Skráning hafin á ÍM í kraftlyftingum (í búnaði)

Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum í opnum flokki og Íslandsmeistaramót ungmenna og öldunga í kraftlyftingum verða haldin laugardaginn 22. apríl í Smáranum, Kópavogi, í umsjá Breiðabliks.

Skráningarfrestur er til miðnættis 1. apríl. Þá hafa félög frest til 8. apríl til að gera breytingar á þyngdarflokkum og ganga frá greiðslu keppnisgjalda.

Vakin er athygli á því að keppendur eru ekki hlutgengir á Íslandsmeistaramót nema hafa verið skráðir iðkendur í Felix í a.m.k. þrjá mánuði fyrir mótsdag. Einnig er athygli vakin á því að keppandi er ekki hlutgengur á ÍM í opnum flokki nema hafa náð lágmörkum.

Ath.: Keppandi keppir til verðlauna opnum flokki EÐA í þeim aldursflokki sem hann er skráður. Því er mikilvægt að skrá þessar upplýsingar rétt á skráningareyðublaðið.

Eyðublað: Eyðublað (PDF), Eyðublað (Word skjal)

Formannafundur KRAFT.

Stjórn KRAFT boðar til fundar með formönnum allra kraftlyftingafélaga og -deilda, föstudaginn 21. apríl kl. 19:00. Fundurinn mun fara fram í húsi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Engjavegi 6. Dagskrá verður birt síðar.

Helgi Hauksson sæmdur gullmerki KRAFT

Borghildur Erlingsdóttir sæmdi Helga Hauksson gullmerki KRAFT

Helgi Hauksson, alþjóðadómari, var á kraftlyftingaþingi 26. febrúar sl. sæmdur gullmerki KRAFT með kransi. Fráfarandi formaður sambandsins, Borghildur Erlingsdóttir, rifjaði upp óeigingjarnt starf hans í þágu íþróttarinnar og sæmdi hann gullmerkinu fyrir hönd stjórnar. Var því fagnað af fundarmönnum með lófaklappi. Að því loknu þakkaði Helgi fyrir sig og hélt stutta ræðu þar sem hann fór yfir feril sinn í íþróttum og starfi innan íþróttarinnar. Continue reading

Rósa í fjórða sæti á sínu fyrsta EM

Mynd af Rósu BirgisdótturRósa Birgisdóttir (STO) var í dag síðust íslenskra keppenda til að stíga á pallinn í Danmörku á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, þar sem hún keppti í +84 kg flokki. Hún átti góðan dag og hafnaði í 4. sæti.

Rósa fór í gegnum hnébeygjuna með fullt hús hvítra ljósa og lyfti mest 160 kg. Í bekkpressu fékk hún 90 kg opnunarlyftu ógilda vegna tæknivillu. Hún tók svo sömu þyngd örugglega í annarri tilraun, en 92,5 kg í þeirri þriðju reyndist of mikið í dag. Í réttstöðunni lyfti hún 165 kg í fyrstu tilraun og 170 kg í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hún við 177,5 kg sem fór ekki lengra en upp að hnjám. Samanlagður árangur Rósu, 420 kg, landaði henni 4. sætinu í flokkum.

Sigurvegari flokksins var Svíinn Emelie Pettersson með 547,5 kg.

Við óskum Rósu til hamingju með árangurinn!

Birgit með brons í beygjum

Birgit Rós Becker (BRE) hefur lokið keppni á EM í klassískum kraftlyftingum. Hún keppti í -72 kg flokki og náði bronsverðlaunum í hnébeygju. Vegna meiðsla tók hún aðeins eina létta tilraun í réttstöðunni og hafnaði í 9. sæti samanlagt.

Birgit fór nokkuð létt í gegn með allar þrjár tilraunir í hnébeygjunni og endaði á að jafna eigið Íslandsmet með 165 kg, en sú þyngd landaði henni bronsverðlaunum í greininni. Í bekkpressunni jafnaði hún sinn besta árangur í annarri tilraun með 77,5 kg, en hafði ekki 80 kg í þeirri þriðju. Vegna meiðsla tók Birgit aðeins eina létta tilraun með 75 kg í réttstöðunni. Hún hafnaði því í 9. sæti með 317,5 kg, sem er nokkuð langt frá hennar besta (402,5 kg).

Sigurvegarinn í flokknum var Svíinn Isabella von Weissenberg, sem sigraði á nýju Evrópumeti með 495 kg.

Birgit keppir á morgun

Önnur Íslendinga til að keppa á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum er Birgit Rós Becker (BRE). Hún keppir í -72 kg flokki, en keppni  í þeim flokki og -63 kg hefst kl. 11:00 á morgun.

Þetta er annað Evrópumeistaramót Birgitar, en fyrir ári síðan hafnaði hún í 11. sæti í -72 kg flokki með 367,5 kg. Ef allt fer að óskum eru allar líkur á að henni takist að bæta þann árangur verulega.

Bein útsending

Ingvi með Íslandsmet á EM í klassík

Ingvi Örn Friðriksson (KFA) lauk rétt í þessu keppni á EM í klassískum kraftlyftingum með ágætis árangri og sló Íslandsmet í réttstöðulyftu í opnum flokki sem og Íslandsmet ungmenna í hnébeygju og samanlögðu.

Ingvi keppti í -105 kg flokki ungmenna (U23) og er þetta í fyrsta sinn sem hann keppir á alþjóðlegu móti, fyrir utan RIG í janúar. Ingvi fór með allar lyftur gildar nema eina. Í hnébeygju bætti hann eigið Íslandsmet í þriðju tilraun með 255 kg. Í bekkpressu fékk hann aðra tilraun með 147,5 kg ógilda vegna tæknigalla en tók svo 152,5 kg nokkuð auðveldlega í þriðju. Ingvi fór létt með allar tilraunir í réttstöðulyftunni og kláraða mótið með því slá eigið Íslandsmet í opnum flokki með 295 kg. Samanlagður árangur hans er einnig nýtt Íslandsmet, 702,5 kg. Sá árangur kom honum í 11. sætið í samanlögðum árangri.

Sigurvegari flokksins var Jokubas Stasiulis frá Litháen með 765 kg.

Við óskum Ingva til hamingju með nýju metin og prýðilega innkomu á alþjóðasviðið.

Næsti Íslendingur til að stíga á keppnispallinn verður Birgit Rós Becker (BRE). Hún keppir í -72 kg flokki nk. föstudag kl. 11:00 að íslenskum tíma.

Ingvi Örn keppir á morgun

Fyrsti íslenski keppandinn stígur á svið á EM í klassískum kraftlyftingum á morgun miðvikudag. Það er Ingvi Örn Friðriksson sem keppir í -105 kg flokki unglinga.
Ingvi keppti á RIG í janúar en þar fyrir utan er þetta fyrsta alþjóðamótið hans.

Bein útsending frá mótinu er hér: http://goodlift.info/live.php
en keppnin i flokki Ingva hefst kl. 14.00 á íslenskum tíma.

Við óskum honum góðs gengis.

Ísland eignast nýjan alþjóðadómara

Íslendingar eignuðust í dag nýjan alþjóðadómara í kraftlyftingum.

Aron Teitsson stóðst próf til alþjóðadómararéttinda, IPF Category II, á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraflyftingum sem stendur nú yfir í Thisted í Danmörku.

Við óskum Aroni til hamingju með áfangann!