ÍM á laugardag

Laugardaginn 28.maí fer Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum fram á Akureyri. Mótshaldari er KFA og fer mótið fram í húsum þeirra við Sunnuhlíð.
Keppendalisti.

Fundur stjórnar KRAFT með formönnum félaga er haldinn 27.maí kl. 19.30 í húsum IBA að Glerárgötu 26

ÍM 2016 plakat

Fanney heimsmeistari í klassískri bekkpressu

Mynd af Fanneyju Hauksdóttur á verðlaunapalliFanney Hauksdóttir lauk rétt í þessu keppni á fyrsta heimsmeistaramótinu í klassískri bekkpressu, þar sem hún keppti í -63 kg flokki kvenna. Fanney sigraði sinn þyngdarflokk með yfirburðum og er þar með heimsmeistari í klassískri bekkpressu.

Fanney var örugg með sigurinn allt frá fyrstu lyftu. Hún opnaði á 102,5 kg, sem gaf henni strax 20 kg forskot á næsta keppanda. Í annarri tilraun jafnaði hún auðveldlega sitt eigið Íslandsmet með 105 kg. Í þriðju tilraun klikkaði Fanney svo á 110 kg, sem hefði mögulega komið henni í hóp þriggja stigahæstu kvenna mótsins. Lokaniðurstaðan var því 105 kg, eða 25 kg meira en Svíinn Karolina Arvidson, sem lenti í öðru sæti, tók.

Fanneyju er óskað til hamingju með frábæran árangur!

HM í klassískri bekkpressu hafið

Heimsmeistaramótið í klassískri bekkpressu fyrir alla aldursflokka hófst í dag í Potchefstroom, Suður-Afríku, með keppni í öldungaflokkum. Meðal keppenda er Fanney Hauksdóttir, sem keppir nk. fimmtudag í -63 kg opnum flokki. Fanney er sigurstrangleg í flokknum og kemur til með að berjast um heimsmeistaratitilinn.

Helga með brons í bekkpressu

Helga Guðmundsdóttir á verðlaunapalliHelga Guðmundsdóttir hefur lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum, sem stendur yfir í Pilsen, Tékklandi.

Helga átti ekki sinn besta dag á keppnispallinum að þessu sinni. Hún keppti í -63 kg fl. Í hnébeygju reyndi hún þrívegis við 175 kg, en fékk ógilt vegna tæknigalla í öllum tilraunum og féll þar með úr keppni í samanlögðu. Í bekkpressu lyfti Helga 117,5 kg í fyrstu tilraun, sem tryggði henni bronsverðlaun í bekknum. Í réttstöðulyftu lyfti Helga 170 kg í fyrstu og 177,5 kg í annarri tilraun.

EM hófst í dag – Helga lyftir á morgun

Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum hófst í dag í Pilsen, Tékklandi. Meðal keppenda er Helga Guðmundsdóttir og með henni í för er Grétar Hrafnsson, landsliðsþjálfari. Helga keppir á morgun í -63 kg fl. og á góða möguleika á að vinna til verðlauna.

Keppni hefst kl. 9:00 að íslenskum tíma (11:00 að staðartíma). Sýnt er beint frá mótinu: http://goodlift.info/live1/onlineside.html

Arnhildur og Einar bikarmeistarar í klassík

Bikarmót KRAFT í klassískum kraftlyftingum var haldið í fyrsta sinn í dag. Mótið fór fram á Seltjarnarnesi í umsjón Gróttu. Tæplega 40 manns voru mættir til leiks og fór mótið fram á tveimur keppnispöllum samtímis. Þó nokkur Íslandsmet voru slegin, í opnum sem og aldurstengdum flokkum, ásamt einu Norðurlandameti. Arnór Gauti Haraldsson tvíbætti Norðurlandamet drengja (14-18) með 192,5 kg og 200 kg í hnébeygju.

Stigahæstu keppendur mótsins í karla- og kvennaflokki voru krýndir Bikarmeistarar í klassískum kraftlyftingum. Þeir fengu afhenda veglega farandbikara auk bikara til eignar.

