María hefur lokið keppni

María Guðsteinsdóttir keppti í dag á heimsmeistaramótinu í bekkpressu sem fer fram í Tókýó, Japan. María keppti í klassískri bekkpressu og er hún -57kg flokki kvenna masters 1 (40-49 ára). Í fyrstu lyftu lyfti hún María 65kg og í annarri lyftu lyfti hún 67,5kg. Hún reyndi svo við 70kg í síðustu lyftunni en það reyndist of þungt í dag. Hún lauk því mótinu í 8. sæti með 67,5kg lyftu og með 578,4 IPF stig.

María í einbeitt undir stönginni – skjáskot úr beinni útsendingu IPF

EM í Pilsen lokað á silfri

Síðasti keppnisdagur á evrópumótinu í kraftlyftingum var í dag og mættu þar tveir Íslendingar til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson.

Viktor Samúelsson var í fyrra hollinu en hann keppir í -120kg flokki karla. Viktor lyfti 365kg í hnébeygjunni. Í bekkpressunni lyfti hann 287,5kg af miklu öryggi. Í réttstöðulyftunni lyfti hann 315kg en í þriðju tilraun reyndi hann við 335kg sem flugu upp en lyftan var dæmd af vegna tæknigalla. Með þeirri lyfti hefði Viktor tryggt sér bronsverðlaun í samanlögðu. Hann lauk því mótinu í 4. sæti með 967,5kg í samanlögðu. Flottur árangur þar.

Viktor með örugga 315kg réttstöðulyftu

Júlían JK Jóhannsson var svo í +120kg flokki karla sem lyftu á móti -120kg hollinu. Júlían náði ekki gildri í lyftu í 2 fyrstu hnébeygjunum og var því þriðja lyftan æsispennandi þar sem þurfti að ná henni til að halda sér inn í keppninni. Júlían lyfti þá örugglega 385kg og fékk fyrir lyftuna 3 hvít ljós. Í bekkpressunni átti hann góðan dag og lyfti hann þar 315kg sem er 5kg bæting á íslandsmetinu og dugði til bronsverðlauna í bekkpressu. Í réttstöðulyftunni opnaði hann “létt” í 355kg. Hann fór þá í 385kg sem flaug upp en hann missti því miður takið efst í lyftunni. Þá var lítið annað að gera en að taka hana aftur og gulltryggja þar með gullverðlaunin í réttstöðulyftunni. Þetta gaf honum 2. sætið í samanlögðu með 1085kg og því silfurverðlaun í hús. Óskar kraftlyftingasamband Íslands honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían með verðlaunapeninga á stærð við lóðaplötur framan á sér!

Þar með lýkur EM í kraftlyftingum í Pilsen. Íslenskir keppendur stóðu sig mjög vel og koma þeir heim með 5 gullverðlaun, 4 silfurverðlaun og 4 bronsverðlaun af mótinu. Ekki slæmur árangur þar!

Hér fyrir neðan má svo sjá mynd af næstum því öllum íslenska hópnum sem var úti.

Hrikalega hrikaleg!

EM í Pilsen heldur áfram

EM í kraftlyftingum er haldið þessa dagana í Pilsen og er enginn skortur af íslenskum keppendum á pallinn. Í dag kepptu þau Hulda B. Waage, Karl Anton Löve og Alex Cambray Orrason.

Hulda B. Waage var fyrst á pallinn í morgun og keppir hún í -84kg flokki kvenna. Hulda lyfti 230kg í hnébeygju sem var jafn þungt og bronslyftan en sú sem tók þriðja sætið var aðeins léttari og því var hennar lyfta í 4. sæti. Bekkurinn reyndist erfiður í dag og tókst Huldu því miður ekki að ná gildri lyftu í bekknum. Þriðja lyftan var mjög sannfærandi en var hún dæmd af vegna tæknigalla. Hún lét það þó ekki á sig fá og hélt áfram í réttstöðulyftuna og lyfti þar 180kg.

Hulda í skýjunum með 230kg hnébeygju

Eftir hádegi mætti svo Karl Anton Löve á pallinn. Hann keppir í -93kg flokki karla. Karl lyfti 335kg í hnébeygjunni með 3 gildar lyftur og nýtt íslandsment í hnébeygjunni. Í bekkpressu lyfti hann 220kg sem hann náði í æsispennandi þriðju lyftu sem skar úr hvort hann næði gildum bekk. Í réttstöðulyftunni lyfti hann svo 275kg. Þetta gaf honum 830kg í samanlögðu sem er 10kg bæting á hans best árangri í -93kg flokknum og endaði Karl í 12. sæti. Óskar Kraftlyftingasamband Íslands honum til hamingju með íslandsmetið.

