Júlían JK Jóhannsson er íþróttamaður ársins 2019

Samtök íþróttafréttamanna útnefndu í kvöld Júlían JK Jóhannsson sem íþróttamann ársins 2019. Þetta er í fjórða sinn sem kraftlyftingamaður vinnur verðlaunin en það hefur ekki gerst síðan 1981. Jón Páll Sigmarsson vann verðlaunin 1981 og Skúli Óskarsson 1978 og 1980.

Júlían hefur verið lengi í íþróttinni miðað við aldur en hann er fæddur árið 1993. Hann keppti fyrst árið 2009, fyrir 10 árum síðan. Óhætt að segja að síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann klárar þetta keppnisár með sitt annað heimsmet í réttstöðulyftunni. Vann í annað skiptið bronsverðlaun í samanlögðu á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum og það var ljóst að hann yrði sterkur valkostur í kvöld.

Þeir sem þekkja Júlían bera honum góða söguna. Kraflyftingamaður í húð og hár. Hann er hress í fasi, kíminn og hvetur fólk í kringum sig til dáða. Það er ljóst þegar litið er yfir feril hans að dropinn holar steininn. Hann hefur markvisst bætt sig ár eftir ár og sýnir okkur hinum að þar sé lykillinn að árangri.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Íþróttamaður ársins 2019 með 405,5kg í höndunum – Mynd frá Þóru Hrönn

Ingvi og Birgit hafa lokið keppni

Eins og eflaust allir vita þá er EM í klassískum kraftlyftingum í fullum gangi í Kaunas, Litháen. Síðustu tveir íslensku keppendurnir stigu á keppnispallinn í dag, Ingvi Örn og Birgit Rós.

Ingvi Örn Friðriksson

Ingvi Örn hefur síðastliðin ár verið með sterkustu lyfturum í klassískum kraftlyftingum og keppir hann í -105kg flokki karla. Ingvi opnaði í 257,5kg í hnébeygjunni sem fór léttilega upp og var hún dæmd gild. Í annarri tilraun fór hann í 267,5kg sem fór létt upp en var því miður dæmd af. Í þriðju tilraun tók hann 267,5kg aftur án vandræða og var þessi dæmd gild. Í bekkpressunni opnaði hann í 150kg sem flugu upp. Þá fór hann í 160kg en það gekk brösulega og endaði hann því með 150kg í bekkpressunni. Í réttstöðulyftunni opnaði hann í 285kg sem hann lyfti örugglega og bað því næst um 297,5kg á stöngina. Sú lyfta gekk mjög vel, þrjú hvít ljós. Þá bað hann um 307,5kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet. Því miður fór sú lyfta ekki upp í dag. Ingvi lokaði því mótinu með 715kg í samanlögðu og 14. sætið í flokknum.

Birgit Rós Becker

Birgit Rós keppir í -84kg flokki kvenna. Hún tók sér frí frá keppni 2018 og hefur núna komið aftur inn í íþróttina árið 2019 um borð í bætingarlestinni. Birgit opnaði í léttum og öruggum 162,5kg í hnébeygjunni. Í annarri lyftu fór hún í 172,5kg sem fór upp en lyftan var því miður dæmd af. Þá var lítið annað í stöðunni en að taka 172,5kg aftur í þriðju tilraun sem gekk svona þvílíkt vel og setti hún þar með íslandsmet sem er einnig þyngsta hnébeygja sem íslensk kona hefur tekið í klassískum kraftlyftingum. Í bekkpressunni átti Birgit góðan dag, hún opnaði í 80kg lyftu sem var góð og gild. Þá fór hún í 85kg sem var 2,5kg yfir hennar besta og lyfti hún henni auðveldlega. Í þriðju lyftu lyfti hún svo 87,5kg án vandræða og því með 5kg bætingu á bekkpressunni. Í réttstöðulyftunni opnaði hún í 160kg sem var dæmd gild. Í annarri lyftu fór hún í persónulega bætingu og lyfti þar 172,5kg. Í þriðju lyftunni fór hún svo í 177,5kg en það reyndist of þungt í dag. Hún kláraði því keppnina með 432,5kg í samanlögðu sem er nýtt íslandsmet og tók einnig 11. sætið í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Ingvi Örn og Arna Ösp í góðum anda!
Birgit Rós alsæl með mjög góðan keppnisdag!
Íslenski hópurinn á EM í hrikalegum anda. Frá vinstri: Grétar Hrafnsson, Birgit Rós, Arna Ösp, Ingvi Örn, Friðbjörn Bragi, Hannes Hólm, Halldór Jens og íþróttastjóri Kraft, Auðunn Jónsson