Bikarmeistari kvenna varð Arnhildur Anna Árnadóttir, Gróttu, með 383,1 Wilksstig. Arnhildur tók mest 145 kg í hnébeygju, 82,5 kg í bekkpressu og tvíbætti svo Íslandsmetið í réttstöðulyftu með 160 kg í annarri tilraun og 165 kg í þeirri þriðju. Samanlagður árangur hennar, 392,5 kg, er einnig bæting á Íslandsmeti.

Bikarmeistari karla varð Einar Örn Guðnason, Kraftlyftingafélagi Akraness, með 438,1 Wilksstig. Einar bætti Íslandsmet í öllum greinum. Í hnébeygju tók hann 260 kg, í bekkpressu endaði hann með 183 kg og í réttstöðulyftu tvíbætti hann metið með 270 kg í annarri tilraun og 280 kg í þeirri þriðju.

Veitt voru verðlaun fyrir stigahæstu lið mótsins í karla- og kvennaflokki. Liðabikar kvenna sigraði fjölmenn kvennasveit Gróttu örugglega með 51 stigi. Liðabikar karla sigraði karlasveit Kraftlyftingafélags Akraness örugglega með 52 stigum.

Úrslit í einstökum þyngdarflokkum og þau Íslandsmet sem voru slegin er að finna í heildarúrslitum mótsins í gagnabanka KRAFT.

ÍM í kraftlyftingum – skráning hafin

Skráning er hafin á opna Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum sem fram fer á Akureyri 28.maí nk.
Skráningarfrestur er til miðnættis 7.maí. Keppnisgjald er 6500 kr og skal greitt í síðasta lagi 14.maí til að skráning taki gildi.
Til að vera hlutgengur á mótið þar keppandi að hafa verið skráður iðkandi í felix í amk 3 mánuði fyrir mót og hafa náð lágmörkum eins og segir hér: http://kraft.is/mot/lagmork/

ATH NÝTT NETFANG: Skráningu skal senda til mótshaldara með afrit á [email protected]

SKRÁNINGAREYÐUBLAÐ: Eyðublað (Word-skjal)

Klassíska bikarmótið – tímasetningar

Bikarmót KRAFT í klassískum kraftlyftingum fer fram laugardaginn 30.apríl og eru 40 keppendur skráðir til leiks.
Keppnin hefst kl. 10.00 og verður keppt á tveimur pöllum.
Allir keppendur mæta i vigtun kl. 8.00
Umsjón með vigtun: Lani, María Björk, Júlían
Búnaðarskoðun: Kári, Hulda Elsa, Róbert Kjaran

Holl 1: karlar -59 – 83
Holl 2: allar konur
Holl 3: karlar 93
Holl 4: karlar -105 – +120

Dómarar:
Pallur 1: Júlían, Hulda Elsa og Róbert
Pallur 2: Kári, María Björk og Lani.

 

Fanney með silfur á HM í Danmörku

Fanney á palliFanney Hauksdóttir hefur lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í bekkpressu. Fanney vann til silfurverðlauna, og setti auk þess Norðurlandamet, í -63 kg fl. í opnum aldursflokki.

Fanney átti góða innkomu á HM í bekkpressu í opnum aldursflokki og var yngsti keppandinn í -63 kg flokki. Í fyrstu lyftu tók hún út 5 kg bætingu á eigin Íslandsmeti með 152,5 kg, en sú þyngd er einnig Norðurlandmet. Með þeirri lyftu var hún orðin örugg með að komast á verðlaunapall. Hún reyndi svo tvívegis við 155 kg, en náði því miður ekki að klára lyfturnar. Fanney hafnaði í 2. sæti á eftir hinni reynslumiklu Gundula Fiona Summer-von Bachhaus (Þýskalandi) sem endaði mótið á heimsmeti með 184 kg lyftu.

Fanneyju er óskað til hamingju með stórkostlegan árangur!