Karl Anton stendur öruggur eftir 335kg hnébeygju

Samfara -93kg flokknum kepptu -105kg keppendur. Þar keppti enn einn Íslendingurinn. Alex Cambray Orrason keppti þar á sínu fyrsta evrópumóti. Í hnébeygjunni lyfti Alex öruggt 342,5kg með 3 gildar lyftur og 2,5kg bætingu. Hann ákvað að gera mótið jafn æsispennandi og Karl og náði hann loksins gildri lyftu í þriðju lyftu í bekkpressunni með 240kg. Í réttstöðulyftunni lyfti hann svo 282,5kg. Þetta gaf honum 865kg í samanlögðu og 8. sæti í flokknum.

282,5kg voru létt í höndum Alex í dag

Á morgun er svo lokadagur EM. Þar mæta til leiks Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson. Þeir hefja báðir keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma.

Eins og alltaf þá má fylgjast með áGoodlift

Guðfinnur með silfurverðlaun

Guðfinnur Snær Magnússon keppti í dag á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Guðfinnur keppir í +120kg unglinga og hefur þrátt fyrir ungan aldur keppt lengi í greininni.

Hann lauk mótinu með 375kg hnébeygju, 390kg fóru upp en lyftan var því miður dæmd ógild. Í bekkpressunni lyfti hann 275kg og svo kláraði hann mótið 302,5kg réttstöðulyftu. Þetta gaf honum silfurverðlaun í hnébeygju, silfurverðlaun í bekkpressu, bronsverðlaun í réttstöðulyftu og svo silfurverðlaun í samanlögðu með 952,5kg. Það er 5kg bæting á hans besta árangri.

Guðfinnur fer því heim klyfjaður með 3 silfurpeninga og 1 bronspening um hálsinn. Flottur árangur hjá honum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Guðfinnur í góðra vini hópi. Auðunn Jónsson (t.v.), verðlaunapeningarnir (m) og Helgi Hauksson (t.h.)

EM heldur áfram í Pilsen en næstu íslensku keppendur sem stíga á pallinn verða þau Hulda Waage og Karl Anton Löve. Þau keppa bæði á föstudaginn en Hulda hefur keppni kl. 8 að íslenskum tíma og Karl kl. 13:30 að íslenskum tíma.

Eins og alltaf þá er hægt að fylgjast með á Goodlift

Íris Hrönn með bronsverðlaun

Íris Hörnn Garðarsdóttir hefur lokið keppni á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Íris keppti í -84kg flokki unglinga.

Í hnébeygjunni og bekkpressunni tókst henni því miður ekki að ná gildri lyftu og datt hún því út úr keppninni í samanlögðu. Íris lét það ekki á sig fá og mætti fílefld í réttstöðulyftuna og lyfti þar 172,5kg sem tryggði henni bronsverðlaun í greininni.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með bronsið!

Íris með bronslyftu í höndunum!

Við hvetjum svo alla til að fylgjast áfram með íslenskum keppendum. Á morgun keppir Guðfinnur Snær Magnússon í +120kg flokki unglinga. Hann hefur keppni klukkan 13:30 á íslenskum tíma og má fylgjast með í beinni á Goodlift.

Kara með brons verðlaun í réttstöðulyftu

Kara Gautadóttir hefur lokið keppni á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Kara keppir í -57kg flokki unglinga og endaði hún í 4 sæti í samanlögðu. Upp um 2 sæti frá síðusta evrópumóti og með 17,5kg bætingu á hennar besta alþjóðlega árangri.

Kara lyfti í 160kg í hnébeygju, 87,5kg í bekkpressu og svo lyfti hún 150kg í réttstöðulyftu. Réttstöðulyftan gaf henni bronsverðlaunin í greininni. Samanlagt lyfti hún 397,5kg.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Kara Gautadóttir til hægri með bronspening um hálsinn.

Á morgun keppir svo Íris Hrönn Garðarsdóttir fyrir hönd Íslands í -84kg flokki unglinga. Hún hefur keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma.

Fylgjast má með mótinu á Goodlift.info.

Bikarmót í bekkpressu – Úrslit

Bikarmótin í bekkpressu og klassískri bekkpressu voru haldin um helgina í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur. Fjöldi keppenda mætti til leiks, íslandsmet voru slegin og góður andi var í húsinu. Mótshaldari var Massi.

Klassísk bekkpressa

Í karlaflokki varð Ingimundur Björgvinsson frá KFR bikarmeistari. Hann lyfti 190kg og keppti í -105kg flokki. Þetta gaf honum 664,3 IPF stig.

