Ný landsliðslágmörk

Stjórn KRAFT hefur samþykkt ný lágmörk við val í landslið Íslands fyrir keppnisárið 2017.
Lágmörkin eru að mestu leyti í samræmi við tillögur Þjálfararáðs.
Menn þurfa að ná A-lágmarki til að keppa á HM, B-lágmarki til að keppa á EM, en C-lágmarki opna möguleika á að keppa á öðrum alþjóðamótum, svo sem Norðurlandamót unglinga og Vestur-Evrópukeppninni.
Önnur skilyrði fyrir landsliðsþátttöku eru óbreytt, en ferlið hefur verið endurskoðað og er nú t.d. gert ráð fyrir endurskoðun á vali á miðju keppnisári.
Formenn og þjálfarar félaga hafa fengið þessar upplýsingar og hafa frest til 1.oktober til að skila inn tilnefningum í verkefni 2017

LÁGMÖRK OG AFREKSMÁL

 

Ingvi Örn og Ragnheiður stigahæst

arnhildur-200Íslandsmótinu í réttstöðu lauk í gær en mótið var í umsjá kraftlyftingadeildar UMF Harðar og fór fram á Patreksfirði. Nokkur Íslandsmet voru slegin, öll í kvennaflokkum. Nefna má glæsilegt íslandsmet Arnhildar Önnu Árnadóttur sem keppir fyrir Gróttu, en hún lyfti 200 kg í 72 kg flokki. Þess má geta að einungis tvær konur á Íslandi hafa náð að lyfta þessari þyngd. Sóley Jónsdóttir úr KFA setti íslandsmet unglinga 14-18 og 18-23 ára, með 180 kg lyftu í +84 kg flokki og bætti þar með eldra metið um heil 19 kg. Þá settu Sigríður Dagmar Agnarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnarsdóttir íslandsmet í öldungaflokkum. Stigahæsta konan var Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr Gróttu sem var reyndar stigahæst allra keppenda en hún  lyfti 170 kg og fékk fyrir það 200,6 Wilksstig. Stigahæstur í karlaflokki var Ingvi Örn Friðriksson úr KFA en hann fór upp með 287,5 kg sem gáfu honum 173,9 Wilksstig. Í liðakeppninni varð það svo Grótta sem átti stigahæstu liðin, bæði í karla- og kvennaflokki.
Nánari úrslit.

Júlían heimsmeistari

hmu2016jk370deddHeimsmeistaramóti unglinga, sem haldið er í Szcyrk í Póllandi, lauk  í dag með keppni í 120 kg og +120 kg flokkum karla í U23. Íslensku keppendurnir þrír, Júlían J.K. Jóhannsson, Viktor Samúelsson og Þorbergur Guðmundsson áttu allir góðu gengi að fagna. Allir náðu þeir verðlaunasætum; Viktor með brons í -120 kg fl., Þorbergur með brons í +120 kg fl. og Júlían með gull og heimsmeistaratitilinn í +120 kg!

Júlían J.K. Jóhannsson mætti til Póllands sem ríkjandi heimsmeistari í +120 kg flokki. Allt frá fyrstu lyftu var hann með örugga forystu. Hann fór létt með 375 kg opnunarlyftuna, fékk aðra tilraun með 400 kg ógilda á dýpt, en þá þyngd kláraði hann örugglega í þriðju tilraun og sló þar með eigið Íslandsmet í U23. Í bekkpressu fór Júlían auðveldlega upp með 290 kg í fyrstu, 300 kg í annarri og 310 kg í þriðju tilraun, sem er 20 kg bæting á Íslandsmetinu í opnum flokki. Í réttstöðunni flugu 332,5 kg upp í fyrstu tilraun, í annarri tilraun reyndi hann svo við 5 kg bætingu á Íslandsmetinu í opnum flokki með 370 kg sem runnu úr greipum hans eftir létta lyftu. Þyngdin fór þó einnig örugglega upp í þriðju tilraun, hélt þá greipin og stóð því Júlían uppi með 1080 kg í samanlögðu. Sú þyngd er 30 kg bæting á fjögurra ára gömlu Íslandsmeti Auðuns Jónssonar. Júlían hlaut gullverðlaun í öllum þremur greinum, er heimsmeistari í yfirþungavigt unglinga annað árið í röð! Auk heimsmeistaratitilsins í yfirþungavigtinni varð hann í þriðja sæti á stigum óháð þyngdarflokkum.

