Skip to content

Árangur Guðrúnar og Ólafs á Norðurlandamóti unglinga

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir og Ólafur Hrafn Ólafsson hafa lokið keppni á Norðurlandamóti unglinga sem fram fór í Noregi í dag. Þau koma heim á morgun, án verðlauna en reynslunni miklu ríkari.

Guðrún Gróa tók 150 kg í hnébeygju og fór tvisvar upp með 167,5 of grunnt og fékk ógilt í bæði skiptin. Á bekknum gekk allt á afturfótunum og henni mistókst þrisvar með 110,0 vegna tæknilegra mistaka.  Í réttstöðulyftu tók hún 162,5 kg vel og reyndi við 170 kg í þriðju tilraun en rétt missti henni.
Guðrúnu tókst s.s. ekki að ná sínum markmiðum og ljúka keppni. Það er ekki skemmtileg reynsla, en vonandi stappa vonbrigðin stálið í Guðrúnu frekar en að draga úr henni máttinn.  Nú veit hún hvað þarf að laga.

Ólafur lyfti 250 kg í hnébeygju í annari tilraun. Á bekknum lyfti hann 145,0 kg og mistókst tvisvar með 165,0 kg. Í réttstöðulyftu setti hann nýtt íslandsmet unglinga með 252,5 kg í annari tilraun. Samtals lyfti hann því 647,5 kg. Hann var ekki ánægður með beygjurnar og bekkinn, enda lyfti hann meira á Íslandsmótinu í mars.

Mótið var sterkt og dómgæsla vönduð og nákvæm.
Íslensku keppendurnir náðu ekki sínum markmiðum í þetta skiptið. Að mæta sér sterkari og reyndari andstæðingum á erlendum vettvangi er meira en að segja það og reynsla sem getur dugað menn í góðar bætingar. Þau hafa fengið verkefni til að takast á við og munu örugglega koma sterkari tilbaka næst.

Heildarúrslit verða birt um leið og þau berast.

1 thought on “Árangur Guðrúnar og Ólafs á Norðurlandamóti unglinga”

Leave a Reply