KRAFTLYFTINGAÞING 2019

Níunda ársþing Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið í Reykjavík 23.febrúar nk. og hefst þinghald kl. 14.00

Kjörbréf hafa verið send út til þeirra sem eiga fulltrúa á þinginu. Stjórn mun leggja fram tillögu að nýjum lögum sambandsins og tillögu að nýju merki. 

Kosið verðum um sæti formanns og þrjú stjórnarsæti. Eftir formannssætinu sækjast Grétar Skúli Gunnarsson, KFA og Gry Ek Gunnarsson, Ármann. Þrír bjóða sig fram til stjórnarstarfa, þau Auðunn Jónsson – Breiðablik, Inga María Henningsdóttir – Massi og Þórunn Lilja Vilbergsdóttir, Ármann. 

Júlían réttmætur bronshafi á HM

Alþjóðlega kraftlyftingasambandið staðfesti í dag að Júlían Jóhann Karl Jóhannsson væri réttmætur bronshafi á HM í kraftlyftingum eftir að keppinautur hans Volodomyr Svistunov féll á lyfjaprófi. Þetta eru súrsætar fréttir því Júlían fékk ekki að fara á verðlaunapallinn og taka við bronsinu á HM sem fór fram í Halmstad, Svíþjóð. Þó er þetta jákvætt að því leyti að lyfjaprófin ná greinilega þeim sem ætla sér að svindla.

Júlían lenti einnig á dögunum í öðru sæti í vali á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna.

Kraflyftingasambandið óskar Júlían innilega til hamingju með árangurinn!

Arna Ösp hefur lokið keppni

Arna Ösp Gunnarsdóttir keppti í gær á EM í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í Kaunas í Litháen.

Arna keppir í -63kg flokki kvenna í aldursflokki unglinga. Í hnébeygju lyfti hún 112,5kg, í bekkpressunni lyfti hún 72,5kg og endaði svo daginn á því að lyfta 170kg í réttstöðulyftunni sem er aðeins 0,5kg frá íslandsmetinu hennar.

Þetta gaf henni 355kg í samanlögðu og 388,8 wilksstig sem er hennar besti árangur á stigum.

Þetta er hennar fyrsta mót á erlendri grundu og munum við vonandi sjá hana keppa oftar fyrir hönd Íslands.

 

 

Bikarmót í kraftlyftingum og bekkpressu – Úrslit

Bikarmót í kraftlyftingum og bekkpressu var haldið um helgina á Akureyri. Kraftlyftingafélag Akureyrar mætti með sterkt lið og tóku stigakeppnina hjá körlum og konum í bæði kraftlyftingum á laugardeginum og bekkpressunni á sunnudeginum.

Í kraftlyftingum var stigahæsti karlinn Karl Anton Löve með 516,3 wilks stig.

Í kraftlyftingum var stigahæsta konan Hulda B. Waage með 495,9 wilks stig og svo tók hún einnig stigabikarinn í bekkpressunni með 126,4 wilks stig.

Í bekkpressu var stigahæsti karlinn Alex Cambray Orrason með 152,4 wilks stig.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar sigurvegurum til hamingju með árangurinn!

Mótshaldari var Kraftlyftingafélag Akureyrar og þakkar Kraft fyrir mótshaldið.

Full úrslit má sjá hér:

Bikarmót í kraftlyftingum 2018

Bikarmót í bekkpressu 2018

 

 

Júlían með nýtt heimsmet

HM í kraftlyftingum lauk í dag og sýndi og sannaði Júlían JK Jóhannsson að hann sé í röð fremstu kraftlyftingmanna á heimsvísu.

Júlían tók í maí síðastliðnum óopinbert heimsmet í réttstöðulyftu og hefði komið á óvart ef hann hefði ekki reynt að gera það opinbert í dag. Júlían var greinilega í góðum anda í dag og lyfti hann 410kg í hnébeygjunni. Sem er hans besta hnébeygja á ferlinum. Í bekkpressunni lyfti hann 300kg. Svo kom að réttstöðulyftunni og opnaði hann í 360kg sem reyndist mjög auðveld. Þá var farið í 398kg var 0,5kg yfir heimsmeti Brad Gillingham sem hafði staðið síðan 2011. Júlían fór létt með 398kg lyftuna og þá bað hann um 405kg a stöngina. Hún fór upp og því tvíbætti hann heimsmetið. Hann fékk því gullið í réttstöðulyftu.

Þetta gaf honum 1115kg í samanlögðu sem er 35kg bæting á íslandsmetinu hans.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju árangurinn!

Hér má sjá myndbandið af 405kg lyftu Júlíans.

Sóley og Viktor hafa lokið keppni

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum er í fullum gangi í Halmstad, Svíþjóð. Í dag mættu til leiks tveir keppendur frá Íslandi, þau Sóley Margrét Jónsdóttir og Viktor Samúelsson.

Sóley lyfti í +84kg flokki kvenna. Hún lyfti 232,5kg í hnébeygju, 132,5kg í bekkpressunni og lauk svo deginum á 200kg deddi. Með þessu setti hún nýtt íslandsmet í bekkpressu í stúlkna og unglingaflokki. Lauk hún því mótinu með 565kg í samanlögðu. Þess má einnig geta að Sóley var yngsti keppandinn í sínum flokki.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

 

Eftir hádegi mætti svo til leiks í -120kg flokknum Viktor Samúelsson. Viktor mætti til leiks sterkur og einbeittur. Hann lyfti 382,5kg í hnébeygjunni, 307,5kg í bekkpressunni og lokaði deginum á 305kg réttstöðulyftu. Þetta gaf honum 995kg í samanlögðu. Flottur árangur.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum til hamingju með árangurinn!