Til hamingju Júlían!

Viktor og Þorbergur með brons á HM unglinga

Heimsmeistaramóti unglinga, sem haldið er í Szcyrk í Póllandi, lauk  í dag með keppni í 120 kg og +120 kg flokkum karla í U23. Íslensku keppendurnir þrír, Júlían J.K. Jóhannsson, Viktor Samúelsson og Þorbergur Guðmundsson áttu allir góðu gengi að fagna. Allir náðu þeir verðlaunasætum; Viktor með brons í -120 kg fl., Þorbergur með brons í +120 kg fl. og Júlían með gull og heimsmeistaratitilinn í +120 kg!

hmu2016viktorsamKeppni í -120 kg flokki 23 ára og yngri var hörkuspennandi. Helst voru það þrír sem bitust innbyrðis um sætin á verðlaunapallinum; Þjóðverjinn Kevin Jäger, Bandaríkjamaðurinn Jesse Burttschell og okkar eigin Viktor Samúelsson. Í hnébeygjunni opnaði Viktor á 350 kg, tók a 360 kg í annarri tilraun en klikkaði svo á 370 kg í þriðju tilraun sem hefði gefið brons í hnébeygjunni. Viktor er öflugur í bekkpressunni, en átti þó á brattann að sækja því Jäger er heimsmethafinn í opnum flokki í bekkpressu sem stök grein. Hann opnaði á 295 kg, tók 302,5 kg í annarri en tókst svo ekki að klára 310 kg í þriðju tilraun. Þjóðverjinn lauk bekknum á nýju heimsmeti í opnum, 356 kg, og varð Viktor því að láta sér nægja annað sætið í bekkpressu. Þegar komið var að réttstöðunni var ljóst að Jäger var kominn með öruggt forskot og þyrfti aðeins að ná inn gildri lyftu til að sigra. Því tók við bárátta á milli Viktors og Burttschells um silfrið. Viktor opnaði á 305 kg, tók 317,5 kg í annarri en glataði svo silfrinu þegar 330 kg lokalyftan nam staða við hné. Viktor lauk því keppni með brons í samanlögðu með 980 kg og silfur í bekkpressu og réttstöðulyftu.

hmu2016thorbergurÍ +120 flokki 23 ára og yngri voru Íslendingarnir tveir, Júlían og Þorbergur, mættir til að stilla sér upp á verðlaunapallinum. Júlían sigraði flokkinn örugglega með 1080 kg í samanlögðu. Þorbergur náði ekki alveg að raða inn sínum bestu lyftum saman á stigatöfluna, en átti engu að síður gott mót. Hann opnaði á 325 kg í hnébeygju en fékk svo 340 kg tvívegis ógilt. Í bekkpressunni tók Þorbergur út stóra persónulega bætingu. Hann opnaði á 240 kg, tók 250 kg í annarri tilraun og 22,5 kg persónulega bætingu með 262,5 kg í þeirra þriðju sem landaði honum silfri í bekkpressunni. Réttstöðulyftan gekk nokkuð brösulega hjá Þorbergi.  Hann náði aðeins inn opnunarlyftunni með 300 kg, sem er nokkuð frá hans besta árangri, en það kom ekki að sök því sú lyfta landaði honum silfrinu í réttstöðunni á eftir heimsmeistaranum og landa hans Júlíani. Fyrir samanlagðan árangur sinn, 887,5 kg, vann Þorbergur bronsverðlaun í yfirþungavigtinni.

Til hamingju með stórkostlegan árangur strákar!