Þar með lýkur þátttöku Íslands á EM í klassískum kraftlyftingum. Kraft þakkar öllum sem fylgdust með!

Arna og Friðbjörn hafa lokið keppni

EM í klassískum kraftlyftingum er í fullum gangi í Kaunas, Litháen. Tveir Íslendingar kepptu í dag, þau Arna Ösp Gunnarsdóttir og Friðbjörn Bragi Hlynsson.

Arna Ösp Gunnarsdóttir

Arna Ösp keppti í -63kg flokki kvenna. Það var hörð samkeppni og voru 22 keppendur skráðir í flokkinn. Arna fékk ógilda fyrstu hnébeygjuna 132,5kg þannig að hún tók aftur sömu þyngd og lyfti því af miklu öryggi. Þá fór hún í 140kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet og sigldi hún því örugglega í höfn. Þá var komið að bekkpressunni og opnaði hún þar í 77,5kg, gott og gilt. Í annarri lyftu bað hún um 82,5kg á stöngina sem hún lyfti og var það persónuleg bæting. Í þriðju tilraun reyndi hún við 85kg sem því miður tókst ekki í dag. Í réttstöðulyftunni er Arna á heimavelli og opnaði hún þar í 165kg sem fóru upp með hvítum ljósum. Þá bað hún um 177,5kg á stöngina og freistaði þar með að setja nýtt íslandsmet í réttstöðulyftu. Lyftan fór upp góð og gild. Í síðustu tilraun ákvað hún að reyna við 182,5kg en það tókst því miður ekki. Þetta gaf henni 400kg í samanlögðu sem er einnig nýtt íslandsmet, 3. íslandsmet í höfn og 13. sætið í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með árangurinn!

Friðbjörn Bragi Hlynsson

Friðbjörn Bragi hefur komið sterkur inn í íþróttina á þessu ári og tók hann í dag þátt á sínu fyrsta EM. Hann keppti í -83kg flokki karla. Hann opnaði í 225kg í hnébeygjunni sem var ógild og tók hann því lyftuna aftur í annarri tilraun og fékk hann hana gilda þar. Þá var beðið um 240kg á stöngina og farið í tilraun við íslandsmet sem hann lyfti af miklu öryggi og var lyftan dæmd gild, nýtt íslandsmet í hús. Í bekkpressunni opnaði Friðbjörn í 150kg örugglega. Í annarri var það eins og lyfti hann 155kg þar. Í þriðju tilraun lyfti hann svo 160kg og kláraði því með þrjár gildar af þrem í bekknum. Í réttstöðulyftunni opnaði hann í 265kg sem var gild. Þá reyndi hann tvisvar við 277,5kg sem hefði verið nýtt íslandsmet en því miður missti hann stöngina í annarri tilraun og í þeirri þriðju þótti hún ekki vera nógu vel læst. Þetta gaf honum þó 665kg í samanlögðu sem er jöfnun á íslandsmetinu hans og kláraði hann í 16. sæti.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum til hamingju með árangurinn!

Friðbjörn Bragi (t.v.), Hannes Hólm og Arna Ösp í góðum gír fyrir mót.

Kraftlyftingasambandið hvetur svo alla til að fylgjast með Ingva og Birgit keppa á morgun. Tímasetningar og hlekki á beina útsendingu má sjá í fréttinni sem var birt í fyrradag.

