Halldór Jens hefur lokið keppni

Halldór Jens Vilhjálmsson keppti í gær á HM í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í Helsingborg, Svíþjóð. Halldór keppir í -105kg flokki unglinga (19 – 23 ára). Í hnébeygjunni lyfti hann 235kg. Í bekkpressunni lyfti hann 147,5kg og svo lyfti hann 240kg í réttstöðulyftu. Þetta gaf honum 622,5 kg í samanlögðu og 13. sætið í sínum flokk.

Þetta er hans fyrsta mót á erlendri grundu og dýrmæt reynsla komin í bankann.

Halldór Jens (t.h) og Aron Friðrik

Sæmundur hefur lokið keppni

Sæmundur Guðmundsson hefur lokið keppni á HM í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í Helsingborg, Svíþjóð.

Sæmundur keppir í -74kg flokki í masters III (60-69 ára). Sæmundur lyftir 130kg í hnébeygjunni, 80kg í bekkpressunni og svo 170kg í réttstöðulyftunni. Þetta gaf honum 380kg í samanlögðu og 12. sætið í sínum flokki.

Sæmundur í keppnisgallanum!

Sigþrúður og Dagmar báðar með bronsverðlaun

HM í klassískum kraftlyftingum er farið af stað í Helsingborg, Svíþjóð. Í dag stigu á pallinn tvær íslenskar konur, þær Sigþrúður Erla Arnardóttir og Sigríður Dagmar Agnarsdóttir.

Sigþrúður Erla Arnardóttir

Sigþrúður Erla keppir í +84kg flokki kvenna masters II (50-59 ára). Hún tók þriðja sætið í fyrra og það var ekki annað í stöðunni en að verja það núna. Hún lyfti 165kg í hnébeygju sem er jöfnun á hennar besta árangri. Í bekkpressunni gerði hún sér lítið fyrir og lyfti 95kg sem er evrópumet í masters II. Þá var bara að klára mótið og lyfti hún 180kg í réttstöðulyftunni. Þetta gaf henni 440kg í samanlögðu sem er nýtt evrópumet í samanlögðu og bronsverðlaun í samanlögðu.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn!

Sigríður Dagmar Agnarsdóttir

Sigríður Dagmar keppir í -57kg flokki kvenna masters III (60-69 ára). Hún Dagmar lyfti í hnébeygjunni 85kg. Í bekkpressunni lyfti hún 42,5kg. Í réttstöðulyftunni lyfti hún svo 120kg sem gaf henni bronsverðlaunin í greininni. Þetta gaf henni 247,5kg í samanlögðu og var hún í 5. sæti í flokknum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn!

Þær stöllur með bronspeningana. Dagmar tv. og Sigþrúður t.h.

Miðvikudaginn 5.júni keppir Sæmundur Guðmundsson í -74 kg flokki M3 og sunnudaginn næstkomandi keppir svo Halldór Jens Vilhjálmsson í -105kg flokki unglinga. Hægt verður að fylgjast með á goodlift.

Alexandrea með bronsverðlaun

Alexandrea Rán Guðnýjardóttir keppti í dag á heimsmeistaramótinu í bekkpressu sem fer fram í Tókýó, Japan. Alexandrea keppir í klassískri bekkpressu í -57kg flokki unglinga. Hún tók 67,5kg í fyrstu lyftu. Í annari lyftu lyfti hún 72,5kg og bætti þar sinn besta árangur um 2,5kg og í leiðinni íslandsmetið um 2,5kg. Þá var lítið annað að gera en að biðja um 75kg á stöngina sem fóru upp og tryggðu henni bronsverðlaun og nýtt íslandsmet í leiðinni.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Alexandrea með bronspening um hálsinn (t.v.)

Þá hafa allir íslensku keppendurnir lokið keppni á HM í klassískri bekkpressu. María Guðsteinsdóttir mun svo keppa í búnaðarbekkpressu á miðvikudaginn.

Íslenski hópurinn á HM í bekkpressu. Frá vinstri: Arna Ösp Gunnarsdóttir, María Guðsteinsdóttir og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir

María hefur lokið keppni

María Guðsteinsdóttir keppti í dag á heimsmeistaramótinu í bekkpressu sem fer fram í Tókýó, Japan. María keppti í klassískri bekkpressu og er hún -57kg flokki kvenna masters 1 (40-49 ára). Í fyrstu lyftu lyfti hún María 65kg og í annarri lyftu lyfti hún 67,5kg. Hún reyndi svo við 70kg í síðustu lyftunni en það reyndist of þungt í dag. Hún lauk því mótinu í 8. sæti með 67,5kg lyftu og með 578,4 IPF stig.