Sóley með 232,5kg í botnstöðu á hraðri leið upp! /Mynd frá EPF

Viktor Samúelsson að lyfta þessum lóðum! /Mynd frá EPF

Kraft hvetur svo alla lesendur til þess að fylgjast með á morgun á http://powerlifting.sport klukkan 11 þar sem Júlían JK Jóhannsson mætir fílefldur til leiks. Júlían er með óopinbert heimsmet í réttstöðu og hann mun eflaust leitast eftir að gera það opinbert á morgun!

Muggur Ólafsson hefur lokið keppni

Muggur Ólafsson keppti í dag fyrir hönd Íslands á Arnold Classic mótinu sem fór fram í Barcelona á Spáni. Muggur keppti í klassískum kraftlyftingum. Mótið er svokallað Wilks mót og var því farið eftir Wilks-stigum óháð þyngdarflokkum.

Muggur vigtaðist 72,66kg og lyfti hann 185kg í hnébeygjunni, 127,5kg í bekkpressuni og svo 220kg í réttstöðulyftu. Þetta skilaði honum 8. sæti af 12 keppendum. Engar bætingar að sinni en þetta er hans fyrsta mót á erlendri grundu og því ólíkar aðstæður en hann hefur keppt við hingað til.

Muggur ásamt Mohamed Alim samkeppanda hans frá Egyptalandi.

ÍM unglinga og öldunga í klassískum kraftlyftingum og bekkpressu – Úrslit

Íslandsmót unglinga og öldunga í klassískum kraftlyftingum og bekkpressu var haldið um helgina á Akureyri.

Alls mættu 27 keppendur til leiks í kraftlyftingum og svo 10 keppendur í bekkpressuna.

Fjöldi meta féll bæði í opnum flokki og aldurstengdum flokkum og má sjá þau sem og úrslit mótanna hér fyrir neðan.

Kraftlyftingasambandið óskar öllum keppendum til hamingju með árangurinn.

Úrslit í klassískum kraftlyftingum

Úrslit í klassískri bekkpressu

Keppendur bekkpressumótsins – Með bros á vör eftir átök dagsins!

Fanney með silfur í bekkpressu

Fanney Hauksdóttir keppti í dag á Evrópumóti í klassískri bekkpressu sem fer fram í Merignac, Frakklandi.

Fanney lyfti seríunni 107,5kg – 110kg – 112,5 kg. Allar lyftur gildar og gaf lokalyftan 112,5 henni silfurverðlaunin í -63kg flokki kvenna. Sú lyfta er jöfnun á hennar besta árangri á alþjóðamóti og aðeins 0,5kg undir íslandsmeti hennar.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Fanney með silfurverðlaun um hálsinn. Með henni á myndinni er faðir hennar Haukur.

ÍM í réttstöðulyftu – Úrslit

Grétar Skúli Gunnarsson mótshaldari skrifar:

Um helgina fór fram Íslandsmeistaramótið í Réttstöðulyftu. Mótið var haldið á Sauðárkróki í tengslum við Landsmót UMFÍ og fór mótið fram í Reiðhöllinni.

Í kvennaflokki var það Kara Gautadóttir (KFA) lyfti 155,0 kg í 57.0kg flokki, en það er nýtt Íslandsmet ungmenna (u23). Fyrir þessa lyftu hlaut hún 180,73 stig og var stigahæst í kvennaflokki. Í öðru sæti var Arna Ösp Gunnarsdóttir sem lyftir fyrir Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar en hún lyfti 157.5kg í -63,0 kg fl. og hlaut 169.16 stig. Þriðja sæti var Sóley Margrét Jónsdóttir (KFA) sem lyfti 195,0 kg í +84kg fl. og hlaut 165.91 stig.

Í karlaflokki tefldi Kraftlyftingafélag Akureyrar fram sína tvo bestu menn, þá Þorberg Guðmundsson og Viktor Samúelsson. Þeir hjóu hart að hvort öðrum og gerði Viktor sig líklegan til sigurs með því að lyfta 330,0 kg sem er töluverð bæting í síðustu lyftu en var dæmd af 2-1 vegna tæknigalla. Þorbergur lyfti á eftir honum í 332,5 kg sem gaf honum 183,87 stig. Viktor var í öðru sæti með 315.0 kg og 181,47 stig. Karl Anton Löve frá KFA var í þriðja sæti með 265.0 kg í -93kg fl. og 166.76 stig.

Töluvert af Íslandsmetum og tilraunum til Íslandsmeta voru á mótinu, en helst má þá nefna íslandsmet Köru Gautadóttir (KFA) þar sem hún lyfti 155.0kg í þriðju tilraun. Hilmar Símonarson frá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar reyndi einnig við 210.0 kg í -66kg fl. sem hefði verið 2.0 kg bæting á hans egins íslandsmeti í flokknum.

Stigahæsta lið mótsins í bæði karla- og kvennaflokki var Kraftlyftingafélag Akureyrar.

 

FULL ÚRSLIT