Halldór Jens hefur lokið keppni

Evrópumeistaramótið í klassískum kraftlyftingum er komið á fulla ferð en það er haldið þetta árið í Kaunas, Litháen. Ísland verður með nokkra fulltrúa á mótinu og steig sá fyrsti á keppnispallinn í dag.

Halldór Jens Vilhjálmsson keppti fyrir hönd Íslands í -105kg flokki unglinga. Halldór opnaði í 220kg í hnébeygjunni létt og örugglega. Í annarri tilraun fór hann í 240kg og var það hans þyngsta hnébeygja í dag. Í bekknum opnaði hann í 140kg og lyfti því öruggt. Þá fór hann í 152,5kg í annarri lyftu og kláraði bekkpressuna með þá lyftu þyngsta. Í réttstöðulyftunni var allt gott og gilt og tók hann þar seríuna 220kg-240kg-250kg. Þetta gaf honum 642,5kg í samanlögðu sem er góð bæting á árangri hans á mótum utanlands.

Þrír hrikalegir, Auðunn Jónsson íþróttastjóri Kraft(t.v.), Halldór Jens og Hannes Hólm aðstoðarmaður(t.h)

Keppendur Íslands á komandi dögum

Arna Ösp Gunnarsdóttir

Arna Ösp keppir í -63kg flokki kvenna og mun hún hefja keppni kl. 08:00 á íslenskum tíma á föstudaginn. Þetta er hennar annað evrópumeistaramót en það fyrsta í opnum flokki. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR.

Friðbjörn Bragi Hlynsson

Friðbjörn Bragi keppir í -83kg flokki karla og mun hann hefja keppni kl. 15:00 á íslenskum tíma á föstudaginn. Þetta er fyrsta evrópumeistaramótið hans og verður hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR.

Ingvi Örn Friðriksson

Ingvi Örn keppir í -105kg flokki karla og mun hann hefja keppni kl. 11:30 á íslenskum tíma á laugardaginn. Þetta er annað evrópumeistaramótið hans Ingva en hans fyrsta í opnum flokki. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR.

Birgit Rós Becker

Birgit Rós keppir í -84kg flokki kvenna og mun hún hefja keppni kl. 16:00 á íslenskum tíma á laugardaginn. Þetta er þriðja evrópumeistaramótið hennar Birgit. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR.

Júlían og Sóley hafa lokið keppni – Gull í hús

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum kláraðist í dag. Keppnin var haldin þetta árið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Sóley Margrét Jónsdóttir og Júlían JK Jóhannsson mættu á keppnispallinn í dag og sýndu hvað í sér bjó.

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley Margrét mætti í fínum anda í keppnina en hún keppir í +84kg flokki. Hún opnaði í 260kg lyftu í hnébeygjunni sem er aðeins 5,5kg undir heimsmetinu hennar. Hún reyndi svo við 272,5kg og 275kg en því miður voru báðar lyfturnar dæmdar ógildar. Í bekkpressunni opnaði hún í 145kg og tók þar þrjár gildar lyftur með seríuna 145-150-155. Þá var bara að réttstöðulyftan eftir og kláraði hún þar með 197,5kg. Þetta gaf henni 612,5kg í samanlögðu og 7. sætið í flokknum. Glæsilegur árangur þar og augljóst að Sóley á eftir að láta fyrir sér finna á komandi árum en hún er rétt að klára stúlknaflokkinn!

