið og umgjörðina. Ráðning Viðars í starf íþróttastjóra er næsta stig í áframhaldandi starfi sambandsins. Verkefnum hefur fjölgað með fjölgun keppenda og því er mikilvægt að fá inn aðila til að halda utan um þau og sjá um samskipti við þau alþjóðasamböndin sem KRAFT er hluti af. Ber þar að nefna Kraftlyftingasamband Norðurlandana (NPF), Kraftlyftingasamband Evrópu (EPF) og Alþjóðlega Kraflyftingasambandið (IPF). Auðvitað líka ÍSÍ.

Kraftlyftingasamband Íslands býður Viðar hjartanlega velkominn til starfa.

 

ÍM í klassískum kraftlyftingum – Úrslit

Íslandsmót í klassíkum kraftlyftingum var haldið í dag af Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur. 32 keppendur mættu til leiks, 20 karlar og 12 konur. Nokkur íslandsmet féllu og var andinn góður í húsinu.

Í kvennaflokki sigraði Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur með 417,7 wilks stig sem er hennar besti árangur. Hún tók 126kg í hnébeygju, 81,5 í bekkpressu og 152,5 réttstöðulyftu sem gaf henni 360kg í samanlögðu en hún keppir í -57kg flokki. Hún átti einnig bestu bekkpressu og réttstöðulyftu á mótinu. Gengur hún frá mótinu með íslandsmet í öllum greinum.

Ellen Ýr Jónsdóttir úr Breiðablik átti svo þyngstu hnébeygjuna og hún lyfti þar 167,5kg en hún keppir í -84kg flokki.

Í karlaflokki sigraði Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Ármanni með 473,2 wilks stig. Hann tók 315kg í hnébeygju, 200kg í bekkpressu og 355kg í réttstöðulyftu sem gaf honum 870kg í samanlögðu en hann keppir í +120kg flokki. Hann átti einnig bestu hnébeygjuna og réttstöðulyftuna.

Einar „Loftpressan“ Guðnason frá Akranesi átti svo þyngstu bekkpressuna en hann kláraði mótið með 186,5kg bekkpressu sem er nýtt íslandsmet í -105kg flokki.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn! Kraflyftingafélag Reykjavíkur fær þakkir fyrir mótshald.

Full úrslit má nálgast hér:

Full úrslit

Stigahæsta liðið í flokki kvenna var Kraftlyftingafélag Reykjavíkur

Stigahæsta liðið í flokki karla var Stjarnan

 

 

 

ÍM í klassískri bekkpressu – Úrslit

Kraftlyftingafélag Reykjavíkur (KFR) hélt í dag íslandsmót í klassískri bekkpressu í World Class Kringlunni. Alls mættu 20 keppendur, 8 konur og 12 karlar. Mótið gekk vel fyrir sig og léku keppendur á alls oddi, íslandsmet féllu og persónuleg met auðvitað líka.

Í flokki karla vann Ingimundur Björgvinsson frá KFR með 120,6 wilks stig. Hann keppti í -105kg flokki og lauk mótinu á 201kg lyftu sem er íslandsmet í opnum flokki.

Í flokki kvenna vann Fanney Hauksdóttir frá KFR með 121,9 wilks stig. Hún keppti í -63kg flokki og lauk mótinu á 113kg lyftu sem er einnig íslandsmet í opnum flokki.

Kraftlyftingasambandið vill óska þeim innilega til hamingju með sigurinn! Þakkir fær KFR fyrir mótshald.

Full úrslit úr mótinu má nálgast hér:

Úrslit úr klassískri bekkpressu

Við bendum svo á Íslandsmót í klassískum kraftlyftingum sem verður haldið á sama stað í fyrramálið kl 10. Það er þríþrautarmót, keppt í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Við hvetjum alla sem hafa áhuga að koma, klappa og hvetja!