María í einbeitt undir stönginni – skjáskot úr beinni útsendingu IPF

EM í Pilsen lokað á silfri

Síðasti keppnisdagur á evrópumótinu í kraftlyftingum var í dag og mættu þar tveir Íslendingar til keppni. Það voru þeir Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson.

Viktor Samúelsson var í fyrra hollinu en hann keppir í -120kg flokki karla. Viktor lyfti 365kg í hnébeygjunni. Í bekkpressunni lyfti hann 287,5kg af miklu öryggi. Í réttstöðulyftunni lyfti hann 315kg en í þriðju tilraun reyndi hann við 335kg sem flugu upp en lyftan var dæmd af vegna tæknigalla. Með þeirri lyfti hefði Viktor tryggt sér bronsverðlaun í samanlögðu. Hann lauk því mótinu í 4. sæti með 967,5kg í samanlögðu. Flottur árangur þar.

Viktor með örugga 315kg réttstöðulyftu

Júlían JK Jóhannsson var svo í +120kg flokki karla sem lyftu á móti -120kg hollinu. Júlían náði ekki gildri í lyftu í 2 fyrstu hnébeygjunum og var því þriðja lyftan æsispennandi þar sem þurfti að ná henni til að halda sér inn í keppninni. Júlían lyfti þá örugglega 385kg og fékk fyrir lyftuna 3 hvít ljós. Í bekkpressunni átti hann góðan dag og lyfti hann þar 315kg sem er 5kg bæting á íslandsmetinu og dugði til bronsverðlauna í bekkpressu. Í réttstöðulyftunni opnaði hann “létt” í 355kg. Hann fór þá í 385kg sem flaug upp en hann missti því miður takið efst í lyftunni. Þá var lítið annað að gera en að taka hana aftur og gulltryggja þar með gullverðlaunin í réttstöðulyftunni. Þetta gaf honum 2. sætið í samanlögðu með 1085kg og því silfurverðlaun í hús. Óskar kraftlyftingasamband Íslands honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían með verðlaunapeninga á stærð við lóðaplötur framan á sér!

Þar með lýkur EM í kraftlyftingum í Pilsen. Íslenskir keppendur stóðu sig mjög vel og koma þeir heim með 5 gullverðlaun, 4 silfurverðlaun og 4 bronsverðlaun af mótinu. Ekki slæmur árangur þar!

Hér fyrir neðan má svo sjá mynd af næstum því öllum íslenska hópnum sem var úti.

Hrikalega hrikaleg!

EM í Pilsen heldur áfram

EM í kraftlyftingum er haldið þessa dagana í Pilsen og er enginn skortur af íslenskum keppendum á pallinn. Í dag kepptu þau Hulda B. Waage, Karl Anton Löve og Alex Cambray Orrason.

Hulda B. Waage var fyrst á pallinn í morgun og keppir hún í -84kg flokki kvenna. Hulda lyfti 230kg í hnébeygju sem var jafn þungt og bronslyftan en sú sem tók þriðja sætið var aðeins léttari og því var hennar lyfta í 4. sæti. Bekkurinn reyndist erfiður í dag og tókst Huldu því miður ekki að ná gildri lyftu í bekknum. Þriðja lyftan var mjög sannfærandi en var hún dæmd af vegna tæknigalla. Hún lét það þó ekki á sig fá og hélt áfram í réttstöðulyftuna og lyfti þar 180kg.

Hulda í skýjunum með 230kg hnébeygju

Eftir hádegi mætti svo Karl Anton Löve á pallinn. Hann keppir í -93kg flokki karla. Karl lyfti 335kg í hnébeygjunni með 3 gildar lyftur og nýtt íslandsment í hnébeygjunni. Í bekkpressu lyfti hann 220kg sem hann náði í æsispennandi þriðju lyftu sem skar úr hvort hann næði gildum bekk. Í réttstöðulyftunni lyfti hann svo 275kg. Þetta gaf honum 830kg í samanlögðu sem er 10kg bæting á hans best árangri í -93kg flokknum og endaði Karl í 12. sæti. Óskar Kraftlyftingasamband Íslands honum til hamingju með íslandsmetið.

