Hvað borða kraftlyftingamenn – fræðslufundur

Í umræðu um hvað þeir borða sem vilja auka styrk sinn hefur gjarnan verið lögð áherslu á að upplýsa um efni sem menn eiga og mega EKKI taka inn.
Að þessu sinni viljum við leggja áherslu á það sem menn ÆTTU að láta ofan í sig til að hámarka árangur sinn.
Að beiðni fræðslunefndar hefur Agnes Þóra Árnadóttir, íþróttanæringarfræðingur tekið saman efni byggt á nýjustu rannsóknum og setur það fram á “mannamáli”.
Hún ætlar að kynna efnið í máli og myndum með raunverulegum dæmum
FIMMTUDAGINN 27.OKTOBER KL. 18.00 Í E-SAL Í HÚSI ÍSÍ Í LAUGARDAL.

Fulltrúi lyfjaeftirlitsins mætir líka og tekur þátt í umræðunni og svarar spurningum, t.d. varðandi fæðubótaefni.
Hafrún Kristjánsdóttir íþróttasálfræðingur fjallar um hvernig afreksmenn geti markvisst styrkt andlega þáttinn í uppbyggingu sinni.

Við hvetjum keppendur, iðkendur, þjálfara og aðra sem geta bætt á sig þekkingu að nýta þetta tækifæri og taka frá tvo tíma á fimmtudagskvöldið!

Bikarmót í kraftlyftingum – skráning hafin

Skráning er hafin á Bikarmótið í kraftlyftingum sem haldið verður þann 5. nóvember. Það er Lyftingafélag Hafnarfjarðar sem heldur mótið í húsakynnum Crossfit Hafnarfjarðar að Hvaleyrarbraut 41. Fyrri skráningarfrestur er til miðnættis 15. október, félög hafa svo viku til að gera breytingar og ganga frá skráningargjöldum.

Eyðublað: (docx)

Úrslit frá ÍM í klassískum kraftlyftingum

Fjölmenni var í Íþróttahúsi Seltjarnarness í dag þar sem fram fór Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum. Slegin voru fjölmörg Íslandsmet og reyndu sumir við Norðulandamet.

Stigahæst kvenna var Helga Guðmundsdóttir (LFH) með 408,2 Wilks-stig. Helga vigtaðist létt í 72 kg flokkinn, 65,2 kg. Hún lyfti 135 kg í hnebéygju (Íslandsmet öldunga 1), 95 kg í bekkpressu (Íslandsmet í opnum fl.) og 160 í réttstöðulyftu (Íslandsmet öldunga 1). Samanlagður árangur hennar, 390 kg, landaði henni bronsi í 72 kg flokki.

Stigahæstur karla var Viktor Samúelsson (KFA) með 442,8 Wilks-stig. Viktor sigraði sinn flokk, 120 kg fl., nokkuð öruggt með 770 kg samanlagt. Hann lyfti 275 kg í hnébeygju, 200 kg í bekkpressu og 295 kg í réttstöðulyftu. Í bekkpressu gerði Viktor tilraun við Norðulandamet unglinga í klassískri bekkpressu með 214 kg.

Hnébeygjubikar kvenna hlaut Birgit Rós Becker (Breiðablik), sem keppti í 72 kg fl. og beygði 165 kg (163,5 Wilks-stig), sem er nýtt Íslandsmet.

Hnébeygjubikar karla hlaut Einar Örn Guðnason (Akranes), sem keppti í 105 kg fl. og beygði 275 kg (164,2 Wilks-Stig), sem er nýtt Íslandsmet.

Bekkpressubikar kvenna hlaut Fanney Hauksdóttir (Gróttu), sem keppti í 63 kg fl. og bætti eigið Íslandsmet með 108 kg (116,7 Wilks-stig).

Bekkpressubikar karla hlaut Dagfinnur Ari Normann (Stjörnunni), sem keppti í 83 kg fl. og sló eigið Íslandsmet með 170 kg lyftu (115,9 Wilks-stig).

Réttstöðulyftubikar kvenna hlaut Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (Gróttu), sem keppti í 57 kg fl. og setti nýtt Íslandsmet með 151,5 kg (177,1 Wilks-stig).

