Skip to content

Aron og Guðrún Gróa stigahæst á Kópavogsmótinu.

Kópavogsmótinu í bekkpressu lauk nú fyrir stundu og var mótið vel heppnað í alla staði. Áhorfendur fjölmenntu og hvöttu keppendur óspart, sem margir hverjir settu persónuleg met en einnig féllu Íslandsmet, bæði í unglinga- og opnum flokki. Í karlaflokki var stigahæstur Aron Lee Du Teitsson (Ármann) en hann setti Íslandsmet í -83 kg flokki karla þegar hann lyfti 185 kg í fyrstu tilraun og bætti svo metið aftur annarri tilraun með 195 kg lyftu. Hann átti einnig góða tilraun við 200 kg þótt ekki færi það alla leið í dag. Annar á stigum í karlaflokki var Sigurður Örn Jónsson (KFS Zetorar) en hann lyfti 145 kg í -83 kg flokki. Þriðji á stigum var svo Alexander Ingi Olsen (KFG Heiðrún) sem fór upp með 150 kg í -105 kg flokknum. Ekki var árangurinn síðri í kvennaflokkunum en alls mættu 10 vaskar konur á mótið. Guðrún Gróa (Ármann) setti unglingamet í -72 kg flokk með 90 kg lyftu og varð hún jafnframt stigahæst kvenna. Önnur stigahæst var Jóhanna Þórarinsdóttir sem keppti fyrir Breiðablik og munaði einungis 0,3 stigum á henni og Guðrúnu Gróu. Þriðja stigahæst var svo Fanney Hauksdóttir sem var að keppa á sínu fyrsta móti en hún setti íslandsmet í -57 kg unglingaflokki með 72,5 kg lyftu. Efnilega stúlka þar á ferð en hún keppti án útbúnaðar. Aðrir keppendur stóðu sig einnig vel en úrslitin má finna hér á vefsíðunni í úrslitadálknum.

Leave a Reply