Karl Anton stendur öruggur eftir 335kg hnébeygju

Samfara -93kg flokknum kepptu -105kg keppendur. Þar keppti enn einn Íslendingurinn. Alex Cambray Orrason keppti þar á sínu fyrsta evrópumóti. Í hnébeygjunni lyfti Alex öruggt 342,5kg með 3 gildar lyftur og 2,5kg bætingu. Hann ákvað að gera mótið jafn æsispennandi og Karl og náði hann loksins gildri lyftu í þriðju lyftu í bekkpressunni með 240kg. Í réttstöðulyftunni lyfti hann svo 282,5kg. Þetta gaf honum 865kg í samanlögðu og 8. sæti í flokknum.

282,5kg voru létt í höndum Alex í dag

Á morgun er svo lokadagur EM. Þar mæta til leiks Viktor Samúelsson og Júlían JK Jóhannsson. Þeir hefja báðir keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma.

Eins og alltaf þá má fylgjast með áGoodlift

Guðfinnur með silfurverðlaun

Guðfinnur Snær Magnússon keppti í dag á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Guðfinnur keppir í +120kg unglinga og hefur þrátt fyrir ungan aldur keppt lengi í greininni.

Hann lauk mótinu með 375kg hnébeygju, 390kg fóru upp en lyftan var því miður dæmd ógild. Í bekkpressunni lyfti hann 275kg og svo kláraði hann mótið 302,5kg réttstöðulyftu. Þetta gaf honum silfurverðlaun í hnébeygju, silfurverðlaun í bekkpressu, bronsverðlaun í réttstöðulyftu og svo silfurverðlaun í samanlögðu með 952,5kg. Það er 5kg bæting á hans besta árangri.

Guðfinnur fer því heim klyfjaður með 3 silfurpeninga og 1 bronspening um hálsinn. Flottur árangur hjá honum.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Guðfinnur í góðra vini hópi. Auðunn Jónsson (t.v.), verðlaunapeningarnir (m) og Helgi Hauksson (t.h.)

EM heldur áfram í Pilsen en næstu íslensku keppendur sem stíga á pallinn verða þau Hulda Waage og Karl Anton Löve. Þau keppa bæði á föstudaginn en Hulda hefur keppni kl. 8 að íslenskum tíma og Karl kl. 13:30 að íslenskum tíma.

Eins og alltaf þá er hægt að fylgjast með á Goodlift

Íris Hrönn með bronsverðlaun

Íris Hörnn Garðarsdóttir hefur lokið keppni á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Íris keppti í -84kg flokki unglinga.

Í hnébeygjunni og bekkpressunni tókst henni því miður ekki að ná gildri lyftu og datt hún því út úr keppninni í samanlögðu. Íris lét það ekki á sig fá og mætti fílefld í réttstöðulyftuna og lyfti þar 172,5kg sem tryggði henni bronsverðlaun í greininni.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni til hamingju með bronsið!

Íris með bronslyftu í höndunum!

Við hvetjum svo alla til að fylgjast áfram með íslenskum keppendum. Á morgun keppir Guðfinnur Snær Magnússon í +120kg flokki unglinga. Hann hefur keppni klukkan 13:30 á íslenskum tíma og má fylgjast með í beinni á Goodlift.

Kara með brons verðlaun í réttstöðulyftu

Kara Gautadóttir hefur lokið keppni á EM í kraftlyftingum sem fer fram í Pilsen, Tékklandi. Kara keppir í -57kg flokki unglinga og endaði hún í 4 sæti í samanlögðu. Upp um 2 sæti frá síðusta evrópumóti og með 17,5kg bætingu á hennar besta alþjóðlega árangri.

Kara lyfti í 160kg í hnébeygju, 87,5kg í bekkpressu og svo lyfti hún 150kg í réttstöðulyftu. Réttstöðulyftan gaf henni bronsverðlaunin í greininni. Samanlagt lyfti hún 397,5kg.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn.

Kara Gautadóttir til hægri með bronspening um hálsinn.

Á morgun keppir svo Íris Hrönn Garðarsdóttir fyrir hönd Íslands í -84kg flokki unglinga. Hún hefur keppni klukkan 09:00 á íslenskum tíma.

Fylgjast má með mótinu á Goodlift.info.