Réttstöðulyftubikar karla hlaut Ingvi Örn Friðriksson (KFA), sem keppti í 105 kg fl. og lyfti 290,5 kg (175,6 Wilks-stig) sem er nýtt Íslandsmet.

Liðabikar kvenna hlaut sveit Gróttu.

Kraftlyftingafélagi Akureyrar var fyrir mistök veittur liðabikar karla, en Stjarnan fékk tveimur fleiri stigum og hlýtur því réttilega liðabikar karla. Honum verður komið í réttar hendur.

Heildarúrslit

ÍM í klassískum kraftlyftingum – tímaplan

Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum fer fram nk. laugardag, 8. október. Mótið er haldið í Íþróttahúsi Seltjarnarness og mótshaldarar eru heimamenn í Gróttu.

Mótið er nokkuð fjölmennt, en 49 keppendur eru skráðir, og verður keppt á tveimur pöllum samtímis.

Tímaplan

Vigtun fyrir alla hefst kl. 8:00. Keppni hefst kl. 10:00.

Pallur 1 – Holl 1 – Konur 52 kg, 57 kg, 63 kg, og 72 kg
Pallur 2 – Holl 2 – Konur 84 kg og 84+ kg og karlar 66 kg og 74 kg

Pallur 1 – Holl 3 – Karlar 83 kg, 93 kg og 120+ kg
Pallur 2 – Holl 4 – Karlar 105 kg og 120 kg

Dómaraplan

Vigtun karla: Helgi Hauksson og Róbert Kjaran
Vigtun kvenna: Ása Ólafsdóttir og Maria Björk Óskarsdóttir
Pallur 1: Helgi Hauksson, Ása Ólafsdóttir og Halldór Eyþórsson
Pallur 2: Maria Björk Óskarsdóttir, Alexander Ingi Olsen og Róbert Kjaran

Keppendur

Ný landsliðslágmörk

Stjórn KRAFT hefur samþykkt ný lágmörk við val í landslið Íslands fyrir keppnisárið 2017.
Lágmörkin eru að mestu leyti í samræmi við tillögur Þjálfararáðs.
Menn þurfa að ná A-lágmarki til að keppa á HM, B-lágmarki til að keppa á EM, en C-lágmarki opna möguleika á að keppa á öðrum alþjóðamótum, svo sem Norðurlandamót unglinga og Vestur-Evrópukeppninni.
Önnur skilyrði fyrir landsliðsþátttöku eru óbreytt, en ferlið hefur verið endurskoðað og er nú t.d. gert ráð fyrir endurskoðun á vali á miðju keppnisári.
Formenn og þjálfarar félaga hafa fengið þessar upplýsingar og hafa frest til 1.oktober til að skila inn tilnefningum í verkefni 2017

LÁGMÖRK OG AFREKSMÁL

 

Ingvi Örn og Ragnheiður stigahæst

arnhildur-200Íslandsmótinu í réttstöðu lauk í gær en mótið var í umsjá kraftlyftingadeildar UMF Harðar og fór fram á Patreksfirði. Nokkur Íslandsmet voru slegin, öll í kvennaflokkum. Nefna má glæsilegt íslandsmet Arnhildar Önnu Árnadóttur sem keppir fyrir Gróttu, en hún lyfti 200 kg í 72 kg flokki. Þess má geta að einungis tvær konur á Íslandi hafa náð að lyfta þessari þyngd. Sóley Jónsdóttir úr KFA setti íslandsmet unglinga 14-18 og 18-23 ára, með 180 kg lyftu í +84 kg flokki og bætti þar með eldra metið um heil 19 kg. Þá settu Sigríður Dagmar Agnarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnarsdóttir íslandsmet í öldungaflokkum. Stigahæsta konan var Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr Gróttu sem var reyndar stigahæst allra keppenda en hún  lyfti 170 kg og fékk fyrir það 200,6 Wilksstig. Stigahæstur í karlaflokki var Ingvi Örn Friðriksson úr KFA en hann fór upp með 287,5 kg sem gáfu honum 173,9 Wilksstig. Í liðakeppninni varð það svo Grótta sem átti stigahæstu liðin, bæði í karla- og kvennaflokki.
Nánari úrslit.