HM unglinga hófst í dag

csm_W01_795d39f50dHeimsmeistaramót unglinga, U18 og U23, fer fram í Szczyrk í Póllandi dagana 29. ágúst – 3. september. Keppni hófst í dag á léttustu flokkum karla og kvenna.

Fyrir hönd Íslands stíga þrír keppendur á keppnispallinn, allir í U23 aldursflokki karla. Þer eiga allir góða möguleika á vinna til verðlauna. Viktor Samúelsson keppir í -120 kg fl. þar sem hans helsti keppinautur er Þjóðverjinn Kevin Jäger, sem nýverið setti heimsmet í bekkpressu hér á landi. Í +120 kg fl. keppa þeir Júlían J. K. Jóhannson og Þorbergur Guðmundsson. Júlían hefur titil að verja, en hann er ríkjandi heimsmeistari.

Strákarnir þrír keppa allir á sama tíma, á laugardaginn 3. september kl. 10:00 að íslenskum tíma (12:00 að staðartíma.)

Bein útsending

Heimsmet á EM í bekkpressu.

Merki EM í bekk 2016Evrópumótinu í bekkpressu lauk í dag með keppni í þyngri flokkum kvenna og karla. Helga Guðmundsdóttir sem keppti í -72 kg flokki átti góðan dag og lyfti 135 kg sem er nýtt Íslandsmet og gaf henni fjórða sætið. Sigurvegari í hennar flokk var Yulia Chistiakova sem lyfti 155 kg.
Í -84 kg flokknum tók Hulda B. Waage ekki gilda lyftu og féll því miður úr keppni. Árdís Ósk Steinarsdóttir náði heldur ekki að klára mótið og sýna styrk sinn þar sem hún slasaðist í fyrstu lyftu. Í karlaflokkunum varð Þjóðverjinn Kevin Jaeger Evrópumeistari í -120 kg flokki á glæsilegu heimsmeti. Lyfti hann 355,5 kg og varð jafnframt stigahæsti keppandinn í karlaflokki. Þyngstu lyftu mótsinns 357,5 kg tók hins vegar Finninn Kenneth Sandvik en með henni tryggði hann sér sigurinn í +120 kg flokki.
Við óskum öllum keppendum til hamingju með árangurinn og mótshöldurum fyrir glæsilegt mót. Árdísi Ósk sendum við okkar bestu batakveðjur með von um að hún nái sér sem fyrst.

Nánari úrslit konur
Nánari úrslit karlar

Fanney Evrópumeistari á nýju Norðurlandameti.

Merki EM í bekk 2016Íslensku keppendurnir slógu ekki slöku við á öðrum keppnisdegi EM í bekkpressu en tvær konur og tveir karlar kepptu í dag. Kara Gautadóttir tryggði sér Evrópumeistaratitil í -57 kg unglingaflokki kvenna með 85 kg lyftu og varð jafnfram þriðja stigahæst yfir konur í unglingaflokkum. Í opnum flokki keppti Fanney Hauksdóttir sem einnig tryggði sér Evrópumeistaratitil með miklum yfirburðum, annað árið í röð. Fanney sem lyfti  155 kg í -63 kg flokki, bætti eigið Íslandsmet um 2,5 kg og setti um leið Norðurlandamet og virtist eiga nokkur kg inni sem verða tekin út seinna.
Í karlaflokki -74 kg keppti Jón Einarsson, sem er að stíga sín fyrstu spor á alþjóðamótum og hreppti hann fjórða sætið í sínum flokk með 162,5 kg lyftu. Þá keppti Einar Örn Guðnason í -105 kg flokki og náði einnig fjórða sætinu í sínum flokki en hann lyfti mest 240 kg sem var persónuleg bæting hjá honum.
Á morgun lýkur svo mótinu en þrír íslenskir keppendur eiga eftir að keppa, þær Helga Guðmundsdóttir, Hulda B. Waage og Árdís Ósk Steinarsdóttir.