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson

Júlían Jóhann Karl mætti svo á keppnispallinn í síðasta holl keppninnar, +120kg flokkinn. Andinn var góður og var okkar maður í bætingarhug. Júlían opnaði í beygjunni í 392,5kg og var hún góð og gild. Þá fóru 412,5kg á stöngina og lyfti hann því af miklu öryggi. Persónuleg bæting hjá honum og jöfnun á íslandsmeti. Hann sleppti þá þriðju tilraun, líklega til að spara orku í bekkpressuna og réttstöðuna. Hann opnaði bekkpressuna í 307,5kg og kláraði með þrjár gildar lyftur þar. 307,5kg – 320kg – 330kg sem er 15kg bæting á íslandsmetinu. Þá var komið að réttstöðulyftunni sem hefur verið sérgrein hans. Hann opnaði í “léttum” 370kg þar, góð og gild. Þá var lítið annað í stöðunni en að bæta heimsmetið sitt með 405,5kg sem hann gerði af miklu öryggi, nýtt heimsmet og gullið gulltryggt í réttstöðulyftunni. Í síðustu lyftu mótsins bað hann um 420,5kg á stöngina og virtist hún ætla upp en því miður fór hún ekki alla leið. Þetta gaf honum 1148kg í samanlögðu og bronsverðlaunin í flokknum annað árið í röð! Þess má geta að íslandsmetið í samanlögðu var 1115kg og er þetta því umtalsverð bæting á því.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían (í miðjunni) með gullpening um hálsinn fyrir heimsmetalyftuna.
Júlían (til hægri) með bronsið um hálsinn. Gullið fór til Blaine Sumner og silfrið til Andrei Konovalov
Íslenski hópurinn ásamt fulltrúa frá SAF. Frá vinstri: Sigurjón Pétursson, Auðunn Jónsson, Júlían JK Jóhannsson, óþekkti fulltrúinn, Guðfinnur Snær Magnússon, Sóley Margrét Jónsdóttir, Hulda B. Waage, Grétar Skúli Gunnarsson og Viktor Samúelsson
Júlían ásamt Auðuni Jónssyni íþróttastjóra Kraft

Hulda og Viktor hafa lokið keppni

HM í kraftlyftingum er enn í fullum gangi í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Í dag stigu á keppnispallinn tveir Íslendingar, þau Hulda B. Waage og Viktor Samúelsson.

Hulda B. Waage

Hulda B. Waage var í fyrra hollinu í dag og keppti hún í -84kg flokki. Í beygjunni opnaði hún í 210kg en lyftan fór því miður ekki upp. Hún reyndi þá aftur við 210kg og stóð sannfærandi upp með lyftuna en hún var því miður dæmd af vegna tæknigalla. Í þriðju þyngdi hún um 5kg og reyndi við 215kg en lyftan gekk því miður ekki. Hún datt því miður út úr keppni í samanlögðu. Hún hélt þó áfram og lyfti 137,5kg í bekkpressunni. Hulda mætti svo fílefld í réttstöðulyftuna og kláraði þar með 172,5kg lyftu.

Viktor Samúelsson

Eftir hádegi var komið að -120kg karla og þar mætti Viktor Samúelsson til leiks. Hann opnaði í 360kg í hnébeygjunni sem fór upp en var því miður dæmd ógild. Hann fór þá í 365kg og kláraði þá lyftu gilda og góða. Í bekknum reyndi hann við 290kg þrisvar sinnum og lyfti hann því alla leið tvisvar en því miður var engin af þeim dæmd gild. Þar með datt hann út úr keppninni í samanlögðu. Viktor lét það ekki á sig frá og mætti í deddið fullur af anda. Þar lyfti hann 320kg og stóð svo upp með tilraun við nýtt íslandsmet 340kg en því miður var hún dæmd ógild.

Svona er þetta stundum. Það var langt ferðalag til Dubai og búnaðarlyftingar eru alltaf óútreiknanlegar sem er hluti af fjörinu. Hulda og Viktor koma án efa tvíefld til baka.

Við hvetjum alla að fylgjast með Sóley og Júlíani á morgun. Sóley lyftir kl. 07:00 á íslenskum tíma og Júlían kl. 09:00. Bein útsending verður HÉR. Þau sem ætla að horfa í tölvu verða að slökkva á öllum “Ad blocker” forritum svo að Olympic Channel útsendingin virki rétt.

Heimsmeistaramótið er hafið

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum hófst á mánudaginn og er það haldið þetta árið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Ísland sendir að þessu sinni fjóra keppendur á heimsmeistaramótið.

