Ragnheiður og Júlían í viðtali

Júlían J. K. Jóhannsson og Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir voru valin kraftlyftingamaður og kraftlyftingakona ársins 2014.
Árdís Ósk tók þau tali að því tilefni:

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir

rksRagnheiður varð stigahæst kvenna á Íslandi á árinu þegar hún tók 400 kg í samanlögðu í -57 kg flokki á Norðurlandamóti í Kraftlyftingum sem haldið var í Njarðvík í ágúst og varð þar með Norðurlandameistari í sínum flokki. „Ég átti góðan dag og var mjög ánægð að ná 400,“ segir Ragnheiður en hún er einna stoltust af því móti þegar hún lítur yfir árið.

Æfingafélagarnir mikilvægir
Ragheiður þakkar helst frábærum þjálfara og skemmtilegum æfingafélögum þennan gríðarlega árangur sem hún hefur náð á stuttum tíma en Ragnheiður byrjaði fyrst að keppa fyrir tveimur árum. „Systir mín æfir með mér og hvetur mig til dáða. Rannveig og Ása hvetja mig einnig vel áfram á æfingum.“

Tekur skóna og beltið með sér í frí
Næsta mót hjá Ragnheiði er Evrópumeistaramóti í maí á næsta ári. „Ég stefni alla vega á meira en 400 þar,“ segir Ragnheiður en þó að langt sé í næsta mót er ekker lát á æfingum. „Ég nýt þess núna að vera bara að æfa án þess að keppa eða keyra upp fyrir mót,“ en Ragnheiður segist lítið hrifin af því að taka sér pásur frá æfingum því það sé leiðinlegt að missa úr og þurfa að vinna upp. „Ég tek alltaf með mér belti og skó þegar við förum til útlanda og í sumarfríinu var ég úti á landi en keyrði fjórum sinnum í viku í Kirkjubæjarklaustur að æfa, það er ágætis gym þar.

Júlían J. K. Jóhannsson

jjkjÉg er ánægðastur með heimsmeistaramót unglinga og sérstaklega bætingarnar í hnébeygju á mótinu. Ég er líka búinn að vera að ná fleiri gildum réttstöðulyftum undanfarið en áður,“ segir Júlían um árangur ársins. Á heimsmeistaramóti unglinga nældi Júlían sér í silfur í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 337,5 kg og þar lyfti hann líka 375 kg í hnébeygju og 267,5 kg í bekkpressu og náði þannig þriðja sæti í samanlögðu með 980 kg. Sá árangur skilaði honum 12. sæti á heimslista þetta árið.

Setur markið hærra á næsta ári
Júlían æfir allt árið um kring og segist ekki taka sér hlé. Hann æfir létt með litlu álagi fyrstu vikurnar eftir mót. „Til að ná árángri í íþróttinni er mikilvægast að æfa vel og vera einbeittur,“ segir Júlían. Næsta mót hjá honum er Evrópumót unglinga í apríl „mig langar til að standa mig vel á unglingamótunum bæði Evrópumótinu og Heimsmeistarmótinu. Ég vil standa mig betur á næsta ári en á þessu og ná lágmarki fyrir heimsmeistaramót í opnum flokki.“ Júlían á enn tvö ár eftir í unglingaflokki og er því rétt að byrja.
Júlían segir fjölskylduna styðja vel við bakið á sér og svarar því að það sé mamma hans sem er spenntust að fylgjast með og setur sig vel inn í hvað er að gerast.

Kraftlyftingaþjálfari 1 – skráning lýkur 20.desember

Þjálfari 1 námskeið – sérgreinahluti verður í boði á vorönn.
Námskeiðið er fyrir skráða félagsmenn í KRAFT. Skráning fer fram gegnum
félögin.og hafa allar upplýsingar verið sendar til formanna.

Kennd eru undirstöðuatriði í kraftlyftingaþjálfun, að setja upp æfingaprógröm, notkun búnaðar, undirbúningur og aðstoð á mótum. Keppnisreglur IPF og reglugerðir KRAFT. Sérhæfð skyndihjálp. Reglur ÍSÍ og WADA um lyfjanotkun.
Inntökuskilyrði : Þjálfari 1 – almennur hluti frá ÍSÍ.
NÁMSAÐFERÐIR Fyrirlestrar, verkleg kennsla, verkefnavinna, lestur.
NÁMSMAT
Krossapróf. Vottun um þátttöku. Verkefni og skýrsluskil (gera rökstutt prógram
fyrir keppanda, undirbúa þátttöku á móti og aðstoða á móti).