Í kvennaflokki varð Matthildur Óskarsdóttir frá KFR bikarmeistari. Hún lyfti 100kg í þriðju lyftu og setti þar með nýtt íslandsmet í -72kg flokki. Þetta gaf henni 734 IPF stig.

Bekkpressa

Í karlaflokki varð Einar Örn Guðnason frá Akranesi bikarmeistari. Hann lyfti 255kg og keppti í -120kg flokki. Þetta gaf honum 625,3 IPF stig.

Í kvennaflokki varð Þórunn Brynja Jónasdóttir bikarmeistari. Hún lyfti 92,5kg og keppti í -84kg flokki. Þetta gaf henni 513,1 IPF stig.

Full úrslit

Bikarmót í klassískri bekkpressu

Bikarmót í bekkpressu

Þing kraftlyftingasambands Íslands 2019

Þing Kraftlyftingasambands Íslands var haldið 23. febrúar síðastliðinn í húsakynnum ÍSÍ á Engjavegi.

Á þinginu voru samþykkt ný lög, kosinn nýr formaður og ný stjórn.

Kosin inn í stjórn til 2. ára voru Auðunn Jónsson, Inga María Henningsdóttir og Þórunn Lilja Vilbergsdóttir.

Kosin sem formaður til 1. árs var Gry Ek Gunnarsson.

Úr stjórn fóru Hulda Elsa Björgvinsdóttir fyrrverandi formaður og Erla Kristín Árnadóttir sem voru báðar í stjórn sambandsins í 2 ár. Þakkar Kraft þeim fyrir störfin í þágu sambandsins.
Þinggerð og reikningar eru aðgengileg undir fundargerðir

Mynd af þinggestum.

Bikarmótahelgi lokið

Síðastliðna helgi fóru fram tvö bikarmót í kraftlyftingum. Á laugardeginum voru kraftlyftingar og á sunnudeginum klassískar kraftlyftingar. Mótshaldari var Kraftlyftingafélag Akureyrar og voru bæði mótin haldin í húsakynnum félagsins.

Kraftlyftingar

Í kraftlyftingum fór með sigur af hólmi Viktor Samúelsson í karlaflokki og Sóley Margrét Jónsdóttir í kvennaflokki.

Sóley lyfti 245kg í hnébeygju, 145kg í bekkpressu og svo 210kg í réttstöðulyftu sem eru 600kg í samanlögðu og er hún fyrsta íslenska konan til að brjóta 600kg múrinn. Þetta gaf henni 628,9 IPF stig

Viktor tók 372,5kg í hnébeygju, 290kg í bekkpressu og svo 330kg í réttstöðulyftu sem eru 992,5kg í samanlögðu. Þetta gaf honum 673,4 IPF stig

Stigahæsta liðið í kraftlyftingum var lið Akureyrar í karla- og kvennaflokki.

Klassískar kraftlyftingar

Í klassískum kraftlyftingum fór með sigur af hólmi Ingvi Örn Friðriksson í karlaflokki og Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir í kvennaflokki.

Ragnheiður lyfti 133kg í hnébeygju, 83,5kg í bekkpressu og svo 152,5kg í réttstöðulyftu sem eru 369kg í samanlögðu. Þetta gaf henni 674,8 IPF stig

Ingvi lyfti 280,5kg í hnébeygju, 165kg í bekkpressu og svo 297,5kg í réttstöðulyftu sem eru 743kg í samanlögðu. Þetta gaf honum 670,5 IPF stig

Stigahæstu liðin í klassískum kraftlyftingum voru lið Massa í kvennaflokki og lið Akureyrar í karlaflokki.

Full úrslit

Úrslit í kraftlyftingum

Úrslit í klassískum kraftlyftingum

KRAFTLYFTINGAÞING 2019

Níunda ársþing Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið í Reykjavík 23.febrúar nk. og hefst þinghald kl. 14.00

Kjörbréf hafa verið send út til þeirra sem eiga fulltrúa á þinginu. Stjórn mun leggja fram tillögu að nýjum lögum sambandsins og tillögu að nýju merki. 

Kosið verðum um sæti formanns og þrjú stjórnarsæti. Eftir formannssætinu sækjast Grétar Skúli Gunnarsson, KFA og Gry Ek Gunnarsson, Ármann. Þrír bjóða sig fram til stjórnarstarfa, þau Auðunn Jónsson – Breiðablik, Inga María Henningsdóttir – Massi og Þórunn Lilja Vilbergsdóttir, Ármann.