Hulda B. Waage

Hulda B. Waage keppir núna í fyrsta sinn á HM. Hún er þaulreyndur keppandi og er hún með nokkur evrópumeistaramót undir beltinu. Það verður gaman að sjá hvernig mun ganga. Hulda hefur keppni í -84kg flokki klukkan 06:00 á föstudaginn. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR

Viktor Samúelsson

Viktor Samúelsson tekur þátt á HM í fjórða sinn á HM og keppir hann í -120kg flokki. Viktor hefur einnig undir beltinu nokkur ervrópumeistaramót og heimsmeistaramót unglinga. Mikil reynsla mun vafalaust skila sér á keppnispallinn og mun hann hefja keppni kl. 13:00 á föstudaginn. Hægt verður að fylgjast með í beinni HÉR

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley er að mæta á sitt annað heimsmeistaramót í opnum flokki sem er ótrúlegur árangur miðað við hún er í enn stúlknaflokki. Sóley er núverandi heimsmeistari stúlkna í +84kg flokki og evrópumeistari einnig. Sóley er því til alls líkleg. Hægt verður að fylgjast með henni í beinni kl. 7:00 á laugardaginn HÉR

Júlían JK Jóhannsson

Júlían er að mæta á HM í fjórða sinn og mun hann keppa í +120kg flokki. Júlían er núverandi heimsmethafi í réttstöðulyftunni og hefur hann tekið gullið í greininni oftar en einu sinni. Hann er í góðum anda og verður spennandi að sjá hann keppa. Hann mun stíga á keppnispallinn klukkan 09:00 á laugardaginn og verður hægt að fylgjast með HÉR

Kraftlyftingasamband Íslands óskar öllum keppendum góðs gengis á HM og vonar auðvitað að medalíur muni berast heim með keppendum!

ATH: Breyting var gerð á keppnisáætlun og mun Hulda því keppa kl. 6:00 ekki 7 eins og var áætlað.

ÍM ungmenna og öldunga – ÚRSLIT

ÍM ungmenna og öldunga í kraftlyftingum og klassískum kraftlyftingum fóru fram um helgina. Mótin voru haldin af Kraflyftingafélagi Akureyrar og fóru fram í húsnæði þeirra. 21 keppandi mætti um helgina og settu sumir íslandsmet og aðrir persónuleg met. Full úrslit má sjá hér fyrir neðan.

ÚRSLIT

ÚRSLIT ÍM UNGMENNA OG ÖLDUNGA Í KLASSÍSKUM KRAFTLYFTINGUM

ÚRSLIT ÍM UNGMENNA OG ÖLDUNGA Í KRAFTLYFTINGUM

ÍM unglinga og öldunga – Skráning hafin

Skráning er hafin á Íslandsmeistaramót unglinga og öldunga í klassískum kraftlyftingum og kraftlyftingum. 
Mótin fara fram 16. nóvember (klassískt) og 17. nóvember (búnaður) nk á Akureyri. 
Skráningarfrestir eru til miðnættis 26. október (klassískt) og 27. október (búnaður) nk.  
Athugið að á íslandsmeistaramót gildir sú regla að keppendur þurfa að hafa verið félagsskráðir amk þrjá mánuði fyrir mót. 
Skráningar þurfa að berast fyrir skráningafresti annars er ekki tekið við þeim.
Minnum félög á að skrá dómara líka í samræmi við 22.grein í reglugerð um kraftlyftingakeppni.

Sæmundur með bronsverðlaun

Sæmundur Guðmundsson keppti fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramóti öldunga í kraftlyftingum sem fer fram í Potchefstroom, Suður Afríku. Sæmundur keppir í -74kg flokki karla masters III (60-69 ára).

Sæmundur var í góðum anda greinilega. Lyfti 155kg í hnébeygjunni, 110kg í bekkpressunni og lokaði mótinu með 195kg réttstöðulyftu. Þetta gaf honum bronsið í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Samanlagt lyfti hann því 460kg og kemur því heim með bronsið í samanlögðu líka.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Sæmundur í anda. Mynd úr safni KRAFT