Íþróttamenn ársins 2014

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið Júlían J.K. Jóhannsson, Ármanni, kraftlyftingamann ársins 2014 i karlaflokki og Ragnheiði K. Sigurðardóttur, Gróttu, í kvennaflokki.

Júlían J.K. Jóhannsson, er fæddur 1993 en er þrátt fyrir ungan aldur í 12.sæti á heimslista í sínum flokki. Hann á mjög gott keppnistímabil að baki þar sem hann hefur sýnt stöðugar framfarir og bætt Íslandsmetin í sínum flokki í öllum greinum. Júlían hefur náð eftirtektarverðum árangri á alþjóðamótum á árinu.

Helstu afrek 2014:
Evrópumót unglinga +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun samanlagt.
Evrópumót unglinga +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun í hnébeygju.
Heimsmeistaramót unglinga +120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun samanlagt Heimsmeistaramót unglinga +120,0 kg flokki: 2.sæti og silfurverðlaun í réttstöðulyftu.

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Grótta,  er stigahæsta kona Íslands í kraftlyftingum á árinu. Ragnheiður er Íslandsmeistari í kraftlyftingum og í réttstöðulyftu og Norðurlandameistari í -57 kg flokki. Ragnheiður hefur bætt Íslandsmetin í öllum greinum í sínum flokki.

Helstu afrek 2014:
Norðurlandamót í kraftlyftingum -57,0 kg flokki: 1.sæti og gullverðlaun
Norðurlandamót í kraftlyftingum: 3 sæti á stigum
Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum -52,0 kg flokki: 1. sæti
Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum: 1.sæti á stigum
Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu – 57,0 kg flokki: 1 sæti
Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu: 1.sæti á stigum

Kraftlyftingaþing 17.janúar 2015

5. þing Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið laugardaginn 17.janúar 2015. Þingið fer fram í húsi ÍSÍ við Engjavegi 6 og hefst kl. 16.00.

Málefni sem aðildarfélög eða sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn KRA eigi síðar en 21 dögum fyrir þingið, eða 27.desember, smkv 10.gr. laga KRA.
Rétt til þingsetu hafa fulltrúar aðildarfélaga miðað við fjölda iðkenda og fulltrúar sambandsaðila.
Rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétt hafa auk þess stjórn KRAFT, endurskoðendur reikninga KRAFT, framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri ÍSI, nefndarmenn fastanefnda KRAFT og fulltrúi menntamálaráðuneytisins

ÍM í bekkpressu / RIG – skráning hafin

rig2015-landscape_350x156Skráning er hafin á opna Íslandsmeistaramótið í bekkpressu sem jafnframt er liður í Reykjavíkurleikunum 2015.
Mótið fer fram í Laugardalshöll 17.janúar 2015 og mótshaldari er kraftlyftingadeild Breiðabliks. Skráningarfrestur er til miðnættis 27.desember nk.
Tveir gestakeppendur verða á mótinu, Ielja Strik frá Hollandi og Kim-Raino Rølvåg fra Noregi.
Ielja Strik er ríkjandi heimsmeistari í bekkpressu í -84 kg flokki þar sem hún á best 185 kg. Hún keppir jöfnum höndum í þríþraut og bekkpressu og hefur stigið á verðlaunapall á ótal alþjóðamótum, á World Games og Arnold Classic.
Kim-Raino er í landsliði Noregs í kraftlyftingum þar sem hann keppir i -74 kg. Hann vann gull í bekkpressu í þessum flokki á EM 2014 með 232,5 kg.

SKRÁNINGAREYÐUBLAÐ

Keppnisreglur uppfærðar

Á þingi IPF í nóvember sl voru samþykktar breytingar á keppnisreglum (technical rules) og reglum um löglegan búnað í keppni. Breytingarnar taka gildi 1.janúar 2015.
Búið er að uppfæra íslensku útgáfuna af reglunum.
Nauðsynlegt er fyrir keppendur að kynna sér vel þær breytingar sem hafa verið gerðar og skoða sérlega vel þau skilyrði sem keppnisbúnaður og klæðnaður þarf að uppfylla.

Gamlársmót KFA

kfaGamlársmót KFA í bekkpressu fer að venju fram á síðasta degi ársins, 31.desember. Skráning fer fram á netfangið gsg881@gmail.com fyrir 24.desember nk.

Ísafjarðarmót í klassískum kraftlyftingum

Ísafjarðarmótið í klassískum kraftlyftingum verður haldið laugardaginn 6. desember á Ísafirði. Skráning og nánari upplýsingar hjá Sigfúsi Fossdal, fossdal83@hotmail.com.
Skráning rennur út á mánudagskvöldið 1.desember.